Fréttir og auglýsingar og fleira 1920

Árið 1920

Frétt í Fram, 7. ágúst 1920

Síldin.

Uppgripa veiði má heita þessa viku. Mörg af skipum komið inn fleirum sinnum í sólarhring og eru nokkur þeirra búin að fá hátt á annað þúsund tunnur. Mest heldur síldin sig á Skagafirði og hér út af Siglufirði og svo mikla síld hafa skip hitt í að sleppa hefur orðið úr nótinni.

Mest er síldin upp í harðalandi, þó hefur þessa viku einnig veiðst mikil síld utan landhelgi. Segja þeir sem kunnugir eru að síldin hagi nú göngu sinni eins og á bestu síldarárunum í gamla daga, og síldarmagnið sé með allra mesta móti og alt sem bendi á að síldin haldist lengi.

Hún má heita hér með öllu landi, inni á Eyjafirði á móts við "Múlann" hafa Eyjafjarðarskip tekið síld. Slær nú heldur í baksegl hjá þeim sem fullvissir voru orðnir um það að síld væri lögst frá norðurlandi og flutt vestur á bóginn.

Fyrir vestan er lítil síld og hingað hafa skip komið síðustu daga þaðan að vestan, sem höfðu enga síld fengið og tók eitt þeirra 700 tunnur fyrsta sólarhringinn sem það var hér.

Hér í Siglufirði munu nú söltuð nær 35 þúsund tunnur.

------------------------------------------------------------------------------------------

Frétt í Fram, 14. ágúst 1920

Síldin.

Sami landburður af síld þessa viku, og hefur svo mikið veiðst, á ekki fleiri skip en héðan stunda veiði nú, að ekki hefur verið hægt að hafa undan í !andi, veldur því mest tunnuleysi, plássleysi og svo fólksekla.

Stúlkurnar falla í valinn með sárar hendur, eftir skorpuna, en þær rísa upp bráðlega aftur og eru þá magnaðri en nokkru sinni áður. Einnig hefur inflúensa í skipunum tálmað veiði.

Á tveim sólarhringum fengu Sameiginlegu íslensku verslanirnar rúm 4.000 mál síldar til bræðslu og var það mest alt spriklandi ný síld. Kaup hefur þotið upp úr öllu valdi, almennt verkakaup hefur orðið 5 til 7 kr. á tímann og alt að 3 krónur borgað fyrir að kverka og salta eina síldartunnu, hafa margar stúlkur leikið sér að hafa á annað hundrað krónur yfir nóttina.

Síldin hefur mest verið veidd hér út úr firðinum og þykjast menn aldrei hafa séð slíkt síldarmagn áður, allur sjór morandi í síld. Síldartorfur hafa sést hér inni á höfn, en mjög sjaldgæft að síld hafi gengið hér inn á fjörðinn, fyrr en þá að haustinu, eftir að skip hafa verið farin.

Um síðustu helgi voru hér í Siglufirði saltaðar 45 þúsund tunnur. Á Eyjafirði 7 þúsund á Ströndum milli 6 og 7 þúsund, en þar fyrir vestan mjög lítið.

Nú munu hér söltuð milli 60 og 70 þúsund og mikið á Eyjafirði; þangað hefur svo mikið verið sent héðan þessa viku, vegna þess að ekki varð tekið á móti hér í svipinn.

Alltaf virðist síldarmagnið verða meira og má því búast við sömu veiði fram á haust, haldist góð tíð.

---------------------------------------------------------------------------

Fram, 14. ágúst 1920

Síldarbræðsluverksmiðja hinna "Sameinuðu. íslensku verslana" verður að líkindum ein um bræðslu í ár hér í Siglufirði. Goos og Bakkevíkur verksmiðjurnar starfa hvorugar, að sögn, að þessu sin

----------------------------------------------------------------------

Frétt í Fram, 11. september 1920

Síldin.

Veiði er nú mikið að hætta, aðeins nokkur reknetaskip sem hana stunda og hafa aflað lítið síðustu daga; glæðist reknetaveiðin ekki upp úr helginni munu þau öll hætta í næstu viku.

Vertíðin er stutt að þessu sinni en miklu betri en nokkur gerði sér í hugarlund áður en veiði byrjaði.

Alls eru á landinu veiddar nær 165 þúsund -- "fiskipakkaðar" tunnur, og koma þar af rúmlega 105 þúsund hér á Siglufjörð, þó hafa skip sem héðan héldu út veitt töluvert meira, en neyddust til að sigla með afla sinn á aðra staði (Eyjafjörð) vegna þess að ekki varð tekið á móti hér.

