Tengt Siglufirði
Tíminn 31. ágúst 1939
Rauðkumálið Það má næstum furðulegt heita, hversu mikill styr hefur orðið um hið svonefnda Rauðkumál. Málið er sérstaklega einfalt og hver meðalgreindur maður ætti ekki að þurfa langan umhugsunartíma til þess að geta áttað sig á því.
Öllum kemur saman um, að nauðsynlegt sé að auka bræðslugetu síldarverksmiðjanna í landinu. Um það atriði þarf því ekki frekari umræður. Langflestir munu einnig sammála um, að nauðsynlegasta aukning síldarverksmiðjanna sé stækkun ríkisverksmiðjunnar á Raufarhöfn. Enginn ágreiningur virðist heldur um það, hversu mikil stækkun hennar eigi að vera. Hitt veldur ágreiningi, hvort næsta skrefið skuli vera.
Eru aðallega uppi tvær stefnur. Önnur er sú, að Siglufjarðarbær byggi 5000 mála verksmiðju í stað 1000 mála verksmiðju, sem hann rekur nú.
Hin er sú, að frekar eigi að stækka ríkisverksmiðjurnar þar um 5000 mál. Þegar athugaðar eru þessar tvær leiðir, ætti engum að blandast hugur um, hvor þeirra sé æskilegri og sjálfsagðari. —
Byggist það á þessum ástæðum:
Stækkun ríkisverksmiðjanna kostar nokkrum hundruð þús. kr. minna en ný verksmiðja og er meginhluti þess mismunar í erlendum gjaldeyri. Reksturskostnaður yrði mun minni hjá ríkisverksmiðjunum en bæjarverksmiðjunni, vegna þess að þær þyrfti ekki að fjölga starfsliði sínu að ráði, þótt vinnslugeta þeirra ykist. Siglufjarðarbær hefir ekkert fjármagn til að leggja í verksmiðjubyggingu. Hann verður því að fá allt að láni. Hafði bærinn gert sér vonir um að fá nokkurt erlent lán gegn ábyrgð Útvegsbankans og Útvegsbankinn lánaði síðan viðbótina úr sinum eigin vasa. Þar sem ríkið ber ábyrgð á Útvegsbankanum, myndi sá skellur, sem hlotizt gæti af þessari framkvæmd, því raunverulega lenda á ríkinu. —
Þessi verksmiðja væri því raunverulega rekin á ábyrgð ríkisins eins og hinar verksmiðjurnar, en því fylgdi sá aukni ókostur, að það gæti engu ráðið um stjórn hennar. Þessar röksemdir eru hver um sig svo þungar á metum, að engum heilvita manni ætti að koma til hugar að frekar ætti að byggja bæjarverksmiðjuna en að auka ríkisverksmiðjurnar. Frá sjónarmiði þjóðarinnar, sem vantar fjármagn og gjaldeyri til margvíslegra framkvæmda, er það hreinasta óráð, að fara ekki ódýrustu leiðina til að auka síldarverksmiðjurnar. Frá sjónarmiði útgerðarmanna og sjó- manna er það meginatriði, að verksmiðjurnar verði auknar á þann hátt, að bræðslukostnaðurinn verði sem allra minnstur, svo þeir geti borið sem mest úr bítum.
Frá sjónarmiði ríkisins verður vitanlega að gæta þess vandlega, að það geti ráðið sem mestu um stjórn þeirra fyrirtækja, sem rekin eru á ábyrgð þess. Þeir menn, sem hafa barizt fyrir bæjarverksmiðjunni, hafa ekki haft neitt þessara sjónarmiða í huga. Þeir hafa ekki litið á málið frá sjónarhæð þjóðarhagsmunanna, ríkisins, sjó mannanna eða útgerðarmannanna. Þeir hafa ekkert um það skeytt, að láta ráðdeild og fyrirhyggju stjórna gerðum sínum. Þeir hafa einblínt á það, að kommúnistar voru búnir að afla málinu nokkurra vinsælda á Siglufirði. Þeir hafa eingöngu látið stjórnast af hinni pólitísku veiðivon.
