Árið 1939 - Rauðka-09 - Rauðku-málið. Blekkingar andstæðinga málsins og rökþrot

Neisti, 30. ágúst 1939 Erlendur Þorsteinsson

Verður dráttur atvinnumálaráðherra á leyfisveitingu til endurbyggingar Rauðku og brigðmælgi bankaráðs Útvegsbankans þess valdandi að nauðsynleg aukning verksmiðja í landinu, kemst ekki í framkvæmd fyrir næstu síldarvertíð?

Ef Rauðka hefði verið endurbyggð eins og lánsfé var fyrir hendi til að gera, hefði það þýtt um 250 þúsund mála aukin verksmiðjuafköst í meðalári og fært þjóðinni um 2 miljónir í erlendum gjaldeyri.

Er ekki ennþá fengið lán til byggingar á Raufarhöfn, þrátt fyrir margendurtekin loforð núverandi atvinnumálaráðherra og fyrrverandi fjármála- og núverandi viðskiptamálaráðherra?

Margt hefir þegar verið rætt og ritað í sambandi við hið svokallaða -"Rauðku" mál og í sambandi við það, síldarbræðslumálin yfirleitt.

Erlendur Þorsteinsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Erlendur Þorsteinsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Hefir þegar verið rakinn undirbúningur málsins og hin dæmalausa afgreiðsla þess, fyrst hjá atvinnumálaráðherra og síðar hjá bankaráði Útvegsbankans að tilhlutun viðskiptamálaráherra.

Fyrst þegar andstæðingar þessa máls hreyfðu andmælum gegn því, var það þess vegna að þeir teldu ekki nægilegan skipaflota fyrir hendi, og væru hræddir um að Siglufjarðarbær fengi ekki nægilega síld til verksmiðja sinnar, yrði því tap á verksmiðjunni sem lenti á bænum. Umyggja þeirra vinanna, að fornu og nýju, Sveins Ben. og Þormóðs Eyjólfssonar fyrir Siglufjarðarkaupstað, ber alltaf yfir sér hinn sama hreina og fölskvalausa blæ.

Allt vilja þeir fyrir bæinn gera, blessaðir!! Sama umhyggja kemur fram í viðtali sem birtist við atvinnuálmaráðherra um þessi mál í Morgunblaðinu nýlega, þar sem hann telur að ef tap yrði, mundi bærinn þurfa á hjálp ríkisins að halda.

Þá væri þó munar um einkafyrirtæki!! Hefir atvinnumálaráðherra sennilega átt við Kveldúlf.

Töpin hans lenda ekki á ríkissjóði, heldur á bönkunum og þeir eru sennilega óviðkomandi ríkissjóði, að áliti alvinnumálaráðherra.

Síðar í sama viðtali telur sami ráðherra að vandalaust muni vera að fá lán til slíkra arðvænlegra fyrirtækja.

Slík rök, eða öllu heldur rökblekkingar, verða varla teknar alvarlega. Ef fyrirtækið er arðvænlegt hjá einstaklingi, er sama fyrirtæki einnig arðvænlegt sem bæjarrekstur og því fremur von um arð, sem fyrirtækið greiðir hvorki tekjuskatt né útsvar. Sé hinsvegar um tap að ræða, hjá fyrirtækinu lendir það engu síður á ríkinu, þótt einstaklingsfyrirtæki sé en bæjarfyrirtæki.

Í báðum tilfellum mundu töp fyrirtækisins lenda á bönkunum. Ef fyrirtækin síðar eigi reyndust fær að greiða þau töp, myndu þau lenda á ríkissjóði, sem ber ábyrgð á báðum þeim bönkum sem til mála koma um slíkar lánveitingar.

