Árið 1945-Niðursuða SR - Norðurlandssíldin er prýðilega fallin til niðursuðu.

Mjölnir 12. september 1945

Á vegum Ríkisverksmiðjana hafa verið gerðar hér í sumar mjög merkilegar tilraunir með niðursuðu síldar. Fyrir þessum tilraunum hafa staðið þeir dr. Jakob Sigurðsson og Ingimundur Stefánsson.

Tildrögin að þessu voru þau,, að dr. Jakob vor falið af stjórn Ríkisverksmiðjanna, meðan hann var í Ameríku að kynna sér niðursuðu og niðurlagningu síldar.

Að því búnu, var hann beðinn að gera áætlun um byggingu verksmiðja til þessarar framleiðslu. Gerði hann allýtarlega áætlun um niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðju, sem getur soðið niður í 48.000 dósir 8 átta tíma vakt.

Vegna þess að íslensk Norðurlandssíld hefur ekki áður verið soðin niður, þótti nokkur vafi leika á um það, hversu hæf hún væri til slíks. Var dr. Jakob því falið að gera hér í sumar tilraunir með þetta í smáum stíl.

Fékk hann til liðs við sig Ingimund Steinsson, sem þá var nýkominn heim frá Þýskalandi. Hafði hann lagt stund á niðursuðu sjávarafurða, og unnið um sex ára skeið sem verkstjóri í stórri niðursuðuverksmiðju í Pillau í Austur-Prússlandi, en það er mikill fiskiðnaðarbær á Eystrasaltsströndinni.

Þeir dr. Jakob og Ingimundur útveguðu sér að láni tæki til niðursuðunnar og var þeim fenginn til umráða skúr við SRP.

Árangurinn af tilraunum, sem gerðar voru hér í sumar á vegum Ríkisverksmiðjanna af þeim dr. Jakob Sigurðssyni og Ingimundi Steinssyni, varð hin ákjósanlegasti.

Tíðindamaður Mjölnis átti tal við þá félaga, þegar þeir höfðu lokið starfi sínu, og spurði þá um árangurinn og álit þeirra á möguleikum til niðursuðu síldar. Er það, sem hér fer á eftir, að mestu byggt á þessu viðtali.

Tilraunir þessar tókust ágætlega. Var reynt með 7-8 tegundir og fékkst hin ákjósanlegasta vara. Margir, sem átt hafa leið þarna um í sumar, hafa fengið síld til reynslu og ljúka þeir upp einum munni um það, að þetta sé mjög ljúffengur matur. Segir Ingimundur, að þetta sé eitt hið besta, sem hann þekki til af niðursoðnu fiskmeti og það þoli í alla starði samanburð við bestu erlenda framleiðslu.

Mikilvægasti árangurinn af tilraununum er sá, að það hefir fullkomlega sýnt sig, að Norðurlandssíldin er prýðilega fallin til niðursuðu. Er því engin áhætta í við það að reisa stóra verksmiðju, í því tilliti, að trygging er fengin fyrir góðri vöru.

Leggja þeir félagar mikla áherslu á það, að nauðsynlegt sé að hin væntanlega verksmiðja verði stór, og að stílað sé á stórframleiðslu, þannig að færa megi verðið sem allra mest niður. Fullyrtu þeir, að frá stórri verksmiðju mætti selja síldina fyrir margfalt minna verð en nú tíðkast.

Með svona lágu verði mundi vera hægt að vinna mikinn markað hér innanlands fyrir síldina, því að þá yrði hún í senn mjög ódýr matur og tilreidd í því ástandi, að allir geta borðað hana.

En það hefur lengst af verið þannig, að Íslendingar hafa borðað mjög lítið af síld og veldur þar áreiðanlega mestu um, hve síldin hefur verið seld í óaðgengilegu ástandi til neyslu Aukin neyslu síldar í landinu myndi vera mikill ávinningur frá manneldislegu sjónarmiði, því að hún myndi bæta mikið skortinum á ýmsum fjörefnum, sem vantar í mataræði þjóðarinnar.

Til niðursuðunnar er síldin tekin alveg ný. Með sérstökum aðferðum er þeirri fitu, sem er umfram visst magn, náð úr síldinni áður en hún er soðin. Þar með fæst nokkuð af lýsi, sem má nota. Það vinnst einnig, að með þessu er tryggt, að mismunandi fitumagn leiðir ekki af sér mismunandi vöru.

