Tengt Siglufirði
Einherji 23. febrúar 1934
Grein sú, er hér fer á eftir, og tekin er upp úr Nýja Dagblaðinu, er birt samkvæmt tilmælum Barna-verndarnefndirnar hér. Máli því er greinin fjallar um, hefir verið lítill gaumur gefinn hér á landi, og að minnsta kosti utan Reykjavíkur hefir lítið verið gert í þá átt, að banna börnum aðgang að kvikmyndasýningum, er haft geta óholl áhrif á þau.
Rannsóknir þær, er greinin skýrir frá, hljóta að vekja foreldra og aðstandendur barna til umhugsunar um þetta efni og væri vel, ef nokkuð yrði framvegis breytt um, frá því sem verið hefir, um bíóferðir barna hér í Siglufirði og að Barnaverndarnefndin ákvæði hér eftir að hvaða myndum börnum væri leyfður aðgangur, svo sem hún hefir rétt til. Fyrir nokkrum árum var í Bandaríkjum Ameríku skipuð nefnd manna til að rannsaka áhrif kvikmynda á börn. Í nefndinni áttu háskólakennarar einir sæti. Þessi nefnd hefir nú skilað áliti og skal hér lauslega frá því sagt.
Þetta var aðallega rannsakað:
Hversu oft horfa börn á kvikmyndir?
Hvert er aðalefni myndanna?
Hversu mikið skilja börnin af kvikmyndunum?
Hversu mikið og lengi muna þau, það sem þau sjá?
Hvaða áhrif hafa kvikmyndirnar á skoðanir og framferði barnanna?
Hvaða áhrif hafa kvikmyndirnar á tilfinningalíf barnanna?
Hvaða áhrif hafa þær á svefn þeirra?
Hvernig verður börnum best kennt að meta kvikmyndir skynsamlega?
Hér verður lítillega sagt frá niðurstöðum nefndarinnar í sömu röð og spurningarnar benda til. Rannsókn nefndarinnar var einvörðungu bundin við Bandaríkin. En auðvitað hafa flestar niðurstöðurnar líka almennt gildi.
Drengir 5-8 ára sækja að meðaltali 24 kvikmyndasýningar á ári í Bandaríkjunum. en stúlkur á sama aldri 19 sýningar. Börn 7 - 14 ára sækja að meðaltali eina sýningu á hverri viku og 5 %. af börnunum sjá aldrei kvikmyndir.
Af 500 kvikmyndum, sem valdar voru af handahófi fyrir hvert áranna 1920, 1925 og 1930 var aðalefnið í 29.6 %. ástir, 27,4 % glæpamál ýmiskonar og í 15 % kynferðismál. Að dómi nefndarinnar var ekkert af þeim myndum við barnahæfi. Aftur var af 500 myndum, sem komu til athugunar 1930 aðeins ein mynd, sem var sérstaklega barnamynd, en 7 sögulegar myndir og 9 ferðamyndir.
Um siðferðisleg efni lagði nefndin myndirnar undir dóm sýningargesta af ýmsum stéttum. Reyndust háskólakennarar og konur þeirra ströngust í dómum og voru 85 %. myndanna neðan við siðferðiskröfu þeirra. Aftur reyndust námamenn kröfuminnstir um siðferðið í myndunum. Þó voru 64 %, myndanna neðan við kröfur þess fjórða hluta þeirra, er strangast dæmdi.
Rannsóknir á skilningi og minni voru gerðar á þúsundum barna og alls athuguð 813 þúsund atriði.
Niðurstaða þeirra athugana varð sú, að 8-9 ára börn skildu að meðalt. um 60 %. þeirra atriða, er fullorðnir skildu. 11-12 ára börn skildu 75 % og 15-16 ára börn 91 % Eftir 6 vikur mundu yngstu börnin 50-60 % atriðanna, sem þau höfðu séð og skilið, en þau elstu allt að 90 %. Yfirleitt mundu börnin miklu fleiri atriði úr kvikmyndunum en úr því sem þau höfðu lært í skólanum.
