Tengt Siglufirði
Einherji 17. apríl 1948 grein.
Fyrir nokkru kom hingað kvikmyndarinn Kjartan Ó Bjarnason, og sýndi í Nýja-Bíó ýmsar kvikmyndir
Það var ánægjulegt að horfa á þessar myndir, er voru, meðal annarra, af Snorrahátíðinni, Heklugosinu, skíðaferðum til fjalla, börnum á sumarheimilum og lífi og atvinnu fólks í sveitum.
Fyrir mér; sem þessar línur skrifa og var í sveit til tvítugs aldurs, rifjuðust upp ýmsir viðburðir, og gamlir kunningjar, svo sem göngur, fjárréttir, heyskapur, heimalömb, kálfar og folöld og leikur kúnna, þegar þeim er hleypt út í fyrsta sinn á vorin.
Sá, sem hefur lifað við unað og fjölbreytni sveitalífsins, gleymir því varla og það er eins og hugurinn mildist við að sjá þetta aftur, þótt aðeins sé á mynd.
Þá voru þarna sýndar myndir frá Þórsmörk og frá Öræfum, en, Öræfasveit mun vera talin einhver fegursta sveit á landinu.
Ísland er ekki stórt borið saman við mörg önnur lönd og þá er það svo, að allur þorri landsmanna er alls ókunnugur þessu litla landi, fær ekki, eða gefur sér ekki tíma né tækifæri til að sjá mikið annað en sína heimahaga.
Þetta þarf þó ekki svo að vera, eins og samgöngum er nú orðið háttað, en það vantar víðast samtök og félagsskap, er gengist fyrir ferðalögum til fagurra staða á landinu. Á Suðurlandi hefur Ferðafélag Íslands mikið úr þessu bætt með skipulögðum ferðalögum og frá.
Akureyri eru einnig farnar ferðir um landið. Við Siglfirðingar erum illa settir um þetta, virðist og vera lítil löngun til þannig lagaðra ferðalaga hjá fólki, þótt nóg sé um rápið til Reykjavíkur. Nokkrar hömlur leggur það og á, að aðalatvinna hér, er á þeim tíma, sem hentugastur er til ferðalaga, til þess að sjá og skoða landið. Þó mundi vera hægt að koma á hópferðum héðan í júnímánuði, ef vilji og samtök væru fyrir hendi.
Hér, sem annarstaðar á landinu, er að vaxa upp ný kynslóð með nýja menntun, nýja menningu, sem við, hinir gömlu, gátum ekki orðið aðnjótandi. Vill nú ekki þetta unga fólk hefjast handa, mynda með sér félagsskap, og setja sér það takmarkið, að kynnast sínu eigin landi fegurð þess og dásemd.
---------------------------------------------------------------
Siglfirðingur 15. júní 1948
HVAÐ ER Á SEYÐI, (dálkur um uppákomur)
Rússnesk litkvikmynd. Þessa dagana hefur "Siglufjarðarbíó" sýnt gullfallega litkvikmynd, sem ber nafnið "Steinblómið". Það er ekki oft nú til dags, sem fólki gefst kostur á að sjá góðar myndir, en "Steinblómið" er ein hinna fáu undantekninga.
Mynd þessi er gerð með nýrri litartækni, uppfundinni í Þýskalandi á stríðsárunum, svo skuggar og litir sýnast stórum eðlilegri en áður var. -
Efni myndarinnar er að vísu ekki upp á marga fiska, en myndin er eins og fagurt ævintýri, eins og sett væri á svið ein af þessum gömlu ævintýrasögum, er maður heyrði í æsku.
Það verður enginn svikinn af því að sjá þessa mynd, og vonandi bætast fleiri slíkar í hóp þeirra mynda, er hér verða sýndar.
-------------------------------------------------------------
Siglfirðingur 17. júlí 1948
HVAÐ ER Á SEYÐI
Skemmtanalífið.
"Gestur" hefir skrifað blaðinu um skemmtanalífið í bænum. Svo sem pistill sá, er hér fer á eftir, ber með sér, er hann ekki ánægður með allt í því tilliti.
Ekki leggur blaðið dóm á það, hve mikið er rétt í bréfi hans, en telur þó rétt að birta það, ef kvartanirnar gætu orðið til einhverra úrbóta. Hinsvegar skal það tekið fram, að viðkomandi aðiljum er heimilt rúm hér í dálkinum, ef þeim finnst ástæða til einhverra athugasemda.
1) Kvikmyndahúsin.
Allir Siglfirðingar og margir utanbæjarmenn kannast við kvikmyndahús þau, sem Siglfirðingar verða að sætta sig við.
Siglufjarðarbíó er að sumu leyti gott, þar eru öll sæti vel númeruð, bæði uppi og niðri. Einnig er þar sæmilegt hreinlæti, að undanteknu salerni, sem vart er hægt að segja, að sé til.
En sýningartækin eru með öllu óþolandi, (1) og ég er hissa, á þeirri bíræfni að bjóða fólki ennþá að horfa á myndir, sem nokkur söngur eða hljómlist er í, því að lítið heyrist þá annað en truflanir.
Ættu hlutaeigendur þegar að gefa skýringu á því, hversvegna þeir enn þann dag í dag nota þessi tæki.