Tilraunin í sumar hefur að vísu ekki skorið úr um það, en allar líkur eru til, að hægt mundi vera að taka síld til niðursuðu strax og hún fer að veiðast á sumrin og áður en hún, er orðin söltunarhæf. Sé reiknað með því, og að síld veiðist fram eftir, eitthvað í reknet, þá ætti starfstími verksmiðjunnar að geta orðið nokkuð langur. Við niðursuðuna tapar síldin að vísu ofurlitlu af fjörefnum, en ekki þó af þeim mikilvægustu. Rannsóknir hafa ekki verið gerðar á saltsíld og kryddsíld, svo ekki er hægt að bera það saman en við þær verkunaraðferðir mun hún einnig tapa einhverju.

Eins og áður er sagt, miðaði dr.Jakob áætlun sína við það, að verksmiðjan gæti einnig unnið að niðurlagningu saltsíldar.

Myndi þá verða unnið úr saltsíld og kryddsíld að vetrinum, þegar ekki væri hægt að fá nýja síld til niðursuðu. Gæti hún þannig starfað allt árið og myndi bæta nokkuð úr vetraratvinnuleysinu hérna. Auk síldar, telja þeir einnig að mætti sjóða niður annað fiskmeti. Margar sömu vélar væri hægt að nota.

Þótt eins og áður er sagt, að gera megi ráð fyrir stóraukinni neyslu í landinu sjálfu sökum lækkaðs verðs, verðir þó fyrst að fremst að framleiða fyrir erlendan markað. Eftirspurn eftir niðursoðinni síld og öðrum fiski er gífurleg og markaður nægur. Segja má að vísu að, ekki sé fyllilega úr því skorið, hvort verðið yrði samkeppnisfært á erlendum markaði.

Úr því fæst að sjálfsögðu ekki skorið fyrr en eðlileg verslunarsambönd hafa komist á, og séð verður hvaðan hagkvæmast yrði að kaupa rekstursvörur og hvaða verð verður hægt að fá erlendis fyrir framleiðsluna.

Gildir það sama um þetta og yfirleitt alla okkar framleiðslu. En ef við getum tileinkað okkur fullkomnustu tækni, sem til er á þessu sviði, þá hníga öll skynsamleg rök að því, að við sem búum alveg við hráefnalindina ættum að standa vel að vígi með að framleiða á sambærilegu verði við aðrar þjóðir.

Í Ameríku er tæknin á sviði niðursuðu lengra komin að því leyti, að þar er farið að nota miklu meira vélar heldur en notaðar eru í Evrópu. Veldur þessi hið háa kaupgjald í Ameríku. Hið sama myndi eiga við hér á landi og væri því sjálfsagt að taka hina amerísku framleiðslutækni sem mest upp þegar í byrjun.

Það er mikill galli á þjóðarbúskap okkar Íslendinga, hve mjög við erum í nýlenduástandi, hvað útflutningsvörur okkar snertir. Mestöll útflutningsvara okkar er hráefni, sem aðrar þjóðir þurfa að vinna, til að þau verði markaðsvara.

Gerir þetta útflutning okkar einhæfan og okkur háðari sérstökum við­skiptalöndum, heldur en ef við hefðum fjölbreytta vöru, sem selja mætti til margra landa. Er það alkunn staðreynd, að við flytjum oft inn aftur unnar vörur úr hráefnum, sem við flytjum út.

Við Íslendingar búum við einhver bestu fiskimið í heimi. Við höfum kynstur af fiski, sem aðrar þjóðir keppast um að ná annaðhvort flytjum við hann út alveg óunninn eða bræðum hann í skepnufóður og iðnaðarolíu í stað þess að búa til úr honum ljúffenga fæðu, sem selja má fyrir margfalt það verð sem annars fæst fyrir fiskinn. Tökum til dæmis karfann, sem við varla leggjum okkur til munns, en ýmist flytjum út nýjan eða bræðum í atvinnubótavinnu.

