Árið 1932 - Deilumál -Ríkisverksmiðjumálið

Einherji, 23. júní 1932

Stjórn Ríkisverksmiðjunnar hefir goðfúsleg leyft Einherja að birta eftirfarandi skýrslu, og hefir hún áður verið lesin upp í útvarpið.

,,Siglufirði, 19. júní, 1932.

Atvinnumálaráðherra Magnús Guðmundsson, Reykjavík.

Stjórnendur Síldarverksmiðju Ríkisins senda yður eftirfarandi skýrslu:

"Á fundi í Verkamannafélagi Siglufjarðar í gærkveldi strönduðu samkomu-lagstilraunir okkar um breytt launakjör við rekstur verksmiðjunnar í sumar.

Lágmark, taxtakaup var í fyrra, og er enn, kr. 325,00 á mánuði fyrir unnar 216 klukkustundir, föst eftirvinna hjá hverjum manni 3 klukkustundir daglega, sem greiðist með kr. 1,80 á klukkustund.

Þessi fasta eftirvinna gerir 66 klukkustundir á mánuði. eða kr. 118,80 á mánuði.

Auk þessarar föstu eftirvinna var önnur eftirvinna iðulega unnin með sama tímakaupi.

Helgidagur reiknast 36 klukkustundir í hverri viku með kr. 3,00 kaupi á klukkustund. Sökum aðkallandi verka varð ekki komist hjá að láta vinna fyrir þetta kaup 48 klukkustundir á mánuði, eða fyrir kr. 144,00.

Mánaðarkaup er þá samkvæmt þessu kr. 587.80 auk eftirvinnu umfram greinda 666 klukkustunda fasta eftirvinnu, er þá mánaðarkaupið um kr. 600,00.

Eftir þeim söluhorfum, sem nú eru á afurðum verksmiðjunnar, og sem fara síversnandi, er fyrirsjáanlegt tap á rekstrinum.

Er því að athuga hvaða útgjaldaliði sé hugsanlegt að lækka.

Útborgunarverðið fyrir síldina, sem nam í fyrra að meðaltali kr. 3,34 fyrir máið, álítum við ógjörlegt að lækka meir en niður í kr. 3,00, nemur sú lækkun, miðuð við 100 þúsund mála vinnslu, 34 þúsund krónum.

Þetta álit okkar rökstyðjum við með því, að í fyrra, er við greiddum kr. 3,34 fyrir málið, báru sjómenn og útgerðarmenn svo litið úr býtum, að óhugsandi er, að lækka þennan útgjaldalið meir en um 10 % Samkvæmt skýrslu, er við höfum gert um afla þeirra skipa, sem lögðu síld uppi verksmiðjuna í fyrra, nam meðal aflahlutar sjómanns af öllum síldarafla krónum 207,00 á mánuði á mótorskipum, og kr. 242,00 af gufuskipum, og hásetarnir fæddu sig sjálfir.

Tap var yfirleitt á síldarútgerðinni i fyrra. Vegna þeirra erfiðleika, er nú steðja að verksmiðjunni, hafa stjórnendur verksmiðjunnar og fastir ársmenn boðist til að lækka árslaun sín um samtals kr. 14.900 - og nemur sú lækkun 33,7 % á meðaltali á árslaunum þeirra.

Lækkun sumra festra starfsmanna er þó bundin því skilyrði, að almenn kauplækkun eigi sér stað við verksmiðjuna. Verksmiðjustjórninni sýndist nauðsynlegt að fara fram á launabreytingu hjá verkamönnum í verksmiðjunni á þessa leið:

Sex dagar vikunnar reiknist virkir dagar með kr. 1,25 á klukkustund, verður mánaðarkaupið þá kr. 390,00 fyrir 312 klukkustundir á mánuði, og auk þess 24 klukkustundir á mánuði í helgidagavinnu á kr. 2,00 á klukkustund, eða kr. 48,00, samtals á mánuði kr. 438,00 fyrir sama stundafjölda og í fyrra voru greiddar um kr. 600.00.

Auk þess bauð verksmiðjustjórnin tryggingu fyrir 500 klukkustunda vinnu yfir síldveiðitímann með kr. 1,25 kaupi á klukkustund, sem yrði greitt þótt síldveiði brygðist.

Eftir tillögunni myndu á þessum lið sparast um 25 þúsund krónur. Ef við eigum að greiða sama reksturskostnað og í fyrra og lögbundnar greiðslur til ríkissjóðs, fyrningu og verasjóðsgjald, verður, samkvæmt núverandi hurfum, ekki hægt að greiða nema nokkra aura fyrir hvert síldarmál, en við höfum sýnt fram á, að óhugsandi er að skip fari á veiðar fyrir minna en kr. 3,00 fyrir málið.

