Tengt Siglufirði
Síldarbræðsluverksmiðjurnar.
Siglfirðingur, 29 nóvember 1930
Er útlit fyrir að þær verði að hætta að starfa?
Síldarbræðsluverksmiðjurnar eru eitt af þeim mörgu atvinnufyrirtækjum, sem eiga við mikla erfiðleika að stríða um þessar mundir.
Aðal orsök þess er hið mikla verðfall, sem á þessu ári hefir orðið á síldarolíunni.
Verð á síldarolíu hefir sem sé alltaf farið lækkandi alt þetta ár, og ekkert tilboð hægt að fá, sem neitt væri nálægt því að borga framleiðslukostnaðinn.
Þau útlend blöð sem láta þessa atvinnugrein sérstaklega til sín taka, eru mjög kvíðafull yfir núverandi ástandi, og telja horfurnar mjög ískyggilegar, nema úr rætist með lýsisverðið. En á því eru engar horfur sem stendur.
Þeir sem kunnugastir eru þessum málum eru jafn vel á þeirri skoðun, að hið núverandi lága olíuverð muni haldast í fyrirsjáanlegri framtíð, eða ekki hækka minnsta kosti. það verð sem nú er talið hugsanlegt að fá hæst fyrir síldarolíu, er á milli 13 og 15 sterlingspund fyrir 1.000 kg. komið um borð á útflutningshöfn. Er það svipað og fyrir stríð. Síldarbræðsluverksmiðjurnar hér á landi eru nú orðnar það margar og stórar, að þær má reikna sem einn af veigameiri þáttunum í fjárhagslegri afkomu þjóðarbúsins.
Sérstaklega á þetta þó við um Siglufjörð. Og fari nú svo, að þessi atavinnurekstur verði að hætta að nokkru leyti eða öllu. þá mun það einkum koma hart niður á okkur, sem þennan bæ byggjum, þó afleiðingarnar að sjálfsögðu komi víðar fram. Vonandi er, að svona fari nú ekki fyrir þessum atvinnuvegi, og allir hollvættir landsmanna leysi úr núverandi örðugleikum hið fyrsta.
Það mundi gleðja hvern góðan Íslending (að undanteknum Kommúnistum, sem stefna að hverskonar óförum atvinnuveganna.)
En eitt er víst: Ef olíuverðið hækkar ekki í nánustu framtíð og ef síldarbræðsla á ekki að leggjast alveg niður, þá verður reksturskostnaður verksmiðjanna að lækka að miklum mun frá því sem hann hefir verið. Geti það ekki orðið, þá er full stöðvun verksmiðjanna fyrirsjáanleg.
Þetta hér sem er sagt, á ekki aðeins við síldarverksmiðjurnar, heldur um allt það, sem framleitt er í landinu og háð er samkeppni á erlendum markaði. Ástæðan fyrir hinu afar lága síldarolíuverði, svo og á öðrum olíutegundum, er meðal annars og aðallega talin sú, hve afskaplega mikið nú er framleitt af hvalolíu, og farið hefir vaxandi með hverju ári.
Framleiðsla þessarar olíutegundar er orðin svo mikil, að búist er við að hún á næsta ári verði um 3 miljón föt. Hvalolían er notað til, hins sama og síldarolían, mestmegnis í smjörlíki og sápu. Á þessu ári munu sex síldarbræðslustöðvar hafa verið starfandi svo að nokkru verulegu haft numið, þar af þrjár hér í bænum.
Allar hafa þær orðið fyrir því sama, að geta ekki selt olíuna, nema "Ægir" í Krossanesi, sem mun hafa verið búin að selja löngu fyrirfram meiri hlutann af sinni olíu fyrir rúm 20 sterlingspund smálestina.
Hesteyrarstöðin mun og hafa selt nokkur hundruð föt fyrir 18 pund smálestina og Ríkisverksmiðjan svipað.
Öll önnur síldarolía liggur enn óseld og óseljanleg, og skiptir verðmæti hennar miljónum króna. Þetta alvarlega ástand er hverjum hugsandi manni áhyggjuefni.
Hver atvinnugrein landsmanna eftir aðra færist í áttina til algjörar stöðvunar vegna þess fyrst og fremst, að ekki hefir tekist að framleiða útflutningsvöruna fyrir það verð, sem fáanlegt er fyrir hana.
Allir þeir, sem við framleiðslu fást, eða að henni vinna á einn eður annan hátt, verða að gera sér það ljóst að þegar um er að ræða vöru, sem aðrar þjóðir framleiða og selja í samkeppni við okkar vöru, þá verðum við að framleiða hana með að minnsta kosti jafnlitlum tilkostnaði og þeir, eða þá að láta vera að framleiða þá vöru.
Og hversvegna ættu Íslendingar að standa ver að vígi en aðrar þjóðir í því efni? Hversvegna getum við ekki sætt okkur við þann afrakstur framleiðslunnar, sem aðrar þjóðir virðast una við eða láta sér nægja?
Við erum hvort sem er algjörlega háðir heimsmarkaðinum um verðlag nálega alls þess, er við kaupum og seljum.