Krossanesdeilan Árið 1930

Krossaneshneyksli. Hvað er að gerast?

Úr Siglfirðing 19 júlí 1930

Öllum lesendum "Siglfirðings" mun vera kunnugt um það að vinna var stöðvuð í verksmiðjunni "Ægir" í Krossanesi fyrir tæpum tveimur vikum síðan.

Orsakir þessarar vinnustöðvunar mun aftur á móti öllum þorra manna lítt eða með öllu ókunnar, meðfram og ekki síst af þeim ásæðum, að kommúnistar hér og á Akureyri hafa breitt út staðlausar lygasögur um hinar eiginlegu orsakir hennar. Skal því hér rakin saga vinnustöðvunarinnar, eins og hún er sönn og rétt.

Einhvern tíma í vor kom bóndi úr Glæsibæjarhreppi til verksmiðjustjórans í Krossanesi, og bað hann um vinnu fyrir sig og son sinn.

Verksmiðjustjórinn tjáði honum, að hann gæti fengið vinnuna fyrir þá feðga yfir þriggja mánaða tíma gegn 300 króna mánaðarkaupi, sem nú er gildandi taxtakaup, en að hann tæki menn ekki í tímavinnu. Gekk bóndi að þessu og byrjaði vinnu:

Fyrsta daginn kom sonurinn ekki til vinnunnar.

Næstu tvo daga kom sonurinn og vann, en faðirinn ekki.

Fjórða daginn vann gamli maðurinn en sonurinn ekki, og fimmta daginn, sem var laugardagur kom hvorugur feðganna til vinnunnar, og hafa ekki komið þangað síðan.

En þennan sama dag fór fram útborgun vinnulauna og settu þeir til þess annan verkamann sem þar vann, að taka á móti kaupi sínu.

Var þeim greitt kaup fyrir þessa daga í réttu hlutfalli við mánaðarkaupið, eða kr. 1,15 á klukkustund, enda vissi verksmiðjustjórinn, þá ekki annað en að þeir feðgar mundu halda áfram vinnunni.

En næstu daga kom svo hvorugur þeirra feðga og við eftirgrennslan fær verksmiðjustjórinn vitneskju um, að þeir, annar eða báðir, hafi ráðist á síldarskip.

Litlu síðar kæra svo feðgar þessir eða eru fengnir til að kæra til stjórnar Verkalýðssambandsins yfir því, að þeim hafi ekki verið greitt tímakaup samkvæmt taxta fyrir þessa fjögurra daga vinnu í verksmiðjunni. - Hafði þó verið tekið við hinu umsamda kaupi án mótmæla og þeir feðgar ekki tjáð verksmiðjustjóranum óánægju sína né krafið um meira.

Svo virðist, sem stjórn Verkalýðssambandsins hafi orðið kæru þessari mjög fegin öll, nema ef til vill Steinþór Guðmundsson, sem talið er að strax hafi verið andvígur uppþoti út af ekki meira tilefni.

Um þá bræður Erling og Halldór Friðjónssyni og Einar Olgeirsson furðar mann ekki svo mjög þó þeir verði sér til skammar og skapi jafnvel samherjum sínum eignatjón með ofstæki sínu, því það er löngu þjóðkunnugt hvern hug þeir bera til verksmiðju þessarar og hve lagnir og ötulir þeir eru í því, að búa til sakarefni á hendur mönnum og fyrirtækjum sem þeir telja sér hagnað í að koma á kné - enda ekkert trúlegra en feðgarnir hafi ekki verið einir í ráðum um sinn þátt í forspili þessa skrípaleiks.

Næsti þáttur leiksins er mönnum hér kunnugri. - Laust fyrir næst síðustu helgi hafði Einar Olgeirsson, þessi hálaunaði fulltrúi íslenskra sjómanna, flutt hingað til bæjarins ásamt börnum sínum og konu, til þess að taka við verkleysi og vandræðafálmi Ingvars Pálmasonar.

