Tengt Siglufirði
Í 22. tölublaði birtist eftirfarandi skammargrein:
Gamli Mjölnir 12. Nóvember 1930
"BÍÓ"
Á Siglufirði er aðeins einn skemmtistaður, sem sé, - kvikmyndahús; rekstur þess er mjög arðvænlegur eigandanum, og það því fremur sem hann vandar minna til myndakaupa. Fjöldi þeirra mynda er hann býður bæjarmönnum á að horfa, eru þær lélegustu, er “heimsmarkaðurinn” hefir fram að bjóða; þetta er staðreynd hverjum þeim er nokkuð fylgist með í kvikmyndagerð.
það hve myndirnar eru lélegar, stafar ekki af því, að eigandanum hafi verið úthlutað, svo lítill skerfur smekkvísi í fyrstunni, eins og guðhræddir menn munu álykta, heldur er það sökum þess, að maðurinn kastar öllu listræmi til hliðar fyrir því, að ná sem mestum gróða fjárhagslega; --- einnig liggur sökin hjá bæjarmönnum sjálfum því þeir láta bjóða sér hvaða ómynd, sem er. Eigandinn þarf ekki að taka neitt tillit til vilja áhorfendanna, og kaupir því aðeins þær ódýrustu myndir sem fáanlegar eru.
Því er fleygt fyrir, að hér séu sýndar sömu myndir og sýndar- eru í „Akureyrar Bíó", en það er nú samt ekki; margar bestu myndirnar koma hingað aldrei og geta menn sannfærst um það með því að lesa, auglýsingarnar frá “Akureyrar Bíó".
Á Akureyri td. þar sem starfrækt eru fleiri en Eitt kvikmyndahús, keppa þau um að ná áhorfendunum og vanda þess vegna betur til sýninga og að ógleymdum þægindunum sem eru svo margfalt betri en Siglfirðingum er boðið upp á.
Hér er mönnum boðið uppá óþægilega og harða trébekki og dæmi eru til þess að þeir haft liðast í sundur, undir áhorfendunum, það er haft fyrir satt, að - danskur maður, sem auðvitað hafði aldrei komið í svo óvistlegt kvikmyndahús fyrr, hafi í gamni, snúið sér að eigandanum. sem stóð í forstofunni og var auðvitað að hugsa um þetta eina: peninga - og spurt hann hvar það væri, sem hægt væri að sitja og horfa á myndina án þess að fá sigg á óæðri endann. það var upp á svölum, ef nokkuð sæti var ósetið og kostaði 2 kr-.
Þráfaldlega hefur aðsóknin að sýningunum orðið svo mikil, einkum yfir sumartímann, að menn hafa setið í klemmu á hverri grind eða bekk, og þar að auki hafa tugir manna staðið frammi við dyrnar, og þeir sem síðast hafa komið orðið teygja svo hálsinn að þeir hafi fengið ónotaríg, annars hafa þeir ekki getað fylgst með efni myndarinnar.
Lögreglan hefir ekki skipt sér af því hve mörgum væri seldur aðgangur, fyrr en hún hefir verið kominn að því að missa andann af þrengslum. Það mætti kannski segja henni það til hróss að hún hefur vísað mönnum frá dyrunum og á fremstu bekkina, hafi þeir verið auðir, en það vilja fæstir eyðileggja sjónina, með því að sitja svo að segja ofan í myndinni og svo nærsýnir eru fæstir að þekkja ekki þreytu í augunum á fremstu bekkjunum, svo nærri eru þeir tjaldinu.
Sorglegt er að er það að Siglfirðingar láta bjóða sér annað eins og þetta, ár eftir ár. Réttmæt krafa hlýtur að vera sú, að þær myndir sem sýndar eru, hafi eitthvað gildi frá menningar eða lista- sjónarmiði; einnig að þægindi verði ekki lakari en t.d. í kvikmyndahúsunum Akureyrar, og ekki dýrari.
Rekstur “Nýja Bíós” hér er ágætt sýnishorn þess, hvernig einstakling er leyfilegt að auðgast á fjöldanum, og einnig í orðsins fyllstu merkingu, -- hvernig kvikmyndahús á ekki, að ver rekið.
Kröfurnar ættu að ver þær, að bærinn ræki sjálfur kvikmyndahús, ekki með það fyrir augum að hagnast á því fjárhagslega, heldur og í þeim tilgangi að auka menningu bæjarmanna. Þá gæti skeð, að menn fengju að sjá hér,
nokkrar myndir er geta talist listaverk og væru ekki sundurtættir ræfla frá því um aldamót. Bíó er sem stendur stofnun, sem hirðir peninga manna. Án þess að gefa nokkuð í staðinn; mönnum er ekki einu sinni huggun í því að peningarnir hafi runnið til bæjarins.
