Atvinnuhorfur árið 1932

Siglfirðingur, 9. júlí 1932 "Ritstjórnargrein"

Sjaldan hafa atvinnuhorfur verið öllu ískyggilegri hér í Siglufirði en nú. - Það er án efa sannmæli, sem einn gætinn og greindur Siglfirðingur sagði í vor er tilrætt var um útlitið: "Það er skuggalegt framundan".

Frá því laust eltir aldamótin síðustu, eða síðan síldveiðin byrjaði hér, hefir Siglufjörður verið gullnáma atvinnulífsins norðanlands, og hann hefir raunar verið það fyrir allt landið, því hingað hefir yfir sumarmánuðina safnast fólk í atvinnuleit hvaðanæva af landinu. Og fólkið hefir sjaldnast farið héðan vonsvikið. -

Eftirspurnin eftir vinnukraftinum var lengst af meiri en framboðið. Allir fengu hér vinnu sem vildu vinna, og margir voru þeir bændur og bændasynir, sem settu héðan heim til búa sinna með drjúgan skerf peninga, og mörg heimasætan átti það síldarvinnunni á Siglufirði að þakka, að hún að vetrinum gat fullnægt menntunarþrá sinni, því síldaratvinnan var ekkert smáleg í útlátum við verkafólkið.

Síldarvinnan hér var svo vel borguð, að bændur um skeið kenndu henni um allan ófarnað og kröggur landbúnaðarins og töldu hana sprengja svo upp kaupgjald og draga fólk svo úr sveitunum, að til auðnar horfði þar. Þetta viðhorf hefir breyst mjög til hins verra. - Framboð vinnu hin síðustu árin, hefir verið svo mikið, að í engu samræmi er við eftirspurnina.

Fólkið hefir flykkst hingað (eins og víðar í bæina) miklu meira en góðu hófi gegndi, án þess að nokkuð hafi verið um það hugsað eða til þess gert, af hálfu þess opinbera eða einstaklinganna, að atvinnumöguleikar og atvinnutæki ykjust að sama skapi, heldur þvert á móti. -

Öflug verklýðssamtök hafa verið mynduð hér, til þess að halda kaupgjaldinu óeðlilega háu. Úlfúð og hatri hefir verið sáð út meðal verkafólks og vinnuveitenda og að þeim eldi blásið, að einungis sé um að gera fyrir verkafólkið, að heimta hátt kaup, án tillits til þess, hvort framleiðslan gat borið það eða ekki.

Og nú hefir boginn brostið. - Framleiðslan getur ekki lengur borið hið háa verkkaup og ýmsan annan kostnað. - Gífurleg verðlækkun á öllum framleiðsluvörum þjóðarinnar, til lands og sjáfar, heimtar hlutfallslega lækkun á kostnaðinum við framleiðsluna, og þegar við verðlækkunina bætast söluörðugleikar þeir, sem heimskreppan veldur, þá verður slík krafa enn meir aðkallandi.

Atvinnuhorfurnar hér i Siglufirði eru í sem stystu máli þessar:

Þorskafli hefir verið ágætur í alt vor. Tilkostnaður við þorskveiðarnar hefir verið hóflegur, því nær allstaðar eru hlutaskipti, en fiskverð er svo hátt, að sjómenn hafa verið lítið meira en matvinnungar, og nú er svo komið. að margir bátanna eru að hætta veiðum.

Fiskverðið hefir nú á síðkastið verið alt niður í 15 aurar kg. af fullsöltuðum þorski, 22 þumlunga og þar yfir, og 11 aura kg. af smærri fiski. Róðrar borga því ekki kostnað, nema meðan uppgripaafli er.

Hitt er þó verst, að mjög erfitt er að koma fiskinum út, jafnvel fyrir þetta lága verð. Síldarútgerð og síldarverslun Siglufjarðar liggur í rústum undan martröð Einkasölunnar og óviturlegra lagasetninga. - Það er enginn annars bróðir í leik í samkeppninni á vörumarkaði heimsins nú á dögum.

Og nú er svo komið, að vér megum horfa á það, án þess að geta nokkuð að gert, að erlendar þjóðir undirbjóði oss á síldarmarkaðinum sem vér áður áttum, með síld sem þeir ausa upp rétt utan við landhelgina. - Danir, Svíar, Finnar og sérstaklega Norðmenn, hafa síðustu árin getað boðið síld sína veidda hér við land, fyrir allmikið lægra verð en vér höfum staðist við að selja síldina, ef við áttum að ná upp kostnaðinum, og nú hafa þeir enn lækkað boð sín að miklum mun og jafnframt aukið útgerð sína hér við land.