Meirihluti verksmiðjustjórnar S.R. gefur út Einherja 26. þ.m. Birtast þar stórar fyrirsagnir:

1) um stækkun Raufarhafnar, enda þótt þeir viti að því miður, mun ennþá ófengið lán, til þeirrar byggingar,

2) að unnið sé kappsamlega að því, að S.R-30 og S.R.P. verði stækkaðar um 5.000 mál, enda þótt þeir viti, að gersamlega er vonlaust að nokkur viðbót fáist fyrir næstu síldarvertíð,

3) að löndunartækjum verði komið upp á Siglufirði og Raufarhöfn, enda þótt þeir segi síðar í sama blaði, að þeir hafi sótt um gjaldeyrisleyfi til löndunartækja s.l. 2 ár, en árangurslaust.

Hvaðan á nú að koma gjaldeyrir? Eða er kannski útlitið ekki eins ískyggilegt með gjaldeyri og þeir vilja vera láta, þegar um stækkun Rauðku er að ræða.

Í fyrirsögn sömu greinar reyna þeir á lævíslegan hátt að læða því inn, að stækkun Raufarhafnar sé þeirra mál einna og fella niður bókun minnihlutans um stækkunina á Raufarhöfn.

Allir vita að verksmiðjustjórnin er öll einhuga og sammála um stækkun Raufarhafnar, en slíkar er heiðarleiki þeirra vinanna Sveins og Þormóðs í garð samstarfsmanna sinna.

Að endingu klykkja þeir út með því að birta svör, en ekki það sem svarað er, sem hvergi hefir birst áður, mun slíkt einsdæmi í Íslenskri blaðamennsku, en sýnir glögglega ráðþrot og blekkingarhneigð þeirra félaga.

Álitsgerðum meirihlutans og svari hafa þeir Snorri Stefánsson og Þórhallur Runólfsson svarað og hnekkt að fullu.

Geta þeir sem þekkja báða aðila, dæmt um hverjir munu færari að dæma um þessi mál, Snorri Stefánsson, elsti og reyndasti vélstjóri í síldariðnaði hér á landi og vélaeftirlitsmaður ríkisins, Þórður Runólfsson eða þeir Sveinn Benediktsson, Þormóður Eyjólfsson og vegaverkfræðingurinn Jón Gunnarsson.

Í leiðara sem birtist nýlega í Morgunblaðinu er því haldið fram, að deila hafi staðið um það, hvort byggja ætti "Rauðku" eða Raufarhöfn.

Þetta er algerlega rangt og aðeins einn þáttur í þeirri blekkingarherferð, sem andstæðingar málsins hafa hafið.

Ríkisstjórnin hefir sjálf lofað láni til Raufarhafnar og gat það að engu komið í bága við eða haft nokkurt samband við endurbyggingu Rauðku. Allir sem staðið hafa með byggingu "Rauðku" hafa talið það sjálfsagt og víst og verið þess fýsandi, að Raufarhafnarverksmiðjan kæmist upp, en jafnframt talið það eins víst og sjálfsagt, að notfæra þá möguleika sem fyrir hendi voru að auka afkös síldarverksmiðjanna með erlendu lánsfé.

Enginn veit sína ævina fyrr en öll er, má með sanni segja um Ólaf Thors, atvinnumálaráðherra. Enginn var stóryrtari eða illyrtari en hann um Harald Guðmundsson atvinnumálaráðherra, er hann vildi ekki, veita Kveldúfi verksmiðju byggingarleyfi 1937.

Var þó ólíku þar til að dreifa, þar sem um var að ræða gjaldþrota fyrirlæki, sem hefði átt að gerast upp, ef jafnt væri látið ganga yfir alla af bankanna hálfu.

Hverjum hefði dottið í hug, að á því herrans ári 1939, myndi sami Ólafur Thors, sem atvinnumálaráðherra, draga í 4 mánuði að veita leyfi til byggingar nýtísku 5.000 mála verksmiðju, og það þegar honum á sama tíma var vitanlegt, að ríkisverksmiðjurnar ekki gátu, vegna fjárskorts framkvæmt þá aukningu, sem að allra dómi sem til þekkja og um þessi mál fjalla, er nauðsynlegt að komi fyrir næstu vertíð og þar sem hann einnig vissi, að óvist var með öllu um lán til Raufarhafnar.

