Tengt Siglufirði
Ýmsar umsagnir (3)
Einherji 19. febrúar 1943
Úr öllum áttum.
Bæjarrekstur kvikmyndahúsa.
Á fundi bæjarstjórnar Reykjavíkur 4. febrúar s.l. var samþykkt. með 8 atkvæðum gegn 7 tillaga um að taka rekstur Gamla og Nýja Bíó í hendur bæjarins. Jafnframt Var ákveðið að verja tekjum þessara kvikmyndahúsa til mannúðar- og menningarmála. Háskólinn fær eftir sem áður að halda áfram rekstri Tjarnarbíós. Hvað segja menn um bíó hér? Væri þar ekki þörf á einhverri breytingu?
-------------------------------------------------
Einherji 5. október 1946 Úr bæ og byggð,
Ráðhúsbíó
Fyrir nokkru sendu sósíalistar erindi til bæjarstjórnar, þess efnis, að fá ráðhús lóðina, við Gránugötu og Lækjargötu afhenda undir samkomuhús fyrir verkalýðsfélögin í bænum.
Mörgum kom þessi málaleitan sósíalista mjög á óvart, þar sem vitað var, að þessi lóð er fyrir löngu ætluð fyrir ráðhús bæjarins og aðrar byggingar í sambandi við það.
Meirihluti bæjarstjórnar gat því ekki orðið við þessari ósk sósíalista og felldi beiðnina.
En réttar meðvitund sósíalista er dálítið einkennileg, því að rétt á eftir segja þeir í Mjölni, að bæjarstjórn Siglufjarðar hafi orðið sér til skammar fyrir að láta ekki Ráðhúslóðina í hendur sósíalista. Beiðnin var að vísu stíluð f. h. verkalýðsfélaganna í bænum, þar sem, sósíalistar hafa meirihluta í stjórn, en eru í minnihluta að höfðatölu í félögunum, enda töldu fulltrúar Alþýðuflokksins sig í bæjarstjórn ekki geta verið með stjórn og skrifstofur bæjarins eru í.
Veitti sannarlega ekki af að fara að hugsa fyrir einhverri breytingu þar á og virðist þá eðlilegast, að bæjarskrifstofurnar og fundarsalir fyrir bæjarstjórn og nefndir hennar yrði ætlað pláss í hinu væntanlega ráðhúsi bæjarins.
Þá ætti einnig að koma þar hið margumtalaða Kvikmyndahús bæjarins, sem allir stjórnmálaflokkar bæjarins hafa talið mikla nauðsyn á að koma upp, og þá ekki síst sósíalistar.
--------------------------------------------------------------------
Einherji 16. nóvember 1946
Skrílsháttur og siðleysi.
Ef þið viljið kynnast skrílshætti og siðleysi er reynandi að fara hér í bíó. Það er ekki ótítt, að unglingspiltar séu í “slag” meðan á sýningu stendur, æpandi og skrækjandi og látandi öllum illum látum.
Þá er og hitt algengt, að samtöl eru svo mikil meðal bíógesta, að með öllu er ógerlegt að heyra til leikenda. Þetta þarf að breytast.
Þetta er til skammar þeim, sem hlut eiga að máli og angurs og leiðinda hverjum skikkanlegum bíógesti.
------------------------------------------------------------------
Siglfirðingur 12. ágúst 1947
BÆJARMÁL (dálkur um bæjarmál)
Kvikmyndahúsin
Margt má með réttu finna að þeim kvikmyndahúsum, sem hér starfa. "Nýja Bíó," sem einnig er kennt við Thorarensen, virðist vera vanhirt, svo að oft blasa við augum bíógestsins, óhreinindi og blaðarusl, er hann kemur þar inn fyrir dyr. Einnig er óafsakanlegt að hafa þar aðeins eitt salerni opið, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess, að það er ekki nothæft nokkrum manni.
Á þessu þarf að ráða bót hið fyrsta. Verða og bæjarbúar og aðkomufólk að sýna meiri þrifnað og háttprýði, er þeir sækja kvikmyndahúsin.
"Siglufjarðarbíó" er oftast nær þrifalegt, en sá galli er á gjöf Njarðar, að sýningarvélarnar eru mjög lélegar og hátalarinn gjörómögulegur. Kemur þetta sérstaklega að sök þegar söngvamyndir eru sýndar og hafa gestir hússins ekki hálf not af myndunum fyrir þessar sakir.
------------------------------------------------------
Neisti 31 janúar 1947. Greinaflokkurinn "Þórður Þögli", bréf til Þórðar þögla.