Fyrir henni varð alt annað að víkja. Framkoma þeirra jafnaðarmanna og Sjálfstæðismanna, sem veitt hafa Rauðkumálinu gengi, verður ekki skýrð á annan hátt. Það má næsta furðulegt telja, hversu kommúnistum hefir tekizt að telja Siglfirðingum trú um nauðsyn bæjarverksmiðjuunnar. Sannleikurinn er sá, að atvinnuþörf Siglfirðinga sjálfra krefst ekki aukningar síldarverksmiðja þar á staðnum, því þeir hafa næga atvinnu yfir síldveiðitímann.
Það, sem Siglfirðingar þarfnast miklu frekar, er eitthvert atvinnufyrirtæki, sem skapar vinnu yfir veturinn, og hefði bæjarstjórnin ætlað að gera atvinnumálum þeirra gagn, átti hún að láta það atriði til sín taka. Það er líka fullkomin draumsýn, að láta sér detta í hug, að hin nýja verksmiðja yrði tekjulind fyrir bæjarfélagið, þar sem hún myndi, sökum samkeppni ríkisverksmiðjanna, verða að selja vinnu sína fyrir áætlað sannvirði. Hún hefði því langtum meiri skilyrði til að tapa en græða.
Hinsvegar lýsir þetta vel hugarþelinu til sjó- manna, þar sem ætlazt er til, að okur á síldarvinnslunni verði gróðavegur fyrir bæinn. Siglfirðingar verða því að fara aðra leið, ef þeir ætla að skapa sér aukna vetraratvinnu og bænum nýrra tekna.
Væri forráðamönnum bæjarins vissulega nær að reyna að leita nýrra úrræða en að flagga með mál, sem ekki kemur að neinu gagni í þessum efnum. Slíkt getur ekki verið gert til annars en að draga athyglina frá úrræðaleysinu og aumingjaskapnum.
Rauðkumálið hefir nú fallið úr sögunni, þar sem bankaráð Útvegsbankans hefir ekki þorað að leggja mörg hundruð þús. kr. í áhættufé vegna þessa fyrirtækis. Vonandi er með því kveðin niður sú tilraun, að auka síldarverksmiðjurnar í landinu á dýrari og óhagkvæmari hátt en þörf krefur, eyða þannig miklu fé að óþörfu og gera reksturinn óheilbrigðan. Þess ætti jafnframt að mega vænta, að það kæmi ekki fyrir aftur, að menn úr ábyrgum stjórnmálaflokkum láti pólitíska veiðimennsku hafa meiri áhrif á gerðir sínar en skynsamlega ráðdeild og hagsmuni þjóðarheildarinnar. Þessir menn mega líka vera þess fullvissir, að meirihluti þjóðarinnar hefir það heilbrigða dómgreind, að því fylgir engin pólitísk gæfa að þreyta slíkt kapphlaup við kommúnistana.
Afstaða Framsóknarflokksins hefir alltaf verið skyr og eindregin í þessu máli. Hann vill auka síldarverksmiðjurnar á hinn ódýrasta og hagkvæmasta hátt. Þess vegna hefir hann verið andvígur byggingu bæjarverksmiðjunnar á Siglufirði og andstöðu hans má fyrst og fremst þakka, að ekki var hrapað að neinu í því máli með fyrirhyggjuleysi. Þess vegna vill hann fyrst stuðla að byggingu Raufarhafnarverksmiðjunnar og síðan að aukningu ríkisverksmiðjanna á Siglufirði. Þessari stefnu mun hann fylgja fast fram og beitast fyrir því, að framkvæmdum verði hraðað eins mikið og geta þjóðarinnar leyfir. En þess þurfa menn að gæta vel, að þótt margar framkvæmdir séu þarfar og nauðsynlegar, leyfir geta þjóðarinnar það ekki, að þær séu gerðar allar í einu.