Það mætti ætla að bæjarmenn væru orðnir leiðir á myndunum sem er að mestu samantvinnaður af kossum, morðum, fíflalátum, sneiddar raunveruleika og listræni, og mun svo vera um marga þeirra sem betur fer. Það er bærinn og enginn annar sem verður að byggja hér nýtt kvikmynda og samkomuhús. Samkomuhúsleysið hefur um langan tíma verið hér tilfinnanlegt, og eftir því sem bæjarmönnum fjölgar verður þeim til þess meiri smánar, að eiga ekkert samkomuhús yfir höfuðið, sem mönnum er bjóðandi inn í
A.
----------------------------------------------------------------
Siglfirðingur, 13. desember 1930
Ósannindum hnekkt.
Í 22. tölublaði ."Mjölnis" birtist grein með fyrirsögninni "Bíó", undirskrifuð A.
Grein þessi er þrungin af rangfærslum og ósannindum, og vil ég því leyfa mér að gera athugasemdir við hana.
Greinarhöfundur talar fyrst um að Siglufjarðar-Bíó sýni tæplega aðrar myndir en þær lélegustu, sem heimsmarkaðurinn hafi að bjóða, sundurtætta ræfla frá því um aldamót. Síðan segir hann:
"Því er fleygt fyrir, að hér séu sýndar sömu myndir og sýndar eru í Akureyrar- Bíó, en það er nú samt ekki; margar bestu myndirnar koma hingað aldrei, og geta menn sannfærst um það með því að lesa auglýsingar frá Akureyrar-Bíó".
Allir Siglfirðingar, sem sækja kvikmyndasýningar vita, að hér fer greinarhöfundur rangt með, að minnsta kosti tveir þriðju af öllum þeim myndum, sem sýndar hafa verið á Siglufirði síðustu árin, hafa um svipað leyti verið sýndar á Akureyri - og margar hverjar í Reykjavík. Um þetta er hægt að fá vottorð frá eigendum Akureyrar-Bíós ef þarf.
Á veturna sýnir Akureyrar-Bíó venjulega fleiri myndir en Siglufjarðar-Bíó, og eru þá einmitt úrvalsmyndirnar sendar til Siglufjarðar til sýningar þar.
Sönnunargögn höfundar eru auglýsingar í blöðunum frá Akureyrar-Bíó. Hafi höfundur samviskusamlega borið saman myndaheiti á auglýsingum frá Akureyrar-Bíó við heiti þeirra mynda sem Siglufjarðar-Bíó hefir sýnt, hlýtur hann að hafa komist að raun um, að sömu myndirnar hafa verið sýndar í báðum kvikmyndahúsunum. En sennilega hefir verið kastað höndum til þess verks.
Þá hefir það oftsinnis komið fyrir, að sama myndin ber ekki sama heitið á Akureyri og á Siglufirði. Heiti myndanna eru venjulegast þannig, að þýða má þau á fleiri vegu, og auglýsingar frá Akureyrar-Bíó oft og tíðum ekki komnar oss í hendur þegar sýna þarf myndina. Margar myndir eru sýndar á Siglufirði áður en þær eru sýndar á Akureyri, sérstaklega á þetta sér stað á sumrin - og þá er Akureyrar-Bíó algjörlega ókunnugt um hvaða nafn myndin hefir borið í auglýsingum frá Siglufjarðar-Bíó.
Sannleikurinn er sá að Siglufjarðar-Bíó hefir sýnt fjöldann allan af ágætum myndum, sem bæði hafa haft lista og menningarlegt gildi. Síðastliðið sumar voru t.d. sýndar margar myndir, sem gerðar hafa verið eftir bestu bókmenntum heimsins - og leiknar af heimsfrægum leikurum.
Er auðvelt að nefna dæmi ef með þarf. Sennilega hefir greinarhöfundur sjaldan farið í Bíó á Siglufirði - og er því lítt kunnur hvaða myndir hafa verið þar á boðstólum, eða þá hann skortir menntun til að dæma um hvaða myndir hafa lista- og menningarlegt gildi.
Og enda þótt að Siglufjarðarbær færi að reka kvikmyndahús, eins og greinarhöfundur vill, efast ég um, að stjórnendum þess tækist að útvega tiltölulega betri myndir en þær, sem sýndar hafa verið :í Siglufirði síðustu tvö árin.
Þá talar greinarhöfundur um Akureyrarbíóin. Þar séu miklu betri myndir af því að kvikmyndahúsin séu tvö - og því samkeppni mikil. Hér löðrungar greinarhöfundur sjálfan sig óþyrmilega, eins og bent hefur verið á hér að framan.
