Fréttir og fleira 1919

Fram, 2. ágúst 1919 

Síldin.

Nær 50 þúsund tunnur mun nú vera búið að salta hér í Siglufirði. 

Í gærkvöldi voru saltaðar 42 þúsund tunnur hér á landi, þar að auki er síld söltuð á 6 eða 7 stöðum úti á höfninni og mikil síld komin inn í nótt og í morgun svo ekki mun of í lagt að segja 50 þúsund saltaðar nú. 

Fyrripart vikunnar náðu aðeins gufuskipin síldinni, þá var hún sótt vestur að Horni, sem er of löng leið fyrir mótorskipin, en nú hefir síldin færst nær, er mest tekin við Skaga, og fiska nú mótorskipin jöfnum höndum við hin. 

Einstöku félög hafa fengið svo ört síld þessa viku, að þau geta tæplega tekið á móti meiru í einu, og var í gær sent hlaðið skip til Akureyrar til affermingar. Útlitið er þannig að hér muni verða uppgrip af síld í þessum mánuði. 

Frá Ísafirði: Þaðan fréttist að hætt sé veiði um stundarsakir. Barst svo mikið á land að fólkið hafði ekki undan, búið að nota allar brúklegar tunnur, og  stúlkurnar svo slæmar í höndunum að þær geta ekki meir. 

Hafa Ísfirðingar sent nokkuð af skipum sínum hingað. Frá Ingólfsfirði fréttist sömuleiðis að síldarburður á land sé svo mikill að fólkið er orðið uppgefið og veikt, varð að kasta þar 800 tunnum. af síld í sjóinn í fyrradag, sem engin tök voru á að koma í salt. 

Þar er engin síldarbræðsla. Alls mun nú, á landinu, vera búið að salta nær 100 þúsund tunnur. 

Síld flutt út. Þessa viku hafa verið sendar héðan 4,200 tunnur. 2.400 með s.s. "Vibran" frá Bakkevig, 800 frá Ásgeir Péturssyni með Sh "Egerö" og 1.000 frá Wedin með s.s. "Mollösund".  

-------------------------------------------------------------------------------------------------

Fram, 23. ágúst 1919

 Síldin.

Vegna ótíðarinnar hafa öll veiðiskip legið á höfnum inni mestan part vikunnar. Fóru nokkur skip út héðan strax og veður skánaði í gær, til að leita síldar.

Reknetabátar voru allir úti í nótt sem leið og fengu nokkrir dágóðan afla, 10 til 100 tunnur á bát, en fjöldi aftur, sem varla urðu varir við síld. 

Síld sem hér búð er að salta er, hér í Siglufirði 77 þúsund tunnur á Vestfjörðum 68 þúsund tunnur, á Ströndum 25 þúsund tunnur í Eyjafirði   40 þúsund tunnur Samtals 210 þúsund tunnur. 

Héðan frá Siglufirði er þegar búið að flytja nær, 30 þúsund og nokkur skip væntanleg næstu daga sem taka eiga síld

Oooooooooooooooooo

Árið 1919 - Söbstads brennur 

Söbstads-verksmiðjan brann      Meira um brunann hér: http://www.sk2102.com/437003010       

Frétt í Fram 12. júlí 1919  Þegar Söbstads-verksmiðjan brann

Stór bruni.

Bræðslu-verksmiðja og íbúðarhús H. Söbstads brennur til kaldra kola á rúmri klukkustund. Tjónið áætlað rúm 200.000 krónur.

Mánudaginn 7. þ. m. kl. 6 síðdegis gaus reykjarmökkur mikill út um þak og glugga verksmiðjuhúss Söbstads var samstundis augljóst að eldur var kominn upp í verksmiðjunni og þusti þar að múgur og margmenni, sumpart að horfa á og fjöldi að hjálpa til, ef einhverju yrði bjargað úr húsunum, því nú var um leið séð að allar byggingar þarna mundu brenna.

Slökkviáhöld bæjarins voru bráðlega komin á vettvang, en til nauðalítils gagns reyndust þau, vatnið ónóg og kraftlaust, brunahaninn líka eitthvað í ólagi, og er mjög ámælisvert að ekki skuli vera litið eftir að brunahanar og þessar fáu vatnsslöngur sem bærinn á, sé í lagi ef voðann ber að höndum.

