Íslenskar kvikmyndir og

Kjartan Ó Bjarnason og Loftur Guðmundsson, og ummælin

Siglfirðingur 1. september 1949 

Fréttamyndir

Síðastliðinn fimmtudag sýndi  Kjartan Ó Bjarnason nokkrar  kvikmyndir hér, er hann hafði  sjálfur tekið: Myndirnar voru allar  frekar vel teknar og með fallegum  litum. Sýndu þær bæði fagrar og  ljótar hliðar á landi og þjóð.

Mynd frá Austurvelli: Wikipedia

Mynd frá Austurvelli: Wikipedia

Fyrsta myndin var frá Vestfjörðum. Sýnir hún ljóslega hina  undursamlegu náttúrufegurð Vestfjarða, atvinnulífið í sjávarþorpunum, þar vestra og hið mikla  fuglalíf í Æðey. Má það kallast  nýstárleg sjón á filmu, að sjá unga  æðarfuglsins brjóta skurnið af  egginu og þegar blikarnir slást um  fyrstu ungana, sem elta móður  sína til sjávar. Hefur Kjartan Ó.  Bjarnason kvikmyndað þetta á  einkar skemmtilegan hátt og sýnt  okkur í senn dásemd náttúrufegurðar landsins og friðsamt líf dýra og  manna, til sjávar og sveita, þar  vestra.

Önnur myndin var af óeirðunum  í Reykjavík 30. mars sl. Hún sýnir hvorki náttúrufegurð né uppbyggjandi starf landsins barna. Hún sýnir ekki einhuga þjóð, ekki  bróðurhug - hún sýnir rök hins  alþjóðlega kommúnisma: grjót og  ofbeldi.

Hugsandi mönnum er það ljóst,  að lögreglan, sem varði Alþingishúsið og stökkti grjótkastaralýð  kommúnista á flótta, var að gegna  skyldu sinni, sem vörður laga og  réttar. Jafnframt er mönnum það  ljóst, að ofbeldi kommúnistanna  ögraði starfshelgi hins háa  Alþingis.

Menn sáu greinilega hvernig  Alþingishúsið, gluggar þingsalsins og skrifstofa forseta  landsins, Sjálfstæðishúsið, Austurvöllur og nágrenni hans voru  útleikin. Hraungrýti Austurvallar var upprifið, girðingar  nærliggjandi húsa, brotnar í  barefli. - EYÐILEGGINGIN,  -ÁSÝND KOMMÚNISMANS  - BLASTI VIÐ AUGUM BÍÓ-GESTANNA, ÞETTA KVÖLD.

Mynd þessi er átakanlegt dæmi um ofbeldi kommúnistanna, þótt  hún gefi engan vegin nógu sterka  lýsingu á upptökum atburðanna  þennan dag. Hún sýnir þó sorglega sundrungu þeirrar þjóðar, sem á framtíð sína og sjálfstæði undir  einingunni komið.

Þriðja myndin er tekin úr íslensku  sveitalífi. Dregur hún fram  skemmtilegustu hliðarnar á sveitalífinu og sýnir í senn síðustu leifar  gömlu búskaparháttanna frá  "Framsóknar-tímabilinu" og síðan hvernig tæknin er tekin í þágu landbúnaðarins, - hvernig vélarnar  taka við af orfi og hrífu o.s.frv.  Gegnumgangandi í þeirri mynd er  fegurð íslenskrar náttúru. Sú fegurð, sem er andstæða þess ljótleika  sem atburðirnir við Alþingishúsið  sýndu.

Kjartan Ó. Bjarnarson mun að  líkindum sýna myndir sínar  hér aftur á morgun eða í vikulokin og ættu menn ekki að  láta þessar myndir fara fram  hjá sér. 

-------------------------------------------------- 

Innskot:

Mjölnir 4. maí 1949 Frétt - umfjöllun

Kvikmynd af atburðunum 30. mars

Samkvæmt áreiðanlegum fregnum, sem blaðinu hafa borist, var  tekin kvikmynd af atburðunum  við Alþingishúsið 30. mars síðastliðinn,  að tilhlutan sakadómarans í  Reykjavík.

Er mynd þessi að  sögn gleggsti vitnisburðurinn,  sem enn hefur fengist, um hinar  skrílslegu aðfarir, sem lögreglan  og Heimdallapakkið var látið  beita friðsaman og saklausan  almenning.

Mynd þessi mun þó ekki hafa verið sýnd nema ráðherrum  og sumum þingmönnum stjórnarflokkanna, ennfremur lögreglustjóra og fleiri útvöldum  úr liði afturhaldsins.

Er fullyrt, að hún muni ekki koma fyrir  almenningssjónir fyrst um sinn,  að minnsta kosti ekki með samþykki og  vitund lögreglustjóra og núverandi ríkisstjórnar. Er haft eftir  lögreglustjóranum, að vissast  muni að flíka henni sem allra  minnst.

Einnig er nú upplýst, að amerískir fréttaritarar, sem staddir voru í Reykjavík um þetta  leyti, tóku kvikmyndir af óeirðunum. Hafa þær verið  sýndar á, kvikmyndahúsum í  New York. Ber Íslendingum,  sem hafa séð þær, saman um,  að einnig þær beri órækt vitni  um sök lögreglustjórans og  ríkisstjórnarinnar. 

