Auglýsingar og viðtal við Ole Tynes

Fram, 24 júlí 1917 

SÍLDARMJÖL. Þeir, sem ætla sér að kaupa síldarmjöl til vetrarins, ættu að tryggja sér það NÚ ÞEGAR, vegna þess: 

1. að í sumar verður framleiðslan ekki meiri en um 1000 pokar vegna hins háa verðs á kolum og salti. 

2. nú eru skipaferðir betri og hentugri en búast má við að verði síðar.

Verðið á mínu ágæta gufupakkaða síldarmjöli, sem ég ábyrgist að sé heilnæm, hrein og góð vara er kr. 24,00 fyrir 1/2 poka hvern 50 kíló flutt frítt í skip á höfninni. Borgun sé samfara afhendingu. þeir sem ætla að kaupa síldarmjöl, er það sjálfum fyrir bestu, að senda pantanir sínar STRAX, skriflaga eða símleiðis, því verð á síldarmjöli pöntuðu eftir 10. ágúst verður kr 30,00 1/2 pokar 50 kg. hver. 

SÖREN COOS. Símnefni: Goos Siglufirði. 

Ole Tynes - Ljósmynd: Kristfinnur

Ole Tynes - Ljósmynd: Kristfinnur

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Fram, 31. júlí 1917

Hreppsnefndin, hélt fund í gærkvöld. Var aðal umræðuefnið bæjarréttindin. Var öll hreppsnefndin einhuga um að málið mætti ekki stranda á samþykki sýslunefndar, heldur yrði að krefjast aukafundar, og það sem allra fyrst. 

Umsókn H. Söbstaðs um að fá áfram afl frá rafstöðinni til verksmiðju sinnar var frestað. - Samþykkt að skrifa þeim Júlíus Havsten og Jakob Björnssyni áminningarbréf, um að vera hér sinn lögákveðna tíma allan, en ekki aðeins með annan fótinn eins og þeir virðast hafa gjört, eða að minnsta kosti Jakob. - Þá var rætt um kol og saltleysi og ýmis fleiri dýrtíðarvandræði.

------------------------------------------------------------------------

Fram, 30. nóvember 1917

SÍLDARKÖKUR

Þurrkaðar og óþurrkaðar fást í verksmiðju S. Goos. Sömuleiðis fæst ennþá SÍLDARMJÖLIÐ ágæta, sem allir lofa er hafa notað. Um síldarkökurnar  hafa tveir ágætir fjármenn gefið eftirfylgjandi vottorð:  

Við undirritaðir, sem reynt höfum síldarkökur frá S. Goos, til fóðurs handa kúm og kindum, getum lýst yfir því, að skepnurnar eta kökurnar vel og verður gott af þeim.

Að svo stöddu getum við ekki dæmt að fullu um fóðurgildi þeirra, þó álítum við að þær standi ekki að baki síldarmjöli.

Siglufirði 30. nóvember 1917.

Jón Jóhannesson.          Stefán Ólafsson

----------------------------------------------------------------------------------------

Blaðið Fram  14 júlí 1917

Viðtal við O. Tynæs.

Litlu eftir heimkomu O. Tynæs, fór sá er þetta skrifar til hans til þess að fá hjá honum  ýmsar fréttir frá Noregi.

Tók hann vel í það og fer hér á eftir ágrip af því viðtali.

*Hvað er að frétta af norsku síldveiðaskipunum? Er útlit fyrir að þau komi hingað í sumar? 

**Um það atriði hefi ég bæði illt og lítið að segja. Skilyrði þau, sem Englendingar settu Norðmönnum hér að lútandi, voru þannig, að alveg ómögulegt var að ganga að þeim.

Þeir settu t.d. upp að hvert einasta skip, fiskiskip jafnt sem flutningaskip, kæmi  við í enskri höfn á leið hingað til Ísland, hvort sem þau hefðu nokkurn flutning eða ekki, svo og að  Norðmenn yrðu að selja þeim síldina og flytja hana sjálfir til Englands, ennfremur að öll fiskiskipin kæmu við í enskri höfn á heimleið, að endaðri vertíð.