Vonandi hafa menn nú rumskað svo við slys þetta, að eitthvað verði hér gjört til þess að bæta slökkvitækin og skerpa eftirlit með þeim.

Nóg var þarna af eldfimu efni, lýsi og grút, og á 20 mínútum hafði eldurinn læst sig um alt verksmiðjuhúsið og efri hæð íbúðarhússins sem áfast var bræðsluhúsinu, og stóð eld og reykjarstrókur úr hverjum glugga.

Hús Söbstaðs stóðu nokkuð afsíðis svo öðrum húsum var ekki verulega hætt, enda blíðuveður, aðeins örlítill sunnanblær.

Úr íbúðarhúsinu varð flestu bjargað af innanstokksmunum og nokkru af vélum, veiðarfærum, lýsi og tómum tunnum úr úthýsum.

En mikið brann, t. d. af veiðarfærum: 1 ný herpinót og 180 síldarnet, hákarlaúthald og margt fleira.

Nýlega var búið að taka við 44 tunnum af lifur frá hákarlaskipi Söbstaðs Brödrene, - og var ekki byrjað að bræða hana. Rúmlega kl. 7 var alt brunnið til kaldra kola og hefur því eldurinn  þarna á klukkutíma gjöreyðilagt fyrir um 200 þúsund krónur Nokkuð af húsunum var vátryggt fyrir nær 50 þúsund krónur.

Ný bygging, sem Söbstað hafði lokið við í vor, var ennþá óvátryggð, svo tjón hans mun vera afskaplegt. Um uppkomu eldsins hefur ekkert sannast.

Þegar komið var að, varð ekkert greint fyrir reykjarsvælu, en menn eru hræddir um að reykháfur muni hafa sprungið og eldur hlaupir í þakið,

Ekki mun kjarkur Söbstaðs hafa bilað meir en svo, þótt farinn sé að eldast og blindur, að strax er farið að hressa upp á sementsteypuveggi sem lítið skemmdust og mun hann strax ætla að reyna að koma upp einhverju skýli yfir verkafólk sitt, og salta síld í sumar.

Ooooooooooooooooooooooooooo

Árið 1919 - Ógurlegt snjóflóð

Frétt í Fram, 12. apríl 1919 - Þegar snjóflóð hrifsaði burt Evangers verksmiðjuna.

Ógurlegt snjóflóð féll hér austan fjarðar í nótt. Tók yfir um 1.000 faðma svæði. Sópaði sjö húsum út í sjó, og gekk yfir bæinn í Neðri Skútu. 16 manns lentu í flóðinu. 7 náðust lifandi eftir 10 tíma. 9 manns ófundið ennþá og talið af. Flóðbylgjan æddi hér yfir á eyri og gerði stórskaða. Tjónið um 1,1/2 miljón kr. 

Eftir því sem vér best vitum ennþá, verða menn fyrst varir þessa voða viðburðar þannig, að um kl. 4 í nótt verður vökumaður á M.S. Æskan,  sem lá við Lýsisbryggju svokallaða, sjónarvottur þess, að flóðbylgja ógurleg kemur æðandi austan yfir fjörðinn. Sá hann um leið að fjörðurinn var snjóhvítur, og hyggur í svipinn að hafís sé þar kominn. 

Flóðbylgjan æðir á land upp með afskaplegum aðgangi, og tók t.d. skip þetta sjó inn að lúgugötum um leið og bylgjan reið yfir. Afleiðingar flóðbylgjunnar urðu hroðalegar. 

Utan frá Bakkevig og alla leið suður til Roalds eyðilögðust allar bryggjur meira og minna, og svo var afl bylgjunnar mikið að tvö fiskiskip Sameinuðu verslananna, sem á landi stóðu fluttust úr stað, en mótorbátar og smærri bátar,  lágu sem hráviði hér og þar, um eyraroddann, m.b. Georg spónmölfast, og mótorbátur sem lá upp við Rolandsbryggju hentist á hvolf. 

Er menn sáu þessar aðfarir hér, varð mönnum ljóst að snjóflóð mundi hafa hlaupið úr fjallinu austan fjarðarins og þaðan stafaði flóðbylgja þessi, en ekkert mátti sjá vegna hríðarsorta og myrkurs Þegar birta tók af degi rofaði snöggvast svo að sást austur yfir fjörðinn, brá mönnum þá mjög í brún því að af sjö húsum, sem stóðu hér beint á móti eyraroddanum var aðeins eitt eftir. Eigi gátu menn séð bæinn Neðri Skútu, eða íbúðarhús er þar stóð fyrir neðan á sjávarbakkanum. Var þá brugðið við svo fljótt sem unnt var. 