Mánudaginn 7. þ.m. ætlaði hann að halda tvo fundi með undirmönnum sínum og hafði boðið þeim að mæta á ákveðinni stundu.

En er til átti að taka var hann allur á bak og burt. Við nánari athugun vitnaðist að hann hafði fengið fregnir af kæru feðganna og óðara kallað á lystibát Einkasölunnar, þennan nýkeypta sem enginn veit til hvers er ætlaður, og farið á honum til Krossaness ásamt alt að 20 úrvals friðarspillum.

Má þar fremstan telja Þórodd Guðmundsson næturvörð, fastlaunaðan starfsmann bæjarins, sem laug sig frá yfirboðara sínum og hljóp frá starfi sínu.

Þá er það og fullkomlega ámælisvert að teknir eru fastráðnir verkamenn við söltun hjá Einkasölunni og sendir til höfuðs starfsbræðrum sínum.

Að lystibátur sem keyptur er fyrir fé íslenskra sjómanna, er notaður til þess að spilla fyrir þeirra eigin atvinnu um leið og stofnað er til ófriðar í landinu og hömlur settar á tekjur ríkissjóðs og viðkomandi sveitarsjóðs.

Þessir háu herrar, ásamt samherjum sínum á Akureyri, lögðu svo verkbann á verksmiðjuna í Krossanesi.

Um venjulegt verkfall er hér ekki að ræða, því verkamenn verksmiðjunnar undantekningarlitið vildu halda áfram vinnunni óáreittir af óviðkomandi mönnum.

En þeir voru blátt áfram neyddir til að leggja vinnuna niður. Þegar hér var komið var lögreglustjórinn á Akureyri kvaddur úteflir og kom hann þegar, með Gunnar Jónsson lögregluþjón með sér. Gerði lögreglustjóri tilraun til að hafa tal af verkamönnunum og umsátursmönnum, en fékk enga áheyrn.

Í hvert sinn er hann reyndi að tala við þá, tóku þeir til að syngja sáluhjálparljóð sín "internationalen" og Gunnar Jónsson tók ofan húfuna og stakk sér inn í hópinn og söng með.

Er gott fyrir Akureyringa að vita hvers þeir mega vænta af þeir þyrftu á honum að halda við lögleysuóeirðir verkamanna á Akureyri.

Þegar lögreglustjóri gat ekki fengið að tala við verkamennina, fékk hann þá Einar Olgeirsson og Erling ásamt Holdö, til þess að ræða við sig um málið.

Bauðst Holdö strax til þess, að bæta upp, kaup þeirra feðga, jafnvel þótt hann teldi sér ekki bera skyldu til þess, þar sem þeir hefðu fengið kaup sitt greitt samkvæmt umsömdum þriggja mánaða ruðningstíma.

En þegar þeir Einar og Erlingur sáu að þessi ástæða fyrir vinnustöðvuninni varð að engu, fundu þeir upp nýja ástæðu. -­

"Nokkrir Norðmenn, 18-20, unnu við verksmiðjuna að fengnu leyfi ríkisstjórnar. Við þessa Norðmenn var samið í Noregi og kaup þeirra miðað við greiðslu í norskum gjaldeyri og sett samkvæmt gildandi kauptaxta þar.

Kaup þeirra var því nokkru lægra um klukkustund, en gildandi kauptaxti hér, en þeir höfðu auk kaupsins ýmis hlunnindi sem Íslensku verkamennirnir með textakaupi ekki höfðu, svo sem fullt kaup frá því þeir fóru að heiman og þar til þeir koma heim aftur, frýjar ferðir, frítt fæði

o. s. frv.

Nú kærðu þeir Holdö fyrir að hann greiddi þessum mönnum lægra kaup en gildandi taxti á staðnum heimilaði.

Þessu neitaði Holdö og bauð að rannsaka hvort kæran væri á rökum byggð eða ekki. En þeir vildu enga rannsókn, kröfðust aðeins taxtakaups í Íslenskum peningum handa Norðmönnunum.

