Snobbbborgarar Siglufjarðar

Snobb á Sigló

Heimild: Steingrímur Kristinsson

 OTELLO

Hér segi ég frá atviki, sem var nokkuð táknrænt fyrir fallandi menningarbrag gagnvart kvikmyndasýningum á Siglufirði nú seinni árin.

Sagt var frá þessu atviki lauslega, í einhverju dagblaðanna á sínum tíma.

Á þeim tíma, sem halla fór undan fæti hvað  aðsókn að bíósýningum á Siglufirði varðar,  þá var ég búinn að reyna mikið, við filmu-leigusala í Reykjavík. Að fá nú einu sinni að minnsta kosti. að frumsýna kvikmynd á Íslandi og sótti sérstaklega fast eftir því um jólin 1986. 

Einn leigusalinn Friðbert Pálsson í Háskólabíó, lét þetta eftir mér og bauð mér myndina  “OTHELLO” með Placido Domingo  í hlutverki Othello - og það sem meira var, það var ekki enn farið að sýna myndina annarstaðar í Evrópu - og þar sem Siglfirðingar höfðu til langs tíma verið þekktir músíkunnendur taldi ég þetta tilvalinn kost.

 Auk þess hafði ég orðið fyrir ámælum í tali fólks - og ma. fengið sneið í einu bæjarblaðanna um að ekki væri hægt að fara í bíó á Siglufirði vegna þess að þar væru eingöngu sýndar "menningarsnauðar" kvikmyndir, eins og glæpamyndir og jafnvel klámfengnar myndir. Þetta var rétt hvað valið snertir en það voru þó einu myndirnar sem gáfu arð og hann þurfti, til að hægt væri að sýna bíó og halda úti almennum kvikmyndasýningum. 

  Vegna “OTHELLO”, gerði ég það sem ég var ekki vanur að gera aukalega, ég auglýsti myndina óvenju vel, dreifði upplýsingum víða um myndina  - og lagði áherslu á að þetta væri Evrópu frumsýning. Á 2.dag jóla.

(ávalt ,,nánast frá upphafi kvikmyndasýninga hjá Thorarensen í Nýja Bíó, voru bíósýningar 2. dag jóla, og oftast fullt hús)

Auk þess hafði tekið á leigu frá Akureyri rándýr Boss hljómflutningstæki og hátalarasett til að gera hljómburðinn sem bestan, þrátt fyrir að tækin sem fyrir voru ættu að vera fullnægjandi, þá voru þó hin leigðu betri.

Ég  átti von á húsfylli sem oft áður um jólin, er fólki fjölgaði vegna jólafríanna og heimsókna til ættingja.

Ég hóf að sjálfsögðu sýninguna umrætt kvöld á réttum tíma sem endranær, kl. 21:00 og lauk sýningunni eins og vera bar. 

Það hafði verið milt og gott veður fyrir sýninguna þetta kvöld, en þegar henni lauk var komin smá  snjókoma svo ég bauð mæðgunum og dyraverðinum að keyra þau heim.

Já allir sem sáu þessa mynd umrætt kvöld komust fyrir í fólksbifreið minni, 2 gestir mæðgur, dyravörðurinn, sýningarmaðurinn (ég) og kona mín sem hafði verið í sælgætis sölunni, hitt starfsfólkið hafði fengið að fara heim fyrr um kvöldið.

Snobbarar bæjarins létu ekki sjá sig, þrátt fyrir "menningartilraunina".

------------------------------------------------------------------- 

"Bíó-venjur"

Ekki veit ég um venjur sem skapast hafa annarsstaðar, en ég man eftir á árunum 1950 - 1960 þá voru “fastir áskrifendur” ætið á öllum frumsýningum yfir vetrartímann, fólk sem ætið sat í sínum föstu númeruðu sætum og áttu sætin sjálfkrafa frátekin fyrir sig og konu sína án tillits til hvaða eða hverskonar mynd var í boði og tvö sæti oft til vara (hjá þeim efnuðu) sitt hvoru megin, ef á þurfti að halda fyrir vini og eða kunningja sem þeir stundum buðu með sér.

En hluti bíóferðanna var ekki hvað síst til að hitta fyrir kunningjana og rabba við þá fyrir sýningu og í hléum. Þetta var fólk af öllum stéttum og á öllum aldri. Á þessum tímum voru sætin ætíð númeruð á frumsýningum og þegar von var á húsfylli. 

En nú var öldin önnur, Siglfirðingar nenntu ekki orðið að fara í bíó, og snobbararnir sem ekki þóttust þola. það sem flestir voru spenntir fyrir, hasar, spennu og "örlítið", blálitað. 

