Tengt Siglufirði
Siglufjarðar-bío var rekið af hlutafélaginu; H.f. Siglufjarðar-bío.
Aðal hvatamaður þess, var Jens Eyjólfsson kaupmaður. Bíóið, hóf rekstur þann 10 ágúst 1918, í Barnaskólahúsinu og er því fyrsta kvikmyndahúsið á Siglufirði.
Áður höfðu þó komið hingað "farand sýningarmenn" og boðið uppá kvikmyndasýningar. Þeir dvöldu yfirleitt ekki lengur en 2-5 daga hér, það fór eftir aðsókn, en lítið var um að fólk hefði mikla peninga undir höndum á þeim tíma er kvikmyndasýningar slitu "barnsskónum" á Siglufirði.
Siglufjarðar-bío mun hafa flutt sig, vegna mikilla deilna um leigusamninga ofl. innan hreppsnefndarinnar, yfir í húsakynni Norðurgötu 5, sem síðar var kallað Gamla Bíó (söguna þekki ég ekki vel), en seinnihluta ársins 1920 mun reksturinn hafa farið á hausinn, því reksturinn og húsið var auglýst til sölu seinnihluta ársins 1920.
Ath. Nafnið Siglufjarðar-bío, var skrifað fyrst án kommu yfir "o“
Húsið Nýja Bíó, um 1934. Bíó Café á efri hæð, nær, svalir og sýningarklefi á efri hæð fjær. Neðri hæð nær, er á þessum tíma lagerpláss og afgreiðsla Tóbakseinkasölu ríkisins sem Thorarensen hafði umsjón með, þá inngangur í Bíó Café og bíóið sjálft og síðan skóbúð (Bíó Búðin) sem Thorarensen rak. - Ljósm. Gísli Halldórsson
Gamla Bíó
Matthías Hallgrímsson, rak Gamla Bíó árið < 1921 Þá var rekið í húsinu nr. 5 við Norðurgötu, eftir að það var flutt frá Leikfimisal Barnaskólans, þar sem það hóf rekstur sinn.
Ekki veit ég hvernig nafnbreytingin úr Siglufjarðar-bíó í Gamla Bíó kom til, og ekki veit ég mikið um rekstur þessa húss.
En seinnihluta ársins 1920 var reksturinn og eða húsið auglýst til sölu, af lögfræðingi frá Akureyri
Friðrik Halldórsson (frá Reykjavík) rak Gamla Bíó frá 1921 til ?
---------------------------------------
Auglýsing um sölu her neðar.
Fram, 2. október 1920, auglýsing:
Gamla "Bíó" á Siglufirði, ásamt grunnréttindum, og með eða án lifandi myndavélar og nokkurra slíkra áhalda, er til sölu nú strax. Húsið sjálft er 10x20 álna að stærð, hæð ca. 8 álnir undir þakskegg, með ca. 2 fóta risi og járnþaki. Grunnurinn er allur 1152 ferálnir á ágætum þurrum stað, við 2 götur og leigður til 50 ára frá fardögum 1913, gegn 20 króna ársleigu.
Semjið um kaup við Vald. Thorarensen á Akureyri,
Akureyri 11, September 1920
Vald. Thorarensen.
-------------------------------------------
Árið 1924 - Nýja Bíó, Siglufirði
Sýningar í kvikmyndahúsinu Nýja Bíó á Siglufirði hófust föstudaginn 18. júlí árið 1924, þá í nýbyggðu húsi sérstaklega ætluðu til kvikmyndasýninga. Húsfylli var þetta kvöld (355 manns) og var þar auk þess, í tilefni frumsýningar, tvísöngur í höndum 2ja konsúla á staðnum þeim Þormóði Eyjólfssyni og S.A.Blöndal. Kvikmyndin hét “Madsalune”, sem er Dönsk kvikmynd, framleitt á árinu 1921. Húsfylli gesta, hafði verið boðið kvöldið áður fimmtudag 17. í tilefni af vígslu hússins.