Bíógestur skrifar:
Það hefir stundum verið skrifað í blöðin hér um Bio-"menningu" okkar Siglfirðinga. Um hana hef ég þessa sögu að segja:
Fyrir stuttu fór ég í kvikmyndahúsið með kunningja mínum reykvískum, sem hér var staddur.
Klukkan 9, eða á tilsettum tíma hófst sýningin, en allt til þess að klukkan var gengin 20 mínútur í 10, var fólk að koma í sætin í bekkjunum fyrir framan okkur.
Alltaf annað slagið á meðan á sýningunni stóð, kváðu við hlátrasköll og óp og ýmiskonar annarlegur hávaði frá unglingum í salnum. Þetta fannst kunningja mínum nýstárleg og miður sæmandi framkoma.
Auðvitað er þetta mesta ófremdarástand og gremjulegt fyrir Bíó-gesti, sem koma í bíó, til þess að sjá og heyra kvikmynd, að verða fyrir slíku ónæði.
Ég legg til. að hér eftir verði húsinu lokað kl. 9 stundvíslega, eða þegar sýning hefst, og að nöfn þeirra unglinga, sem gera sig þar seka um ill læti, verði birt í blöðum bæjarins þeim og öðrum til viðvörunar.
------------------------------------------------------------------
Neisti 14. febrúar 1947
S. O. S.
Ég er þakklátur þeim, sem birti greinina undir nafninu Bíógestur í síðasta tölublaði "Neista."
En látum það nú vera, þótt fólk einhverra orsaka vegna komi ekki á tilsettum tíma, sem er þó hinn mesti ósiður og algjörlega ófyrirgefanlegt. greinina undir nafninu Bíógestur í síðasta tölublaði "Neista."
En látum það nú vera, þótt fólk einhverra orsaka vegna komi ekki á tilsettum tíma, sem er þó hinn mesti ósiður og algjörlega ófyrirgefanlegt.
En hitt er þó öllu lakara er, góðir Siglfirskir borgarar, sem árum saman hafa haft þetta fyrir sína. aðalskemmtun og mætt kl. 9, fá svo fyrir alla stundvísina númeruð og "botnlaus sæti." En sökum tækni á öllum sviðum í Nýja Bíó í Siglufirði, kemur það ósjaldan fyrir, að Bíógestir fái setur sínar loftleiðis á meðan á sýningunni stendur.
En þar sem nú á að heita friður á jörðu, er það alveg óviðeigandi að hafa hinn ægilega járnvígbúnað fyrir luktum dyrum kvikmyndathússins meðan á sýningu stendur, þar sem slíkur vígbúnaður getur valdið óhug og hræðslu hjá þeim Bíógestum, sem ekki eru slíku vanir hjá öðrum kvikmyndahúsum á landinu.
En hróp og önnur ólæti í unglingum í Nýja-Bíó í Siglufirði, eru Siglfirðingar fyrir löngum liðnum stundum búnir að sætta sig við.
En hinsvegar væri því vel fagnað, af öllum bíógestum ef duglegum og skylduræknum dyraverði yrði bætt við ytri dyrnar. En sökum sívaxandi framfara yrði það vel þegið að Bíógestir í framtíðinni fengju að verða aðnjótandi stoppaðra og óhreyfanlegra sæta á næstunni.
------------------------------------------------
Neisti 28. febrúar 1947
Enn um Bíó.
Kæri Þórður!
Dálkarnir þínir eru nú þegar orðnir mjög athyglisverðir og skemmtilegir. Bréfin, sem þú hefur fengið finnst mér ágæt og sjálfur ertu áreiðanlega skemmtilegur karl.
Gaman væri að vita hver þú ert. Sumir halda, að þú sért Gunnlaugur Hjálmarsson. Ólafur Guðmundsson, Jóhann Möller eða Gísli Sigurðsson.
Hvað um það, hver sem þú ert, þá læturðu ekki þessar línur lenda í ruslakörfunni þinni, því auðvitað áttu stóra ruslakörfu.
Bréfið frá S.O.S. í síðasta pistli þínum var ágætt. Þetta með seturnar í Nýja Bíó sætunum er "hreinasta hneyksli". Mikill fjöldi af sætunum er alveg setulaus, og mætti þess vegna taka undir með Gísla, Eiríki og Helga, að botninn væri suðri í Borgarfirði.
Það er staðreynd, að síðan sýningum var hætt í Siglufjarðarbíó hefur myndavali hjá Nýja Bíó mjög hrakað. Getur eigandi Nýja Bíó ekki fengið hingað bestu myndirnar frá kvikmyndahúsunum í Reykjavík? Nýja-Bíó verður að fá sér betri myndir annars hætta Siglfirðingar að sækja það. Takist eigandanum, auk annarra lagfæringa, að fá betri myndir þarf hann engu að kvíða um aðsókn.