Spennu og ævintýramyndir hafa alla tíð verið mest sóttar í kvikmyndahúsum um allan heim, svo gamanmyndir, músík myndir hafa einnig oftast, verið vinsælar. Þetta á einnig við Siglfirðinga, þeir voru bara orðnir svo værukærir að þeir nenntu ekki að standa upp frá imbakassanum. Þess vegna lögðust Bíósýningar alveg af á Siglufirði árið 1998.

Lesið tvö netbréf hér fyrir neðan, sem ég fékk 28.júní sl. (2002) frá öðrum frumsýningargestinum.

(birt með leyfi höfundar)    Smelltu einnig á Heimsmetabók Guinnes"  Frétt og grein í blaðinu DAGUR Akureyri í tilefni Evrópufrumsýningar á kvikmyndinni "Otello"

Placido Domingo; TÖLVU-PÓSTUR

Ásta Henriksen; annar frumsýningargestanna, annan í jólum árið 1986, sendi mér póst, eftir að hafa farið inn á síðu mína "Bíó-Saga Siglufjarðar" 

"Póstar" hennar eru hér fyrir neðan, birt með hennar leyfi. Þar segir hún frá skemmtilegri röð tilviljana, sem tengist frumsýningunni og kvikmyndinni Otello. 

Foreldrar Ástu eru hjónin Guðlaugur Henriksen og Erla Kristinsdóttir, sem fór með dóttur sína á þessa einstöku frumsýningu.  

-------------------------------------------

2002 28. júní 2002

Sæll Steingrímur

Ég var að skoða síðuna og finnst hún skemmtilegt framlag. Þá rifjuðust upp skemmtilegar minningar: 

Fannst gaman að sjá að fréttin, af Otello sýningunni er komin á netið 

Við mæðgurnar höfum oft talað um þessa upplifun, hversu frábært það var að sýningin skyldi ekki vera látin falla niður fyrst við vorum einu bíógestirnir. 

Hljómgæðin nutu sín vel enda man ég ekki betur en að leigðir sérstaka hátalarar í tilefni sýningarinnar og við nutum tónlistarinnar alveg í botn. 

Svo má ekki gleyma því að ekki geta mörg bíóhús "státað" af því að hafa ekið bíógestunum og starfsfólki heim eftir sýningu. 

Mig langar til að geta þess að nokkrum dögum eftir sýninguna fór ég til London og dvaldi þar í nokkra mánuði.  

Þegar þessi stórmynd var sýnd þar, mætti fólk mörgum klukkutímum fyrir sýningu og beið í endalausum biðröðum. 

Mér fannst þá ennþá magnaðra að hafa verið einn af tveimur gestum á Evrópufrumsýningu myndarinnar á Siglufirði.

Kveðja, Ásta Henriksen. 

-------

Sæll Steingrímur

Ég sendi þér póst fyrr í dag í sambandi við Evrópufrumsýningu þína á Otello hérna um árið.

Eiginlega sagði ég þér ekki alla söguna og langar til að segja þér framhaldið, þó held ég að móðir mín, sem fékk að heyra það úti í bæ að ekki væri viðeigandi að fara í bíó á annan í jólum,  hafi einhvern tíma sagt þér frá þessu. 

Hún lét þessar raddir að sjálfsögðu sem vind um eyru þjóta og naut þessa menningarframlags.

Eins og ég tók fram þá fór ég til London stuttu eftir sýninguna.  Var þar í skóla þar og kynntist pilti, Diego að nafni,  sem bjó í Argentínu. 

Dag einn vorum við á rölti um götur borgarinnar og sáum endalausa biðröð og fórum að forvitnast hvað um væri að vera. 

Kom þá í ljós að þetta var biðröð til að nálgast aðgöngumiða á Otello myndina, sem þá var verið var að frumsýna í London. 

Mér varð hugsað til tómu sætanna á Sigló -  og þegar ég sagði Diego frá reynslu minni, kom í ljós að hann á ættir sínar að rekja til Spánar og er skyldur Placido Domingo. Ekki nóg með það heldur var hann á leiðinni til Ítalíu nokkrum vikum seinna í fjölskylduboð eða einhvers konar ættarmót og hann sagði mér að þar myndi hann hitta Placido Domingo. 

Mér fannst þetta alveg ótrúlegt, en þegar hann svo fór að hitta ættingjana var hann með kveðju í farteskinu til Placido Domingo frá Evrópufrumsýningargesti sem býr á hjara veraldar, norður við heimskautsbaug og naut þess þar að hlusta á hans fögru tóna.

Að sjálfsögðu fylgdi öll sagan með.  Sem sagt, Placido Domingo sjálfur frétti af þessari einstöku frumsýningu. 

Finnst þér það ekki magnað? 

