Árið 1940 - Síldin-01 - Málefni sjávarútvegsins (1)

Einherji, 9. ágúst 1940

Næstu sporin, sem stíga þarf, í síldarvinnslumálunum.

Enn sem fyrr er það síldin, sem mest er rætt um á þessum tíma árs. Undir henni er það komið, að miklu leyti, sem hin síðari ár, hvernig þjóðin bjargast. Og nú virðist sjórinn vera með því örlátasta, síðan Íslendingar hófu síldveiði í stórum stíl.

Skipin hafa komið hlaðin síld inn til síldarvinnslustöðvanna á hverjum degi, frá því veiði hófst í byrjun fyrri mánaðar og þar til fyrir nokkrum dögum, að stöðva varð veiðina um fjóra daga frá því hvert skip var losað, svo að verksmiðjurnar gætu grynnt ofurlitið á þeim kynstrum síldar, er komin var í þrær og lá í skipum.

Annars leit út fyrir að vinnslan myndi stranda næstu daga, ef engin ný síld fengist jafnframt hinni skemmdu og gömlu síld, er marga daga var búin að liggja í skipum og þróm.

Og menn ræða um, sem vonlegt er, hve óheppilegt það sé, að enn séu ekki meiri möguleikar til síldarvinnslu í landinu, fleiri og stærri síldarverksmiðjur.

Það er rætt um veiðitap á hverjum sólarhring, sem nemi hundruðum þúsunda króna verðmæti osfrv.

Það er að vísu slæmt, að okkar hraustu sjómenn skuli ekki geta óhindrað ausið síldinni upp, þegar eins auðvelt er að veiða hana sem nú. En við getum ekki reiknað með því, að það beri sig að reisa svo stórar og margar síldarverksmiðjur, að þær nægi til fullnustu í mestu veiðiárum.

Margar þeirra myndu þá ekkert hafa að gera í venjulegum veiðiárum. Þá ber að athuga, að bið skipanna hefði orðið minni nú, en raun hefir á orðið, ef síldarsöltun hefði verið, sem undanfarin ár. Og ennfremur er þess að gæta, að ekki nægir eingöngu að framleiða vörurnar. Það verður líka að vera markaður til fyrir þær.

En vegna þess, að nú er okkur lokuð leið til flestra þeirra landa, sem við höfum áður selt til síldarafurðir okkur, þá er óvist, hvernig okkur gengur að selja framleiðsluvörur verksmiðjanna.

Englendingar eru nú einir um hituna að kaupa þær vörur af okkur. Og bráðum erum við búnir að framleiða það magn, sem þeir hafa enn lofað að kaupa. En væntanlega kaupa þeir meira seinna, en þegar er búið að semja um, annars lendum við í markaðsþroti, nema þá stríðinu verði lokið fyrr, en nú lítur út fyrir.

En í þeirri von, að við getum selt allar afurðir síldarverksmiðjanna, þá verður vart um það deilt, að heppilegt væri að afköst þeirra væru meiri en þau eru nú.

Heyrst hafa þær raddir að það væri meirihluta verksmiðjustjórnar S.R. að kenna, að svo væri ekki nú þegar. Það væri þessum meirihluta að kenna eða að þakka, að Siglufjarðarkaupstaður, hefði ekki byggt 5.000 mála verksmiðju fyrir þessa síldarvertíð.

En sannleikurinn er sá, að það er hvorki þessum meirihluta að kenna eða að þakka að Siglufjarðarbær byggði ekki þessa verksmiðju.

Að vísu lagði meiri hluti verksmiðjustjórnar á móti því á s.l sumri, að þessi stækkun yrði leyfð, en lagði þar á móti fram þá tillögu að byggð yrði 5.000 mála verksmiðja á Raufarhöfn og að afköst ríkisverksmiðjanna á Siglufirði yrðu aukin um 5.000 mál.

Ríkisstjórnin samþykkti að leyfa byggingu á 5.000 mála verksmiðju á Raufarhöfn, en aftur á móti leyfa ekki nema 2,500 mála stækkun verksmiðjanna á Siglufirði. Meiri stækkun vildi ríkisstjórnin ekki leyfa að sinni, en lofaði að reyna að útvega fé, til þess að framkvæma þær.

Ef Siglufjarðarbæ hefði verið leyft að byggja 5.000 mála verksmiðju, þá hefði ríkisstjórnin alls ekki leyft að ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði yrðu stækkaðar. En þótt ríkisstjórnin hefði leyft byggingu þessarar bæjarverksmiðju, þá er fullvist, að hún hefði enn ekki verið komin upp.

Útvegsbankinn, þ.e.a.s. einhver hluti yfirstjórna hans hafði lofað að hjálpa bænum með fjárútvegun til þessa, en Landsbankinn var á móli. En hinsvegar er vitanlegt að Útvegsbankinn er svo háður Landsbankanum fjárhagslega, að hann getur ekki, án hans vilja lánað eða ábyrgst svo mikla fjárupphæð, sem þá, er þarf til þess að byggja 5.000 mála síldarverksmiðju.