Húsið byggði Hinrik Thorarensen læknir og rak hann Nýja Bíó í tugi ára undir rekstrarheitinu Valur H.f., eða þar til synir hans tveir, Oddur og Ólafur tóku við rekstri fyrirtækisins.
Oddur Thorarensen, var lengur við reksturinn, eftir að Ólafur hætti en Ólafur flutti siðar erlendis.
Árið 1982 seldi Oddur allar eignir Vals hf. til nýstofnaðs fyrirtækis Nýja Bíó hf. sem Steingrímur Kristinsson stofnaði, síðar gert að fjölskyldu hlutafélagi, enn síðar eign þeirra feðga Steingríms Kristinssonar Valbjarnar, ásamt eiginkonum þeirra, Steingrímur rak fyrirtækið til ársins 1992 en þá tók sonurinn við rekstrinum og jók um mun umfang og rekstur.
Árið 1999 var Nýja Bíó á Siglufirði elsta starfandi kvikmyndahús landsins, en þá jafnframt, “lauk” samfeldum ferli hússins, sem kvikmyndahúss þegar Hlutafélagið Nýja Bíó hf. seldi húseignina til Sparisjóðs Siglufjarðar, sem samhliða seldi Íslandsbanka, sem og seldi Tómasi Pétri Óskarssyni veitingamanni, sem áður rak Billann við Lækjargötu.
Tómas gerði umfangsmiklar breytingar á húsnæðinu sem hentar veitingarekstri, til dans og samkomustaðar, en ekki þó kvikmyndasýningum að sinni, en sá möguleiki er þó opinn, ef síðar þykir ástæða til. (var sagt á þeim tíma)
Snemma á árinu 2002 fór reksturinn "á hausinn" og Sparisjóður Siglufjarðar (Hvanndalir ehf.) yfirtók eignina, sem og leigði út reksturinn til Guðrúnu Helgu Jónsdóttur sem hefur, keypt rekstrarfélagið Bíóbarinn ehf síðar yfirtók félagið Allinn við rekstrinum og rak nokkuð lengi undir nafninu „Allinn“. Í dag árið 2017 er þar enginn rekstur og húsið í eigu Arionbanka samkvæmt upplýsingum „götubylgjunnar“ (ekki staðfest)
Ýmsar heimildir um rekstur Nýja Bíós í eigu Nýja Bíó hf. (fjölskyldu sk) má finna á þessum vef, ýmsar uppákomur breytingar og tilþrif.
------------------------------------------------------------
Árið 1944 - Siglufjarðarbíó
Siglufjarðarbíó var stofnað árið 1944, rekið í Alþýðuhúsinu af Verkalýðsfélögunum, Þróttur og Brynja. Framkvæmdastjóri var Þórhallur Björnsson, og sýningarstjóri var Ægir Jónsson.
Siglufjarðarbíó hætti sýningum alfarið um 1952-53, en hafði seinni árin eingöngu sýnt kvikmyndir yfir sumartímann, þegar fólki fjölgaði í bænum, vegna "síldarinnar"
Frumsýningin var þann 1. júní 1944.
Fréttir um það Mjölnir 31. maí 1944
NÝTT BÍÓ
Næstu daga byrjar Alþýðuhúsið bíósýningar. Húsið hefur verið málað og standsett, keypt í það góð og þægileg stoppuð sæti og salurinn stækkaður.
Framkvæmdastjóri er ráðinn Þórhallur Björnsson, sem undanfarin ár hefur veitt Alþýðuhúsinu forstöðu, og getið sér við það góðan orðstír.
Alþýðuhúsið hefur tryggt sér góð sambönd með útvegun mynda. Fyrsta myndin sem sýnd verður heitir Casablanca og vakti feikna athygli í Reykjavík, en Tjarnar-Bíó sýndi hana þar sl. vetur.
Mjölnir óskar Alþýðuhúsinu til hamingju með starfsemina.
---------------------
Mjölnir 8. júní 1944
Siglufjarðarbíó
Síðastliðin föstudagskvöld var fyrsta sýningin í hinu nýja Siglufjarðarbíó. Var þangað boðið ýmsum trúnaðarmönnum verkalýðsfélaganna, bæjarstjórn, fréttamönnum útvarps og blaða og ýmsum fleiri.
