Árið 1932 - Hvarf Guðmundar Skarphéðinssonar

Einherji, 6. júlí 1932

Miðvikudaginn 29. f. m. gerðist sá atburður hér í Siglufirði, er seint mun úr minni líða og valdið hefir því róti á hugum manna, að svo má segja að eigi hafi verið um annað hugsað eða talað síðan í bænum og reyndar um gjörvallt land. Guðmundur Skarphéðinsson, bæjarfulltrúi og skólastjóri, hverfur þennan dag og hefur eigi til hans spurst.

Það er eigi að undra þótt slíkur atburður sem þessi hafi djúp áhrif og skilji eftir sorg og þunga í hugum bæjarbúa.

Guðmundur var svo mikilhæfur maður og annaðist svo margvísleg störf fyrir bæjarfélagið, að það eitt útaf fyrir sig hefur tvímælalaust alvarleg eftirköst.

En þó er hins meira að minnast er kemur til allra þeirra er unnu Guðmundi og höfðu vonir sínar og margvísleg áhugamál við hann tengd.

Guðmundur Skarphéðinsson kennari. -  ókunnur lósmyndari

Guðmundur Skarphéðinsson kennari. - ókunnur lósmyndari

Mestur og sviplegastur er þó þessi atburður ástvinum hans og hans nánustu, er bíða hverja stund með ugg, og eftirvæntingu einhverra tíðinda. Allt annað er hégómi hjá því. Enda skal eigi nánar skyggnst inn í þá helgidóma.

Síðari hluta miðvikudags var farið að svipast eftir Guðmundi og síðar hafin almenn leit á landi og sjó. Þennan dag var hvít jörð niður undir slétt svo vel sást til slóða. Var vandlega hugað að slíku og gengið hverja slóð, eftir því sem unnt var.

Veður var hryssingslegt fram yfir hádegi, krapaslydda á norðaustan, en birti er fram á daginn leið. Sjór var gruggugur og töluverð kvika, sem síðan hefir haldist, enda látlaus hafátt með umhleypingum og regni.

Hefir því minna orðið gagn að leitinni á sjó en verið hefði, ef blítt hefði verið og sjór hreinn.

Nú, er þetta er skrifað, mun von á kafara frá Reykjavík til að leita hér um höfnina.

Það er með öllu ógerningur að leiða að því nokkrar getur hvernig þessi sviplegi atburður hefir að borið.

Allra manna mál mun þó það, og helst þó þeirra, er best þekktu Guðmund, að hér sé, um slys að ræða.

Nokkrar líkur, og þær allmiklar, liggja til þess, að hann muni hafa ætlað að mæla dýpi hér við bryggju er hann átti, í félagi við annan mann, og því eigi með öllu ólíklegt að hann hati fallið í sjóinn, því hvorttveggja var, að óvenju hált var á bryggjunum þennan dag af krapaslabbi og hitt, að hugsanlegt er að hann hafi fengið aðsvif, því hann var bilaður fyrir hjarta.

Hitt mun með meiri ólíkindum, að hin dólgslegu svívirðingaskrif Sveins Benediktssonar, hafi á hann haft nokkur áhrif, því bæði var Guðmundur vanur snarpri andstöðu og ekki líklegur til að heykjast fyrir slíkum skrifum, og hitt eigi síður, að hann mun eigi hafa fundið sig sekan um neitt það, er skrif þessi dróttuðu að honum.

Munu Siglfirðingar verða ógleymnir á skrif Sveins, mannsins er frá hálfu hins opinbera átti að vera boðberi sátta og samlyndis í deilunni um Ríkisverksmiðjuna.

Mun það allra manna mál, er líta á hlutina rólega og æsingalaust, að seinheppilegri friðarboðberi sé vandfundinn en Sveinn sá.

------------------------------------------------------------------------------

Guðmundur Skarphéðinsson hverfur

Siglfirðingur, 9. júlí 1932

Fyrra miðvikudag, þann 29. f.. kl. að ganga 10, gekk Guðmundur Skarphéðinsson skólastjóri frá heimili sínu og niður í bæinn.

Hann ætlaði að mæta þar á 2 fundum, og þar sem það var ekkert óvanalegt að hin mörgu störf Guðmundar tefðu hann, jafnvel frá máltíðunum, var ekkert um hann undrast þótt hann ekki kæmi heim á matmálstíma.

Þegar leið á daginn fór heimilisfólk Guðmundar þó að undrast þetta, og var farið að spyrja um hann. Höfðu nokkrir menn séð hann á gangi á götunum og síðast mun hann hafa sést þar um kl. 1 um daginn. -

Um 5 leitið var svo hafin leit og leitað hér um fjallið, kaupstaðinn allan og hér um allan fjörðinn. Óttuðust menn þá strax að slys hefði að höndum borið og var þá strax farið að slæða hér með bryggjunum og má kalla að síðan hafi verið haldið áfram leitinni uppihaldslitið.

Kafari kom með Gullfoss, og hefir hann kafað hér á firðinum fimmtudag og föstudag, en allt hefir þetta reynst árangurslaust. Ekkert hefir fundist, sem gefið gæti hina minnstu bendingu um hvarf Guðmundar.

Það er ekki ofmælt, að allur bærinn hafi verið sem þrumu lostinn yfir atburði þessum, og að allir góðir borgarar þessa bæjar taki þátt í sorg ástvina Guðmundar og harmi hvarf hans sem eins mikilhæfasta borgara þessa bæjar og góðs drengs.