Árið 1940- Síldin-02 - Málefni sjávar útvegsins (2)

Einherji, 16. ágúst 1940

Hagnýting síldaraflans. Afkastaaukning verksmiðjanna eða kæliþró?

Þegar svo vill til sem nú, að síldveiðin stöðvast vegna þess, að meira og örar veiðist en unnið verður úr, koma fram sem eðlilegt er, ýmsar bollaleggingar um hvað gera skuli, til þess að bjarga sem allra mestu af því verðmæti, sem annaðhvort skemmist, eða er ekki hægt að taka á móti.

Þrjár leiðir hefir verið talað um til úrbóta:

Að byggja nýjar síldarbræðsluverksmiðjur, að stækka þær sem fyrir eru og að byggja kæliþrær.

Inni í Síberíu SR á Siglufirði. Þarna er verið að úða ískurli, blandað salti, yfir síldina jafnhliða því sem hún kemur í þrærnar. Ljósmynd: Gísli Halldórsson

Inni í Síberíu SR á Siglufirði. Þarna er verið að úða ískurli, blandað salti, yfir síldina jafnhliða því sem hún kemur í þrærnar. Ljósmynd: Gísli Halldórsson

Menn mega ekki gleyma því í góðu veiðiárunum, eða þegar afurðaverð síldarverksmiðjanna er hátt, að öðru hvoru koma veiðileysisár, að stundum hrynur afurðaverð niður úr öllu valdi.

Á slíkum árum verður mjög tilfinnanlegt að stands straum af rándýrum vélum og byggingum, eða greiða fjölda manna laun, sem litið verkefni er fyrir.

Einherji hefir hvað eflir annað haldið fram og fært glögg rök fyrir, að miklu munaði bæði á stofnkostnaði og í rekstri hversu ódýrara og heppilegra það væri að stækka og auka atköst S.R. en að byggja nýjar verksmiðjur Skulu þau rök ekki endurtekin að þessu sinni, enda munu þau af flestum viðurkennd nú orðið. -

En þá er þriðja leiðin, sem ýmsar tilgátur hafa oft áður komið fram um, að auka þróarrúm verksmiðjanna og safna þann hátt síld, sem kynni að þurfa að geymast 1-2 mánuði.

Reynslan af því, hve örðugt reynist að halda bræðslusíld óskemmdri til lengdar á þann hátt og munar minnstu þó í yfirbyggðri þró sé, sem vitanlega verður margfall dýrari - hefir þó þaggað niður allar kröfur um aukið þróarrúm, nema þá ef vera kynni á kæliþróm.

Gísli Halldórsson verkfræðingur, sem var framkvæmdastjóri S.R. árin 1936 -'37 og gat sér í þeirri stöðu allmikla frægð, hefir nú vakið umræður í síldarbræðslu málunum og að minnsta kosti í einu dagblaðanna er strax hrópað upp um hvílíkt bjargráð það væri að hafa kæliþró við hverja verksmiðju, og víðar koma fram svipaðar raddir, sem virðast byggðar á því, að í S.R. hafi sumarið 1937 tekist mjög vel að geyma kælda síld.

Hér skal engu um það spáð, hvort einhvertíma tekst að finna heppilega og örugga geymsluaðferð á bræðslusíld, t.d. með kælingu. En tilraun Gísla Halldórssonar 1937 hefir þó síst bent í þú átt að þar sé rétta leiðin fundin. -

Hann byggði þá, gríðarstóra tvílyfta "þró" fyrir rúmlega 1/4 miljón króna og gerði svo í henni ósköp litla tilraun með kælingu á síld.

Sú tilraun var á margan hátt ófullnægjandi. Hún var aðeins gerð á alveg glænýrri síld og mjög litlu síldarmagni, 1.148 málum, og ekkert var prófað hvernig takast myndi að flytja síldina óskemmda úr forþrónni, þar sem hún á alltaf að kælast og inn í aðalþróna eftir öllum þeim krókaleiðum sem henni er ætlað að fara þangað. -

Og margt fleira mætti þannig telja sem alveg virðist hafa láðst að athuga, en mundi þó koma til greina, ef kæla ætti mikið síldarmagn.

En segjum nú svo, að allt gengi jafnvel og Gísli Halldórsson gerir ráð fyrir. Nóg fengist af glænýrri síld til að kæla, eða að ekkert sakaði þó síldin væri farin að verða dálítið slæpt. Kælingin tækist öll jafnvel fyrir því, flutningurinn úr forþrónni í aðalþró skaðaði síldina ekkert og, þar gæti hún svo beðið hentugasta tímans, jafnvel langt fram á haust, örugg fyrir öllum skemmdum.

Gerum ráð fyrir öllu þessu nákvæmlega, samkvæmt áætlun Gísla Halldórssonar og athugum svo, hvort sé nú samt sem áður skynsamlegra að byggja kæliþró eða auka verksmiðjuafköstin, og er þá sjálfsagt að byggja á staðreyndum.