Nýja Bíó hefur hinsvegar fyrsta flokks sýningartæki, en hreinlæti og allur umgangur þar, er ófullnægjandi. Ennfremur væri æskilegt, að sætin niðri væru betur merkt."
2 ) Dansleikir.
Dansleikirnir, sem hér eru haldnir, eru að fá á sig eins og annað hér, sumarsvip.
Húsin eru troðfyllt, svo lengi, sem nokkur vill komst inn og hægt er að troða honum einhversstaðar. Slíkt ástand er vitanlega með öllu óþolandi og þyrfti lögreglan að sjá um, að ekki sé fleirum hleypt inn á dansleikina en leyfilegt er og nóg pláss er fyrir.
Gestur
-----------------
(1) Athygli er vakin á annarri umsögn um hljómgæðin og tækin Neðarlega á þeirri síðu
Siglfirðingur14. október 1948
"Carnegie Hall" (frétt)
Komandi sunnudag verður sýnd hér í Nýja Bíó stórmyndin "Carnegie Hall", sem er einhver frægasta mynd sinnar tegundar, sem gerð hefur verið.
Efni þessarar glæsilegu myndar er fyrst og fremst hljómlist hennar, enda koma þar fram margir frægustu tónsnillingar, sem uppi eru.
"Carnegie Hall" er mesta tónlistarhöll Ameríku og fara þar fram helstu konsertar, sem fluttir eru og þar starfa allir helstu tónlistarmenn Bandaríkjanna.
Í myndinni leikur New York Symphony-hljómsveitin undir stjórn eftirtalinna snillinga:
Leopold Stokowski, Walter Damrosch og Bruno Walter. Lilly Pons syngur "Vocalise" eftir Rachmaninoff og "Bell song" úr óperunni "Lahme" eftir Delihes. Ruhinstein leilur "Polnaise" í A-moll eftir Chopin og "Ritual fire dance" eftir De Falle. Gregor Piatigorsky leikur á cello með aðstoð hörpusveitar.
Í myndinni syngur Rise Stevens My heart at thy sweet voice" og fleiri lög. Jan Pearce syngur ástarsönginn "O Sole mio". Ensio Pinza syngur m.a. drykkjusönginn úr "Don Giovanni" eftir Mozart.
Ennfremur leikur Jnscha Hcifctz "Conscrto fyrir fiðlu og hljómsveit í A-dúr" eftir Tschikowski. Harry James leikur á trompet og hljómsveit Vaughn Monroe leikur syrpu af skemmti-lögum.
Mynd þessi er í einu orði stórglæsileg og með sýningu hennar gefst tónlistarunnendum þessa bæjar tækifæri til að eignast ánægjulega kvöldstund.
Mynd þessi er kær tilhreyting frá þeim reyfaramyndum, sem undanfarið hafa haft yfirtökin í kvikmyndahúsum landsins.
Mættu fleiri slík listaverk, sem þessi mynd er, koma fyrir sjónir bæjarbúa.
---------------------------------------------------------------
Siglfirðingur 17. febrúar 1949 Helgi Sveinsson
Skemmtana og félagslíf hefur verið allmikið í vetur, þótt skemmtanir hafi oft verið fleiri og fjölbreyttari heldur en nú.
Kvikmyndasýningar eru með fæsta móti og einnig opinberir dansleikir. En í þess stað hafa mörg félög, svo sem átthagafélög og starfsgreinafélög, haldið skemmtanir sínar.
Gagnfræðaskólanemendur hafa nú haldið sína árlegu skemmtun, og hefur :þeim tekist prýðilega að vanda.
-------------
Ólympíu-kvikmynd frá St Morits. (kynning)
Nú næstu daga mun koma hingað til bæjarins, Ári Stefánsson, sem fór með Íslensku skíðamönnunum á Ólympíuleikana í St. Morits, veturinn 1948 - og sýna kvikmynd þá, er hann tók af leikjunum og dvöl Íslensku skíðamannanna þar syðra.
Ég sem skrifa þessar línur, hef haft tækifæri til þess að sjá þessa bráðfallegu litmynd, og vil því vekja athygli á henni. Siglfirðingar ættu að nota þetta, tækifæri og sjá myndina þegar hún verður sýnd.
Myndin sýnir Íslendingana keppa í svigi, bruni og stökki. Þar sjáum við Jónas Ásgeirsson, þar sem hann keppir við þekktustu stökkmenn heimsins; einnig sjáum við Guðmund Guðmundsson, Magnús Brynjólfsson, báða frá Akureyri og Þórir Jónsson frá Reykjavík, keppa í bruni og svigi við alla bestu skíðamenn heimsins.
Myndin sýnir einnig hina dásamlegu náttúrufegurð í St. Moritz og þau ágætu skilyrði sem skíðamenn búa þar við. Það er of langt að lýsa myndinni lið fyrir lið, en ég vil hvetja alla Siglfirðinga til þess að sjá þessa skíðamynd, því ég efast ekki um það, að hver sá, sem sér hana hefur mikla ánægju af - og sýnir þeim einnig hvar skíða menn okkar eru staddir í íþróttinni á heimsmælikvarða. Árni Stefánsson mun jafnvel sýna fleiri skíðamyndir, sem hann hefur tekið við ýmis tækifæri.
Helgi Sveinsson