----------------------------------------

Mjölnir 31. ágúst 1949

Grein - umfjöllun ATHYGLISVERÐ KVIKMYNDASÝNING KJARTANS Ó. BJARNASONAR

Kjartan Ó. Bjarnason, ljósmyndari, hefur undanfarið sýnt  hér kvikmyndir sem hann hefur tekið.

Eru fyrst þættir af  Vestfjörðum, þar sem brugðið  er upp myndum af ýmsum þáttum atvinnulífsins þar fornum  og nýjum; farið í Æðey og varpið skoðað, og er það áreiðanlega  skemmtilegt og minnisstætt  þeim mörgu, sem aldrei hafa átt  þess kost að sjá með eigin augum hið margbreytilega fuglalíf  eyjarinnar. 

Þá sýndi Kjartan hina margumtöluðu mynd, sem hann tók  af óeirðunum við Alþingishúsið  hinn örlagaríka dag 30. mars s.l.  Myndin hefst á því; að fólk sést  safnast saman, konur, börn og  eldri menn, - fólk á öllum aldri, sem komið var þarna eftir boði  formanna þriggja þingflokkanna. Næst er svo sýnt, er fólkið  kemur af útifundinum við Miðbæjarbarnaskólann.

Er ekkert, sem vekur sérstaka athygli þar nema eitt spjald, en á því sagði  Kjartan að hefði staðið: 

Vér  mótmælum allir. Allt virðist  með ró og spekt þar til lögreglan  kemur út úr Alþingishúsinu og  byrjar án tafar að berja fólkið,  sem næst stóð. Á hæla, henni  kom svo hvítliðaskríllinn úr  Heimdalli og þá fyrst sést, að fólkið tekur á móti og töluverð  slagsmál verða.

Og þá sést  einnig, að kastað er nokkrum  steinum á eftir Heimdellingum  og lögregluþjónum, sem hopað  höfðu. Þegar séð varð, að gestirnir á Austurvelli kunnu ekki  sem skyldi að meta kylfubarsmíð var byrjað á að gæða þeim  á gasi.

Komst þá hreyfing á  mannskapinn og tæmdist völlurinn fljótt, en fólkið leitaði þó  fljótt aftur á Austurvöll, en þar  hélt lögreglan áfram að dreifa  bandarísku gasi yfir gesti ríkisstjórnarinnar, þ.e. þá sem í  lengstu lög vildu njóta gestrisni  hennar.

Það sem sterkast verkar á  fólk við að sjá þessa mynd, er  hið æðisgengna grimmd, sem  lýsir sér í barsmíð lögreglunnar og hvítliðsins, meðan það stóð uppi, og öll er myndin sönnun á  því, að það sé rétt, sem andstæðingar Atlandshafsbandalagsins  héldu fram strax á eftir atburði  þessa, sem sé að með því að boða fólk þarna saman í þúsundatali - og beita það þessum  tökum á mestu æsingaaugnablikunum hafi átt að egna það til  stórfelldra átaka svo tilefni  gæfist á eftir til ofsókna gegn  andstæðingum bandalagsins. 

Það mistókst. Reykvísk alþýða og borgarar sýndu þennan  dag, að Íslendingar eru seinþreyttir til að gera morðtilraunir hver á öðrum. Hvítliðið og sá  hluti lögreglunnar, sem í blindni  hlýddi fyrirskipun hins nasistiskra stjórnanda síns, er undantekning sem allir sannir Íslendingar fyrirlíta og forsmá. 

Næstu daga eftir 30. mars var  svo leikinn skrípaleikur í réttarsal sakadómarans. Þangað voru  dregnir menn eftir tilvísun  Heimdellinga og eftir ljósmyndum úr Morgunblaðinu. Ekki  hefur svo kunnugt sé, sannast  sök á nokkurn þessara manna,  og fullyrðingar afturhaldsins  um það, að um skipulagða andstöðu hafi verið að ræða, hafa  fallið um sjálfar sig, fyrir þeim  hefur engin stafur fundist. 

Að lokum sýndi Kjartan Ó.Bjarnason mynd, sem hann  nefnir: Blessuð sértu sveitin  mín. Eru það ýmsir þættir úr  íslensku sveitalífi, aðallega vor  og sumarannir, einnig göngur  og réttir. Er þetta ansi skemmti  leg mynd, en Kjartan kvaðst  enn eiga eftir að bæta í hana.  mörgum köflum.

Húsfyllir var nærri á hverri  sýningu, á tveim þeim fyrstu  urðu margir frá að hverfa,

--------------------------------------------------

Siglfirðingur 25. júní 1949 

"Milli fjalls og fjöru" Loftur Guðmundsson

Íslenska kvikmyndin "Milli fjalls og fjöru" var sýnd á dögunum hér.  Hinn kunni ljósmyndari, Loftur er brautryðjandinn á þessu sviði.  Margir þekktustu leikarar okkar  koma fram í þessari mynd.

Að  vísu verður ekki komist hjá því,  að játa, að ýmsir "tekniskir" gallar eru á myndinni, en þess verður  að gæta, að þetta er byrjunarverk sem verður vonandi vísir að öðru  betra. 

Þrátt fyrir þessa "teknisku" galla  er myndin að mörgu leyti góð.  Efnið er þjóðlegt og skemmtilegt  í senn. Leikarar fara yfirleitt vel  með hlutverk sín. Litirnir eru á  köflum heillandi og lýsa náttúrufegurð landsins vel.

Mynd þessari  ber að fagna og vonandi lætur  Loftur ekki staðar numið með  þessari mynd.