Kær kveðja

Ásta Henriksen. Evrópufrumsýningargests 

Dagur 8. Janúar 1987 - 

Forsíðuumfjöllun (yfir þvera síðuna og stórt letur) í blaðinu DAGUR Akureyri þann 8. janúar 1987

Siglfirðingar í heimsmetabókina?

 “ . .og ég tel að með frumsýningu þessarar myndar á Siglufirði hafi skapast möguleiki á  að komast á skrá í heimsmetabók “Guinnes”, þar sem mér  bíóstjóranum, tókst að  aka öllum frumsýningargestunum ásamt dyraverði heim að  lokinni sýningu í fimm manna fólksbíl, og hafði samt pláss  fyrir einn í viðbót, þar sem  frumsýningargestir voru aðeins  tveir, nánar tittekið mæðgur úr  Suðurbænum. . .” 

Þessi kafli er úr bréfi Steingríms Kristinssonar framkvæmdastjóra Nýja Bíós á Siglufirði og er hann hér að framan að  lýsa viðtökum þeim sem myndin  “Otello” fékk á Siglufirði um  jólin. Hér var um Evrópu frumsýningu að ræða en í aðalhlutverki  myndarinnar sem byggð er á  óperu Verdi var enginn annar en  hinn frægi söngvari Placido Domingo.

Steingrímur segir einnig að  þegar myndin var endursýnd  hefðu komið 16 manns í bíó og í  þeim hópi var önnur konan sem  mætti á frumsýninguna og 4 eða 5 aðkomumenn. Steingrímur segir  einnig að á myndina „Hanna og  systur" sem var tilnefnd besta  mynd ársins í New York hafi komið 10 manns og 8 þeirra  höfðu gengið út áður en sýningu  lauk .

Steingrímur er að vonum  óánægður með þessi viðbrögð  Siglfirðinga við tilraun hans til að  flytja inn “menningu” til bæjarins .  

gk - Sjá nánar á bls.8 

------------------------------------------------------

bls. 8 – Dagur 8. Janúar 1987

 Heimsmet ! Hvað er menning?

Sennilega eiga Akureyringar  auðvelt með að svara þessari  “kjánalegu” spurningu, þrátt fyrir að víða er orðið “menning” talið allteygjanlegt hugtak. Meðal  annars á ég erfitt með að átta mig  á því hvað felst í raun í þessu  stutta orði: „Menning".

Er þar átt  við arfleið sem ákveðnir þjóðfélagshópar, byggðarlög og eða  heilar þjóðir hafa lært um siði og  venjur, mann fram af manni, eða  er átt við einhver "listaverk"  (orðið “list” er víst einnig nokkuð teygjanlegt), handverk og eða  hugverk einstaklinga og hópa, og  er þá átt við allar tegundir verka  eða aðeins það sem almennt er  kallað “klassískt”???

Klassísk  verk hafa þau verk verið kölluð  sem annað hvort hafa fallið meirihluta fólks í geð, eða hins  vegar þröngum hópi fólks sem  fullyrt hefur að ákveðin verk séu  listaverk og menningarlegt fyrirbrigði, bæði, svo eitthvað sé  nefnt; einhverjar málningarslettur, strokur, hringir og strik á  lérefti hengdu upp á vegg, þó svo  að enginn viti í raun hvernig eigi  að snúa, svo og tónflutningur  sem af  “leikmanni” gæti talist  einhverjar truflanir í útvarpi eða  þaðan af verra.

Og svo þá tegund  tónlistar sem margir kalla sinfóníugarg, jafnvel þó mjög mörg  tónverk í þeim dúr falli almennt  flestum vel í eyru, við viss tækifæri a.m.k. 

Ég er öllu jöfnu ekki þungt  þenkjandi um “menningu”, þó  svo að ég sé að velta þessu fyrir  mér nú og það í blaðagrein. En  ástæðan fyrir þessum vangaveltum mínum er að gefnu tilefni. 

Lesendur Dags hafa e.t.v. tekið  eftir fréttatilkynningu sem birtist  í Degi nú fyrir jólin þess efnis að  Placido Domingo mundi syngja á  Siglufirði um jólin, í nýrri kvikmynd um óperu Verdis, Otello,  ásamt fjölda annarra listamanna,  og að þarna væri um Evrópu frumsýningu  myndarinnar að ræða.  Þessi mynd var að sjálfsögðu  mjög vel auglýst á Siglufirði,  bæði í heimablöðum og í útstillingar gluggum Nýja Bíós, þannig  að varla hefur vitneskjan um  myndina farið framhjá á nokkrum  Siglfirðingi .