Best mundu börnin um íþróttir, glæpi og bardaga. Í öðru lagi var prófuð gagnrýni barnanna á myndunum. Fyrst var þekking þeirra prófuð um viss atriði, og síðan voru þeim sýndar myndir, þar sem rangt var farið með þessi sömu atriði. Flest litu börnin það trúarinnar augum, sem myndirnar sýndu í þeim efnum. Sú þekking, sem þau höfðu áður og var rétt, laut þar í lægra haldi.
Til að rannsaka áhrif kvikmyndanna á framferði barnanna voru valdir til athugunar hópar af börnum, sem komu á kvikmyndasýningar 4-5 sinnum í viku, og aðrir er aðeins komu tvisvar sinnum í mánuði. það kom í ljós, að þau börn, er oft komu í kvikmyndahúsin dugðu ver við námið og hegðuðu
sér lakar. Hinsvegar voru þau engu siður vinsæl meðal barnanna. jafnvel vinsælli en hin.
Við aðrar rannsóknir hefir komið í ljós, að glæpahneigð börn eru tíðir gestir á kvikmyndahúsum. Líklega er þar bæði um orsök og afleiðing að ræða.
Ennfremur var rannsakað hvaða áhrif einstakar áhrifasýningar höfðu á skoðanir barnanna um viss atriði, td. um Kínverja, Þjóðverja. stríð. bann við dauðahegningu, svertingja. ofl. Fyrst voru börnin látin svara allmörgum spurningum um efnið, síðan voru þau látin koma á kvikmyndasýningu - eins og af tilviljun - þar sem þessi atriði voru sýnd í nýju ljósi. Daginn eftir voru börnin svo látin skýra frá skoðunum sínum á þeim að nýju og kom þá í ljós að þau höfðu mjög um skoðun breytt.
Við próf eftir 2, 4, 6 og 8 mánuði kom það og fram, að þær nýju skoðanir, er þau höfðu drukkið í sig með kvikmyndunum voru óbreyttar, nema nýsterk áhrif hefðu komið til. Og þessi var niðurstaða af mörg þúsund tilraunum Ein einstök sýning getur ráðið um skoðunarhátt barna um einstök atriði, svo að viðvarandi verði, endurtekin áhrif margra sýninga gera þann skoðunarhátt að sterkri sannfæringarvissu.
5. og 6 Um áhrif kvikmynda á tilfinningalíf barna var einkum rannsakað, hvernig þær verkuðu á starf hjartans. Ef hægt er að taka fullkomið mark á slíkum mælingum, hafa þær sýningar, sem einkum sýna ýmislega hættu, einkum lífshættu, mest áhrif á börn á 9 ára aldursskeiði. Með aldrinum minnka áhrif þeirra sýninga, af því börnunum lærist að skilja, að "þetta er allt tilbúningur". Hinsvegar eru áhrif af sýningum úr ástalífinu mest um það bil, er börnin hafa náð 16-17 ára aldri.
7. Af því að þess þótti enginn kostur, að rannsaka áhrif kvikmyndanna á heilbrigði barna, var sá kostur tekinn að rannsaka áhrifin sem þær hefðu á svefn þeirra. Það var gert með því að telja hreyfingar barnanna í svefni (með svefn mæli: hypnograf). Þær mælingar sýndu, að hreyfingar drengjanna voru 26 %. meiri í svefni eftir að þeir höfðu horft á sýningar en endranær, en stúlknanna aðeins 14 % meiri. Áhrifin eru svipuð og af því að færa háttatímann frá kl. 9 til kl. 12.
8. Um það hvernig hægt væri að gera börnin kvikmyndunum vaxin, svo að þær verði þeim ekki hefndargjöf, þau valdi þeim, að þær mali þau ekki í mjöl og duft, hafa verið ýmsar skoðanir. Tvær koma þó helst til greina.
a. Almenn fræðsla um kvikmyndir.
b. Nákvæmt val kvikmynda eftir þroska barnanna og við hæfi þeirra á allan hátt.