Siglufjörður hefur áþreifanlega sýnt það í ár, að hann ber höfuð og herðar yfir allar aðrar veiðistöðvar norðan og vestanlands, þegar um síld er að ræða og hefur hin ótæmanlega auðsuppspretta sem hér var úti fyrir í sumar borgið orðstír hans og gengi um langan aldur.

--------------------------------------------------------------

Fram, Auglýsing 16. nóvember 1920

Þeir sem óska eftir að fá keypt Síldarmjöl eru beðnir að senda pantanir sínar til skrifstofu h.f. Hinna sameinuðu íslensku verslana, hið allra fyrsta.

Mjölið er ábyggilega fyrsta flokks.

Sýnishorn eru Ókeypis látin í té hér í Siglufirði. Verðið er kr. 18,50 pokinn 35 kg.

B. Vestesen 

ooooooooooooooooooooooooooooooo

Árið 1920 - Hugleiðingar 

Hugleiðingar

Grein úr Fram, 22. maí 1920

Það er verið að spá því af ýmsum, nær og fjær, að Siglufirði muni fara að hnigna - eða að minnsta kosti að hann sé búinn að ná fullum þroska.

Aðrir vilja eigi heyra um neina hnignun talað, en eru hófsmenn um framtíðarvonir bæjarins - telja hann hafa full skilyrði til að halda sér við eins og hann nú er, og ef til vill smáþroskast eitthvað áfram og upp á við.

Enn aðrir eru bjartsýnir og fullir eldmóðs, telja bæinn á ótakmarkaðri framfarabraut og sjást lítt fyrir um framfaravonirnar og framtíðarspárnar. En eitt er það sem allir eru þó sammála um. Framtíð og viðhald og gengi bæjarins er komið undir duttlungum síldarinnar.

Bregðist síldin þá - já þá eru mikil líkindi til að rætist hrakspár afturhaldsmannanna. Haldist hún nokkurn veginn við, og verðlag svari til reksturskostnaðar eða meira, þá hafa "hófsmennirnir" á réttu að standa - þeirra vonir rætast þá allar og ríflega það. En það þarf sannkallað kraftaverk til að "öfgamennirnir" - sjái drauma sína rætast að fullu. Það er því best að segja þá úr sögunni, en athuga málstað hinna tveggja nokkru nánar.

Síldin hefir skapað -- ef svo má að orði kveða - ýmis þorp hér á landi. Nægir þar að benda á Akureyri og Seyðisjörð. Akureyri er alt af að smá vagsa þó hægt fari. Gerir þar mikið að síldin hefir eigi algjörlega brugðist henni, þó með öðrum hætti sé en fyrrum; þá er og önnur útgjörð, sem lyftir undir og sem eflst hefir á seinni árum en helsta lyftistöngin undir framfarir bæjarins mun þó verslunin vera. - Akureyri er hafnarbær og Verslunarmiðstöð stórra og öflugra landbúnaðarhéraða, það gjörir gæfumuninn.

Seyðisfjörður þaut upp á fáum árum. Þá veiddist þar svo mikið af síld að svo mátti segja að einsdæmi væri í þá daga.

En svo brást síldin alt í einu eða því sem næst. Fólkinu fækkaði, það hafði hlaupið ofvöxtur í bæinn. Þátt fyrir það, þó hann eigi hið blómlega og þéttbýla Fljótsdalshérað að baki, fólksmargar fjarðasveitir á báðar hendur og hagfeldar og greiðar samgöngur, bæði við útlönd og Reykjavík, nægir honum þó ekki þetta allt, til að halda í horfinu. Það smádregur af honum síðan síldin brást.

Enda er Reyðarfjörður orðinn honum skæður keppinautur um sveitaverslunina og útgjörð þar er í kalda koli. Það segja ýmsir að síldargöngurnar séu að breyta sér, enda mun það og satt vera.

Síldin er að verða langsótt héðan hjá því sem áður var - hún færist vestur á bóginn segja menn. Það fer að verða ógjörningur að stunda síldarveiðina héðan á seinskreiðum mótorfleytum ef fjarlægðin á miðin eykst úr því sem var síðastliðið sumar, og þá fara útgjörðarmenn að flytja stöðvar sínar vestur á bóginn. Það er ekki nema eðlileg afleiðing.