Fjöldi manna fór austur yfir, ef ske kynni að eitthvað mætti aðhafast, þrátt fyrir illviðrið, því þar höfðu sjáanlega gerst hörmuleg tíðindi þegar menn komu yfir um, sáu menn að afar mikil snjóskriða hafði fallið úr fjallinu fyrir ofan Staðarhól, klofnað á hól nokkrum fyrir ofan bæinn og aðalflóðið hlaupið að sunnan verðu, og Neðri-Skúta lent alveg í suðurjaðri þess, var allt þetta svæði ein auðn, þar stóð ekki steinn yfir steini, og eyðileggingin afskapleg. 

Síldarbræðsluverksmiðja Evangers og 5 önnur hús þeim tilheyrandi, hús Benedikts Gabríels Jónssonar, og bærinn Neðri-Skúta var alt sópað burtu, og engin lífsmerki sjáanleg á öllu þessu svæði. 

Í húsum Evangers bjuggu: Knut Sæther umsjónarmaður og kona hans, og Friðbjörn Jónsson húsmaður með konu og barni, og varð leit að þeim árangurslaus, enda stóðu húsin rétt við sjóinn, og hafa sópast út í fjörð í einni svipan. Í húsi Benedikts Gabríels, bjó hann með konu og 2 börnum, og var sjáanlegt að þar mundi hafa farið á sömu leið.

Í Neðri-Skútu bjó Einar bóndi Hermannsson með konu sinni, þrem börnum sínum, fósturbarni og gamalli konu. Menn sáu þegar, að hér var sá staðurinn er sennilegast væri að líf leyndist, þó ýmislegt benti til hins gagnstæða þar eð húshlutir og innanstokksmunir höfðu fundist víðsvegar í flóðinu, og mikill hluti bæjarins hafði farið langar leiðir og tættist sundur. 

Var þá farið að grafa til þess að leita bæjarleyfanna, og urðu menn þess varir áður en langt um leið, að eitthvað af gamalli baðstofu mundi vera þar undir, og kunnugir vissu að þar hafði fólkið sofið. 

Um kl, 2 var búið að grafa upp baðstofuna og ná öllu fólkinu lifandi. Þar lá það í rúmum sínum skorðað milli rúma og súðarinnar, sem fallið hafði niður, og hvíldi nú á rúmstokkum og gólfi. 

Var það mikið þjakað og nokkuð meitt, sem von var eftir 10 tíma dvöl í slíkum heljargreipum, en var þó með ráði og rænu, nema sonur hjónanna Hermann, hann var meðvitundarlaus, lá hann og allur í fönn, var svo fólk alt flutt að Árbakka, er stendur þar litlu sunnar. 

Vaknaði Hermann þar skjótt til meðvitundar og gera menn sér vonir um að allt fólkið muni komast til heilsu. Sjálfsagt verður leitinni haldið áfram, en því miður að hún er að  sögn þeirra er komið hafa á vettvang, vonarlítil. Tjónið af öllu þessu er stórkostlegt, fyrir utan mannslífin.  

Auk allra þessara húsa sem upp hafa verið talin hefur fjöldi annarra mannvirkja austan fjarðarins eyðilagst, bæði bryggjur og uppfyllingar. 

Húsin voru flest full af tómum tunnum, og þar lágu einnig um 1.000 föt af lýsi, og fjölda margir, snurpinótabátar, sem allt hefur meira og minna eyðilagst, og mun óhætt vera að fullyrða að tjónið sé ekki minna austan fjarðarins og vestan, en 1,1/2 miljón krónur. 

Fólkið í Skútu hefur misst aleigu sína, að undanteknum fáeinum kindum sem voru í húsi lítið eitt sunnan við bæinn, og slapp, 2 kýr bóndans voru dregnar dauðar upp úr fönninni í dag. 

Góðir menn og konur! Ef nokkurn tíma hefur verið ástæða til skjótrar hjálpar, þá er það nú. Fólkið er matarlaust, klæðlaust, allslaust, og alt kemur sér vel. "Fram" er fús að veita móttöku gjöfum, og koma þeim áleiðis.