Umsagnir ritstjóra blaða og misvitra einstaklinga

Ýmsar umsagnir (2)

Einherji 26. febrúar 1933

Siglufjarðar-Bíó er nú tekið til starfa aftur eftir hina löngu hvíld sína vegna bannsins. Á sunnudaginn var sýnd mynd er heitir "Presturinn í Vejlby". Er það mikil mynd og hrífandi en sorgleg. Áttu menn von á að kvöldið yrði þeim til uppbyggingar, en .sú von brást.

Sýning myndarinnar var hin hörmulegasta. Slitnaði myndin oft og stundum var alger þögn - þegar heyrast átti tal leikendanna. Ekki er víst að sýningarstjórinn eigi sök á þessu heldur hafi myndin sjálf og plötur henni tilheyrandi verið skemmt orðið. En á því eiga þeir sök, er fyrir Bíóinu ráða, að sýningar byrja ekki á réttum tíma. Þeir sem stundvísir eru og komnir eru á þeim tíma er auglýst er, að sýningin skuli byrja, eiga heimtingu á að þurfa ekki að bíða eftir slæpingjum þeim er enga stundvísi þekkja.

Ath: [Nýja Bíó er á þessum tíma manna á milli og í blöðum nefnt "Siglufjarðar-Bíó" og þar með af eigandanum sjálfum, ekki veit ég ástæður þessa, en í þessu tilfelli er átt við Nýja Bíó.

Ekki hefi ég enn komist að því, í hverskonar banni bíóið hefur verið í, samkvæmt því er stendur efst í þessari frétt, en væntanlega kemur að því síðar] - SK

----------------------------------------------------

Siglfirðingur: Bæjarfréttir 13. maí 1933

Nýja-Bíó sýnir á morgun kl. 6 "Demantaþjófnaðinn", með hinum fræga leikara Tom Mix í aðalhlutverkinu. Allir sem ekki hafa séð þessa mynd, þurfa að sjá hana nú.

Kl. 8½ annað kvöld sýnir Nýja-Bíó, hina ágætu mynd "Brosandi land". Aðalhlutverkið leikur söngvarinn Richard Tauber. Hinn heimskunni Franz Lehar stjórnar hljómsveitinni. .Allir söngelskir menn munu hafa óblandna ánægju af að heyra og sjá Richard Tauber í þessari mynd.

-------------------------------------------------------

Einherji 12. október 1933

"Iðrandi sonur", heitir mynd sem sýnd hefir verið hér á Bíó undanfarið.

Mynd þessi er einhver sú besta sem hér hefir verið sýnd og er vel þess verð að á hana sé minnst ekki síst þegar þess er gætt, að jafnaðarlegast eru hér á boðstólum nauðaómerkilegar myndir og mun það vera víðar en hér sem svo er.

Mynd þessi er frá þeim tíma er ófriðnum mikla lauk og sýnir sálarstríð manns eins, er orðið hefir manni að bana í stríðinu. Tekur hann sér ferð á hendur til foreldra manns þess er hann hefir vegið, til þess að fá fyrirgefningu þeirra.

Fer það nokkuð á annan veg en hann ætlaðist til í fyrstu, en þó þannig er best mátti verða fyrir alla er að þeim málum stóðu. Myndin er framúrskarandi vel leikin.

------------------------------------------------------

Bæjarfréttir: Siglfirðingur 26. Nóvember 1935

Nýja Bíó sýnir annað kvöld afar skemmtilega mynd sem heitir "CONTINENTAL". Myndin er bráðfjörug og smellin dansmynd með mörgum ágætum söngvum eftir ýmsa höfunda og dansinn töfrandi fagur. Unga fólkið sem gaman hefur af að dansa ætti ekki að láta þessa mynd fara hjá án þess að sjá hana.

-----------------------------------------------------

1935 Einherji 10 janúar 1936: Frétt. "Nær og fjær"

Nýja-Bíó hér, sýndi um nýárið afbragðsgóða mynd er heitir "Drengurinn hennar", Þessa er getið hér vegna þess, að óvanalegt er að sjá hér reglulega góðar myndir. Mun það að vísu vera líkt hér í Siglufirði og annarstaðar á landinu, en það er ódæma rusl, yfirleitt. sem landsmönnum er boðið í þessu efni. Væri ekki vanþörf á að þar væri eitthvað tekið í streng og væri þar nokkurt verkefni fyrir hið nýkosna menntamálaráð.

-------------------------------------------------------

Neisti, 18. febrúar 1936

Frétt: Charlie Chaplin kvikmyndin síðasta, er, heitir NÝIR TÍMAR, hefir verið bönnuð af nasistum í Þýskalandi. Finnst þeim hún vera of socialistisk. - Og svo kvað hafa komið upp kvittur um það, að einhverjir af forfeðrum Chaplins hafi verið Gyðingar !

----------------------------------------------------

Einherji, 13. maí 1937

Nýja-Bíó hefur nú hafið sýningar aftur. fyrsta sýningin fór fram síðastliðinn laugardag, og hafði eigandinn, H. Thorarensen, boðið þangað fjölda manna.

Eftir hinu miklu aðgerð sem farið hefur fram á húsinu er það hið vistlegasta; hefur það nú einnig verið stækkað, og tekur nú um 390 manns í sæti.