Ingimundur Steinsson gat þess, að þegar hann var í Pillau þá hefði rétt fyrir stríðið frést þangað um karfa, sem Íslenskir togarar hefðu komið með til Hamborgar. Var nú allt sett í gang til að ná í eitthvað af þessum dýrindis fiski. Eftir nokkurt þref tókst að fá leyfi í Berlin fyrir að verksmiðjan mætti kaupa hann. Var hann sóttur á járnbrautarvögnum.

Þurfti þá að fara gegnum Berlín og skipta þar á lestum og síðan var hann fluttur austur eftir. Við Pólska hliðið þurfti að greiða toll og var síðan haldið til Königsberg og þaðan til Pillau.

Þegar loks karfinn komst þangað, hefur a.m.k. verið liðinn hálfur mánuður, síðan hann var veiddur vestur á Hala eða annarsstaðar hér við land.

Og á hann hafði hlaðist margskonar flutnings- og tollkostnaður. En þarna var hann unninn og ekki kastað ugga né beini, allt var hirt.

Fiskurinn var soðinn niður í dósir og síðan seldur til Suður­ Evrópu og annarra landa sem dýrindis matur.

Þetta dæmi um karfann er aðeins eitt af mörgum, sem nefna mætti. Liggur nú beint við að spyrja:

Hefði ekki verið hagkvæmara, að við hefðum tekið karfann, kannski sólarhrings gamlan, soðið hann niður og selt hann til Suður-Evrópu í stað þess að láta hinn, þýska millilið flytja hann til Austur Prússlands og matreiða hann?

Vissulega hefði það verið hagkvæmara og vissulega hefðum við getað það. Hið sama má segja um síldina og annan fisk. Við þurfum enga útlendan millilið milli okkar og neytendanna, Við eigum að reisa sjálf verksmiðjur, sem framleiða úr hráefnum okkar vörur, sem selja má beint á borð neytendanna.

Þá fyrst erum við orðin sjálfstæð þjóð á sviði framleiðslunnar. Verksmiðjur til vinnslu sjávarafurðanna verða að vera mikill þáttur í nýsköpuninni. Annars mistekst hún og verður til að leiða okkur ennþá lengra sem nýlenduþjóð og arðráslind annarra þjóða.

Nú ríður á, að reynsla sú, sem fengist hefur hér í sumar með niðursuðu síldar verði notuð og að ráðist verði í að reisa verksmiðjuna. Það er ekki eftir neinu að bíða. það er krafa almennings, að framkvæmdir verði hafnar.

-------------------------------------------------------------------

Einherji 18. nóvember 1945

Niðursuðuverksmiðjan langbest sett á Siglufirði

Eins og kunnugt er, hefir verið sagt frá því, að í ráði sé, að stjórn S.R. setji upp niðursuðuverksmiðju, á næstunni (sennilega) á Siglufirði.

Hvort það verður S.R. eða aðrir aðiljar, sem koma niðursuðuverksmiðju upp, skal ekki fullyrt, en hvort sem er, ætti að vera ljóst, að Siglufjörður sé heppilegasti staðurinn. Það er von, að sum héruð líti til slíkrar atvinnubótar hýrum augum, en ákvörðunin um, hvar slíkt fyrirtæki eigi að vera, má eigi stjórnast af hag eins bæjarfélags, heldur af alþjóðarhag.

Er það alþjóð fyrir mestu, að slík verksmiðja verði sett þar, sem best eru skilyrðin fyrir slíka verksmiðju.

Þótt undarlegt megi virðast hefir hin dugmikla og annars ráðsnjalla bæjarstjórn Akureyrar með hinum ötula bæjarstjóra sínum risið upp og krafist, að verksmiðjan verði sett upp á Akureyri.

Verður hér gerð grein fyrir rökum Akureyringanna og um leið í stuttu máli sýnt fram á, hverju þar skeiki, en svo síðan dregið fram nokkuð af þeim gögnum, sem óvéfengjanlega sanna, að verksmiðjan eigi að vera í Siglufirði.

Akureyringar segja:

Niðursuðuverksmiðjan á Akureyri gæti soðið niður síld af öllum stærðum frá því snemma á vorin og vetrum. Myndi þessi Eyjafjarðarsíld lengja reksturstíma verksmiðjunnar.

Verkafólk nóg á Akureyri, en ekki á Siglufirði. Þangað yrði að flytja verkafólkið að annars staðar frá að meiru eða minna leyti.