Áður en sýning hófst ávarpaði Þóroddur Guðmundsson gestina og skýrði þeim frá tildrögunum að þessum kvikmyndahúsrekstri.
Það var á síðastliðnum vetri, sem húsnefnd Alþýðuhússins ákvað að hefja kvikmyndasýningar í húsinu, og var þá þegar hafist handa um breytingar á húsinu. Var salurinn stækkaður, útbúinn eldtraustur klefi fyrir sýningarvélarnar og ýmislegt fleira. Keypt voru ágæt, stoppuð sæti í húsið.
Verkalýðsfélögin eða húsnefnd Alþýðuhússins fyrir þeirra hönd, sjá að öllu leyti um rekstur Siglufjarðarbíós, og hefur hún ráðið Þórhall Björnsson, sem undanfarið hefur verið umsjónarmaður hússins, til þess að veita rekstri þessum forstöðu Þarf ekki að efa, að það starf verði rækt með prýði.
Salur Alþýðuhússins er hlýlegur og smekklegur og fer vel um sýningargestina. Kvikmyndatækin eru ágæt og vakti það athygli, hve vel, (1) þau skiluðu söngnum og hljóðfæraleiknum í músík myndinni sem sýnd var.
Siglufjarðarbíó mun fá flestar sínar myndir frá Tjarnarbíó í Reykjavík, en sem kunnugt er er það Háskólinn, sem rekur það og er þar fremur vandað til vals á myndum en í öðrum kvikmyndahúsum.
Það fer vel á því, að verkalýðsfélögin hefjast handa um kvikmyndahúsrekstur, því að kvikmyndirnar eru nú eitt af mikilvirkustu uppeldistækjum um, til góðs eða ills eftir því hvernig þeim er beitt. Við treystum aðstandendum Siglufjarðarbíós fyllilega til að fara með þetta tæki og þótt hendur séu bundnar að nokkru, því að myndaval er takmarkað, þá er ekki að efa að sýnd verður full viðleitni til að reka þetta sem menningartæki.
-----------------------------------------------------------------------
MÍR-BÍÓ !
"MÍR-Bíó" fór fyrst að sýna kvikmyndir á Siglufirði, árið 1950. Það var þegar deild félagsins "Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna" var stofnuð á Siglufirði (13. júlí 1950).
Fyrst var sýnt í Siglufjarðarbíó, en fluttist síðan í Nýja Bíó, - og var þar um tíma með vikulegar sýningar. Þar voru auðvitað eingöngu Rússneskar kvikmyndir á boðstólnum, þó einstöku sinnum Austurþýskar.
Þegar klúbburinn hér á Siglufirði eignaðist sýningarvél, rak Kristján Sigtryggsson trésmiður, þetta MÍR-Bíó í Sjómannaheimilinu við Suðurgötu og Kommahöllinni við Suðurgötu 10, til skiptis.
Notuð var ein 35mm. rússnesk sýningarvél, sem gefin hafði verið af "rússnesku þjóðinni".
Aðsókn á þessar sýningar, stóð engan vegin undir kostnaði, enda að líkindum greitt af "sendiráðinu". Mjölnir, meir að segja kvartar yfir lélegri aðsókn, jafnframt því hann dásamar þessar myndir í hástert. Skoðið þá umsögn: HÉR
Árið 2002: Félagið MÍR, Menningartengsl Íslands og Rússlands, Vatnsstíg 10, 107 Reykjavík.
Við þetta má bæta, að þegar undirbúningur vegna núverandi bæjarskrifstofu, það er RÁÐHÚSIÐ (Ráðhúsbíó) var gert ráð fyrir að þar yrði komið fyrir kvikmyndasal, samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar.
Væntanlega í samkeppni við Nýja Bíó, en ákveðnir pólitíkusar höfðu það á hornum sér, miðað við skrif þeirra.
Og einnig kom upp umræða um að setja upp búnaði til kvikmyndasýninga í kirkjunni.
Um þetta má lesa hér á vefnum.