Bíó-gestur
----
Ég held, að það væri rétt, bréfritarar góðir, að gefa eiganda Nýja Bíó nokkurra daga tóm til þess að lagfæra það, sem þið hafið fundið að. En sjáist þess ekki merki, eftir svona einn mánuð, að hann hafi látið sér segjast við það sem komið er, verðum við að taka hann alvarlega til bæna. Þórður Þögli
-----------------------------------------------------------
Siglfirðingur 10. apríl 1948
GÓÐUR GESTUR
Hingað í bæinn er kominn hr. Kjartan Ó. Bjarnason, kvikmyndari. Hann hefur verið á Akureyri undanfarið og sýnt þar Heklukvikmynd sína, ásamt nokkrum fleirum myndum.
Í gærdag og gærkvöldi sýndi hann hér myndir sínar í fyrsta skiptið. Húsið var fullskipað.
Myndir Kjartans eru gullfallegar og mjög gaman að sjá hversu mjög góðum myndum hann hefur náð. Það er vart hægt að lýsa þessum kvikmyndum hans, svo að vel fari. Fólk verður sjálft að fara og sjá þær og ég er þess fullviss, að engin mun sjá eftir því kvöldi, sem fer í það að horfa á myndir þessar.
Auk hinnar mikilfenglegu Heklu-kvikmyndar sýnir Kjartan skíðakvikmynd frá landsmótinu 1947. Þar sjást nokkrir Siglfirðingar m.a. Jón Þorsteinsson, sem þá varð skíðakóngur Íslands og Jónas Ásgeirsson.
Myndir hans af íslenskum börnum, landbúnaðinum, öræfunum og Þjórsárdalnum eru allar sérstaklega góðar.
Myndirnar munu verða sýndar aftur einu sinni, eftir helgina, þar sem hann gat eigi fengið kvikmyndahúsið lánað fyrr.
Um leið og ég þakka Kjartani fyrir þessa góðu skemmtun, óska ég þess, að hann komi hingað aftur með myndir sínar, og lofi þeim, sem ekki hafa haft tækifæri til að skoða landið af eigin sjón og raun, að fara með sér í ferðalag í kvikmyndum hans, og kynnast þannig sínu fagra landi.
Áhorfandi.
----------------------------------------------------------------
06-15-1948 Siglfirðingur 15. júní 1948
HVAÐ ER Á SEYÐI, (dálkur um uppákomur)
Rússnesk litkvikmynd. Þessa dagana hefur "Siglufjarðarbíó" sýnt gullfallega litkvikmynd, sem ber nafnið "Steinblómið". Það er ekki oft nú til dags, sem fólki gefst kostur á að sjá góðar myndir, en "Steinblómið" er ein hinna fáu undantekninga.
Mynd þessi er gerð með nýrri litartækni, uppfundinni í Þýskalandi á stríðsárunum, svo skuggar og litir sýnast stórum eðlilegri en áður var. - Efni myndarinnar er að vísu ekki upp á marga fiska, en myndin er eins og fagurt ævintýri, eins og sett væri á svið ein af þessum gömlu ævintýrasögum, er maður heyrði í æsku.
Það verður enginn svikinn af því að sjá þessa mynd, og vonandi bætast fleiri slíkar í hóp þeirra mynda, er hér verða sýndar.
-------------------------------------------------
Siglfirðingur 28. október 1948
HVAÐ ER Á SEYÐI ! (Loftur Guðmundsson)
EF LOFTUR GETUR ÞAÐ EKKI - ÞÁ HVER?
Loftur hefur nú gert. fyrstu íslensku kvikmyndina með tónum og tali. Leika í mynd þessari margir færustu leikarar íslensku þjóðarinnar og efni myndarinnar byggt á leikriti, sem Loftur sjálfur samdi fyrir 25 árum síðan.
Þetta frumverk íslenskrar kvikmyndagerðar hefur vakið mikinn áhuga og leikur mörgum forvitni á að vita hver árangur þessa frumverks verður. Alkunna er það, að Loftur er fær maður, sem lýkur hverju því verki með snilld, er hann hefur og eins hitt, að margir færir leikarar koma fram í mynd þessari. Gefur það vonir um, að mynd þessi muni vera góð, ekki síst vegna þess, að efni hennar er tekið úr íslensku þjóðlífi.
Kvikmyndahúsgestir hér vænta þess, að allt verði gert sem hægt verður til að fá þessa mynd hingað norður, svo Reykvíkingar einir njóti ekki þeirra verka, er íslenskir listamenn hafa upp á að bjóða. Kvikmynd Lofts hefur vakið forvitni, sem verður að fá svölun.