ÓLÆTIN VIÐ NÝJA BÍÓ og Óregla í bíóhúsum

Óregla í bíóhúsum

Siglfirðingur 13. janúar 1945

Á hverju kvöldi kl. 7.45, oftast  nær stundvíslega, mætir við Nýja Bíó hópur af stálpuðum drengjum,  þeir eru talsvert hávaðasamir,  með ankannaleg hljóð, bölv, ragn, grát, hranalegan hlátur, áflog og  ryskingar. Berst leikurinn og áflogin yfir þvera götuna og er gatan svo upptekin stundum af þessum óaldarlýð, að umferð stöðvast.

Þegar bíóhúsið er opnað, ryðst  þessi hópur inn í anddyrið með ólátum og gargi, þjótandi upp og  ofan stigann, og inn í hvert það  skúmaskot, sem með góðu móti er  hægt í að troðast. Stundum raða  þeir sér svo þétt við, þar sem aðgöngumiðar eru seldir, að illmögulegt er fyrir fólk að komast að.  Fyrir hefir komið, að bíógestir,  sem koma til þess að tryggja sér  aðgöngumiða áður en sýning byrjar, komist að því fullkeyptu að  komast út aftur.

Bjarni Jóhannsson -Ljósmynd: Kristfinnur

Bjarni Jóhannsson -Ljósmynd: Kristfinnur

Þessi drengjahópur er með ýmiskonar hrekki við dyraverði og  jafnvel bíógesti líka. Snjókúluregn  er stundum inn í anddyrið, og  stundum reynt að koma snjókúlum  upp á loft, stundum hefir verið  gerð tilraun með að koma fyrir  smásprengjum uppi á loftinu.  Vegna þessa ódæma uppivöðsluháttar, er anddyrið oftast 

orðið  eins og gatan úti, þegar bíógestir  koma- og er ákaflega óyndislegt  að koma þangað.

Það er ákaflega leiðinlegt fyrir  Siglfirska borgara að þurfa, í hvert  sinn og þeir fara í bíó, að brjóta  sér braut með hrindingum og olnbogaskotum inn í þetta hús, en  leiðinlegra er þó að kynna aðkomufólki það ódæma aga- og stjórnleysi, sem ríkir hér.

En mér er  spurn. Er ekki hægt að losa borgara bæjarins við þennan bíó-ófögnuð?

Hver á að sjá um það? Er ætlast til að hinir og þessir borgarar  taki sig til, af sjálfdáðum, og banni  drengjum þennan ósóma? Eða  hvað?

----------------------------------------------------------

Einherji 25 janúar 1945

Óreglan við Nýja-Bíó

Eftir að annað bíóhús hóf hér  starfrækslu sína vonuðu margir,  að Nýja Bíó, sem fyrir var, myndi  nú fara að bæta úr þeim ágöllum,  er sýningargestir og aðrir töldu  vera á rekstri hússins. Það var almenn óánægja útaf myndavali og  ýmsu öðru í sambandi við þetta  skemmtihús, td. vöntun á hreinlæti og reglusemi. En þetta urðu  bíógestir að þola, því að þeir  höfðu ekki í annað hús að venda,  ef þeir ætluðu sér að sjá kvikmynd.  

Við starfrækslu Siglufjarðarbíó  hafa orðið mikil umskipti á myndavali. Nýja-Bíó hefir bætt myndaval sitt að miklum mun og er  það að sjálfsögðu mest að þakka  því, að nú hefur það fengið keppinaut. 

En þótt myndavalið hafi  batnað hjá Nýja-Bíó frá því, sem  áður var, þá hefur það ekki losað  sig við sinn gamla, hvimleiða fylgifisk, en hann er skeytingarleysið  hjá eiganda hússins um að þetta  arðbæra fyrirtæki hans fylgi þeim  reglum, sem settar eru í sambandi  við reksturinn, en í kjölfar þessarar trassamennsku dafnar svo hin  mesta óregla og ómenning, sem  er eiganda hússins til minnkunar  og samborgurum hans til óþæginda og leiðinda. 

Þeir, sem hafa  heimsótt bæði bíóhúsin hér hafa  fljótt orðið varir við þann mismun,  sem þar er á, allri reglusemi. Í  Siglufjarðarbíó fær gesturinn að  njóta myndarinnar í friði og ró,  sem hann á líka heimtingu á. Þar  er anddyrum hússins lokað eftir  að sýning hefst og engum, hvorki  unglingum eða örum, leyft að  hafast þar við á meðan á sýningu  stendur.

En þeir, sem heimsækja  Nýja-Bíó að kvöldinu hafa aðra  sögu að segja.  Það fyrsta, sem bíógesturinn  verður þar var við, er hann kemur í anddyri hússins, að forstofan er þar að miklu leyti upptekin af stálpuðum drengjum, sem  láta allófriðlega.

Troðast þeir með  hrindingum og olnbogaskotum að  klefa þeim, sem aðgöngumiðar að  sýningunni eru seldir, þrátt fyrir  það þótt þeir ekki megi hafa aðgang að kvöld sýningum, en það  einkennilega skeður:

Þessir æskumenn fá afgreiðslu eins og bíó gestirnir, þeir fá afgreitt, sælgæti  og gosdrykki í stað aðgöngumiða  að sýningunni, þegar svo sýningin byrjar 

og bíó gestirnir eiga að  fara að njóta myndarinnar, þá  berst þeim til eyrna ofsafenginn  hávaði framan úr anddyrum hússins frá viðskiptavinum sælgætis og gosdrykkja sölunnar, en hún er  höfð í fullum gangi á meðan á  bíó sýningum stendur og hverjum  og einum, sem þangað kemur utan að götunni er selt það, sem  hann biður um, ef það er til.

Þessi  sælgætissala er því að miklu leyti  valdandi þess, að bíógestir geta  ekki fengið að njóta myndarinnar,  sem þeir eru búnir að greiða aðgang að. 

Lögreglan hefur fyrir löngu síðan kært yfir þessari sælgætissölu,  til annarra en bíó gesta, en úrskurður um það efni er ennþá ókomin. Ekki aðeins sýningargestir  heldur og allir bæjarbúar verða að  krefjast þess, að sú ómenning, sem  eigandi Nýja-Bíó hefur verið að  gróðursetja í sambandi við þetta  fyrirtæki sitt, verði með öllu upprætt.

Eigandi hússins verður að  koma í veg fyrir ólætin í bíó anddyrunum, með því að hætta að  egna þangað unglinga og börn  með sölu á sælgæti og gosdrykkjum. Hann verður að hafa þar dugandi dyravörð - ekki óþroskaðan  ungling eða örvissa gamalmenni,  heldur mann með fulla starfskrafta.

Bjarni Jóhannsson