Árið 1939 - Rauðka-02 - Endurbygging og stækkun “Rauðku”

Mjölnir, 29. apríl 1939.

Eins og áður hefir verið skýrt frá hér í blaðinu sótti bæjarstjórnin um leyfi ríkisstjórnarinnar til að endurbyggja og stækka “Rauðku” uppi 5 til 6 þúsund mála afköst á sólarhring.

Ekkert svar hefur enn komið við þessari beiðni og þó undarlegt megi virðast er ekki fullvíst enn að leyfið fáist.

Við þær umræður sem fram hafa farið á Alþingi um vandamál þjóðarinnar virðast allir hafa talið það hina mestu nauðsyn að framleiðsla landsmanna yrði aukin og þá fyrst og fremst fiskveiðarnar, en eins og allir vita hefur síld­veiðin verið einna arðvænlegust af öllum fiskveiðum.

Vegna þess hve vel síldveiðarnar hafa borið sig undanfarin ár er síldveiðaflotinn að nú aukast, bæði eru keypt skip frá útlöndum og allar báta- og skipasmíðastöðvar á Íslandi eru önnum kafnar við að smíða stór og smá skip og liggja fyrir hjá þeim miklu fleiri pantanir um skip en þær geta afgreitt.

Engum blandast hugur um að stór hætta er fyrir dyrum ef síldarverksmiðjunum er ekki fjölgað, allir sem til þekkja vita, að í hverri einustu stórri síldarhrotu hefur fjöldi síldveiðiskipa þurft að bíða afgreiðslu við verksmiðjurnar og það stundum dögum saman í einu. En hvað mun nú verða þegar skipunum stórfjölgar?

Það verður ekki hrakið með rökum að nauðsyn sé að byggja stóra, nýja síldarverksmiðju og það verður ekki heldur hrakið með rökum að skynsamlegast sé að byggja hana á Siglufirði.

Í fyrsta lagi liggur Siglufjörður best við síldveiðum af öllum stöðum landsins.

Í öðru lagi leggur meirihluti síldveiðiflotans upp afla sinn hér til söltunar og er þá þægilegast að geta landað bræðslusíldinni á sama stað.

Í þriðja lagi er skynsamlegast að hafa sem mest af lýsisframleiðslunni á einum stað, með tilliti til að þar yrði reist lýsisherslustöð og hér eru nú Ríkisverksmiðjurnar fyrir.

Í fjórða lagi er Rauðka að verða ónýt og ekki hægt að reka hana lengur og Þar sem bæjarstjórnin hefur við Rauðku, einn hæfasta verksmiðjustjóra landsins, Snorra Stefánsson, hóp af vönum mönnum, heppilegustu lóð sem til er á öllu Íslandi fyrir síldarverksmiðju og hefur þar að auki á hendinni lánstilboð til verksmiðjubyggingarinnar, þá hljóta menn að sjá að, eigi nokkurs staðar að byggja síldarverksmiðju, er það einmitt á Siglufirði og þá á Rauðkulóðinni.

Þar að auki má mikið nota í Rauðku gömlu ef síldarverksmiðja verður byggð þar á lóðinni, bæði undirstöður undir hús og eitthvað af vélum. Verði ekki reist verksmiðja þar á lóðinni fara þessi verðmæti forgörðum, en þau nema samtals tugum þúsunda króna.

Hvaða þýðingu ný 5 til 6 þúsund mála, síldarverksmiðja hefur fyrir Siglufjarðarkaupstað, skal ekki mikið farið út í hér, en þó bent á að gríðarlega mikil vinna verður við byggingu hennar og rekstur, og þó verksmiðjan aðeins bæri sig, þýddi það tugþúsunda auknar tekjur í hafnar- og bæjarsjóð og aukna verslun og viðskipti í bænum.

Þetta vita Siglfirðingar og þó skoðana mismunur sé hér um margt og flokkadráttur, þá er það ekki í þessu máli, enda mættu það vera einkennilegir Siglfirðingar, sem legðust á móti þessu stórkostlega hagsmunamáli bæjarfélags síns.

En mál þetta mun eiga andstæðinga, enda virðist Siglufjörður eiga harðvítuga andstæðinga eða jafnvel hatursmenn, sem leynt og ljóst vinna gegn hagsmunum hans. Siglfirðingar þurfa að kynna sér vel starfsemi þessara manna og þeir þurfa að standa saman og verja bæjarfélag sitt fyrir þeim.

Í verksmiðjumálinu verða allir bæjarbúar að standa saman sem einn maður undir kjörorðinu "Verksmiðjan skal koma."

Þegar ákveðið var að byggja nýju ríkisverksmiðjuna var mikið kapphlaup milli ýmsa bæja um að fá verksmiðjuna og þá lögðu Siglfirðingar svo mikið upp úr að fá hana hingað, að bæjarstjórnin samþykkti með öllum atkvæðum, að leggja fram, óafturkræft úr hafnar- og bæjarsjóði um 300 þúsund krónur til verksmiðjunnar ef hún yrði byggð hér.

Þessa fórn lögðu Siglfirðingar þá á sig og áhugi þeirra fyrir endurbyggingu og stækkun Rauðku mun tvímælalaust mikið meiri en fyrir byggingu S. R. N.

Seinustu blöð “Einherja” og “Neista” virðast ekki hafa mikinn áhuga fyrir máli þessu þar sem Neisti, sýnir því svo mikið tómlæti að hann minnist ekki á það einu orði en “Einherji” birtir um það óvinsamlegar og villandi fregnir.

Fullyrðingar um það að lánskjör við væntanlegt stofnkostnaðarlán séu svo óhagstæð, að verksmiðjan gæti aldrei risið undir þeim er hin mesta fjarstæða.

Vaxtakjörin eru fyllilega sambærileg við vaxtakjör á öðrum tilsvarandi lánum, t. d. stofnkostnaðarlán ríkisverksmiðjanna.

Lengri greiðslufrestur en 10 ár á erlendu láni er óhugsandi, enda hafa síldarverksmiðjur (þ.á.m. Djúpavíkurverksmiðjan) orðið að sætta sig við mikið styttri lánstíma.

Ekki ber þó að telja Alþýðu ­og Framsóknarflokkinn andvígan málinu, þvert á móti eru meðlimir þessara flokka því fylgjandi, en það er eins ástatt um bæði þessi blöð, að þau eru ekki raunverulega í höndum flokksmannanna, og “Neisti” er í höndunum á aðkomumanni, sem kunnur er að fjandskap við Siglufjarðarkaupstað.

Þessa skammarlegu aðferð nefndra blaða ber því ekki að gera flokkana ábyrga fyrir og allra síst Alþýðuflokkinn sem þegar hefur lagt fram mikið starf máli þessu til stuðnings.

P. G.