Árið 1932 - Sveinn Benrdiktsson barinn í rúmmi sínu

Frétt í Siglfirðing 6. ágúst 1932

Sveinn Benidiktsson kom hingað til bæjarins fyrra föstudagskvöld. Kristján Sigurðsson verkstjóri Finns Jónssonar, heim­sótti hann á laugardagsmorguninn með flokk manna og bannaði honum dvöl í bænum, og einn þeirra félaga réðist á Svein í rúminu og barði hann. -

Á laugardagskvöldið safnaðist flokkur manna undir forystu þeirra Jóhanns Guðmundssonar verkstjóra við ríkisbræðsluna og Kristjáns Sigurðssonar og kröfðust þess, að Sveinn færi útí varðskipið Óðinn sem hér lá.

Allmikill mannfjöldi safnaðist þarna að, og er af kunnugum talið óvist hvernig farið hefði ef til þess hefði komið að Sveinn hefði snúist til mótstöðu en til þess kom ekki. Sveinn vildi ekki stofna þarna til slagsmála, lét hann þá Jóhann og Kristján flytja sig um borð í Óðinn án þess að veita neina mótspyrnu.

Sveinn Þorsteinsson - ókunnur ljósmyndari

Sveinn Þorsteinsson - ókunnur ljósmyndari

Þegar þangað kom, hafði skipherra Óðins viljað vita skil á því, í hvaða valdi þeir kæmu með Svein til sín í þeim tilgangi að hann tæki hann og flytti nauðugan brott, því hann mun ekki hafa talið það í verkahring sínum að sinna þessháttar störfum eftir ósk prívatmanna.

Tók hann þá félaga til yfirheyrslu en lét bát þeirra fara til lands. Dvaldist þeim félögum alllengi um borð, og óttuðust samherjar þeirra í landi að Óðinn ætl­aði að "stinga af" með þá ásamt Sveini.

Sagt er að þeir Jóhann og Kristján hafi fært það fram sem ástæðu fyrir brottfærslu Sveins, að þeir óttuðust að félagar sínir myndu misþyrma Sveini, og að þeir sem foringjar hefðu ekki það vald á liðinu að þeir treystust til að hindra það. Sá ótti mun að vísu hafa verið ástæðulaus, en lítt vagsa þeir félagar í áliti við þá gjaldþrotayfirlýsingu á valdi sinu.

Þeir félagar sluppu í land laust fyrir miðnættið og urðu konur þeirra mæður, systur og gamlar ástmeyjar grátfegnar landtöku þeirra og töldu sig þá úr helju heimt hafa, og það munu þeir raunar hafa talið sjálfir líka.

Segja nokkrir að Dýrfjörð hafi fallið í "trance" suður á Rólandstöð af ótta um þá og hafi þá einn verkakarlanna þar tekið það fangaráð, að steypa yfir hann innihaldi eins ónefnds svefnherbergisáhalds, sem algengt var að fæla drauga með í gamla daga, og að þetta hafi hrifið, en ekki þorum vér að bera ábyrgð á sannindum þeirrar sögu.

Óðinn flutti Svein til Sauðárkróks og fór hann þaðan landveg til Reykjavíkur og lét hið besta af hvað förin hefði verið skemmtileg.