Nú er það sannað, að þegar tillit er tekið til allra þeirra hlunninda, sem þessir Norðmenn hafa, þá er kaup þeirra nokkuð hærra en íslenska taxtakaupið. Þó ófiðapostularnir ekki hafi enn fengist til að kannast við það.

Samkomulagstilraunir þær, sem gerðar voru, tóku auðvitað nokkurn tíma og alltaf varð að halda vörð um verksmiðjuna, og meðal þeirra sem þannig voru þvingaðir til að standa vörð var gamall maður sem í 16 ár samfleytt hafði unnið hjá Holdö og átti honum margt gott að launa.

Þessi gamli maður tók svo nærri sér að þurfa að standa á verði að hann gerði það grátandi.

Svo níðingslegur er flokksagi kommúnista og þrælslegur kúgunarháttur þeirra, að tilfinningum þessa gamla manns var ekki þyrmt.

Auðvitað kostar allt þetta umstang töluverða peninga, bæði í beinum útgjöldum og svo verður að borga verkamönnum kaup sitt svo hægt sé að halda þeim frá vinnunni.

Hefur verið leitað samskota meðal verkamanna og sjómanna upp í kostnaðinn.

Við framhaldandi samningatilraunir kröfðust þeir Einar og Erlingur þess, að Holdö greiddi fyrir verksmiðjunnar hönd 1.000 krónur í skaðabætur fyrir hvern dag sem vinnustöðvun stæði yfir.

Því neitaði Holdö sem vonlegt var og sagði að vinnustöðvunin væri ekki af völdum verksmiðjunnar.

Meðan þessu fór fram, var haldinn fundur á fund ofan í Verkamannafélagi Siglufjarðar og þar samþykkt, að ef Verkalýðssambandið óskaði þess, þá skyldi í stöðvuð vinna í öllum síldarverksmiðjunum hér svo sem í samúðarskyni, og var þetta tilkynnt verksmiðjunum hér skriflega af formanni félagsins.

Sýnir sú samþykkt betur en margt annað hve æsingarmenn þeir, sem að þessu verkbanni stóðu, eru gersneiddir skynsamlegum ályktunum, er þeir halda, að stöðvun verksmiðjanna hér reki á eftir Holdö að verða við kröfum sinum.

Það liggur í augum uppi, að vinnustöðvun við verksmiðjurnar hér hafa ekki nein önnur áhrif, en að gera íslenskum sjómönnum ókleyft að koma veiði sinni í peninga.

Bara hótunin einsömul hafði þau áhrif, að eigendur verksmiðjanna hér þorðu ekki að kaupa nema mjög lítið af síld, en af þeirri ástæðu óx framboð síldarinnar svo, að verðið lækkaði um helming.

Ekki leið á löngu þar til foringjar þessa samúðarverkfalls ráku sig á það, að sjómennirnir voru ekki ánægðir með slíka ráðstöfun.

Og svo munu sjómenn hafa lýst rækilega afstöðu sinni til þessa máls, að "foringjarnir" sáu sinn kost vænstan með því að láta boð út ganga, að "samúðarverkfallið" skyldi því aðeins hafið, að sjómennirnir æsktu þess sjálfir. En með því var það að sjálfsögðu úr sögunni. Kröfur þær sem gerðar voru til framkvæmdarstjórans í Krossanesi, eftir að útkljáð var um kaup feðganna, voru í fimm liðum:

1. Taxta verkalýðsfélaganna fylgt í öllum greinum.

2. Útborganir fari fram vikulega, jafnt til innlendra og erlendra verkamanna,

3. Engir aðrir en verkamenn úr verkalýðssamtökunum séu teknir til vinnu.

4. Að þátttakendur verkfallsins og trúnaðarmanna verkamanna séu að engu leyti útilokaðir frá vinnu, sökum þátttöku sinnar í verkfallinu

5. Dagkaup samkvæmt taxta sé greitt öllum þeim verkamönnum, sem unnu í verksmiðjunni þegar verkfallið var hafið, allan þann tíma, sem vinnustöðvunin stendur yfir.