Og jafnvel þótt það hefði verið, sem ekki var, að Landsbankinn hefði ekki hindrað Útvegsbankann í þessu máli, þá eru engin líkindi til þess, að lán þetta hefði fengist, vegna örðugleika þeirra, sem þegar í fyrra sumar voru orðnir á fjárútvegun erlendis vegna stríðsins, sem var í aðsigi, og skall á í septemberbyrjun.

Landsbankinn og ríkisstjórn gerðu ítrekaðar tilraunir til þess, að útvega S.R. fé til byggingar Raufarhafnar verksmiðju, en tókst það ekki.

Menn voru sendir erlendis til að útvega lán þetta, og þar á meðal einn bankastjóri Útvegsbankans, en allt strandaði, að öðru en því, að framkvæmdastjóri S.R. fékk í Noregi um 500 þúsund króna lán.

Hvernig geta menn ímyndað sér að Siglufjarðarbær hefði getað fengið lán til að byggja 5.000 mála verksmiðju, með óvilja Landsbankans, þegar Landsbankinn, ríkisstjórn og S.R. gátu ekki fengið lán til byggingu Raufarhafnarverksmiðjunnar?

Mönnum kann nú að verða ráðgáta hvernig bygging 5.000 mála verksmiðju á Raufarhöfn, gat átt sér stað, þar sem aðeins 500 þúsund króna lán, fékkst til byggingarinnar. Það tókst af því, að gróði S.R. var svo mikill s.l. ár, að fyrir hann var hægt að byggja verksmiðjuna að mestu leyti.

Og vegna sjóðseigna verksmiðjanna hefði verið hægt að bæta við 2.500 mála aukningunni á Siglufirði, sem ríkisstjórnin hafði leyft. En því miður skall Noregsstyrjöldin svo snemma á, að ekki var búið að skipa út öllum vélum til stækkunarinnar.

Í grein sem Þorsteinn M. Jónsson skrifaði í "Einherja" fyrir ári síðan, er sýnt fram á það með glöggum rökum, að heppilegast er fyrir síldarútveginn, að öll síldarskipin, séu samningsbundin, einu og sama síldarvinnslufyrirtæki í landinu, og að það fyrirtæki sé Síldarverksmiðjur ríkisins.

En svo það geti orðið, þá verði að stefna að því, að veita fyrst og fremst engum leyfi til nýbyggingu síldarverksmiðja, öðrum en S.R. og að S. R. kaupi með, tímanum þær verksmiðjur, sem einstaklingar og bæjarfélög, eiga nú.

Enda sýnir það sig, að flest bæjarfélög, sem reist hafa síldarverksmiðjur vilja nú láta S.R. taka við þeim.

Eins og útlitið er núna, dettur sennilega engum í hug, að byggja nýjar síldarverksmiðjur. En hitt hlýtur að verða athugað, hvort S.R gæti aukið vélar sínar, að mun í þeim vélahúsum, sem nú eru fyrir hendi, bæði hér á Siglufirði og annarstaðar.

Yrði sá kostnaður hóflegur, sem slík vélaaukning leiddi of sér, er það áreiðanlega það fyrsta sem gera þarf í okkar síldarvinnslumálum.

Á þennan hátt einan hlýtur að vera hægt að fá stórlega framleiðsluaukningu með viðráðanlegum kostnaði. Bæri að freista framkvæmda í þessum efnum, ef tök eru á fyrir næstu síldarvertíð, þótt styrjöldin haldi áfram.

En annað spor viðvíkjandi síldariðnaðinum, er verksmiðja til að hreinsa og herða lýsið Það þarf að gera lýsið að sem verðmestri vöru, sem ekki er jafn háð þeim miklu verðsveiflum, sem lýsið er nú.

Eftir því sem sendikonsúll Bandaríkjanna í Reykjavik heldur fram, þá gætum við selt allt okkar lýsi nú til Bandaríkjanna góðu verði, ef við getum sent það hreinsað, því að á hreinsuðu lýsi, matarlýsi, sé enginn tollur.

En á iðnlýsi, eða því lýsi sem við sendum nú út, sé svo hár tollur að ógerningur sé að flytja það inn.

Þetta tvennt, sem hér er drepið á, aukning og afkastamöguleika hjá Síldarkverksmiðjum ríkisins og byggingu hreinsunar og herðingarverksmiðju síldarlýsis eru áreiðanlega næstu sporin, er stiga þarf í síldariðnaðinum.

Í næstu blöðum Einherja verða málefni sjóvarútvegsins rædd áfram. Verður næsti kafli um hraðfrystihúsin og nýbreytni í útflutningi sjávarafurða.

==============================

Rætt var um hraðfrystihúsin í grein þessari, en er sleppt hér á þessari síðu, aðeins tiltekið efni þar sem tengist beint eða óbeint mjöl og lýsisrekstri og umræðum og þeim tengt, er hér birt.