Nýir bekkir hafa verið fengnir í húsið að mesta leyti, og eru þeir ágætir. Sömuleiðis hefur verið fenginn nýr hátali í húsið, og er hann miklum mun betri en sá er áður var þar.

----------------------------------------------------

Neisti, 9. nóvember 1940

"Borgarvirki"

Það er oft sagt - og því miður með nokkrum rétti að hér séu að jafnaði sýndar ákaflega lélegar kvikmyndir.

En þrátt fyrir þá niðurlægingu, sem ríkir í þessu efni, kemur þó fyrir, að góðar myndir eru á boðstólum - enda er sagt, að fyrr megi nú rota en dauðrota.

Ein besta kvikmynd, sem hingað hefir komið lengi, er vafalaust "Borgarvirki". Sú mynd hefir verið sýnd hér í Bíó undanfarna daga og hlotið góða aðsókn.

Eins og flestum mun kunnugt, er kvikmyndin "Borgarvirki" byggð á samnefndri skáldsögu enska rithöfundarins dr. A.J.Cronin. Sú bók er landsmönnum kunn frá því í fyrravetur, að Menningar- og fræðslusamaband alþýðu gaf hana út í ágætri þýðingu Vilmundar Jónssonar landlæknis.

Hlaut bókin að vonum miklar vinsældir, og sennilega meiri en flestar aðrar bækur erlendar, sem snarað, hefir verið á Íslensku fyrr og siðar.

Þótt efni skáldsögunnar "Borgarvirki" sé ekki nákvæmlega rakin í kvikmyndinni,- margt vanti, og öðru sé skotið inn í - er hinn -rauði. þráður samt alveg órofinn og nýtur sín síst miður í myndinni en sögunni, að margra dómi.

Hugþekkustu persónur sögunnar halda að fullu einkennum sínum, og hin myrku öfl eru hin sömu og við könnumst við þaðan.

Slíkar kvikmyndir sem "Borgarvirki" er hollt að horfa á og hugsa um.

B.P.Kr.

---------------------------------------------------------

REGINN 30. ágúst 1941

Frétt.

Litkvikmyndirnar:

"Þú ert móðir vor kær" og "Blómmóðir besta" hafa verið sýndar í Sjómanna-heimilinu hér í Siglufirði undanfarna daga, að tilhlutun Skógræktarfélags Íslands.

Fyrri myndin er eign skógræktar ríkisins og er einkum um skógargróður landsins. Síðari myndin er eign fræðslumála stjórnarinnar og er upphaf að fræðslumynd í náttúru-fræði, sem verið er að taka, til að sýna í skólum landsins. Báðar eru myndirnar dásamlega fagrar.

-----------

Ath: Þetta mun hafa verið sýnt á "16 mm." kvikmyndavél. SK

--------------------------------------------------

Reginn 1. febrúar 1942

Eftirfarandi upplýsingar er hluti, úr Skýrslu um starfsemi Sjómanna og gestaheimili Siglufjarðar, vegna ársins 1941.

Sem bitist í REGIN 1942

Samkomur og erindi.

Meiri áhersla var á það lögð en áður, að hafa samkomur á heimilinu til uppbyggingar, fróðleiks og skemmtunar. Aðsókn var yfirleitt fremur góð.

Þessi erindi voru flutt:

Eiríkur Sigurðsson, kennari: Hvernig á að verja tómstundunum

Heimilismenning Leo Tolstoj

Jón Gunnlaugsson, stud. med.: Unga Fólkið. Þorleifur Bjarnason, kennari: Upplestur (Þorgeir í Vík) Þorsteinn H. Hannesson: Einsöngur

Sigurður Guðmundsson, ljósmyndari frá Reykjavik dvaldi á Siglufirði í rúma viku á vegum Stórstúku Íslands og sýndi kvikmyndir á heimilinu í 7 kvöld.

Voru það myndir frá starfi Reglunnar, almennar fræðslumyndir, íþróttamyndir og ein gamanmynd. Vill stjórn heimilisins flytja hr. Sigurði Guðmundssyni og Stórstúku Íslands bestu þakkir fyrir þessa heimsókn.

Litkvikmyndirnar: "Þú ert móðir vor kær" og "Blómmóðir besta", voru sýndar 5 sinnum á heimilinu, að tilhlutun Skógræktarfélags Íslands.

Guðsþjónusta var og haldin þar með aðstoð kirkjukórsins, sr.Ó.J. Þorláksson talaði um efnið: "Kristur og vorir tímar". Skuggamyndir úr lífi Jesú voru sýndar í sambandi við guðsþjónustuna.

Þá má geta þess, að skuggamyndir voru yfirleitt sýndar í sambandi við erindin.

Margir gestir komu og hlustuðu að jafnaði á kvölderindi útvarpsins.

--------------------------------------------------

Einherji, 21 mars 1942

Bíórekstur.

Bæjarstjórn Siglufjarðar skorar á þingmenn Eyjafjarðarsýslu og alþingismennina, Erlend Þorsteinsson, Garðar Þorsteinsson og Stefán Stefánsson að koma á framfæri á þessu þingi og fylgja af fremsta megni frumvarpi, sem heimili Siglufjarðarkaupstað einkaleyfi til bíóreksturs.-