Árið 1939 - Tveir einkennilegir fundir

Einherji, 14. desember 1939 

Þann 6. þ.m. var haldinn hér bæjarstjórnarfundur. 2. liður dagskrárinnar var tillaga fulltrúa Framsóknarflokksins um sölu á Rauðku.

Þegar að þeim lið kom, lýsti forseti - Þóroddur Guðmundsson - tillögunni og um leið dagskrártillögu, sem 7 bæjarfulltrúar höfðu undirskrifað.

TILLAGAN.

Þar sem bæjarstjórn hefir ekki áhuga fyrir að selja síldarverksmiðju bæjarins, Rauðku, og ekkert kauptilboð liggur fyrir, sér bæjarstjórnin ekki ástæðu til að taka það mál til umræðu og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

  • Kristján Sigurðsson (sign)
  • Gunnlaugur Sigurðsson (sign)
  • Þóroddur Guðmundsson (sign)
  • Ó. Hertervig (sign)
  • Gunnar Jóhannsson (sigu)
  • Páll Jónsson (sign)

Að upplestri tillögunnar loknum, sagði forsetinn, að bæjarfulltrúarnir vissu, að dagskrártillögu mætti ekki ræða, bar hana svo tafarlaust undir atkvæði, sagði hana samþykkta með 8 atkvæðum gegn 1 og sleit fundi samstundis.

Fulltrúi Framsóknarflokksins, Þormóðu Eyjólfsson - vildi ekki sætta sig við slíkt eindæma ofbeldi.

Hann beindi því máli sínu til áheyrenda, sem munu hafa verið um 200 og nú voru í þann veginn að búast til brottferðar, og spurði hvort þeir vildu ekki doka við og hlusta á erindi um Rauðkumálið, þar sem sér nú í annað sinn væri bægt frá því af andstæðingum sinum að skýra, það frá sínu sjónarmiði á opinberum fundi.

Þessu var vel tekið, og menn gengu aftur til sæta sinna. Þormóður kallaði á húsráðanda og leigði fundarsalinn og hóf síðan mál sitt.

Talaði hann, hátt á aðra klukkustund. Rakti hann, sögu máls frá byrjun og lagði fram glögg og góð rök fyrir tillögum sínum.

Hafði hann hið besta hljóð og óskipta alhygli áheyrenda allan tíman. Var ræða hans að lokum þökkuð með dynjandi lófataki.

Þá bað Þóroddur um orðið. Þormóður sagði það heimilt, en þá yrði hann sjálfur að greiða leiguna fyrir húsið.

En áður, en Þóroddur fengi afráðið hvort hann ætli að færa slíka fórn, voru áheyrendur staðnir upp og flestir farnir.

Bæjarfulltrúunum semætlað höfðu að koma í veg fyrir að tillagan um sölu Rauðku væri opinberlega rædd, var sýnilega órótt. Þeim duldist ekki sú vaxsandi athygli, sem orðum Framsóknarfulltrúans var veitt.

Þeir sáu að menn voru að fá nýjan skilning á málinu. Eitthvað varð að gera. Og nú var gripið til þess að boða til almenns borgarafundar.

Sá fundur var 11. þ.m. Fór hann mjög á annan veg en fundarboðendur munu hafa ætlast til og endaði ótrúlega kátbroslega. Fer hér á eftir frásögn af honum.

Borgarafundurinn.

Fundur sá er stjórn Rauðku boðaði til s.l. mánudagskvöld var vel sóttur. Ó Hertervig flutti um klukkustundar framsöguræðu um hið margumtalaða Rauðkumál og reyndi að hnekkja ýmsum þeim rökum, er Þormóður Eyjólfsson flutti fyrir skemmstu á fundi í Alþýðuhúsinu og sem varð til, þess, að bæjarbúar fengu að heyra annað en hinn einróma áróður Rauðkumanna í þessu máli.

En áður hafði annað ekki, komist að, Þótti þeim nú nauðsyn að klóra í bakkann. Hlýtur ánægja þeirra að vera vafasöm eftir þá tilraun.

Þormóður Eyjólfsson svaraði með langri og ítarlegri ræðu. - Sýndi hann fram á og sannaði m.a. eftirfarandi fyrir fundarmönnum:

Að allir bankamenn og aðrir, sem um þetta mál fjölluðu, að einum einasta undanteknum, töldu hina mestu fjarstæðu að stækka Rauðku, þar sem árlegar vaxtagreiðslur yrðu að minnsta kosti 50 þúsund krónum meiri enn að sambærilegri stækkun á ríkisverksmiðjunum.

Að ekkert ákveðið lánsfé var fyrir hendi, og þar sem þess var leitað, hefði það orðið með okurvöxtum, sennilega 7-8% eða meira.