Að niðursuðuverksmiðja á Akureyri gæti betur en á Siglufirði soðið niður garðávexti og aðrar landbúnaðarvörur.

Fyrsta:

Þótt niðursuðuverksmiðjan yrði á Akureyri leiddi ekki af því, að síld úr Eyjafirði, utan herpinóta og reknetjaveiðitímabilsins fengist nægileg til verksmiðjunnar.

Utan reknetja- og herpinótaveiðitímabilsins er síldin í Eyjafirði veidd í lagnet og er engin trygging fyrir því, að sú veiði gefi nægilega síld til þess að birgja niðursuðuverksmiðjuna með nægilegu hráefni (nýrri síld), heldur þvert á móti.

Hér er að ræða um stóra verksmiðju, sem (á 2 vökum á sólarhring) gæti unnið 96 þúsund dósir, er jafngilda myndi um 700 tunnum síldar á sólarhring sem hráefni.

Má af því telja, að líklegt sé, að ekki yrði tryggt, að verksmiðjan gæti reglulega fengið hráefni sitt. Menn muna enn hve oft það hefir komið fyrir, að svo mikið sem beitusíld hefir ekki fengist í Eyjafirði.

En þótt agnúum þessum væri sleppt, er það verst fyrir Akureyri að skip með veiðisíld til Akureyrar á aðal-síldveiðitímabilinu, t.d. reknetjasíld yrðu að fella niður nær aðra hvora veiðiferð vegna þess, hve lengri tíma það tekur veiðiskipin- að koma síldinni til Akureyrar en til Siglufjarðar, en það þýðir, að ný síld til Akureyrar verksmiðju yrði miklu dýrari en til niðursuðuverksmiðju í Siglufirði, og yrði það eitt atriði út af fyrir sig, til þess að útiloka niðursuðuverksmiðju á Akureyri, en margt fleira kemur til greina, er rætt verður síðar.

Annað:

Það er eflaust rétt hjá Akureyringum, að nóg búsett fólk sé á Akureyri til þess að taka að sér vinnu í niðursuðuverksmiðju, ef hún yrði þar.

Hitt er aftur á móti rangt hjá þeim aðiljum, að í Siglufirði sé ekki nógu margt búsett fólk til þess að vinna í verksmiðjunni. Svo mikið er um atvinnuleysi hér utan síldveiðitímabilsins.

Hitt er auðvitað, að aðkomufólk myndi þá, meir en orðið er, geta fengið í Siglufirði vinnu við venjulega síldarverkun um síldveiðitímabilið.

Afleiðing af niðursuðuverksmiðju í Siglufirði yrði því aukin sumarvinna við verkun síldar fyrir marga landsmenn utan Siglufjarðar, en ekki, ef verksmiðjan yrði á Akureyri.

Eru það ekki einstæð meðmæli með verksmiðjunni, í Siglufirði? Siglufjörður býður m.ö.o. alþjóð meiri vinnu aðkomufólki, verkafólki dýrmætustu fáanlegu sumarvinnu, ef niðursuðuverksmiðjar verði í Siglufirði.

Ekkert hérað getur boðið verkalýð annarra héraða annað eins. Það er því, þegar af þessu eina atriði, óvéfengjanlegt, að það er öllum verkalýð í landinu hagkvæmara, að niðursuðuverksmiðjan verði í Siglufirði en annars staðar.

Við það fær verkalýður landsins meira tækifæri að sækja til arðsömustu sumarvinnunnar í landinu, síldarverkunarinnar. Væri því ótrúlegt, að fulltrúar verkamanna annarra héraða leggðu ekki að löggjafarþingi og stjórn að hafa niðursuðuverksmiðju í Siglufirði.

Virðist þetta atriði hafa snúist móti Akureyri, en Siglufirði í vil. En jafnvel þótt ástæður Akureyrar væru réttar eins og þeir halda fram, að nóg fólk til verksmiðjunnar væri á Akureyri, en ekki í Siglufirði, sem er rangt, er þá ekki staðreynd að: Atvinnuvegina á ekki að flytja eftir fólkinu, heldur fólkið eftir atvinnuvegunum, þagað sem þeim yrði best fyrir komið?

Þriðja:

Að betur megi til niðursuðu á Akureyri nýta garðávöxt og aðrar landbúnaðarvörur en í Siglufirði er vafasamt, þótt svo virðist í fljótu bragði.