Loksins þegar þessi ráðherra rausnast til, eftir 4 mánaðar umþenkingar og heilabrot, að veita leyfið, er það einungis hálft, helmingurinn varð eftir vegna of langs umhugsunartíma.

Daginn eftir að hálfa leyfið kom, hélt svo bankaráð Útvegsbankans fund til þess að samþykkja að, ganga frá gefnu loforði um stuðning við lánið, til þess að gera að engu þennan helming, sem komst í gegnum heila ráðherrans.

Lítilþægur gerist nú ráðherrann, þegar hann lætur flokksmenn sína í undirtyllustöðum, eyðileggja verk sín í ráðherrastóli.

Þessir tveir aðilar, atvinnumálaráðherra með seinlæti sínu og hálfri leyfisveitingu og bankaráð Útvegsbankans, bera ábyrgð á því, ef ekki verður framkvæmd nauðsynleg aukning á síldariðnaðinum í landinu fyrir næstu síldarvertíð.

Sömu aðilar bera ábyrgð á tekjurýrnun og atvinnuleysi þeirra sjómanna og verkamanna, sem við það skapast, ef verksmiðjuafköstin ekki verða aukin, svo sem unnt var, ef lánstilboð það, sem bæjarstjórn Siglufjarðar hafði, hefði að fullu verið notað.

Sömu aðilar bera einnig ábyrgð á því, að í meðalári tapast, samkvæmt útreikningi Útvegsbankans, um 2 miljónir í erlendum gjaldeyri, ef þessi aukning ekki kemst í framkvæmd.

Heyrst hefir að enn sé ekki fengið lán til Raufarhafnarverksmiðjunnar, en að þeir Ásgeir Ásgeirsson af hálfu ríkisstjórnarinnar og Jón Gunnarsson af hálfu verksmiðjustjórnar, hafi farið utan til þess að fá lánið.

Vonandi tekst þeim að fá þetta lán, svo að hin nauðsynlega verksmiðja á Raufarhöfn, sem allir eru sammála um að eigi að koma, verði byggð fyrir næstu síldarvertíð.

En það er ekki nóg. Þjóðin hefir ekki efni á því, að láta ónotaða þá möguleika sem fyrir hendi eru, til þess að auka síldariðnaðinn í landinu og bæta afkomumöguleika útgerðarmanna, sjómanna og verkamanna.

Fjöldi útgerðarmanna, sjómanna og verkamanna hafa krafist þess að leyft yrði að byggja síldarverksmiðjuna "Rauðku". Þeir hafa krafist þess að nýju að leyfið yrði veitt og bankaráð Útvegsbankans stæði við gefin loforð. Bygging 5.000 mála verksmiðju er ekkert sérmál Siglufjarðar eða Siglfirðinga, heldur einróma krafa útgerðarmanna, sjómanna og

verkamanna um það, að notaðir séu á hverjum tíma þeir möguleikar sem fyrir hendi erti til aukinnar framleiðslu og atvinnu og til öflunar gjaldeyris.

Þessir aðilar eiga kröfu til þess að þeir menn sem skipa æðstu valdastöður í þjóðfélaginu, breyti eftir því sem best er fyrir þjóðina í heild á hverjum tíma, en láti ekki sérhagsmuni eða pólitískan valdahroka einstakra manna standa í vegi fyrir nauðsynlegum framkvæmdum og aukinni atvinnu fjölda manns.

Ennþá er ekki of seint fyrir þá aðila, sem hér um ræðir að bæta ráð sitt og standa ekki í vegi fyrir því, að notaðir verði þeir möguleikar sem fyrir hendi eru til aukningar síldarverksmiðja fyrir næstu síldveiðivertíð.

Erlendur Þorsteinsson.