Árið 1939 - Síldarverksmiðjumálið

Einherji, 1. september 1939

Síldarverksmiðjumálið

Ágrip af viðtali Tímans við Eystein Jónsson, viðskiptamálaráðherra, um úrslit »Rauðku-málsins« og afstöðu Framsóknarflokksins til síldarverksmiðjumálana.

Í samtali sem Eysteinn Jónsson, viðskiptamálaráðherra, hefir átt við Tímann út af Rauðkumálinu þ.24. þ. m., getur hann þess, að einstakir menn innan Útvegsbankans hafi á síðastliðið vor beitt sér fast fyrir að bankinn ábyrgðist erlenda lánið til verksmiðjubyggingarinnar og veitti Siglufjarðarbæ viðbótarlán eftir þörfum og rekstrarlán og segir síðan:

"Endanlega afgreiðslu fékk málið ekki í fulltrúaráðinu og var beðið eftir því að séð yrði hvort leyfi fengist til að reisa verksmiðjuna og sérstaklega yrði athugað áður, hvort fært væri fyrir bankann að ráðast í stórfeldar lánveitingar og ábyrgðir vegna þessarar verksmiðjubyggingar.. - -

Eysteinn Jónsson, viðskiptamálaráðherra.
Ljósm.

Eysteinn Jónsson, viðskiptamálaráðherra.
Ljósm. "Alþingi"

Og ennfremur, eftir að hafa getið þess að atvinnumálaráðherra hafi veitt Siglufjarðarbæ leyfi til 2.500 mála verksmiðjubyggingar:

Þegar hér var komið var það nokkuð augljóst mál, að síldveiðarnar mundu bregðast að mjög verulegu leyti og valda bönkunum hér ásmat öllum öðrum, miklum fjárhagsörðugleikum.

Þótti því 4 af 5 fulltrúum í fulltrúaráði Útvegsbankans alveg einsætt, að það væri rangt af bankanum að bindast loforðum um stórfeld lán til stofnkostnaðar nýrrar verksmiðju og var ákveðið að gera það ekki.

Þessi ákvörðun er vitaskuld einungis tekin frá fjárhagslegu sjónarmiði og eftir athugun á því hvað þessir trúnaðarmenn bankans töldu honum fært eins og á stóð.--

Það er rangt að þetta Rauðkumál hafi verið gert að pólitísku máli, því að ráðherrar flokksins og aðrir forráðamenn Framsóknarflokksins, sem um það hafa fjallað, hafi álitið skynsamlegra að stækka ríkisverksmiðjurnar, en að byggja nýja verksmiðju á vegum Siglufjarðarbæjar og viljað fyrst og fremst leggja áherslu á stækkun Raufarhafnarverksmiðjunnar.

Þessa skoðun sína segir ráðherrann að þeir byggi aðallega á tvennu:

1. Það liggur fyrir, að ódýrara verður að stækka ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði, heldur að byggja nýja verksmiðju þar á staðnum og munar það mörgum hundruðum þúsunda króna, þar að auki myndi vinnslukostnaður í slíkri viðbótarverksmiðju verða minni en í nýrri verksmiðju. Það er því beint hagsmunamál útgerðarmanna í heild að sú leið verði farin, í stað þess að flana að því nú að byggja upp bæjarverksmiðjuna.

2. Ef ný verksmiðja væri byggð á vegum bæjarins á Siglufirði, á þann hátt, sem forsvarsmenn Rauðkumálsins hafa viljað, þá yrði sú verksmiðja að öllu leyti byggð á ábyrgð Útvegsbankans og rekin með hans áhættu, en sá banki er hinsvegar rekinn að mestu leyti með áhættu ríkisins. Niðurstaðan hefði því orðið sú, að hin nýja verksmiðja hefði verið byggð á ábyrgð hins opinbera. Málið hefði horft nokkuð öðruvísi við, ef ekki hefði verið ætlunin, að bæjarverksmiðjan yrði beinlínis byggð og rekin á ábyrgð Úrvegsbankans".-

Og enn, segir ráðherrann:

"Andstæðingablöðin hafa reynt í sambandi við þetta mál, að halda því fram, að afstaða Framsóknarmanna sýni að þeir séu mótfallnir allri aukningu á bræðsluafköstum í landinu.

Þetta er vitanlega með öllu tilhæfulaust. Framsóknarmenn munu eindregið beita sér fyrir aukningu ríkisverksmiðjanna, á þann hált, sem ég hefi áður greint frá. Um það mun heldur enginn ágreiningur vera við aðra flokka, að það sé Raufarhafnarverksmiðja, sem eigi að byggja fyrst. -

Ágreiningurinn er um það, hvort skynsamlegra sé að byggja síðan nýja 2.500 mála verksmiðju á Siglufirði, eða auka afköst Síldarverksmiðju ríkisins þar um 2.500 mál.

Síðari leiðin er tvímælalaust hagkvæmari, bæði fyrir hið opinbera og útgerðarmenn.

Auk þess er fyrsta leiðin ekki fær, þar sem Siglufjarðarbær hefir ekki grænan eyri til þess að leggja í verksmiðjubyggingu og Útvegsbankinn hefir ekki talið sér kleyft að lána þau hundruð þúsunda króna, sem, þurfa til slíkrar framkvæmda.

Ofstopinn í þessu "Rauðku" máli er runninn undan rifjum þeirra, sem hafa ætlað sér að hafa pólitískan ávinning af yfirráðum hins nýja atvinnufyrirtækis á Siglufirði. -

Útgerðarmenn og sjómenn hafa áreiðanlega engan brennandi áhuga fyrir því, að síldarbræðslurnar séu reknar á vegum kommúnistanna þar.

Þeir hafa hinsvegar áhuga fyrir því, að bræðsluafköstin séu aukin á hinn ódýrasta og hagkvæmasta hátt. Fyrir því hafa Framsóknarmenn líka barist.