Þessi mynd var valin með tilliti til þess að reyna að  þóknast þeim stóra hópi fólks  sem sjaldan eða aldrei fer í bíó,  en hefur í gegnum árin sýnt í  verki að það hefur haft áhuga á  “klassískum” söng, með starfsemi sinni í hinum ýmsu kórum,  sem því miður eru víst allir  “dauðir” nema kirkjukórinn.

En  viti menn, myndin var sýnd eins  og auglýst hafði verið annan dag  jóla, og tel ég að með frumsýningu þessarar myndar á Siglufirði  hafi skapast möguleiki á að komast á skrá í heimsmetabók “Guinnes”, þar sem mér “bíóstjóranum” tókst að aka öllum frumsýningargestunum, ásamt dyraverði, heim að lokinni sýningu í  fimm manna fólksbíl, og hafa  samt eftir pláss fyrir einn í  viðbót, þar sem frumsýningargestirnir voru aðeins TVEIR,  nánar tiltekið mæðgur úr suðurbænum. 

Á sunnudagskvöldið tveim  dögum seinna, var myndin  endursýnd en þá mættu til viðbótar 16 manns, þar á meðal önnur konan frá fyrri sýningunni og  4-5 aðkomumenn sem dvalið  höfðu um jólin á Siglufirði.

Þannig að lítið var upp úr þessari tilraun til að koma "menningu"  Siglfirðinga "á hærra plan", að  hafa, annað en að njóta þess að  sjá ánægjusvip þess fólks sem  kom, og fá þakkir þess fyrir, sem  ekki er venjulegt hér.

Eftir að hafa gert þessa tilraun,  og raunar fleiri, eins og t.d. mislukkaða “5 mynda Hitchcock's  viku”, og sýningu á myndinni  “Hanna og systur”, sem hvarvetna hefur fengið frábæra dóma,  og nú í desember fékk hún titilinn: “Besta mynd ársins” í New  York. Á þá mynd komu 10 og 8  höfðu gengið út áður en sýningu var lokið. 

Eftir allt þetta, þá munum við  eigendur Nýja Bíós hf . ekki að  eigin frumkvæði - fá eða borga  fyrir, að reyna að halda uppi  “menningu” af þessu tagi né svipuðu. Það verða einhverjir aðrir  að sjá sóma sinn í slíku, t.d.  bæjaryfirvöld og hinir “betri”  borgarar.

En hvað bæjaryfirvöld  snertir þá er varla von á neinu “menningarlegu” frá þeim ef  marka má þeirra persónulegu  aðsókn vegna heimsókna undanfarinna ára, ýmissa hópa úr nágrannabyggðum og víðar að, sem  komið hafa með margt merkilegt  og gott “á fjalirnar”, og ekki má  gleyma mætinga- og áhugaleysi  sumra þeirra á starfsemi Leikfélags Siglufjarðar síðustu árin. 

Einu skiptin sem “bæjarstjórnir”  Siglufjarðar hafa fjölmennt í  tilefni heimsókna listamanna,  virðist mér vera þegar haldnar  eru matarveislur í tilefni heimsókna Sinfóníuhljómsveitarinnar  sem hefur verið nokkuð reglulega, annað og þriðja hvert ár. Þó  verður að geta þess að sumir  bæjarfulltrúar, fyrrverandi og  núverandi, hafa ekki alveg sofið  “á verðinum” hvað aðsókn þeirra  til “menningar” tækifæra snertir.

Hópar sem hingað hafa komið  hafa sagt mér að það teljist til  undantekninga ef þeim sé ekki  tekið opnum örmum af sveitarstjórnum minni byggðarlaga,  borguð fyrir þá húsaleiga eða  veittur verulegur styrkur til þess  að unnt sé að halda mannfagnaði  þar sem boðið er upp á hinar  ýmsu tegundir “menningar”. 

Oftar en ekki síðustu ár hefur  aðsókn á Siglufirði á vissar samkomur, verið svo léleg  að ekki hefur nægt fyrir lágri  húsaleigu, enda oft endað með  því að Nýja Bíó hf. hefur verulega slegið af til viðbótar  umsömdum afslætti, og komið  hefur fyrir að ekki hefur verið  tekin húsaleiga, svona til að  “sýna lit”.

Og til eru hópar sem  lýst hafa yfir að til Siglufjarðar  komi þeir ekki oftar, þar sem  fólkið þar kunni ekki að meta það, sem  alls staðar annars staðar sé tekið  opnum örmum, með mikilli  aðsókn. 

Að lokum, allir hafa auðvitað  fulla heimild til að velja og hafna,  og það geri ég að sjálfsögðu. En  það er ekki nóg að tala um  “menningu”. Það verður líka að  GERA eitthvað, en við eigendur  Nýja Bíós hf. teljum okkur hafa  gert nóg. 

Þökk fyrir birtinguna,  Steingrímur Kristinsson  Siglufirði.