Árið 1930 - Fóðurbætir

Fóðurbætisrannsóknir

Siglfirðingur, 25 október 1930

Síldarmjöl reynist mikið betri fóðurbætir en rúgmjöl. Það eru ekki svo mörg ár síðan farið var að nota síldarmjöl til skepnufóðurs svo að nokkru nemi, enda ekki langt síðan farið var að framleiða það í stórum stíl hér á landi.

Áður en sú framleiðsla hófst var rúgmjöl aðallega notað sem fóðurbætir, og þá helst er um heyskort var að ræða á vorin og síðari hluta vetrar.

Bændur höfðu venjulega ekki annars úrkosta, ef vetur var harðari í eitt skipti en annað svo heyin þrutu fyrr en varði, en að sækja rúgmjöl í kaupstaðinn og halda með því lífinu í skepnum sínum. Enda var rúgmjölið af flestum álitið hinn hollasti og næringarmesti fóðurbætir.

Stuttu eftir að síldarmjölsframleiðslan hófst hér á Sig1ufirði og við Eyjafjörð mun mjölið að einhverju leyti hafa verið notað sem fóðurbætir. En lengi fyrst mun það hafa verið í smáum stíl og þá, aðallega handa kúm.

En síðari árin hefir notkun síldarmjöls aukist allmikið, þó enn vanti stórkostlega mikið á, að það sé notað eins mikið og eins almennt, eins og vera ætti.

Ranasóknir á fóðurgildi síldarmjöls hafa leitt í ljós, að það er næringarmeira en nokkur annar, fóðurbætir, og gerir sérstaklega gott gagn með útbeit eða léttu heyi.

Hér fara á eftir niðurstöður á fóðurtilraunum sem gerðar hafa verið að tilhlutun Búnaðarfélagsins. Þar segir svo:

Það er ekki hægt að fóðra ær svo viðunnandi sé með léttri beit og léttu útheyi. Rúgmjöl getur ekki bætt upp þann efnaskort, sem gera má ráð fyrir að eigi sér stað í léttu heyi og beit. Það kemur því að litlum notum sem fóðurbætir, undir þessum kringumstæðum.

Síldarmjöl er afbragðs fóðurbætir handa beitarám, Sé það gefið notast beitin miklu betur en ella, og ærnar verða þyngri og sællegri.

Með síldarmjöli má spara hey í stórum stíl. Í framanskráðum tilraunum hefir heyfóðrið verið minkað um allt að 8 kg. fyrir hvert kg. síldarmjöls sem gefið var, þrátt fyrir það hafa síldarmjölsærnar ávalt verið þyngri og sællegri en þær ær, sem hafa fengið eintómt hey eða hey og rúgmjöl.

Síldarmjöl mun því oft verða ódýrara fóður handa beitarám, en létt hey, í hlutfalli við næringargildi.

Undir flestum kringumstæðum mun 50-60 gr. dagskammtur af síldarmjöli vera nægilegur fóðurbætir handa ánni með léttu heyi og beit. Minni skammtur gerir þó einnig ágætt gagn.

Ef næg hey eru fyrir hendi, og eigi sérlega létt, mun óþarft að gefa ánni meira en 30 gr. af síldarmjöli á dag. Réttara mun þó vera að auka skammtinn nokkuð seinni hluta meðgöngutímans.

Sé heyknappt, og þess vegna sérstök þörf á heysparnaði, er óhætt að gefa hverri á allt að 120 gr. af síldarmjöli á dag og sennilega talsvert meira.

Á miklum beitarjörðum er í góðum vetrum oft hægt að komast af án þess að gefa nokkuð hey, ef síldarmjöl er gefið. Ærnar fóðrast mun betur á því og beitinni, en léttu heyi og beit.

Þessi er reynsla þeirra manna, sem gert hafa nákvæman samanburð á síldarmjöli og rúgmjöli sem fóðurbæti.

Það hefir margur bóndinn fengið að kenna á þeim erfiðleikum og þeim kostnaði sem því fylgir að afla heyja í óþurrasumrum.

Er þá ekkert ráð betra til þess að notfæra sér illa verkað og hrakið hey, en að kaupa nægilega mikið af síldarmjöli strax á haustnóttum, og gefa það með heyinu allan veturinn.

Í mörgum tilfellum væri jafnvel betra að kosta minna til heyöflunar enn margir gera en verja þeim mun meiru til mjölkaupa.

Og þótt verð á síldarmjöli sé nokkuð hátt, og margur bóndinn eigi erfitt með að kaupa mikið af því í einu, þá er þó þess að gæta, að kaupafólkið er líka dýrt og eftirtekja þess oftast rýr á óþurrkatímum.

Notkun síldarmjöls sem fóðurbætis ætti á því að aukast að miklum mun, og þó ekki væri stefnt að því að nota í landinu alt það mjöl sem þar er framleitt, þá ætti þó takmark landsmanna að vera það, að útrýma að fullu notkun erlends fóðurbætis, sem auk þess að vera útlendur, er miklu verri.

Þjóðin ætti sem allra mest að vinna að því, að nota ekki útlendar vörur þegar jafngóðar og jafnódýrar inniendar vörur eru fáanlegar.

En þegar hægt er að fá miklu betri innlenda vöru, eins og í þessu tilfelli, þá ætti notkun hinnar erlendu vöru alls ekki að eiga sér stað.