Hræddir menn með slæmt mál Tíminn 31. Ágúst 1939
Eftir því, sem dagblöðin í Reykjavík herma, var haldinn einkennilegur æsingafundur í Siglufirði síðastliðinn sunnudag. Kommúnistar stóðu fyrir því fundarhaldi með einhverjum liðstyrk frá Alþýðuflokknum og Sjálfstæðismönnum. Á fundinn var boðið meirahluta verksmiðjustjórnarinnar, aðeins í því skyni að geta ráðizt á þá menn með dónaskap, án þess að þeir ættu að hafa nokkra verulega aðstöðu til að skýra málin frá sinni hlið. Þegar sýnt var að ekki átti að beita mannasiðum, gekk verksmiðjustjórnin af fundi.
Kommúnistar og fylgifiskar þeirra, Erlendur Þorsteinsson og Finnur Jónsson, héldu þá áfram árásum og illindum við fjarstadda menn.
En þegar þeir Þormóður Eyjólfsson, Þorsteinn M. Jónsson og Sveinn Benediktsson gengu út, eggjaði Áki Jakobsson samherja sína opinberlega til að beita stólfótaaðgerðum og ráðast með ofbeldi á þessa „heiðursgesti" fundarins, en þeirri ósk hans var ekki hlýtt. Eini verulegi árangurinn af fundinum var sá, að í fundarlok samþykktu kommúnistar og Finnur Jónsson á ísafirði, að Þormóður Eyjólfsson, sem í 20 ár hefir verið mestur og áhrifaríkastur maður i bænum um efnahag og menningarmál Siglufjarðar, skyldi tafarlaust leggja niður umboð sitt í bæjarstjórn kaupstaðarins.
Meðan hitinn var í stólfótaliðinu fannst því auðsýnilega, að það væri móðgun við staðinn, að í bæjarstjórninni væru menn, sem hefðu eitthvað til brunns að bera annað en þá eiginleika, sem skína á þeim samkomum, þar sem menn hafa lagt klæði menningar og góðra siða til hliðar um óákveðinn tíma.
Fundarboðendur byrjuðu samkomu sína með því að gera sitt ítrasta til að hindra, að sjó menn og útgerðarmenn gætu komizt inn í fundarhúsið. Þar kom fram hin gamalkunna að ferð ýmsra verklýðsleiðtoga að fórna rétti og hagsmunum sjómanna hvenær sem því er að skipta. Sjómaðurinn má vera í óvissunni um afkomu sína eins og landbóndinn. En lífvörður æsingamanna í landi á að vera tryggður gegn öllum óhöppum, líka því, ef síldin bregst með öllu. Tvennt er einkennilegt við þetta stólfótabrask á Siglufirði:
Form fundarins og efni fundarins. Málefni fundarins var það, að Helgi Guðmundsson hafði í vetur, og sumar verið í félagsskap við kommúnista í Siglufirði um að koma upp síldarbræðslu. Bærinn, undir stjórn kommúnista, hafði býsna lítið að leggja fram í fyrirtækið, nema þann viturleik og þá menningu, sem þeirra lið sýndi á sunnudagsfundinum. Útvegsbankinn, sem er eign allra landsmanna, átti að ábyrgjast mikinn hluta lánsins erlendis og leggja fram mörg hundruð þúsund íslenzkar krónur í mannvirkið.
Þegar til kom, voru 4 af 5 fulltrúum í bankaráði Útvegsbankans mótfallnir því, að Útvegsbankinn væri áfram í flatsæng og braski með Helga Guðmundssyni og Áka Jakobssyni. Bankaráðið hafði bæði skyldu og vald til að taka lokaákvörðunina um þetta efni og bankaráðið áleit auðsýnilega, að það hefði betur vit á, hvað bankanum hentaði um ábyrgðir og fjárútlát heldur en kommúnistar á Siglufirði.
Sama bankaráðið hafði nokkrum vikum áður tekið af Helga Guðmundssyni aðal forustuna um málefni bankans. Bandamönnum hans í Siglufirði má vera það ljóst, að hér eftir þýðir þeim ekki að gera til hans ósanngjarnar kröfur. Ef um sæmilega mannaða fundarboðendur hefði verið að ræða, myndu þeir hafa sagt um málsmeðferð fundarins:
Hér eru sumir menn, sem álíta landinu og bænum heppilegt að stækka Rauðku. En hér eru líka aðrir menn og alveg sérstaklega meiri hluti verksmiðjustjórnar, sem er mótfallinn þessari stækkun eins og hún er ráðgerð.
