Árið 1940 - Síldin-03 - Málefni sjávarútvegsins (3) ((4))

Einherji, 30. ágúst 1940

Lýsishersla.

Einherji ræddi fyrir nokkru um atkastaaukningu síldarverksniðjanna og drap um leið á herðingu síldarlýsis. Af mörgum ástæðum er lýsishersla mesta nauðsynjamál síldariðnaðarins, eins og nú horfir við.

Hefir blaðið leitað Óskars Bjarnasonar, efnafræðings, sem er sérfræðingur í lýsisherslu og fer það hér á eftir:

Undanfararið hefur verið nokkuð rætt opinberlega um möguleika á að hreinsa og herða Íslenskt síldarlýsi áður en það er flutt út. Meðal annars hefur komið fram þingsályktunartillaga á Alþingi þess efnis, að skora á ríkisstjórnina að láta rannsaka möguleika á að koma hér upp hreinsunar og herslustöð fyrir síldarlýsi.

En slík athugun mun ekki hafa farið fram, sérstaklega vegna þess að óunnið síldarlýsi hefur undanfarið verið auðseljanleg vara, en aftur á móti nokkrir örðugleikar á að afla markaða fyrir herta feiti.

Það hefur verið sýnt fram á, að það er ótvíræður hagnaður fyrir þjóðarbúskap okkar Íslendinga, að selja síldarlýsið hreinsað og hert, enda er það augljóst mál, þar sem verð hertrar síldarolíu er því nær helmingi hærra en óhertrar.

Við skulum gera ráð fyrir verksmiðju sem herti alla framleiðslu ríkisverksmiðjanna hér á Siglufirði eða ca.12 þúsund smálestir á ári og reiknum verðhækkun afurðanna ca. 10 £ pr. smálest, sem er mjög varlega reiknað, (verðhækkun frá 13 £ upp í 23 £ miðað við verðlag fyrir stríð).

Framleiðsla þessarar verksmiðju mundi þá skapa sem svarar 3 miljón króna í erlendum gjaldeyri, fram yfir verðmæli hráefnisins.

Fram til þessa hefur mest allt okkar síldarlýsi verið selt til Noregs, Danmerkur og Þýskalands og hert þar. En nú eru markaðir þessara landa okkar lokaðir. Bretar aftar á móti, hafa á undanförnum árum ekkert keypt af Íslensku síldarlýsi og eru tregir til að kaupa, nema takmarkaðan hluta framleiðslunnar.

Sjálfsagt er, eins og nú standa sakir, að reyna að leita markaða í Ameríku og eftir því sem ræðismaður Bandaríkjanna hér hefir sagt í blaðaviðtali, mundi vera hægt að fá nægan markað fyrir síldarlýsið þar vestra, ef það væri hreinsað og hert.

Það getur því farið svo, að við, einmitt markaðsins vegna, verðum að vinda bráðan bug að því að byggja hér hreinsunar, og herslustöð.

Auk þess má benda á, að það hefði verið ótvíræður hagnaður eins og nú stendur á, að geta hert nokkuð af lýsinu jafnóðum, þar sem út lítur fyrir að stöðva verði veiðiflotann vegna vöntunar á geymsluplássi fyrir lýsi.

Fullnaðaráætlun um stofnkostnað hreinsunar og hersluverksmiðju er ekki fyrir hendi, en slíka áætlun þyrfti auðvitað að gera, áður en byrjað yrði á framkvæmd svo stórs fyrirtækis, sem hér er um að ræða.

Ég hefi áætlað stofnkostnað herslustöðvar, sem framleiddi 6.000 smálestir árlega, 3-400 þúsund krónur, en sú áætlun var gerð fyrir herslustöð, sem hluta af stærri olíuverksmiðju og í þessari áætlun er því ekki meðreiknaður kostnaður við hreinsun olíunnar, skrifstofubyggingu, lýsisgeyma fyrir hráefnið o.fl.

Segjum að hreinsislöðin kostaði annað eins, eða alls 7-800 þúsund krónur miðað við 6.000 smálesta verksmiðju. 12 þúsund smálesta verksmiðja, sem gert er ráð fyrir hér að framan, mundi ekki kosta helmingi meira, en segjum 1 miljón eða rúmlega það, miðað við verð fyrir stríð.

