Ýmsar fréttir, árið 1922

Fram, 29 júlí 1922

Síldin.

M.k. Róbert kom með fyrstu nótsíldina á þriðjudag. Og á miðvikudags nótt komu nokkur skip inn með nótsíld, en flest með smærri slatta. Föstudag og í dag er talsverð síld.

Síld er nú bæði við Horn og Langanes og hér fyrir utan. Sum norsku skipin eru lögð á stað heimleiðis með síldina sem söltuð er utan landhelg. Es. "Teutonia" fór héðan í gær með nokkur hundruð tunnur af síld f rá Goos og ef til vill fleiri

---------------------------------------------------------

Fram, 26. ágúst 1922

Síldarverðið

hér á staðnum er nú 8-10 kr. málið af nótsíld og 10-12 kr. af reknetasíld.

-------------------------------------------------------

Fram, 2 september 1922

Slys.

Það hefir verið slysasamt þessa síðustu viku hér, maður, Guðmundur Jónsson að nafni, frá Reykjavik, slasaðist út í Hvanneyrarkrók, hjá Goos, við það að tóm tunna féll í höfuð honum úr nokkurri hæð og veitti honum nokkurn áverka en þó eigi hættulegan.

Sárið hafðist illa við, og liggur maðurinn nú á norska sjómannaheimilinu, en talinn er hann úr allri hættu.

Slysið orsakaðist af því, að tunnurnar voru teknar óvarlega úr bunkanum af manninum sjálfum eða einhverjum samverkamanni hans.

Mótorskipið "Stella" frá Akureyri var að skipa upp síld í síldarbræðsluna hjá Goos á þriðjudagsnóttina. Þar hagar svo til, að vagnbraut er lögð rúma mannhæð yfir söltunarpöllunum og er síldinni ekið eftir henni í stórum og þungum járnvögnum.

Er pallur á milli brautarteinanna, en enginn utan með brautinni. Þegar verið var að skipa upp síldinni, rann einn vagninn tómur út af sporinu og féll niður í tóman síldarkassa sem undir var og braut hann og háseti af Stellu sem ók vagninum féll einnig niður í sama síldarkassann og meiddist mjög, var hann borinn um borð í skipið rænulítill og fór það þegar á stað með hann til Akureyrar.

Maðurinn, sem heitir Jakob Jónsson frá Tungu á Tjörnesi, liggur nú Akureyrarspítala og er á batavegi. Við læknisskoðun reyndust tvö rif brotin og æð hafði slitnað og blætt inn í brjóstholið. Er talið að hann muni koma til heilsu aftur en þurfa langan tíma til að ná sér.

Um orsakir til slyssins eru deildar sagnir. Telja sumir umbúnað þarna eigi nógu tryggan og er það að sönnu satt, því annars hefði þetta eigi hent. En þó er það allgild afsökun, að þarna er búið að keyra upp síld með sama útbúnað í 10 sumur, og hefir aldrei orðið að slysi.

Aðrir kenna því um, að maðurinn sem ók vagninum, hafi staðið á enda vagnsins, og ef svo er, þá er það næg ástæða til þess að vagninn tómur, tapar jafnvægi, því sem hann annars hefir. Það er líka talin ein ástæða, að mennirnir af Stellu sem unnu að uppskipuninni, hafi verið orðnir mjög þreyttir.

Hvað svo sem um þetta er, þá er það eitt víst, að slys þetta hefði getað orðið margfalt voðalegra. Ef fólk hefði verið við síldarvinnu undir vagnbrautinni, eins og oft á sér stað, gat þetta kostað fleiri manna líf. Það er því full þörf á að brýna fyrir. mönnum varkárni, bæði við þetta verk og mörg önnur. -

"Aldrei er of varlega farið" og mesta furða er það, að slys skuli ekki verða hér oftar en er sökum óvarkárni og ónógs útbúnaðar við vinnu, nægir þar að benda á götin. á síldarpöllunum sem fólk er alltaf að detta ofan um, en engum verður að vegi að byrgja.

-----------------------------------------------------

Fram, 12. september 1922

Síldin.

Sökum óstillingar til sjávarins, var lítið hægt að stunda síldveiði fyrripart vikunnar, - þó fengu sum skipin nokkra síld því gnægð var af henni.

Allflestir hér voru orðnir tunnulausir, svo flest skipin seldu síldarverksmiðjunum bæði hér og í Krossanesi.

Hina síðustu góðveðursdaga hefir verið fremur lítið um síld, svo helst er útlit fyrir að nótaveiðin sé að verða búin en reknetaveiði getur haldist eitthvað fram eftir mánuðinum ef góð tíð verður.

Nú er búið að salta hér á Siglufirði samtals 137 þúsund tunnur og alls á

landinu 210 þúsund tunnur yfir vertíðina og er talsverður hluti at því kominn á markaðinn.

Ágiskað er að utan landhelginnar hafi verið saltaðar 80 þúsund tunnur Norsku síldarskipin eru nú flest farin eða á förum. og mörg sunnlensku skipin sömuleiðis.

-----------------------------------------------------

Fram, 30. september 1922

Nýja síldarverksmiðju heftir Severin Roald beðist leyfis að byggja hér á Siglufirði á lóð þeirri, er Elias Roald átti áður.
Allur útbúnaður verksmiðjunnar verður eftir allra nýjustu tísku, -- lyktarlaus.

Hér verður vonandi góður atvinnuauki í Siglufirði.