Á fjölmennum fundi Verkamannafélags Siglufjarðar í gærkveldi, er við sátum og ræddum ítarlega í nær 5 klukkustundir um framangreinda tillögu okkar, var að lokum samþykkt svohljóðandi tillaga frá Gunnari Jóhannssyni:

Fundur haldinn í Verkamannafélagi Siglufjarðar 18. júní 1932, lýsir sig algjörlega mótfallinn allri kauplækkun meðal verkalýðsins, og samþykkir því, að halda fast við kauptaxta félagsins, sem samþykktur var í vetur, og þá strax auglýstur".

Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Í umræðunum skýrðum við rækilega fyrir fundarmönnum hversu, afar ískyggilegar horfurnar væru, aðrar síldarverksmiðjur á Siglufirði hefðu í fyrra orðið að leggja árar í bát, síðan hefði ástandið versnað gífurlega, sem næmi meir en kr. 2,00 á hvert mál síldar, og, jafnvel óvíst hvort síldarmjöl yrði seljanlegt.

Til þess að mæta því verðfalli, sem orðið hefði frá lágu verði fyrra árs, yrðu allir að hliðra til, svo að reksturinn gæti hafist.

Sömuleiðis skýrðum við frá því, hvað fastir starfsmenn vildu á sig leggja, til þess að svo gæti orðið. Ríkisstjórninni væri einnig ljóst hversu alvarlegt ástandið væri.

Hún hefði því tjáð sig fúsa til þess að leyfa, að verksmiðjan yrði rekin í ár, þótt fyrirsjáanlegt væri, að ekki yrðu greiddir vextir né afborganir og ekkert yrði til upp í fyrningu og varasjóðsgjald, og að ríkissjóður yrði, auk alls þessa, samkvæmt þeim horfum, er nú væru, að taka á sig fyrirsjáanlegt tap á rekstrinum, sem myndi nema tugum þúsunda króna, auk áhættunnar við að afurðirnar héldu áfram að falla í verði, eða yrðu með öllu óseljanlegar.

Við óskuðum að tillögu okkar um að verkamönnum verksmiðjunnar yrði, fyrir sama klukkustundafjölda og þeir unnu á mánuði í fyrra, nú greiddar kr. 438.00 væri vísað til nefndar, eða stjórnar verkamannafélagsins, og buðumst til að sýna nefndinni áætlanir og skilríki fyrir því, að ástandið væri eins og við lýstum því.

Við lögðum ríka áherslu á, að málið yrði rannsakað, en því var hafnað.

Guðmundur Skarphéðinsson flutti einnig tillögu svohljóðandi:

"Fundurinn vísar málinu til stjórnar og kauptaxtanefndar til athugunar". Tillagan kom ekki til atkvæða þar sem tillaga Gunnars Jóhannssonar var samþykkt áður.

Verkamannafélag Siglufjarðar hefir því ótvírætt, þrátt fyrir ástandið, neitað að ganga að tillögu okkar, þótt við mjög alvarlega bentum þeim á það, að sú ákvörðun þeirra myndi líklega leiða til þess, að verksmiðjan yrði ekki rekin á sumar."

Þormóður Eyjólfsson. -- Sveinn Benediktsson

-----------------------------------------------------------------------------------------

Einherji, 23. júní 1932

Á fundi Verkamannafélagsins á þriðjudagskvöldið var rætt um verksmiðjumálið og kom þar fram tilboð verkamanna Ríkisverksmiðjunnar til verksmiðjustjórnarinnar svohljóðandi:

"Útaf kauplækkunarkröfum yðar til vor við rekstur verksmiðjunnar í sumar og með tilliti til loforða yðar og annarra fastra starfsmanna verksmiðjunnar um kauplækkun, þá teljum við oss skylt að gefa eftir, eftir okkar getu, og viljum útaf því gera eftirfarandi tilboð:

1. Við skuldbindum oss til þess að stytta helgidagavinnuna um 12 stundir þannig, að nú gildi þriggja kr. taxti aðeins í 24 stundir í stað 36 stunda áður.

Með þessari breytingu vinnum vér 12 vökur á 4½ stund eða 54 stundir á viku fyrir mánaðarkaupinu. Það sem unnið er framyfir þetta í föstum vöktum reiknast eftirvinna og greiðist samkvæmt taxta verkamannafélagsins og tilboði þess, hvað snertir helgidagavinnu.