Og fari nú svona, eins og hálfpartinn eru horfur á, að síldarmiðin fjarlægist Siglufjörð, og mestur hluti síldarútgjörðar flytjist héðan, hvað á þá þessi bær til bragðs að taka til þess að halda í horfinu?

Það er sjálfsagt von allra Siglfirðinga, að þetta, er nú hefir verið drepið á, reynist hrakspár og Siglufjörður verði hér eftir eins og hingað til aðalstöð íslenskrar síldarveiði.

En það er ekki hyggilegt að reiða sig eingöngu á þessa von, Síldarstöðvarnar vestur á Ströndunum og á Ísafirði eru orðnar býsna öflugar og þaðan gengur fjöldi veiðiskipa.

Um göngu síldar munu skoðanir mjög á reiki, en þó er það ætlun þeirra er best vita, að síld sú, er hér veiðist yfir sumarmánuðina "gangi" vestan fyrir land - elti krabbarek það er Norðmenn kalla rauðátu, en það berst með straumunum vestan um land og norður fyrir og safnast saman í ótölulegum grúa fyrir Norðurlandi yfir júlí, ágúst og september. Þá er því eðlilegt að Vestfirðingar verði fyrst varir við síldargöngurnar.

Þeir flykkjast þá eins og eðlilegt er á móti göngunum til að ná sem fyrst í björgina og er þá eigi ólíklegt að allur slíkur gauragangur trufli göngu síldarinnar, svo hún fari eigi einis ákveðið ferða sinna á eftir rekinu eins og fyrrum er hún var svo að segja í næði á "göngu" sinni. það sem sleppur svo framhjá Vestfirðingum og gengur austur með, mætir þá venjulega á miðri leið skipaþvælunni frá austurstöðvunum og er þá enn hætt við að afar sem fyrr, að gangan truflist og tvístrist út í buskann, svo lítið komist austur á miðin okkar.

Þó þetta sé nú kannski ekki algjörlega rétt skoðun, þá mun þó sönnu nær að eitthvað sé hæft í þessu, að veiðiskipin sem mæta göngum á miðin trufli þær og tvístri þeim.

Og ef þetta væri nú rétt, þá megum við fullkomlega búast við að nálægustu síldarmiðin okkar leggist í auðn, og mest allur síldarútvegurinn færist vestur á bóginn.

Og þá um leið er úti um Siglufjörð sem miðstöð Íslenskra síldarveiði. En hvað á þá til bragðs að taka?

Geta Siglfirðingar haldið sér við á öðrum veiðiskap ? Eða geta þeir haldið sér við, eftir sem áður á síldarveiði ?

Margir eru þeirrar skoðunar, að bæjarmenn ættu að stunda þorskfiski að miklum mun meira en verið hefir, og hákarlaveiði lengur fram eftir sumri en nú tíðkast. Þó er það meiri erfiðleikum bundið hér en víðast hvar annarstaðar að stunda þorskveiði sökum hins mikla dýpis, sem hér er á ystu fiskimiðum.

Og það segja mér gamlir fiskimenn, að þorskur gangi hér nú orðið sjaldan á grunn. Hafa þeir fært til þá ástæðu einna helst, að menn fari of fljótt á móti fiskigöngunni á vorin og beri niður beituna á djúpmiðunum, en þar stöðvist vænsti fiskurinn og gangi þá trauðla grynnra. þessir hinir sömu menn þykjast og hafa veitt því eftirtekt að sé ótíð og ógæftir er fiskur er að ganga, svo eigi verði komist á sjó, þá hafi þorskurinn verið kominn uppá grunnmið áður en menn vissu af.

Þetta hið sama hafa margin góðir og reyndir austfirskir fiskimenn sagt mér. Ef þetta er nú rétt skoðun, eins og engin ástæða er til að efa, þá ætti það að margborga sig fyrir útgjörðarmanninn að bíða svo sem vikunni lengur með að róa ef það yrði til þess að fiskurinn gengi að miklum mun grynnra; ekki síst yrði þetta mikill sparnaður nú, er olía er í gleypiverði og yfir höfuð allt er að útgjörð lýtur, því miklu áhættuminna er, vegna veiðarfæranna, að stunda fiskiveiðar á grunnu vatni en djúpu Það er engum efa undirorpið, að hér mætti stunda þorskfiski með góðum árangri miklum mun meira en gjört er.

