Þýsk kvikmynd sem kommarnir tóku opnum örmum !

Siglfirðingur 18 janúar 1930

Vefararnir

Mynd með þessu nafni var nýlega sýnd í Bíó. Þótti bolsunum okkar svo mikið varið í myndina, að þeir leigðu eina sýningu, — þótt búið væri að sýna myndina þrisvar áður — og seldu aðgang að henni með mjög niðursettu verði, til þess líklega að sem flestir gætu fengið tækifæri til að sjá myndina og lært af henni hvernig koma skuli byltingu af stað og hvernig hún skuli fara fram. Myndin sýnir ástandið í þorpi einu í Þýskalandi fyrir 90 árum síðan. 

Sýnir hún fátækan verkalýð, vefara sem urðu að vinna mikið en hafa lítið kaup. Um þessar mundir eru tóvinnuvjelar að ryðja sjer til rúms, og það fer á sömu leið eins og á fjöldamörgum öðrum sviðum, að handiðnaðurinn stenst ekki samkeppnina við vjelaiðnaðinn.

Vefurunum er því tilkynt að framvegis geti þeir ekki fengið nema hálfa borgun móts við áður fyrir handunninn vefnað, Ástandið meðal. vefaranna er því mjög ískyggilegt, en um þessar mundir kemur dáti nokkur heim sem ættaður var úr þorpinu, en hafði verið að heiman um mörg ár. Honum tekst að æsa lýðinn svo, að fjöldinn ræðst á bústað og búð vinnuveitandans, og eyðileggur þar alt innanstokks sem yfir höfuð er hægt að eyðileggja.

Þessi þáttur myndarinnar verður áð teljast ljótur en sýnir þó ljóslega hve hægur vandi það er að æsa heilan hóp manna til öfga og illverka. Engu hlífa þessir hamstola menn; borð stólar og alt sem húsgögn heitir er brotið í smátt, dyra og gluggatjöld rifin sundur o.s.frv. Að þessu loknu snýr múgurinn sjer að ullarverksmiðjunum, og vill eyðileggja þær líka, en þá er komið herlið á vettvang, og slær í bardaga milli verkalýðsins og hermannanna.

En hver verður svo útkoman á þessu öllu saman? Engin önnur en sú, að nokkrir eru særðir, og að aldurhniginn maður, sem ekki vildi taka þátt í óeirðunum, er drepinn þannig að kúla kemur gegnum glugga og hittir hann þar sem hann situr við vinnu sína. Það síðasta sem myndin sýnir, er að upphafsmennirnir að óeirðunum standa í rökkursbyrjun á torginu undir standmynd af Kristi á krossinum, og iðrast gjörða sinna, enda blasir nú ekki við þeim annað en atvinnuleysi og örbirgð.

Hvorki er hægt að heimfæra á standið hjá vefurunum, nje hið lága kaupgjald upp á lífskjör Siglfirskra verkamanna. Enda mun nú óviða í heiminum finnast svipað vinnu fyrirkomulag og myndin lýsir, í fyrstu þáttunum. Að því leyti átti myndin ekkert erindi til verkamanna hjer í Siglufirði, því þeir þurfa síst að kvarta undan lágum launum nje kúgun af hendi vinnuveitenda.

Hver maður með heilbrigða dómgreind hlýtur að viðurkenna að mynd þessi er engin „Reklame" fyrir kenningum kommúnista, heldur þvert á móti, enda er myndin búin til með það fyrir augum, að sýna mönnum hið heimskulega og dýrslega, sem yrði  ef kommúnistar fengju yfirhöndina. Þetta er tilgangur myndarinnar, hvað sem danska, rauða prógramminu líður, enda er það prógramm einungis notað til. þess að fá kommúnistana til þess að koma og sjá myndina, fá þá til að líta í spegilinn

Myndin er gerð í Þýskalandi og er það eitt næg sönnun þess að hún er engin auglýsing fyrir kommúnista því þar í landi, meiga þeir sín ekki mikils og eru álitnir sem hverjir aðrir illræðismenn, og verða oft fyrir hörðum refsingum af hendi stjórnarinnar.

Og þar er þó jafnaðarmannastjórn eins og kunnugt er, og hefir hún strangt eftirlit með allri kvikmyndagerð þar í landi, og þess vegna engin hætta á að hún myndi leyfa tilbúning á mynd sem agiteraði fyrir byltingakenningum kommúnista. Enda kemur kommúnistum og jafnaðarmönnum þar ekki betur saman en svo, að þeim lendir oft á tíðum saman í blóðugum bardögum, og þannig berjast þessir tveir flokkar alstaðar í heiminum — nema hjer á landi. Þekkist víst hvergi annarstaðar að þessir tveir flokkar bjóði hver öðrum á Bíó.

En um það að myndin var sýnd með niðursettu verði, verður ekki nema got: eitt sagt. Gott að sem flestir fengu að sjá hryðjuverkin sem eru markmið kommúnista, því vafalaust má treysta því, að fleiri hafi fengið skömm á slíkri framkomu en hænst að henni. En það er dálítið kátbroslegt, að einmitt forkólfar kommúnista hjer á Siglufirði skuli sjálfir verða til að spilla þannig fyrir sínum eigin kenningum.