Þessi skilyrði töldu Norðmenn alveg óaðgengileg, þar sem jafn mikil hætta er að fara til Englands með síld, eins og nú er og þar sem stríðsvátryggingarfélögin eru farin að taka svo hátt gjald af  skipum þeim, sem fara inn á ófriðarsvæðið.

Það er því alveg áreiðanlegt að ekkert einasta norskt fiskiskip kemur hingað í sumar. 

*En eftir stríðið? Ætli jafnmargir Norðmenn komi þá ekki hingað eins og áður? 

**Eftir stríðið koma Norðmenn áreiðanlega til Íslands til síldveiða eins og áður hvort þeir koma aðallega til Siglufjarðar eins og verið hefir, er ekki víst. þeir eru farnir að hugsa um aðra staði hér á landi sem jafngóðir virðast Siglufirði, - eða alt að því, - og má þar nefna Ingólfsfjörð. 

Mér er kunnugt um að þangað ætla sér margir Norðmenn að stríðinu loknu, og núna liggja í Kristjaníu fullgerðar vélar í bræðsluverksmiðju jafnstóra Evangers-verksmiðjunni, sem á að setja upp á Ingólfsfirði, og vélar í aðra verksmiðju eru pantaðar nú þegar og eiga þær að vera fullgerðar í árslok 1918. þeir sem ætla að setja upp verksmiðjur þessa, ætla einnig að hafa hér selveiðistöð, því tiltölulega stutt er þaðan fram í Grænlandshaf, og þar eru selirnir mikið veiddir. 

Það er því áreiðanlega röng hugmynd sem sumir virðast hafa hér, sem sé sú, að það sé óhætt að vera kröfuharður við Norðmennina, því þeir séu neyddir til að koma hingað hvort sem er. Vöxtur og velmegun Siglufjarðar og Siglfirðinga, er of mikið Norðmönnum að þakka til þess, að rétt sé að þeir séu fældir burtu héðan. Það munu Siglfirðingar finna betur þegar meiri hluti norsku síldarskipanna er farinn að halda til annarstaðar. 

 *Hvað gjöra nú skip þau sem hingað hafa komið?

**Þau gjöra ekki neitt, liggja flest inni á höfnum. Í Aalesund liggja nú t. d. 122 gufuskip og um 600 mótorskip og bátar, og hefir mönnunum verið sagt upp af þeim öllum. Mörg af þessum skipum hafa verið hér á sumrin. Annars hefir gengið illa að gera út skip í Noregi, vantað bæði kol og salt.

Í vor kom t.d. síldarhlaup við Noreg, var það stór síld, nærri því eins stór og íslenska síldin, feit og digur en þó alveg átulaus. Tiltölulega fá skip gátu sinnt henni, en þau fáu, veiddu vel. T. d. "Balden", sem hér hefir verið,  veiddi í júnímánuði fyrir 100 þúsund kr. af þessari síld. Þessi síldartegund hefir ekki veiðst við Noreg síðan fyrir 40 árum.

 *Hvernig er útlitið yfirleitt,  í Noregi?.

**Útlitið er yfirleitt mjög slæmt mikið verra en hér. Uppskeruhorfur voru þó góðar, nema hvað alt var seinna en vanalega, vegna kuldanna í vor. Dýrtíð er þar mikil og margar vörur nær ófáanlegar. Frakt á kolum, milli Englands og Noregs er nú 250 til 300 kr. á smálest, en verð á þeim í smásölu er 30 kr. fyrir 100 litar eða 375 kr. smálestin, en víðast hvar eru þau þó ófáanleg. 