Þessar tölur eru settar fram til þess að gefa mönnum nokkra hugmynd um kostnaðinn, en eru ekki nein fullnaðaráætlun, eins og þegar er tekið fram.

Stærsti liðurinn í rekstrarkostnaði hersluverksmiðjunnar er rafmagnið og það er því þýðingarmikið að hafa aðgang að ódýru rafmagni, helst frá vatnsorkustöð.

Að öðru leyti eru ýmis mikilsverð atriði sem mæla með því að byggja verksmiðjuna hér á Siglufirði í sambandi við Síldarverksmiðjur ríkisins:

Aðflutningar og sérstakir geymar fyrir hráefnið falla burtu.

Skrifstofur, söludeild, geymsluhús, rannsóknardeild o.fl. gæti verið sameiginlegt með síldarverksmiðjunum.

Hersluverksmiðja, sem herðir alla framleiðslu síldarverksmiðjanna, eða 12 þúsund smálestir á ári mundi nota af rafmagni 4.8 miljón kwh. eða sem svarar 700 kwh. á klukkustund

Í þessu sambandi er athugandi, að í síldarverksmiðjunum eru vélar, sem geta framleitt 4-500 kwh. á klukkustund og liggja ónotaðar mestan hluta ársins og mætti ef til vill nota þessar vélar til að framleiða straum fyrir hersluverksmiðjuna, með aðstoð frá orkustöð bæjarins, ef það væri mögulegt kostnaðar vegna.

Rafmagn framleitt með kolum eða olíu mun varla geta orðið ódýrara en 8 aura pr. kwh. miðað við eldsneytisverð fyrir stríð, en rafmagn frá vatnsorkustöð ætti ekki að þurfa að vera dýrara en 1 eyrir pr. kwh.

Mismunurinn er því 7 aurar pr. kwh. eða 340 þúsund krónur á ári.

Mér er sagt að ráðgert hafi verið að virkja Skeiðsfoss í Fljótum til notkunar fyrir Siglufjörð. Auk notkunar í bænum og síldarverksmiðjunum væri þá þarna kominn stór afltaki fyrir rafmagn frá þessari væntanlegu aflstöð við Skeiðsfoss.

Firmað Höjgaard og Schults hefur áætlað kostnað við að virkja 2.000 hestöfl of orku Skeiðsfoss 1 miljón krónur, en alls er áætlað að hægt sé að virkja 3-4 þúsund hestöfl. Mismunurinn á kostnaðarverði árlegrar rafmagnsnotkunar hersluverksmiðjunnar eftir því, hvort gengið er út frá hráolíu eða vatnsorku til framleiðslunnar, nemur því ca. 1/3 af virkjunarkostnaðinum. Mér virðist sjálfsagt að ráðast í þessa virkjun um leið og hersluverksmiðja væri byggð. Það þarf ekki að taka það fram, að virkjunin sparar mikið fé í erlendum gjaldeyri til innkaupa á dýru eldsneyti.

Ég hefi gert ráð fyrir, að hert síldarolía væri seld, sem matarfeiti og væri nothæf sem hráefni í smjörlíki. En þetta er atriði, sem ekki er alveg fullvíst um og er erfitt að fá upplýsingar um reynslu erlendra verksmiðja í þessum efnum.

Mér er kunnugt um, að forstjóri Atvinnudeildar Háskólans, hr. Trausti Ólafsson, hefur gert tilraunir með hreinsun og herslu síldarlýsis, sem hefur gefið ágætan árangur. Síldarlýsið er eftir hersluna hvítt og föst feiti, sem í engu virðist standa að baki hertri hvalolíu, sem er viðurkennd fyrsta flokks vara til smjörlíkisgerðar.

Úr því, hvernig hert síldarlýsi reynist sem hráefni í smjörlíki, samanborið við aðra herta feiti, ætti að mega fá skorið með tilraunum á Atvinnudeild Háskólans í samvinnu við einhverja af smjörlíkisverksmiðjuna í Reykjavik.