Þessum kröfum svaraði Holdö strax á þá leið, er hér segir:

Að. 1. Samþykkt skilyrðislaust að því er íslenska verkamenn snerti, en að því er norsku verkamennina snerti, þá væri hann fús til að greiða þeim kaupuppbót, svo fullkominn jöfnuður kæmist á, ef kaup þeirra að dómi óvilhallra manna reyndist lakara en íslensku verkamannanna.

Að. 2. Samþykkt skilyrðislaust að því er Íslenska verkamenn snerti, og að því er þá norsku snerti ef þeir æsktu þess sjálfir.

Að 3. Neitað skuldbindingu um að taka aðeins þá menn í vinnu, sem væru í verkalýðsfélagi.

Að. 4. Lýsti yfir því, að sér hefði aldrei komið til hugar að láta umrædda menn á nokkurn hátt gjalda þátttöku sinnar í verkfallinu.

Að. 5. Neitað af þeirri ástæðu, að vinnustöðvunin væri ekki verksmiðjunnar sök.

Það sem því á milli ber, er það, að forkólfar vinnustöðvunarinnar vilja fá kaup handa verkamönnunum fyrir þann tíma sem stöðvunin stendur yfir, og að engir fái vinnu nema þeir séu í verkalýðsfélagi.

Tilboði verksmiðjustjórans, um rannsókn á hinu raunverulega kaupi norsku verkamannanna, hafa "forkólfarnir" ekki sinnt, en halda fast við fulla vinnustöðvun.

Þegar vinnustöðvunin hafði staðið í fulla viku, fór Holdö til Reykjavíkur og óskaði aðstoðar sáttasemjara ríkisins. Litlu síðar fór svo Einar Olgeirsson suður til þess að taka þátt í frekari samningatilraunum. Svona standa sakir þegar þetta er ritað.

En hvað er nú það sem hér er að gerast? Menn spyrja hver annan svo, og það að vonum.

Vinna er stöðvuð í Krossanesi án þess að verkamennirnir óski þess sjálfir og án þess að nokkrar þær ástæður séu fyrir hendi, sem hafa stuðning í landslögum.

Stórt iðnaðarfyrirtæki, sem í tugi ára hefir verið fjárhagsleg gullnáma fyrir viðkomandi sveitarfélag og drjúg tekjulynd ríkissjóðs, er stöðvað án þess nokkuð sé athugað það tjón, sem af stöðvuninni leiðir fyrir sveitafélagið, fyrir viðkomandi verkamenn og fyrir ríkissjóð, en þó fyrst og fremst fyrir sjómennina, sem að miklu leyti eiga afkomu sína undir óhindruðum rekstri þess.

Hver ástæðan annarri heimskulegri er sett fram sem orsök vinnustöðvunarinnar, og jafnóðum og einni er hrundið er önnur búin til.

Er það ekki broslegt?

===================================================

Siglfirðingur, 26. júlí 1930

Krossanesdeilunni lokið

Afleiðingar vinnustöðvunarinnar verða 14 daga vinnutap fyrir verkamennina.

Síðastliðið laugardagskvöld barst blaðinu símskeyti frá Fréttastofunni um að Krossanesdeilan væri til lykta leidd fyrir milligöngu sáttasemjara ríkisins, Björns Þórðarsonar lögmanns í Reykjavík.

Samkvæmt undirskrifuðum samningi voru tvö aðalatriði samkomulagsins þau, að norsku verkamennirnir fengju sama kaup og íslenskir og að menn innan Glæsibæjarhrepps hefðu forréttindi til vinnu í Krossanesi.

Eftir þessu að dæma er þá aðeins eitt sem forsprakkarnir hafa unnið á með vinnustöðvuninni, umfram það sem ávannst strax með friðsamlegum umleitunum, og það er að sjö norskir verkamenn fá hærra kaup en þeir íslensku, þegar með eru talin hlunnindi þeirra.