Á rafljósastöðinni í Aalesund - er brennt koltjöru í stað kola og reynist það heldur vel. Yfir 1 miljón tunnur af síld eiga Englendingar, liggjandi í Noregi sem þeir hafa ekki enn fengið flutta á milli vegna skipa leysis. -

En þó munu ástæðurnar vera enn verri í Svíþjóð. t. d. Hafa 42 þúsund verkamenn frá Svíþjóð komið til Noregs til að leita sér atvinnu.  Er orsök þess aðallega talin sú, að þar hefir iðnaður stöðvast allmikið, vegna hráefnaskorts, og svo munu þeir vera enn ver staddir hvað matarforða snertir, heldur en Norðmenn.

 *En er nokkurt útlit, fyrir að Norðmenn lendi sjálfir í ófriðinum? 

**Já. Sannleikurinn er sá, að þeir hafa aldrei staðið jafn nærri því, að fara í ófriðinn eins og núna, og ber margt til þess. Síðan stríðið hófst hafa Norðmenn misst 596 skip, þar af yfir 500 gufuskip, og 1100 norskir menn hafa þar látið lífið.

Skip þessi hafa öll verið hlaðin ýmiskonar varningi, ýmist til Noregs eða þaðan. Nýlega sendi ég skip á stað til Siglufjarðar með 700 smálestir af salti 400 smálestir af kolum og um 4000 tómar tunnur.

Það var skotið í kaf nálægt Orkneyjum, en mennirnir björguðust þó af því.

Daglega koma fregnir um niðurskotin skip, og suma daga um mörg. Þetta geta Norðmenn varla þolað lengur. Og svo þegar þar við bætist að Þjóðverjar taka skip sem eru á siglingu meðfram ströndum landsins, innan landhelgi, og fara með þau til Þýskalands, og slá eign sinni á þau, þá er eðlilegt að þolinmæðin minnki.

Sem dæmi uppá þetta má nefna að nýlega var gufuskipið "Thurun," alveg nýbyggt skip sem kostaði 3 miljónir króna, á leið frá Kristjaníu norður til Finnmarken með hey og fóðurmjöl, og var það innan landhelgi. Þá kom að því þýskt herskip og skipaði þeim að fylgja sér eftir, en skipsmenn sem vissu að þeir voru í landhelgi neituðu að hlýða þessu.

Tóku þeir þýsku þá við stjórn skipsins með valdi og fluttu það til Þýskalands. Mönnunum af "Thurun" var síðan stefnt fyrir herrétt, fyrir það að hafa neitað að hlýða skipunum Þjóðverja, en síðar var þeim þó sleppt, nema skipstjóra og stýrimönnum, þeim var haldið eftir. 

Skipið sjálft var einnig tekið.

Eftir því sem mér virtist voru Norðmenn, þegar ég fór þaðan, mjög nærri því að sitja ekki lengur hlutlausir, og horfa á skip sín eyðilögð og menn sína drepna og eftir að skotfæra birgðir Þjóðverja fundust í Kristjaníu eru enn meiri líkur til friðslita. –  

Ég  get því búist við að á hverri stundu komi frétt um það að Norðmenn séu farnir í stríðið. Þegar hér var komið viðtalinu, snérist talið að Siglufirði aftur, og ýmsu hér heima.

Spurði hann meðal annars hvernig fyrirtækið , þetta, prentsmiðjan og blaðið bæri sig, og hvernig gengi með hlutafé. Og er hann hafði fengið það svar, að rekstur blaðsins og prentsmiðjunnar myndi koma til að bera sig, að því leiti sem séð yrði, en að nokkurt hlutafé vantaði enn til þess, að fengið væri fyrir öllum áhöldum, sagðist hann skyldi leggja 100 kr, í fyrirtækið. Þessa er hér getið því fremur, sem hann var áður einn af hæstu hluthöfunum.

F.

-------------------------------------------------------------------

Hér "Tynes" kallaður Tynæs, en seinni æviár hans var hann ætíð skrifaður og kallaður Tynes (sk)