Hið fyrra er í raun réttri miðað við það, að kvikmyndirnar séu barnseðlinu fjandsamlegar, en barnið geti þó ef til vill lært að taka þær í þjónustu sína líkt og Sæmundur kölska.
Hið síðara er hinsvegar við það miðað, að kvikmyndirnar megi taka í þjónustu uppeldisins, og það virðist því meiri ástæða til þess; sem þær eru mikilvirkari í þeim efnum.
A.
-------------------------------------------------------------
SK: Skrifað 2002.
Að mínu mati, er eitt athyglivert, raunar ámælisvert, varðandi þessa rannsókn og umfjöllun .
Það er hvergi minnst á þátt foreldra, það er að segja, SKYLDUR foreldra og skóla, um hvað uppeldi barna varðar, gagnvart kvikmyndum, heldur er ábyrgðinni varpað á þá sem framleiður og þeirra sem sýna kvikmyndir (svo er það í raun, enn í dag).
Kvikmyndir eru framleiddar til að veita afþreyingu og fræðslu. Það er staðreynd, að ef engir áhorfendur koma til að sjá viðkomandi kvikmyndir, þá bera þær sig ekki fjárhagslega og enginn getur staðið undir slíku lengi.
Þess vegna eru kvikmyndir eins og fólkið, almenningur, vill hafa þær . Ekki eins og einhverjir, oftast sjálfskipaðir siðapostular telja að kvikmyndir eigi að vera.
Siðapostularnir vilja fá að skoða hverja mynd til að meta hvort viðkomandi myndir séu "sýningarhæfar" með tilliti til þroska fjöldans, og vilja helst banna stóran hluta þeirra.
Þeir halda, að þeir hinir "útvöldu siðapostular" sem þoli slíkar myndir frekar en almúginn. Eða vilja þeir bara fórna hinni "guðdómlegu" geðheilsu sinni fyrir almúgann? Ekki hefi ég trú á því.
Mitt mat er að foreldrar og skólar eigi að gera börnum grein fyrir því hvað kvikmyndir í raun séu, tilgangur þeirra og eðli.
Mínir foreldrar gerðu það, ég gerði það við mín börn og sú hefð fór til barnabarna og raunar er einnig komið að barnabarnabörnum. Þetta hefur dugað til þessa - og ætti að duga öðrum fjölskyldum einnig. --
Þetta minnir mig ónotalega á atvik tengt "siðapostulum" árið sem ég var við vinnu á Keflavíkurflugvelli, Þar var ljómandi gott kvikmyndahús á "vellinum" og þangað sóttum við Íslendingarnir í þá einu afþreyingu sem okkur stóð til boða, annað en að lesa bók eða dunda eitthvað "heima" í brökkunuum sem við bjuggum í.
Einn góðan veðurdag fréttu postularnir af því að þessi óþroskaði andkommalíður, (Íslendingarnir sem lögðu sig svo lágt að vinna hjá kananum) stundað það að horfa á amerískar kvikmyndir sem væru svo menningarsnauðar að við hefðum ekki gott af því að horfa á þær.
Þessir koma og kratadelar komu því í gegn, með látum á alþingi og í fjölmiðlum; að okkur var bannað að fara þarna í bíó á vellinum til að sjá þessar „menningarsnauðu“ kvikmyndir.
Hins vegar vissi þessi kommalíður ekki, (eða vildu ekki vita) að sömu kvikmyndirnar voru sýndar í bíóhúsum Reykjavíkur og í Keflavík, innan mánaðar, frá sýningum á "vellinum" og þar voru sumir þessara andmælanda fastagestir, án þess að gera sér grein fyrir á viðkomandi myndir væru óhollar og menningarsnauðar samkvæmt þeirra eigin mati. Það er mat samkvæmt hugarórum en ekki staðreyndum, eins og oft vill brenna við hjá pólitíkusum, sérlega þó þeim vinstri og lengst til hægri sinnuðum.