2. Að þeir starfsmenn verksmiðjunnar, sem undanfarið hafa fengið greidda einhverja aukaþóknun haldi henni óskertri.

3. Að stjórn verkamannafélagsins og félagsfundur gefi oss samþykki til að standa við tilboð þetta.

Virðingarfyllst.

Siglufirði, 20. júní 1932.

f. h. verkamanna verksmiðjunnar, Siglufirði.

Jóhann Garibaldason, Páll Stefánsson, Adólf Einarsson, Aðalsteinn Jónatansson,, Guðmundur Jóhannesson, Helgi Ásgrímsson.

----------------------------

Stjórn verkamannafélagsins hafði þetta tilboð til meðferðar innbyrðis, og samþykkti að leyfa fyrir sitt leyti að tilboðið stæði.

En er til fundarins kom, var svo hljóðandi tillaga frá Jóhanni Guðmundsyni felld með 55 atkvæðum gegn 50:

"Samkvæmt einróma tilmælum allra verkamanna Ríkisverksmiðjunnar, samþykkir fundurinn að breyta kauptaxta félagsins þannig að helgidagavinnutaxti félagsins gildi aðeins frá kl. 12 á laugardagskvöld til kl. 12 á sunnudagskvöld.

Þessi samþykkt gengur þó aðeins í gildi að Ríkisverksmiðjan verði starfrækt sumar".

---------------------------------------------------------------

Einherji, 23. júní 1932

Svohljóðandi skeyti sendi formaður verkamannafélagsins, hr. Guðmundur Skarphéðinsson til Alþýðublaðsins á mánudaginn:

"Alþýðublaðið, Reykjavik.

Útaf fréttaskeyti ríkisverksmiðjustjórnarinnar er rétt að geta þess, að stjórnarnefndarmönnunum Þormóði og Sveini bar ekki saman um skilning á tilboði sínu til Verkamannafélagsins.

Eftir skilningi Þormóðs, mun hækkunin nema alls 4296 krónum á vikukaupi virkra daga, miðað við 50 menn í tvo mánuði, en eftir skilningi Sveins Ben. 25 þúsund krónum eða nær 25% lækkun, og þá eftir hans skilningi, alveg svifgrundvelli kauptaxtans, sem er 9 stunda dagvinna, sérstakt kaup í eftirvinnu og helgidagavinna.

Tilboði stjórnarinnar var svarað neitandi af Verkamannafélaginu.

Verkamenn verksmiðjunnar höfðu rætt tillögur stjórnarinnar um kauplækkun á tveim fundum með sér, og fallist á að stytta sunnudagshelgina um 12 tíma, en nú er það uppvíst, að Verksmiðjustjórnin fékk nefnd verksmiðjuverkumanna til að koma ekki fram með þetta álit sitt á Verkamannafélagsfundinum.

Kauplækkunar tilraunir stjórnarinnar spyrjast hér illa fyrir, ekki síst af því, að önnur verksmiðja Goos, sem ætlar að reka, borgar taxta félagsins og sömuleiðis af því, að mönnum finnst nóg að útgerðinni sé gefið af almannafé 135 þúsund, ef gefnir eru eftir vextir og afborgun, þó ekki sé seilst eftir 5-10 þúsund krónum af verkafólki verksmiðjunnar, því hér er hún með öllu skattfrjáls og eru það fleiri þúsund til útgerðar á kostnað annarra gjaldenda hér".

-------------------------------------------------------------------

Einherji, 23. júní 1932

Þormóður Eyjólfsson og Sveinn Benediktsson voru boðaðir á fund Atvinnumálaráðuneytisins til að ræða mál Ríkisverksmiðjunnar.

Þeir fóru með "Drottningunni". Menn vona að báðir málsaðilar beri gæfu til að jafna ágreiningsatriðin svo að verksmiðjan geti starfað í sumar.

------------------------------------------------------------------------

Einherji, 23. júní 1932

Í gærkvöldi sendu verkamenn verksmiðjunnar svohljóðandi skeyti til formanns verksmiðjustjórnarinnar.

"Þormóður Eyjólfsson Hótel Borg, Reykjavik.

Óskum eftir að ríkisverksmiðjustjórnin sími Verkamannafélaginu, að það standi á samþykki félagsins á tilboði okkar, að verksmiðjan verði starfrækt í sumar.

Skeytið undirskrifuðu milli 50 og 60 verkamenn Ríkisverksmiðjunnar.

