Árið 1932 - Sannleikur og síldarlýsi.

Siglfirðingur, 8. október 1932

(I) Þormóður Eyjólfsson er aftur á ferðinni í síðasta Einherja. Hann boðar það hátíðlega að nú skuli ég aftur verða dreginn fyrir lög og dóm! Sérstaklegu vegna sölunnar á síldarlýsi Ríkisverksmiðjunnar s.l. ár og eins og hann kallar það:

Nýjum aðdróttunum um hann og Eimskip. Ég get fullvissað Þ.E. að mér er ekkert á móti skapi að rifja upp aftur Eimskipafélagsmálið.

Kannski þá geti komið skýrt og greinilega fram í dagsins ljós, með, hvaða meðulum hann gat fengið Guðmund Hafliðason til þess að gefa þefa þetta makalausa vottorð, sem birtist í næst síðustu Einherjagrein hans. Hver veit nema að mesti glansinn fari þá af því vottorði.

Annars ætti Þ. E, að gera sér það ljóst, að hann fær í engu breytt almenningsálitinu, bæði í þessu og öðrum málum, hve oft sem hann fer í mál, og hve miklar sektir sem hann fær andstæðinga sína dæmda í. Það einasta sem hann vinnur við þessar málsóknir, er bara það, að menn mynda sér enn ákveðnari skoðanir á misfellum hans en ella mundi.

Ég mun því í engu breyta sókn minni á hendur Þ. E. hve oft sem hann kallar fulltrúa réttvísinnar sér til hjálpar. Og jafnvel þótt sannleikurinn um stundarsakir verði að lúta í lægra haldi, þá er enginn ástæða til að hætta að segja hann. Sannleikurinn á stundum örðugt uppdráttar, og margur dómari hefir í hjarta sínu vitað það, þegar hann hefur verið að dæma suma dóma, að nú hafi hann misþyrmt sannleikanum.

"Hinn heilagi sannleikur verður að lúta í lægra haldi fyrir dómurunum, ef sannanirnar fyrir honum eru ekki vottfastar".

Ég skal hér minnast á lítið dæmi. Síðasta árið sem Alberti var við völd í Danmörk, varð hann fyrir hörðum árásum í flestum róttækari blöðum Dana.

Honum var borið það á brýn að hann misnotaði fé þess opinbera. Alberti lét miskunnarlaust draga alla þá menn fyrir lög og dóm, sem eitthvað dirfðust að gefa þetta í skyn.

Hann fékk marga andstæðinga sína dæmda í háar fjársektir, og sumir fengu tukthús. En hann gat aldrei þaggað niður raddir þeirra manna, sem vissu að þeir voru að segja sannleikann og voru að vara meðborgara sína og þjóðina við hættulegum manni.

Og svo einn góðan veðurdag þá kemur það allt í einu í ljós, að Alberti er mörgum sinnum stærri afbrotamaður, heldur en verstu andstæðingar hans höfðu halið fram. Menn höfðu verið settir í fangelsi og dæmdir í þungar sektir fyrir að segja brot af sannleikanum, um þennan misindismann.

Almenningi í Danmörku og víðar varð þá fyllilega ljóst, hversu herfilega erfitt uppdráttar sannleikurinn stundum á. Margir dómarar urðu út af þessu fyrir hinu, mesta spotti, en þetta er raunar ekki eindæmi. Hliðstæð atvik eru alltaf að gerast á öllum tímum með öllum þjóðum.

Ég vil um leið benda á annað dæmi sem nær okkur er og yngra. Í fyrsta sinni er ég á bæjarstjórnar­fundi, fann að þeim endemisbúskap, sem rekinn væri á Hóli, voru aðfinnslur mínar kallaðar ósannindi. illvilji og rangfærslur, og man ég ekki betur en að Þ. E. væri einn í hópi mótstöðumanna minna í þessu máli.

En hvað er nú komið á daginn? Alt það sem ég sagði um Hólsbúið er nú komið fram í dagsins ljós og miklu meira en það! Það sem andstæðingar mínir kölluðu ósannindi og illvilja, viðurkenna þeir nú fúslega sem sannleika og sanngirni. Ég er því óhræddur um minn málstað gagnvart Þ. E. Þótt hann um stundarsakir verði kannski að lúta í lægra haldi, þó mun samt hið sanna koma í ljós á sínum tíma. Þeim dómi, sem almenningsálitið hefir skapað sér um framferði Þ. E. hér í bænum, bæði fyrr og síðar, mun enginn dómstóll geta haggað!

(II) Um síldarlýsissöluna er þetta að segja.

Síðast liðinn vetur sigldi formaður verksmiðjustjórnarinnar til útlanda til þess að reyna að selja afurðir verksmiðjunnar.

Að sjálfsögðu mun stjórnin hafa gengið út frá því að ekki færi nein sala fram sem ekki yrði fyrst borin undir þá tvo stjórnarmeðlimi. sem sér heima sátu, til athugunar og samþykktar. Þetta er algild regla og sjálfsögð.

Segir nú ekki af ferðum Þormóðs Eyjólfssonar fyrr en meðstjórnendur hans fá skeyti þess efnis að hann hafi selt helming af lýsi verksmiðjunnar.

Meðstjórnendum hans fannst verðið lágt, og þess utan alveg óforsvaranlegt af honum að selja, án þess að bera kauptilboðið fyrst und­ir meðstjórnendur sína. Voru þeir þessu mjög gramir, en vildu þó ekki gjöra Þ. E. ómerkan að þessari sölu. Munu þeir hafa gefið það fyllilega í skyn í skeyti til hans, og jafnframt harðbannað honum að selja meira af afurðum verksmiðjunnar, nema að fengnu samþykki allrar stjórnarinnar.