Sakir þess að ríkisverksmiðjurnar eiga Raufarhöfn, myndi ekkert skip gera samning við slíka verksmiðju, sem Rauðka er, rekin af bænum. Aðrar verksmiðjur sanna þetta mjög áberandi.

Að með því að reka verksmiðjurnar undir einni stjórn má spara háar fjárupphæðir á rekstrinum, sem gæti gengið til framleiðenda - sjómanna og útgerðarmanna.

Að með sölu Rauðku gæti bæjarfélagið bætt fjárhagsafkomu sína mikið. Lækkað skuldir sínar um helming og útsvör um a.m.k. 50 þúsund krónur og skapað skilyrði fyrir vetraratvinnu, sem er eitt mesta nauðsynjamál bæjarins. Benti ræðumaður t. d. á tunnugerð. Er það krafa fólksins, sem verður almenn, að bærinn leggi fjármuni sína fram til atvinnuaukningar þann tíma, sem atvinnuleysi ríkir, í stað þess að leggja í áhættasaman atvinnurekstur, sem aðeins veitir sumaratvinnu.

Lagði ræðumaður megináherslu á þá skyldu, sem þarna hvílir á bæjarstjórn. Andstæðingarnir gátu ekki hnekkt þessum rökum, en opinberuðu með karpi sínu hvað undirbúningur málsins frá þeirra hálfu var slæmur og traustið til þeirra lítið hjá þeim, er um málið áttu að fjalla.

Þeir gátu ekki breitt yfir það, að annað lá til grundvallar en hagsmunir framleiðenda og bæjarins, með þeirra brjálæðisfulla kapphlaupi við stækkun Síldarverksmiðja ríkisins.

Hin kommúnistíska lítilmennska einkenndi vaðal Þórodds Guðmundssonar að vanda. Hann flúði frá málstaðnum og jós upp persónulegum lygum og svívirðingum á andstæðingana bæði nær og fjær.

Þormóður Eyjólfsson lýsti í sinni fyrstu ræðu nýföllnum dómi á hendur honum, þar sem þar er dæmdur í allháa fjársekt fyrir ósannindi.

Þannig mætti alltaf fá orð hans dæmd ef tími væri til að eltast við það. Þetta sýnishorn af "Þórodds-sannleika" mun verða látið nægja í bili.

Ragnar Guðjónsson lýsti mjög rækilega baráttu Framsóknarflokksins fyrir byggingu Síldarverksmiðju ríkisins, sem hefði bjargað síldarútvegnum úr þeim ógöngum, sem hann var í.

Hvernig síldarútvegurinn hefði verið áhættusamasti atvinnuvegurinn, sem hér þekktist og hið mesta fjárhættuspil. En vegna verksmiðjanna og þeirrar fjölbreytni, sem þær skapa í framleiðslu, hefði myndast nokkuð jöfn miljóna framleiðsla á hverju ári.

Benti ræðumaður á þann mikla möguleika, er stefna Framsóknarflokksins gæfi öllum framleiðendum, þar sem hver getur fengið sannvirði fyrir framleiðsla sína. En þessi möguleiki hefir ekki verið notfærður sem skyldi, en þó meir í ár en áður. Sýndi hann fram á, hve meiningarlaus skrif Finns Jónssonar voru s.l. vor um síldarverðið, þar sem hann lét alla báta, sem hann réði yfir selja síldina föstu verði, nema tvo, er tóku áætlunarverð eftir kröfu hlutaðeigandi sjómanna.

Taldi ræðumaður að þetta sumar myndi geta aukið þeirra heilbrigðu stefnu Framsóknarflokksins fylgi, að framleiðandinn fái á hverjum tíma sannvirði framleiðslunnar.

Síðast á fundinum var svohljóðandi tillaga borin upp af bæjarstjórnar-meirihlutanum:

Almennur borgarafundur haldinn 11. des. í Bíóhúsinu á Siglufirði skorar á stjórn Rauðku og bæjarstjórn að láta engum takast að ná Rauðku úr eign bæjarins fyrir litið verð.

Óli Hertervig. - Þóroddur Guðmundsson. - Gunnlaugur Sigurðsson. - Aage Schiöth.

Þegar til atkvæðagreiðslu kom var liðið á nóttina og fátt fólk eftir. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og mega Framsóknamenn vel við una, þar sem hún felur í sér fyrst og fremst sjónarmið þeirra.

Hitt munu þeir ekki sakast um, þótt tillögumenn telji þörf á að gefa bæjarstjórnarmeirihlutanum (þ.e. sjálfum sér) áminningu um að skaða ekki bæinn með sölunni, eins og hann hefir gert í ýmsum öðrum hagsmunamálum bæjarins.

Má það teljast öllum góðum mönnum gleðiefni, að Rauðkumennirnir hafa vitkast vonum fyrr í þessu máli og er þess að vænta, að allir lýðræðissinnaðir Siglfirðingar standi hér eftir saman um þetta mikla velferðarmál bæjarins.