Kæliþró G.H. kostaði 250 þúsund krónur. Hún tekur 23 þúsund mál af saltaðri bræðslusíld, en mundi ekki taka full 20 þúsund mál af kældri síld, því snjórinn tekur talsvert af rúminu. 250 þúsund krónur þró bjargar þá tæpum 20 þúsund málum síldar. - 2.500 mála atkastaaukning á S.R. kostar 650 þúsund krónur.

Í meðal veiðisumri bjargar sú aukning 25 þúsund málum síldar. Kæliþró fyrir sama verð, 650 þúsund krónur (miðað við þró G.H.) ætti þá að bjarga tæpum 52 þúsund málum, eða með öðrum orðum: 650 þúsund krónur lagðar í afkastaaukningu verksmiðju, auka móttökugetuna um 125 þúsund síldarmál, en 650 þúsund krónur lagðar í G.H. kæliþró mundi aðeins auka móttökugetuna um 52 þúsund mál, þar fyrir utan kemur svo aukakostnaðurinn við kælinguna.

Þá hafa komið fram nokkrar ásakanir í garð núverandi framkvæmdastjóra og verksmiðjustjórnar fyrir að hafa ekki haldið áfram tilraunum Gísla Halldórssonar og notað "Nýju þróna" til kælingar fyrst búið var að byggja hana á annað borð.

Það er víst rétt að enginn mun nokkru sinni hafa æskt þess af framkvæmdastjóranum að hann notaði "Nýju þróna" til síldarkælingar. Getur það varla af öðru komið, en að allir munu þeir jafn vantrúaðir á, að hún, - eða að minnsta kosti neðri hæð hennar, - sé nothæf til slíks, með því fyrirkomulagi sem á henni er, en tilraunir myndu kosta verksmiðjuna mikið fé.

En hafi Gísli Halldórsson trúað því sjálfur, að hann væri búinn að gera merkilega uppgötvun, finna, lausn á þjóðarvandamáli. Hvers vegna yfirgaf hann þá starf sitt af fúsum og frjálsum vilja og það þá aðeins fyrir atvinnu, sem ekki reyndist varanlegri, en nokkuð á annað ár? Hefir hann ekkert af áhugaeldi og fórnarvilja uppfinningamannsins? Eða var hann bara sjálfur vantrúaður?-------------------------------------------------------------------------

Einherji, 16. ágúst 1940

Að gefnu tilefni skal tekið fram að 500 þúsund króna lánið, er getið var um í síðasta blaði, var tekið í nafni ríkisstjórnarinnar.

-----------------------------------------------------------------------

Athugasemd SK 2017: Vegna umræddrar kæliþróar frá árinu 1937. Þarna er átt við þrærnar í húsinu, sem eftir ofannefnda erfiðleika við að ná síldinni úr þrónum, var nefnt Síbería. Samkvæmt því sem Hallur Garibaldason verkamaður sem sagði mér aðspurður um þennan tíma, löngu seinna. En hann lenti þarna í vinnu við að losa þróna. Þá var þetta mjög erfitt verk og raunar þrældómur sagði hann, þar sem ekki var hægt að nota skóflu, heldur gaffla til að hreifa við síldinni sem þarna hafði verið vel á annan mánuð.  Síldin var í raun einn frosinn massi. Engin óþefur og eftir að hún þiðnaði og var síldin eins og fersk, enda eitt besta hráefni og afurðir sem kom frá henni eftir að skriður kom á þróarlosunina.

Ástæðan var að Gísli lét úrbúa sérstaka vél sem úðaði í bland salti og klaka (ískornum) yfir síldina jöfnum höndum og henni var komið í þróna, mynd hér neðst á síðunni.

Þar til viðbótar skaut Hallur því að almennt hefði Gísli verið mjög vinsæll á meðal verkafólks, ekki síst vegna þess að hann gaf sér tíma til að ræða við verkafólkið og jafnvel biðja um álit á hinu  þessu, sem verksmiðjuna og búnað varðaði.
Og við þetta má bæta, að það var almennt fullyrt á SR lóðinni, þegar Gísli yfirgaf SR og fór til annarra starfa. Að hann hefði verið rekin, og ein af megin ástæðum þess hafi verið sú að hann hefði bruðlað með of mikið steypustyrktarjárni í viðkomandi byggingu, það er um 80 tonn af steypustyrktarjárni. (þetta ma. sögðu gömlu verksmiðjukarlar mér mörgum árum seinna)

Nokkuð sem sennilega allir verkfræðingar í dag (2018) mundu telja eðlilega notkun steypustyrktarjárns í svona byggingu, miðað við hlutverk hússins, það er þunga þess sem í þrærnar áttu að fara. SK