Það getur verið hættulegt fyrir Siglfirðinga að reiða sig eingöngu á síldina. Hún veitir þeim að vísu afar mikla atvinnu, en þegar tillit er tekið til þess hve stuttur tími það er, sem veiðarnar standa yfir, er það allmikil áhætta fyrir fátækan fjölskyldumann að setja alt sitt traust á þær.

Og hver veit nema fiskveiðar á smábáta gæti verið hér arðvænleg atvinna yfir sumarið? Hefir sú veiði verið reynd hér að nokkrum mun í seinni tíð? Þá væri gott ef menn vildu athuga þetta mál nánar.

Tilgangur minn með þessum línum er aðeins sá að beina huga Siglfirðinga að því, að þeir verði að vera á verði um sinn hag -- ef svo færi að síldarveiðin hér brygðist eða gengi til þurrðar.

Kannski hamingjan gefi að svo verði eigi, en allur er varinn góður, og eigi mundi það verði bænum til neinna óhappa, þó hugir íbúanna hneigðust að fleiri en einum veiðiskap, eða þó meiri áhersla væri lögð á fiskiveiðar framvegis en hingað til hefir verið.

En eitt er nauðsynlegt og ómissandi ef hér ætti að verða stunduð þorskveiði af kappi -- það er frystihús. Það er einkennilega hljótt um það mál, jafn afar mikilsvert og það væri þó bænum að eiga hér slíkt hús.

Ég vænti þess fastlega að "Fram" veki menn af dvalanum um mál þetta, og berjist fyrir því með kappi og forsjá að því verði sem fyrst hrundið í framkvæmd, eða að minnsta kosti rætt í blaðinu svo almenningi gefist kostur á að kynna sér það. Þá vaknar áhuginn og þá koma framkvæmdirnar fyrr en varir (engin undirskift, ef til vill ritstjórinn ?)

oooooooooooooooooooooooooooooooo

Árið 1920 - Síldarfóðrun

Síldarfóðrun, grein 1920

"Fram" hefir borist skýrsla um bændaskólann á Hvanneyri 1818 til 1919 ekki alls fyrir löngu og er þar meðal annars greinarkorn um "Fóðurtilraun með síld", Það kann nú að líkjast því að bera í bakkafullan lækinn að fara að fræða Siglfirðinga um notkun síldar til skepnufóðurs, en aldrei er góð vísa of oft kveðin segir máltækið og skal því grein þessi tekin hér upp, ef svo kynni til að bera, að hún kæmi einhverjum að gagni.

-- Í fyrra vetur gerðum við dálitla fóðurtilraun á 4 kúm. Stóð tilraunin yfir frá 9. janúar til 18. mars.

Reynt var að haga tilrauninni þannig, að hægt væri að sjá, hvaða fóðurgildi síldin hefði á móti töðu og hvort lítið eða mikil síldargjöf hefði sömu áhrif á nythæð kúnna Það virtist koma greinilega í ljós við tilraunina, eins og við var að búast, að fyrsta síldin, sem gefin er, hafði langmest áhrif á fóðrið og nythæðina, sérstaklega þegar um nytháar kýr er að ræða, sem þar að auki fá úthey að einhverju leyti, en ekki tóma töðu.

Þannig virtust kýrnar ekki geta mjólkað meir en 11 merkur í mál af tómu heyi, sem þó var svo mikið að vöxtum til, að kýrnar hefðu átt að geta mjólkað miklu meira, eða eins og samanburðarkírnar 14 merkur í mál af sama fóðri, en þar sem nokkur hluti var síld, í hluta á móti 1,5 af töðu.

Þetta er naumast hægt að skýra öðruvísi, en í hey fóðrið vanti næringareini til mjólkurmyndunar, því kýrnar, sem síldin er dregin af, en fengu töðu í staðinn, fitnuðu sýnilega jafnframt og þær geltust.

Þegar svo aftur var farið að gefa kúnni eina síld á dag, 0,3 kg., græddi kýrin sig um fullan litra af mjólk á dag, þó jafnframt væri tekið frá henni 0,45 kg. af töðu. Með síldinni fékk kýrin vafalaust þau efni, sem vantaði til mjólkurmyndunar, og jafnframt gerðu þessi efni, skepnunni mögulegt, að hagnýta sér ýmis önnur efni í efni í heyfóðrinu líka til mjólkurmyndunar, en sem áður gátu aðeins myndað fitu, afl og hita í líkamanum Þetta skulum við skýra með litlu dæmi.

