1941-Viðtal við Jón Gunnarsson, framkvæmdastóra.

Einherji, 17. janúar 1941

Jón Gunnarsson, framkvæmdarstjóri ríkisverksmiðjanna, er nýkominn heim úr hér um bil þriggja mánaða ferðalagi til Ameríku.

Fór hann til Bandaríkjanna, alla leið vestur að Kyrrahafsströnd, í ýmsum erindum fyrir verksmiðjurnar. -

Einherji vissi að þess hefir verið beðið hér með nokkurri eftirvæntingu, hvaða fréttir hann segði um markaðshorfur þar vestra fyrir Íslenskrar síldarbræðsluvörur og hefir því beðið hann að segja sér það helsta viðvíkjandi síldveiðum Ameríkumanna og sölumöguleikum þar á síldarmjöli og síldarlýsi. Honum fórust orð á þessa leið:

Síldveiði og síldariðnaður er mikill víðast við vesturströnd Norður Ameríku.

Flotinn frá San Fransisco einni veiðir oft um 100 þúsund mál síldar á dag. Það er nokkuð minni síldartegund, sem þar veiðist en hér, eða aðeins 23 cm. löng, en fitumagnið er svipað.

Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri.- 
Ljósmynd: Kristfinnur

Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri.-
Ljósmynd: Kristfinnur

Vertíðin stendur yfir frá 15. ágúst til 15. febrúar, síldveiðiskipin veiða einnig mikið af makríl og túnfiski.

Bandaríkjamenn salta síldina ekki niður í tunnur eins og við, heldur sjóða mikinn hluta hennar niður á ýmsa vegu. Samkvæmt lögum er skylt að sjóða niður 60% af aflanum en 40% fara í bræðslu.

Bandaríkjamenn hafa fjölda stórra síldarbræðsluverksmiðja og standa bæði okkur Íslendingum og engu síður Norðmönnum, að ýmsu leyti framar um vinnsluaðferðir. Fannst mér ég margt af því læra, að koma í amerískar síldarbræðsluverksmiðjur og vonast eftir að geta bráðlega notfært hér ýmislegt af því, sem ég sá þar.

En hvernig haldið þér að gangi að selja Bandaríkjamönnum lýsið okkar og mjölið?

Þar er útlitið ekki gott. Markaður er að vísu mikill þar vestra fyrir síldarmjöl, en verðið er lágt og flutningskostnaðurinn gífurlegur. Enn ver lítur þó út með að hægt sé að selja þangað síldarlýsi.

Bandaríkin hafa sjálf ógrynnin öll af feiti, bæði frá sjávarútvegi og landbúnaði. Á allar slíkar aðfluttar iðnaðarvörur hefir verið lagður geysihár tollur og er síldarlýsi þar þó í hæsta tollaflokki.

Verð á síldarlýsi er þar að vísu allgott nú eða 35 skildingar gallonið (svarar til 680 Íslenskra króna tonnið) en tollurinn er 29 skildingar á gallon, og það hér um bil sama í hvernig ástandi, sem lýsið er flutt inn, eins þó það sé hert eða hreinsað eða notað í iðnaðarvörur, t.d. skóáburð eða annað þessháttar.

Japanir, sem stunda mikið síldveiðar, hafa hert allmikið af sínu lýsi og reynt að selja það á þann hátt til Ameríku, en það hefir reynst þeim ógerningur. Tollurinn og annar kostnaður étur svo að segja upp allt söluverðið. - Einis og nú standa sakir verður því öll sala á Íslensku síldarlýsi til Ameríku að teljast útilokuð. -

Ekki skyldi maður þó örvænta um íslenska síldarlýsið sem útflutningsvöru í framtíðinni. Lýsisnotkun til skepnufóðurs eykst nú hröðum skrefum, og þykir gefa ágætan árangur.

Ef einhvern tíma kemst aftur ró á í heiminum og viðskiptaleiðirnar opnast að nýju, er líklegt að hægt verði að vinna nýja og aukna markaði fyrir síldarlýsi.

Þér hafið áður verið í Bandaríkjunum, hvað finnst yður nú um þjóðina og þjóðarhaginn Er nokkur sýnileg breyting gestsauganu?

Jú, að ýmsu leyti; tæknin vex stöðugt og atvinnuleysi hefur minnkað, að minnsta kosti í bili eða meðan á stríðinu stendur. En mesta breytingin, sem ég varð var við, er þó á öðru sviði. - Fyrir 10 árum var það hrein undantekning að fyrirhitta Bandaríkjamann, sem vissi nokkur deili á Íslandi eða Íslendingum, og hefði hann heyrt landsins eða þjóðarinnar getið, gerði hann sér vanalega hinar fáránlegustu hugmyndir um hvorutveggja. Nú er öldin önnur og gott fyrir Íslendinga að heimsækja Bandaríkin, þeim er nú hvarvetna vel og vinsamlega tekið og þekkingin á landi okkar og þjóð er furðu mikil og nákvæm.

Vafalaust er þetta mest að þakka þátttöku Íslands í heimssýningunni, sem án efa hefir tekist afburða vel, svo og ýmsum ágætum löndum okkar þar vestra, sem reynst hafa fyrirmyndar amerískir þegnar, en þó aldrei gleymt að auka hróður ættlandsins.