Auk þess hafa nú Eistlendingar bæst í hópinn. Það var því þegar af þessum ástæðum fyrirsjáanlegt að hér yrði í sumar verkaður aðeins lítill hluti af síld, móts við það sem áður hefur verið. Vér erum orðin hornrekur á síldarmarkaðinum. Hér við bætist svo það, að alt er í óvissu enn um rekstur síldarverksmiðjunnar, en það er ljóst, að það hefir mikil áhrif, einnig á síldarsöltunina, hvort hún verður starfrækt eða ekki, því fá eða engin skip munu leggja út i það eins og horfurnar eru nú, að veiða síld eingöngu til söltunar.

Síldarverksmiðjurnar hafa undanfarið veitt svo góða og mikla atvinnu hér í bænum, jafnframt og þær hafa líka verið drýgsta tekjulindin fyrir bæjarsjóð, því áður en ríkisverksmiðjan var byggð, báru þær nærfellt þriðjung af útsvörum til bæjarins. Með ákvæðinu um útsvarsfrelsi ríkisverksmiðjunnar var það ljóst, að þeim grundvelli var kippt burtu, sem gerði þær samkeppnisfærar við hana. þrátt fyrir þessi hlunnindi ríkisverksmiðjunnar hefir, þó sú orðið reyndin, að hún hefir verið rekin með tapi.

Í fyrra voru verksmiðja Goos og verksmiðja Dr. Paul ekki reknar það sem neitt gat heitið. Enn hefir orðið stórkostlegt verðfall á afurðum verksmiðjanna, lýsinu og mjölinu, og enn eru þessar vörur fallandi. Það er því fyrirsjáanlegt, að ekki er hægt að reka verksmiðjurnar með sama reksturskostnaði, nema með því einu móti að lækka síldarverðið.

Nú hefir af gagnkunnugum verið talið, að kaup sjómanna við síldveiðar s.l. sumar, hafi numið 207-247 kr, á mánuði til jafnaðar. Ef nú reksturshalli verksmiðjanna hefði átt að greiðast með lægra verði síldarinnar, þá var fyrirsjáanlegt að síldarverðið hlaut að verða svo lágt, að sjómenn og útgerðarmenn fengju sama og ekkert fyrir hana. Þessi leið mátti því kallast ófær, því með mjög mikið lækkuðu verði á bræðslusíld, hefði enginn fengist til að veiða hana.

Var þá hin leiðin reynd hvað ríkisverksmiðjuna snertir, sú, að lækka hvorutveggja, síldarverð og verkkaup. Samkomulagi að þeirri leið hefir ekki tekist að ná enn. Mun þar sennilega hafa skort nokkuð á réttan skilning hjá öllum aðilum, sérstaklega á því, hve óvenjumikla þýðingu rekstur verksmiðjunnar hefir fyrir síldarútveginn eins og nú er málum komið.

Það er líklegt, að önnur Goos-verksmiðjan starfi í sumar sú sem Steindór Hjaltalín hefir leigða. Vissa getur þó varla talist fyrir því, þar sem rekstur hennar er ákveðin þannig, að hún svari síldareigendum aðeins því sem afgangs verður af verði framleiðslunnar, þegar allur kostnaður hefir verið greiddur, en eins og áður er vikið að, hlýtur það að verða lítið.

Um hina Goos-verksmiðjuna og verksmiðju Dr. Paul má því miður telja fullvíst, að þær starfi ekki, og um ríkisverksmiðjuna er enn allt óráðið, eins og fyrr er sagt. Í allt vor má svo kalla. að meginþorri bæjarmanna hafi gengið allvinnulítill dag eftir dag og viku eftir viku. Slíkt er alveg óvanalegt hér á Siglufirði í jafn hagstæðri tíð. Horfurnar eru hinar affeitustu um að brátt rakni fram úr.

Sú spurning hlýtur að vakna hjá öllum þeim sem íhuga þessi mál með alvöru: Er verðfallið á afurðum landsins aðeins snögg sveifla, sem brátt jafnar sig, eða er verðlag að færast aftur í eðlilegt horf eins og það var áður en stríðið og afleiðingar þess röskuðu jafnvæginu?

Vér teljum hið síðara sé að gerast, en enginn má ætla að jafnvægi í þessum efnum náist í einum svip.

En víst er það, að sú þjóð er best sett, sem þessu jafnvægi nær sem fyrst. Verðfall framleiðslunnar hefir komið yfir þjóðina á undan lækkuninni sem hlýtur að verða á kostnaðarliðinum við hana, lækkunin fylgir - því miður - í kjölfarið. Það er "lífsvenjubreyting" fyrrverandi dómsmálaráðherra sem er guða á gluggann hjá þjóðinni, og eina ráðið til þess að verjast yfirgangi þessa óboðna gests, er það, að hleypa honum inn tregðulaust.

Ritstjórn