Til þess að fóðurfita og kolefni (sterkja, sykur, tréni) geti melts, þarf ákveðinn hluta af eggjahvítu, eða einn hluta af eggjahvítu á móti 8-10 hlutum af hinum fyrrnefndu. Vanti nú t. d. eggjahvítu eins og oft á sér stað, einkum í lélegri útheysgjöf og beit, meltast, t.d. ekki kolvetnin í fóðrinu, þó nóg sé til af þeim. Þau fara forgörðum. Sé nú t. d. beitarskepnu gefin örlítinn skammtur af eggjahvítu eða síldarmjöli, getur hún nú auk síldarskammtsins hagnýtt sér allt að tífalt stærri skammt af fóðrinu sem fyrir var.

Þess vegna er afar áríðandi að gefa ávalt svo mikla eggjahvítu, síldarmjöl, að skepnan geti hagnýtt sér allt aðalfóðrið. Þegar búð er að ná fullu jafnvægi milli eggjahvítunnar, síldarmjölsins og kolvetna og fitu, heyfóðurs og- beitar, fara að minka áhrif síldarmjölsins.

Það verður úr því sem hver annar fóðurauki. Önnur aðaltilraunakýrin, Freyja, svaraði þessu líka þannig: að fyrsta síldin sem hún fékk, 0,3 kg., samsvaraði 1,42 kg. af töðu þegar hún geltist, en 1,07 kg. þegar hún græddi sig aftur. Þetta samsvarar hlutfallslega: 1 hluta af síld á móti 4 ,7 og 3,6 eða rúmlega, 4 hlutum til jafnaðar af töðu. þegar síldargjöfin er aukin úr 0,3 kg. upp í 2,0 kg. var munurinn miklu minni.

Fór síldin þá að nálgast beint fóður, eða 1:1,96 gelding og 1: l ,6 græðsla, eða hér umbil 1,8 til jafnaðar. Í heild sinni mun því vera óhætt að gera síldina fullkomlega tvígilda á við töðu, þá um alla mikla síldargjöf er að ræða. En sennilegt þykir að árangur síldarfóðurs geti verið þessi þegar lítið er gefið:

1. Handa beitarfé og hestum 1 hluti síld á móti 3-4 af töðu

2. Handa skepnum sem fá lélegt útheysfóður og síðslægju, sinuborið, hrakið eða skemmt hey; sami árangur. Handa þessum skepnum er sjálfsagt að nota eggjahvítu og steinefnamikið kraftfóður, síld eða öllu heldur síldarmjöl og ögn af lýsi.

3. Fyrsta síldin handa hámjólkakúm, --- sami árangur. Meiri síld (síldarmjöl) minni árangur, eða 1:2

4. Lág mjólka kýr borga síldina (síldarmjöl) langverst, einkum fái þær tóma töðu, eins og víða er siður. Þá fá þær venjulega bæði nóg fóður í heild sinni, stundum miklu meira en þörf er á, -- og nóg af eggjahvítu og steinefnum.

Hér þarf því síldin ekkert upp að bæta, og er stundum alveg umfram, það sem nóg fóður er fyrir í töðunni. Þannig getur mönnum virst að síldin, gefin á vitlausum stað, hafi alls ekkert fóður gildi.

Norðmenn telja til fóðurs: 1 kg. síld jafngóða 1,4 kg töðu, og 1 kg. síld jafngilda 0,6 kg. síldarmjöls og 1 kg. síldarmjöls jafngilda 2,3 kg. töðu.

Í skýrslu þessari er önnur grein um "Fóðurtilraun" með vothey, sem líka er þess verð, að henni sé gaumur gefinn. Segir þar m.a. "Góð votheysverkun virðist fullkomlega jafnast á við bestu þurrheysverkun, eða þá að sauðfé hagnýti sér betur fóðrið, sé allmikill hluti þess vothey".

Enn er á öðrum stað smágrein um búsmíðar, sem kenndar,- hafa verið í skólanum, bæði leðurvinna, trésmíði og járnsmíði. Í grein þessari standa, eftirfarandi línur, sem margur mætti taka sér - "til inntektar" ekki síst á þessum tímum.- -

Eins og getið var um í síðustu skólaskýrslu, keypti skólinn einföld skóiðnaðartæki. Voru þau notuð mikið og engir skór sendir burt af heimilinu til aðgerðar. -- -

Skósólun er einföld og getur hver maður lært hana á einum degi, en áhöldin kosta álíka mikið og, þrennir skósólar