Hvað samkeppninni viðvíkur, þá skal það játað, að hún er góð á flestum sviðum. En á Akureyri varð raunin sú, að bærinn og nágrenni var of fólksfátt til þess að tvö kvikmyndahús gætu borið sig - og neyddust því eigendur kvikmyndahúsanna til þess, að gera samsteypu úr báðum bíó-félögunum. Þetta varð útkoman í bæ, sem er meira en helmingi stærri en Siglufjörður, hefir einhverjar fjölmennustu sveitir landsins allt í kring um sig - og marga skóla, sem sóttir eru frá Norður- Austur- og Vesturlandi. (En reynslan sýnir, að nemendur skóla sækja mikið kvikmyndasýningar.)
Síldarútvegur og söltun er. sömuleiðis talsverð þar á sumrin, og einhver stærsta síldarbræðsluverksmiðjan, sem til er á landinu, rétt fyrir utan kaupstaðinn. Þetta má bera saman við Siglufjörð. Væri ekki ólíklegt, að greinarhöfundur myndi, að athuguðu máli, komast að þeirri niðurstöðu, að Siglufjarðar-Bíó muni ekki vera önnur eins féþúfa eins og hann vill vera láta.
Sagan um danska manninn er helber uppspuni.
Þá minnist greinarhöfundur á sætin, telur þau afar slæm nema á svölunum. Þegar Bíó var byggt árið 1924, var ætlun eigendanna að kaupa góð sæti í húsið. En þá var innflutningsbann á þeim sem svo mörgu öðru. Var sótt um leyfi til stjórnarráðsins en Stjórnarráðið synjaði.
Var því einskis annars úrkostur en að smíða trébekki. Þess: má geta. að í aðalleikhúsi Reykjavíkur, hafa. þar til í haust, aðeins verið trébekkir, sem síst voru þægilegri en bekkirnir í Siglufjarðar- Bíó - og tekur leiksýning þó allt að helmingi lengri tíma en myndasýning.
Þá talar greinarhöfundur um, að svo þröngt hafi verið í kvikmyndahúsinu, að sumir hafi orðið að standa og aðrir að sitja á innstu bekkjunum og minnist á að lögreglan hefði átt að stöðva aðgöngumiða-söluna.
Sannast að segja, er það mjög sjaldan, að aðsókn hafi orðið eins mikil eins og höfundur. skýrir frá. En þegar það hefir komið fyrir, hefur þeim, sem seinast keyptu aðgöngumiða, verið tilkynnt, að engin sæti væri að fá nema í innstu bekkjaröðum. Fullyrða má, að oftar hefur verið þrengra í Akureyrar-Bíó en nokkurn tíma í Siglufjarðar-Bíó og þó ekki verið að fundið.
Aðgöngumiðasala við Siglufjarðar-Bíó, hefur ávalt verið stöðvuð þegar sæti hafa verið uppseld, en sumir hafa heldur kosið, að standa út við dyr en að sitja á innstu bekkjum, en bekkirnir eru ekkert nær sjálfri myndinni í Siglufjarðar-Bíó en mörgum öðrum kvikmyndahúsum.
Lögreglan hefur stundum vakið athygli sölumanns á því, að réttast væri að selja ekki fleiri aðgöngumiða, svo það er ekki rétt hjá höfundi, frekar en annað, að lögreglan hafi aldrei skipt sér af því.
Grein höfundur, A. er mjög ósanngjörn frá byrjun til enda. Rakalausum fullyrðingum og ósannindum slegið fram.
Eigendur kvikmyndahússins hafa einmitt á þessu ári gert talsvert til að gera húsið vistlegra og þægilegra, þar sem salurinn hefur verið málaður og miðstöð sett í húsið ofl. og er ætlunin að halda umbótunum áfram smám saman.
p.t. Reykjavík í nóvember 1930, H. Thorarensen
----------------------------------------------------------
Athygli vekur að Thorarensen talar alltaf um Siglufjarðar-Bíó í grein sinni, þó svo, að ekki fari á milli mála að hann er að tala um Nýja Bíó, sem byggt var árið 1924 og var hans eign. (Hlutafélagið Valur)
----------------------------------------------------
Gamli Mjölnir 17. desember 1930
“BÍÓ”
Svargrein herra H.Thorarensen í síðasta tbl (13. Desember Siglfirðings, tekur varla að svara. Aðeins vildi ég spyrja hann, hvers vegna “Ben Hur”, “Guli miðinn” og þá myndin af alþingishátíðinni, hafa ekki verið sýndar hér.
Einnig vildi ég mótmæla því að hann hafi ekki fengið innflutningsleyfi á boðlegum sætum, og minna hann á að það var verðtollur sem hann vildi sleppa við að greiða.
H.Th. þykist hafa hnekkt ósannindum, en hvað vildi hann þá kalla þá hugsun, ef ég segði það heimsku bæjarbúa að láta einstakling raka saman peningum, á rekstri eina samkomuhússins í bænum – og meir vit væri í því að ágóðinn lenti í kassa bæjarfélagsins.
A