----------------------------------------------------------------------------

Einherji, 28. júní 1932

Ríkisverksmiðjumálið.

Í síðasta tbl. Einherja er kom út á fimmtudaginn var, var skýrt frá því er þá hafði gerst í verksmiðjumálinu. Síðan hefir þetta gerst.

Hinn 24. þ. m. barst verkamönnum verksmiðjunnar svohljóðandi svar við skeyti því er þeir höfðu sent verksmiðjustjórninni, þar sem boðið var að stytta sunnudagshelgina um 12 klukkustundir.

"Hér með tilkynnist að verksmiðjustjórnin sér sér ekki fært að falla frá upphaflegri tillögu sinni.

Verksmiðjustjórnin".

Daginn eftir 25. þ. m. sendu verkamenn verksmiðjunnar svohljóðandi skeyti til Ríkisverksmiðju. stjórnarinnar.

"Ríkisverksmiðjustjórnin, Reykjavík.

Bjóðum yður að vinna alla vinnu við rekstur Ríkisverksmiðjunnar yfir síldveiðitímann í sumar, úti sem inni, fyrir 90 aura á hvert síldarmál 134 kg. gegn eftirfarandi skilyrðum:

1. Að allir fastir starfsmenn verksmiðjunnar vinni sín störf utan við tilboð þetta.

2. Að verksmiðjan hafi 30 til 40 skip samningsbundin með alla bræðslusíld. Verkamenn Ríkisverksmiðjunnar.

Þann 28. þ. m. barst svohljóðandi svar frá Verksmiðjustjórninni:

"Verkamenn Ríkisverksmiðjunnar, C.0. Jóhann Guðmundsson, Siglufirði.

Útaf símtilboði yðar óskast upplýst hvort í tilgreindu aura ákvæðisgjaldi er innifalin undantekningarlaust öll vinna þangað til affermingu afurðanna er lokið t.d. keyrsla, útskipun, uppskipun, undirbúningsvinna, viðhaldsvinna, hreinsunarvinna.

Ennfremur hvort innifalin sú undirbúningsvinna sem þegar er lokið.

Verksmiðjustjórnin."

Þessu svöruðu verkamenn verksmiðjunnar samdægurs með svohljóðandi skeyti:

"Ríkisverksmiðjustjórnin Reykjavík. 90 aura tilboð okkar miðast við:

1. Að taka verksmiðjuna í því ástandi sem hún nú er.

2. Að vinna alla vinnu við reksturinn eins og að undanförnu hreinsun eftir rekstur og viðhaldsvinnu yfir síldveiðitímann aðra en verkstæðisvinnu.

Útskipun afurða til ársloka að skipshlið nema flutningatæki (bíla, báta og lesta). Að öðru leyti samkvæmt tilboði okkar

Verkamenn verksmiðjunnar."

------------------------------------------------------------------

Einherji, 6. júlí 1932

Ríkisverksmiðjumálið.

Í gær burst stjórn Verkamannafélagsins hér sú fregn, að Sveinn Benediksson væri að safna saman verkfallsbrjótum til þess að vinna við Ríkisverksmiðjuna í sumar, og ætluðu þeir að koma nú með Gullfussi á morgun.

Út af fregn þessari sendi stjórn Verkamannafélagsins, Alþýðusambandinu í Reykjavík svohljóðandi skeyti í gær:

Stjórn Verkamannafélagsins.

"Alþýðusambandið Reykjavík.

Krefjumst strækjulið Sveins stöðvað."

Seinna um daginn fékk Verkamannafélagið svohljóðandi skeyti:

"Verkamannafélagið Siglufirði. Verkfallsbrjótalið Sveins ekki með Gullfossi, 37 hafa skrifað sig en óvíst hve margir þyrðu.

Verkamálaráð".

--------------------------------------------------------------

Guðmundur Hlíðdal hefir tilkynnt Alþýðusambandinu, að þessi liðssöfnun Sveins Benediktssonar sé ekki gerð með vitund eða vilja meðstjórnenda hans í ríkisverksmiðjustjórninni, þeirra Guðmundar Hlíðdals og þormóðs Eyjólfssonar.

Þormóður Eyjólfsson, formaður Ríkisverksmiðjustjórnarinnar kom heim úr Reykjavíkurför sinni í gær með s.s. Ísland.

Ekki hafði hann frá neinu nýju að segja í verksmiðjumálinu framyfir það sem áður hefir verið birt hér í blaðinu, mun það nú vera ríkisstjórnin er úrslitum þess máls ræður.