Aftur á móti hafa þeir orðið að falla frá 3. og 5. lið í kröfum sínum, að aðeins meðlimir verklýðsfélaga fái atvinu og að verksmiðjan greiði verkarmönnunum kaup meðan á stöðvuninni stóð.

Alls munu vera 18 - 20 Norðmenn við verksmiðjuna í Krossanesi, og var krafist kauphækkunar fyrir þá alla. En Holdö færði rök að því, að 10 - 12 þeirra væru fagmenn eða iðnaðarmenn, sem lög og reglur verkamanna næðu ekki yfir.

Voru þá eftir 7 menn, sem um var deilt og sem endaði eins og fyrr segir. -­ Þetta Krossanesmál alt, frá upphafi þess til enda, er eitthvert hið mesta brjálæðisflan, sem foringjar kommúnista hafa stofnað til og er þá langt jafnað, þar sem tveir hálaunaðir æsingaleiðtogar kúga Íslenska verkamenn í tugatali til þess að leggja niður vinnu og verða af kaupi í 14 daga eingöngu til hagsmuna fyrir 7 erlenda menn.

Og enn alvarlegra er þetta brjálæðisflan, þegar þess er gætt, að það hefir skaðað að miklum mun atvinnutekjur hundruð sjómanna, þeirra manna, sem greiða öðrum foringjanum kaup sitt alt og hinum að nokkru.

Illur var hlutur þeirra Einars og Erlings úr máli þessu, og munu sjómenn meta hann að verðleikum.

Illur hefir hlutur, þeirra verið úr flestum þeim málum, sem síldveiðarnar hafa snert og þeir hafa haft nokkur afskipti af, þó hafa þeir hampað sjálfum sér við hvert tækifæri sem forvígismönnum og málsvörum sjómanna.

En skyldu nú sjómenn ekki sjá og finna hvers virði forsjón þeirra er? Báðir eru þeir aðalstjónendur Einkasölunnar og stöðu sinnar vegna skyldir til að sjá hag hennar sem best borgið. En er ekki hagur Einkasölunnar hagur sjómannanna?

Og hvað hefði orðið um Einkasöluna ef allar bræðslustöðvarnar hefðu verið stöðvaðar?.

Hverjir hefðu viljað veiða síld til söltunar og eiga víst að þurfa að moka í sjóinn því sem ekki reyndist söltunarhæft?

Ef til vill nokkrir reknetabátar. Allir aðrir hefðu að sjálfsögðu hætt veiðum og hvað ætti Einkasalan þá að salta? Þetta sáu forkólfarnir þó seint væri, og þess vegna var það, að kjarkur þeirra bilaði á síðustu stundu, að því er snerti samúðarverkfallið.

Þeir vildu ekki stofna Einkasölunni í hættu af því að með því stofnuðu þeir sjálfum sér í hættu. Svona er nú umhyggja þerra fyrir sjómönnunum og verkamönnum.

En nú er spurningin þessi?

Getur Íslenska þjóðin þolað það, að Einar Olgeirsson haldi áfram að vera framkvæmdarstjóri Einkasölu ríkisins eftir að hafa með framkomu sinni í Krossanesmálinu bakað sjómönnum og verkamönnum tjón er nemur hundruðum þúsunda? Hvað lengi ætlar Íslenskur verkalýður að láta teyma sig eins og skynlausar skepnur?

Hvað hafa þessir menn, sem kalla sig leiðtoga lýðsins, gert fyrir ykkur annað en nota ykkur til þess, að hossa sjálfa um sér upp í metorð, völd og hálaunaðar stöður?

Hvenær er ykkur nóg boðið? Eru engin lög til í landinu sem tryggja mönnum vinnufrið?

Geta fáeinir, "öfgamenn" lagt í auðn heilan atvinnuveg þjóðarinnar að geðþótta - sínum og óátalið?

Væntanlega verður þjóðin ekki búin að gleyma þessu við kosningarnar næsta ár.