Við höldum fund um þetta mál og skiptum ræðutíma jafnt milli beggja aðila.
Fundarmenn fá þá að heyra rökin frá báðum hlið um og geta myndað sér skoðanir um málið.
En í stað þess beita fundarboðendur ítrustu hlutdrægni í öllu, bæði um fundarsókn við útgerðarmenn og sjómenn og síðan varna þeir öðrum málsaðilanum nálega alveg að geta skýrt málið frá sínu sjónarmiði.
Framkoma Finns Jónssonar, Erlends Þorsteinssonar og Áka Jakobssonar sýnir, að þeir hafa ekki treyst sér að verja mál sitt nema með ofbeldi. Þeir hafa vitað, hve vonlaus var málstaður þeirra og þeir hafa, sem ekki er óskynsamlegt í sjálfu sér, vantreyst hæfileikum sínum til að mæta andstæðingunum í drengilegum rökræðum. Fundarboðendur hafa þess vegna sýnt að þeir vantreystu bæði sjálfum sér og málstað sínum.
Hitt atriðið, tregða bankaráðsins að leggja út í verksmiðjubyggingu, verður skiljanleg, ef athugað er strand Helga Guðmundssonar með alveg hliðstætt mál fyrir nokkrum árum. Hann ætlaði þá að hjálpa stóru íslenzku iðnfyrirtæki til að reisa mikil hús og kaupa dýrar vélar, en þegar nokkur byrjun var komin á verkið, sprakk hann með framlög sín. Vélarnar voru komnar til landsins og stofnendurnir höfðu lagt fram mikið fé úr eigin vasa, en þegar Helgi gat ekki hjálpað meira, hættu framkvæmdirnar um stund.
Útlendingarnir ætluðu að flytja vélarnar úr landi. Eigendur fyrirtækisins og Útvegsbankinn myndu þá hafa tapað nálega hverjum eyri, sem þeir höfðu lagt í fyrirtækið. Annar banki hljóp í það sinn undir bagga og bjargaði fyrirtækinu, en sízt var það að þakka Helga Guðmundssyni. Mér er ókunnugt um fjárhagsaðstöðu Útvegsbankans, en ég efast um að hún sé verulega sterkari heldur en á þessari slysatíð Helga Guðmundssonar. En yfirstjórn Útvegsbankans er áreiðanlega betur vakandi heldur en þá var.
Bankaráðið hefir öðlazt meiri skilning á hæfileikum Helga Guðmundssonar og í því tilefni losað hann við húsbóndarétt í bankanum, sem hann þráði svo mjög og hélt svo mjög á lofti. Kommúnistar í Siglufirði hafa að líkindum ekki áttað sig á því, að aðstaða bandamanns þeirra í Útvegsbankanum hefir breytzt að mjög verulegu leyti. Bankaráðið mun, svo sem vonlegt er, vilja hafa trausta og fasta stjórn á málefnum þessarar stofnunar. Bankaráðinu myndi þykja mikil minnkun, ef bankinn legði út í fyrirtæki, sem ekki væri hægt að fullgera. Slík ráðsmennska lamar banka og verður þeim oft að falli.
Það er óskiljanlegt með öllu, að Siglufjarðarbæ væri nokkur ávinningur í því, að Helgi Guð mundsson hefði endurtekið sitt fyrra æfintýri. í það sinn var honum og fyrirtækinu bjargað, en hver segir að nú væri hægt að bjarga? Sennilega færi gamanið af hinum skrúðmálgu kommúnistum í Siglufirði, ef útlendingar byrjuðu að flytja burtu vélar úr hálfsmíðaðri verksmiðju, en þar var komið hinu fyrra æfintýri Helga Guð mundssonar, þegar leiksoppum hans var bjargað úr höndum hans. Langlundargeð sumra manna er nálega óendanlegt. En í svipinn er mér ekki ljóst, hvaða menn hefðu geð til þess að taka við Áka, Erlendi og Finni, þegar Helgi Guðmundsson hefir misst þá úr fangi sínu.
J. J.