Í fyrsta lagi er á það að líta, að með nokkuð nálægt því verði, sem nú er á landbúnaðarvörum er lítt arðsamt að hyggja á hyggja á niðursuðu.

Í öðru lagi er aðstaða Siglufjarðar til slíkrar niðursuðu allt önnur en nú, eftir að bifreiðavegur kemur við hinar frjósömu landbúnaðarsveitir Skagafjarðar, en það verður sennilega á næsta ári.

A.m.k. geta slík sjónarmið ekkert skorið úr um niðursuðuverksmiðju á Akureyri. Mjólkur og garðávaxtaniðursuða hlýtur og að þurfa allt aðrar vélar en síldarniðursuðu, þegar af þeim ástæðum skiptir það atriði varla máli til úrlausnar.

Látum við þá útrætt um Akureyri, en athugum SIGLUFJÖRÐ sem stað fyrir niðursuðuverksmiðju:

Niðursoðin síld verður best með því, að sem stystur tími líði frá því, að síldin sé veidd þar til hún sé komin niður í dósirnar.

Ekki verður hægt að ætla, að nokkur mæli á móti þessari setningu, þessari staðreynd, og heldur ekki hinu, að styttra sé að fara með hafsíldina til Siglufjarðar af veiðisvæðinu en til Akureyrar.

Taka þarf bestu og nýveiddustu síldina til niðursuðu, svo að niðursuðuafurðirnar verði sem bestar. Það er stutt af veiðisvæðinu til Siglufjarðar, en langt til Akureyrar.

Þetta er aðalatriðið og þetta eina atriði setur Akureyri sem niðursuðubæ til hafsíldarniðursuðu miklu neðar en Siglufjörð.

Þá er þess að geta, að til Siglufjarðar berst svo mikill aragrúi síldveiðiskipa með síldveiði sína, og er því þar, á Siglufirði, af svo miklu að taka ef velja á handa niðursuðuverksmiðjunni það allra besta verður af þessu enn auðskildara, og óhugsanlegt er, að Akureyri geti keppt við Siglufjörð um síldargæðin.

Auk þess veiðist nýr þorskur, ýsa og töluvert af heilagfiski mikinn hluta ársins til Siglufjarðar, en langt að flytja til Akureyrar. Þetta skilja útlendingarnir, sem eru kunnugir. Það er alkunna, að þeir kinoka sér við að kaupa síld á Akureyri, ef þeir geta fengið síld í Siglufirði.

En það eru fleiri en útlendingarnir, sem finna þetta. Það er sem sé álit allra, sem vit hafa á síld, að hafsíld verkuð á Akureyri, geti ekki verið eins góð og nýveidd síld verkuð á Siglufirði, svo framarlega, sem ekki sé um þá undantekningu að ræða. að

síldin verkuð á Akureyri sé nýveidd nálægt Akureyri, sem sjaldgæft er um síldveiðitímann.

Akureyri getur því ekki jafnast á við Siglufjörð um niðursuða síldar. Að sjóða niður garðávexti myndi lítil til framdráttar verksmiðjunni. Þegar þeir berast að, stæði síldarniðursuðan sem hæst. Verð þeirra er það hátt, að lítil líkindi væru til þess, að það svaraði kostnaði.

Meðal annars, sem mælir með Siglufirði sem hentugum stað fyrir niðursuðuverksmiðju má benda á, hve mikið er hér um erlend skip, sem koma upp með farma og bíða alllengi sumars eftir farmi. Er þarna oft kostur ódýrari farmgjalda en annars staðar á Íslandi.

Fiskiútgerð og aðflutningur mikill af nýveiddum fiski, en ekki á Akureyri. Tvö atriði, sem einnig tala fyrir Siglufjörð.

Við niðursuðu fellur til sem afgangur, hausinn af síldinni, sporðugginn, innyflin og kviður síldarinnar. Í þessu eru mikið verðmæti, lýsis og mjölefnis, sem ekki nýtist nema í síldarverksmiðju, en telja má útilokað, að farið verði að reisa hana á Akureyri, en í S.R. á Siglufirði, kemur þessi síldarúrgangur að fullu gagni. Þótt ekki væri nema þetta eina, er niðursuðuverksmiðjan sjálfsögð í Siglufirði.