Reykingar í bíó - Kvikmyndahúsin

Siglfirðingur 16. júlí 1944

Við Siglfirðingar erum miklir  menn, og virðist svo, að við getum gert allt, sem okkur dettur í  hug á hvaða tíma sem er. Ein  þeirra framfara, er hér hafa átt  sér stað, er að komið er annað  kvikmyndahús. Erum við Siglfirðingar þar á undan öðrum bæjum, því enginn bær á landinu mun  hafa tvö kvikmyndahús að höfuðborginni undanskyldri, nema Siglufjörður

Að mínu áliti er það framför að kvikmyndahúsin eru tvö,  því eins og allir skilja, munu þau  keppast um að vera hvort öðru  betri, að því er snertir val mynda  og aðbúnað. Eiga bæði einstakir  menn og félög þakkir skilið, sem  að þessu standa. Það munu flestir  sammála um að fara í kvikmyndahús sé einhver ódýrasta skemmtunin, sem völ sé á.

Um myndavalið  og gæði myndanna má sjálfsagt  deila, en hverjum er í sjálfsvald  sett, hvort hann sér myndina eða  ekki. En reynsla mín er sú, að  flestar myndir, sem eru annað  en meiningarlaust grín, sýni baráttu hins góða við hið illa. En  okkar er að velja eða hafna, hvort  við förum í bíó eða ekki. Það virðist svo, að hin lakari tegund mynda, og það sem miður er, hafi  skjótari áhrif til eftirbreytni heldur en þær betri.

Mynd af netinu

Mynd af netinu

Margir voru fljótir að læra af setuliðinu þann ósóma að reykja meðan á sýningu  stóð, einkum unglingar. En reykingar í kvikmyndasal 

eru algerlega óþolandi. Vakti það því ánægju mína er ég frétti, að Siglufjarðarbíó ætlaði að reyna að  stöðva þennan reykingafaraldur  í sýningarsölum sínum og fannst  mér það framför. Eitt sinn var  letrað á veggi kvikmyndahússins  við Aðalgötu, að reykingar væru  bannaðar. En nú er búið að mála  yfir það. Er það framför?! !

Einhverju sinni var það sagt, að  hættulegt gæti verið að reykja í  kvikmyndahúsum og að fara með  óbrigðan eld, þar sem fólk væri  samankomið, en nú er víst engin  hætta á því lengur. Það er víst  framför ! !

Reykingar í kvikmyndahúsum  verða að hverfa, því að þær eru  óþolandi og hættulegar, auk íkveikjuhættunnar á maður á  hættu að eyðileggja föt sín og  ekki sæmir sjálfstæðu fólki slíkt  ósjálfstæði að geta ekki haft hemil  á nautnum sínum fáar mínútur. 

Eigendur kvikmyndahúsanna vilja  ekki þessar reykingar, en þeir eru  ekki í meirihluta í áhorfendahóp.  Það erum við, borgarar þessa bæjar og við getum ekki heimtað allt  af öðrum. 

Það erum við sjálfir,  sem getum kippt þessu í lag.

Ekki  getum við heimtað það af eigendum "kvikmyndahúsanna, að við  hegðum okkur eins og siðað fólk,  eða hvað finnst ykkur, Siglfirðingar góðir? Þeir, sem fylgst hafa  með í þessum efnum, vita, að það  eru aðallega unglingar, sem eru  valdir að þessum reykingum, því  flestum ef ekki öllum fullorðnum  mun vera hægt að stilla sig meðan  á sýningu stendur. Ógleymt er  reykingahléið, sem eingöngu er  haft fyrir þá, sem ekki þola við  allan tímann án þess að reykja,  svo fyrir öllu er nú séð.

- Jæja,  ég brá mér einn góðan veðurdag  á barnasýningu í Siglufjarðarbíó,  alveg óbrynvarinn og átti einskis  ills von, en von bráðar fóru að  koma blossar og eldglæringar eftirfylgt af reykjarsvælu. Svo var  nú á barnasýningunni.

Nei, Siglfirðingar góðir. Það getur ekki gengið, að reykt sé í, bíósýningum og munu flestir mér um  það sammála. Því segi ég, og ég  veit ég mæli fyrir munn flestra,  borgara þessa bæjar.

Bíó-eigendur stöðvið reykingarnar strax.

------------------------------------------------------

Neisti 24. júní 1949

Þórður þögli

 BÍÓ -Hornklofi skrifar.

Reykingar bannaðar ! Spjöld  með þessari áletrun blasa hvarvetna fyrir sjónum kvikmyndahússgesta, er þeir koma inn á Nýja Bíó hér.

Þess er vænst, að kvikmyndahússgestir reyki ekki í húsinu. Þetta ákvæði er margsinnis brotið á hverri sýningu, án þess, að nokkuð sé gert til þess að ná til sökudólganna.

Fyrir stuttu fór ég í Nýja bíó. Húsið var troðfullt. Í bekknum fyrir framan mig var ung stúlka, er kveikti strax í sígarettu, er sýning hófst.

Ég leit aftur fyrir mig, þar var tvennt, sem reykti. Stuttu á eftir huga ég aftur í kring um mig og þá taldi ég tíu, manns, sem reyktu.

Þetta háttalag er alveg ólþolandi. Til hvers er verið að festa slík áletruð spjöld upp, og svo ekkert gert til þess að hegna þeim, sem brjóta lögboðin ákvæði.

Ég hef komið í kvikmyndahúsin í Reykjavík, og slíkt háttalag kvikmyndahússgesta, sem ég hefi lýst, þekkist þar ekki. Vilja nú ekki eigendur Nýja Bíós og okkar ágæta lögregla, láta hendur standa fram úr ermum og láta ákvæðið “Reykingar stranglega bannaðar” koma til framkvæmda.

Með þökk fyrir birtinguna, Þórður minn.

Hornklofi

------------------------------------------------------ 

Bæjarbúi skrifar.

Í Nýja bíó er verið að sýna þessa dagana franska mynd, sem heitir “Svikarinn”. Kvikmynd þessi er all hryllileg á, köflum, og ætti alls ekki að sýnast unglingum innan 16 ára aldurs.

Þrátt fyrir þetta hefur börnum verið seldur aðgangur að myndinni. Getur þú Þórður minn, upplýst mig í sambandi við þetta mál, hvort hér sé ekki starfandi barnaverndarnefnd, og hver sé formaður hennar. Væri ekki nokkur leið að fá nefnd þessa til að starfa?

Bæjarbúi. 

Í sambandi við þessi skrif bæjarbúa vil ég upplýsa, að barnaverndunarnefnd er auðvitað til. - Hinsvegar hefur hún ákaflega litið gert nú um árabil.

Formaður hennar þetta ár mun vera Hlöðver Sigurðsson, skólastjóri. Væri ekki rétt fyrir skólastjórann að vakna og nefndina að taka til starfa.

Þórður Þögli