En hvað halda menn nú að hafi komið fyrir. - Jú, Þ. E. kærir sig kollóttan um þann meirihluta stjórnarinnar, og selur aftur hinn helminginn af lýsinu fyrir mjög lágt verð.

Manni verður á að spyrja: Hvers vegna?

Fyrir sölu sína mun Þ. E. hafa svarað á þá leið, að hann hafi ekki fengið nema einn klukkutíma til þess að svara kauptilboði því er hann hafði.

Við skulum taka það sem góða, og gilda vöru. En það, að halda áfram að selja lýsið fyrir hið lága verð, þrátt fyrir blátt bann meðstjórnenda sinna, það er svo fáheyrt að það brýtur í bága við allar móralskar reglur og venjur, sem tíðkast í viðskiptalífinu.

Meðstjórnendum Þ. E. í Ríkisverksmiðjunni mun líka hafa fundist að nú væri hámarki blygðunarleysisins náð. Fulltrúi ríkisstjórnarinnar man þá hafa sent Tryggva Þórhallssyni, þáverandi atvinnumálaráðherra, skýrslu um málið. Hefi ég heyrt að í henni væru færð skýr rök að því, að þessi lýsissala Þormóðs hafi skaðað verksmiðjuna um 47 þúsund krónur borið saman við sölu annarra verksmiðja á sama tíma.

Þormóður Eyjólfsson mun hafa haft höfðinglegan farareyrir og er því ekki djúpt tekið í árina þótt sagt sé að þessi lýsisala hans hafi verið Ríkisverksmiðjunni til lítillar blessunar.

Nú hefur saga þessarar lýsissölu verið rakin í fáum dráttum, hún sýnir bæjarbúum ennþá eina hlið á Þormóði Eyjólfssyni. Ef hér er í nokkru hallað réttu máli, skora ég á Þ. E. að láta birta öll gögn þessa máls, bæði sína skýrslu og skýrslu þá sem send var atvinnumálaráðherra.

Geri hann það ekki, er hann hræddur við að standa reikningsskap á gjörðum sínum frammi fyrir almenningi.

Og borgarar þessa bæjar eiga heimtingu á því að sjá öll gögn þessa máls þar sem bærinn er stór hluthafi í verksmiðjunni.

Þ. E. er mjög hreykinn yfir því að Magnús Guðmundsson hafi skipað hann í stjórn Ríkisverksmiðjunnar. En hann gleymdi alveg að geta þess, hvers vegna Tryggvi Þórhalls­son skipaði hann ekki í stjórnina áður en hann lét af ráðherraembætti. -

Gæti það kannski staðið eitthvað í sambandi við skýrslu þá sem að framan er greind frá fulltrúa landstjórnarinnar í verksmiðjustjórninni.

Eða var það kannski vegna ummæla þeirra sem sjávarútvegsnefnd neðrideildar Alþingis hafði um aðalreikning þann er Þ. E. sendi frá sér á fyrsta starfsári verksmiðjunnar?

Formaður sjávarútvegsnefndar neðri deildar, er bændaöðlingurinn og framsóknarmaðurinn Sveinn Ólafsson í Firði. Hann ætti því ekki að ástæðulausu að fara, að því er virðist í fljótu bragði, mjög ósæmilegum orðum um samflokksmann sinn, eins og í þessu tilfelli um Þ. E.

En fyrsti aðalreikningur Ríkisverksmiðjunnar, sem Þ. E. sendi frá sér, var líka þannig úr garði gerður, að hann varð að gerast upp að nýju! - Og þegar það er athugað hvernig sú færsla var, þá getur maður skilið að Sveinn í Firði hafi verið nokkuð harðorður.

Og það verð ég að segja, að engan mann þekki ég, en Þormóð Eyjólfsson, sem mundi hafa getað setið áfram í stjórn Ríkisverksmiðjunnar, eftir það að hafa fengið aðra eins ádýfu og umæli sjávarútvegsnefndar eru og öll skýrsla fulltrúa ríkisstjórnarinnar í verksmiðjustjórninni til Tryggva Þórhallssonar var.

Ekki veit ég hvort Magnús Guðmundsson er eins hreykinn yfir því að hafa skipað Þ. E. í Ríkisverksmiðjustjórnina, eins og Þ. E. er yfir því að einmitt Magnús skuli hafa gjört það.

En gætu ekki önnur öfl hafa ráðið því að Þ. E. var skipaður í Ríkisverksmiðjustjórnina.

Svoleiðis er mál með vexti að Ríkisverksmiðjan getur alls ekki starfað nema hún fái allmikið rekstursfé. Það verður hún auðvitað að fá í öðrum hvorum bankanum í Reykjavik.

Formenn bankaráðsins munu að mestu geta ráðið um hvort þetta eða hitt fyrirtæki fær rekstursfé eða ekki. Geta þeir þá að sjálfsögðu sett ýmis skilyrði fyrir lánveitingunni.

Formaður bankaráðs Útvegsbank­ans er tengdasonur Þ. E. og formaður bankaráðs Landsbankans er giftur systir konu hans.

Gætu þessi öfl ekki hafa hjálpað eitthvað til þess að koma Þormóði Eyjólfssyni í stjórn Ríkisverksmiðjunnar í þetta sinn? J.G.