Árið 1932-Verksmiðjurekstur - Verður ríkisbræðslan rekin?

Siglfirðingur, 25, júlí 1932

Það eru nú 2 ár síðan ríkisbræðslan hér tók til starfa. Það má um það deila, hvort stjórn og rekstur hennar hefi ekki mátt fara betur úr hendi en orðið hefir, og það má um það deila, hvort sá grundvöllur sem rekstur hennar byggist á, er hinn heppilegasti, en hér skal að þessu sinni ekki farið útí þau atriði. En um hitt verður tæpast deilt:

1. Að verksmiðjan hefir verið rekin með tapi undanfarin 2 ár.

2. Að verkamenn verksmiðjunnar hafa yfirleitt haft þar góða afkomu.

3. Að rekstur verksmiðjunnar í sumar er, eins og atvinnuhorfur eru nú mjög þýðingarmikill fyrir landið í heild og Siglufjörð sérstaklega.

Svo sem kunnugt er, hafa þeir undanfarið skipað stjórn ríkisbræðslunnar, Þormóður Eyjólfsson, Guðmundur Skarphéðinsson og Sveinn Benediktsson.

Það lá fyrir, þegar hin nýmyndaða stjórn Ásgeirs Ásgeirssonar tók við völdum, að eitt af fyrstu verkum hennar yrði það, að skipa í stjórn ríkisbræðslunnar. Þó mun fráfarandi stjórn eftir kunnugra sögn, hafa verið búin að binda það fastmælum, að þeir Þormóður og Sveinn yrðu áfram í stjórn verksmiðjunnar eins og líka skipun Þorkels Clementz sem eftirlitsmanns við hana.

En hin nýja ríkisstjórn skipaði þriðja manninn, Guðmund Hlíðdal, í sæti Guðmundar Skarphéðinssonar fyrir Siglufjarðarbæ, sem tekið hefir á sig stórar og þungar birgðar vegna ríkisverksmiðjunnar má það teljast miður heppileg ráðstöfun, að skipt var á Guðmundi Skarphéðinssyni búsettum hér í bænum og sem, fyrir margra hluta sakir, nýtum í því starfi, og fá í hans stað Guðmund Hlíðdal landsímastjóra, hlaðinn störf um við það embætti og búsettan í Reykjavík, því hér í næstu nálægð viðverksmiðjuna, verður stjórn hennar að sitja að staðaldri ef hún á að geta haft eftirlit með rekstrinum.

Hinsvegar hefir ríkisstjórnin gilda ástæðu til þess, að skipa ekki Guðmund Skarphéðinsson aftur í sætið. Hagsmunir verksmiðjunnar sem sjálfstæðs fyrirtækis, og afstaða Guðmundar Skarphéðinssonar sem formanns Verkamannafélags Siglufjarðar og pólitísks foringja, hlýtur að vera ósamræmanlegt.

Verkamannafélagið hér samþykkti í vetur að halda kauptaxta sínum óbreyttum.

Allir geta verið sammála um það, að æskilegast væri að verkamenn mættu bera sem mest frá borði fyrir vinnu sina nú og ávalt, en sá er gallinn á, og því miður of oft fram hjá gengið, að verkamenn geta því aðeins fengið hátt kaup, að sú framleiðsla sem myndast með vinnu þeirra, sé nægilega verðmæt til að borga vinnuna og annan kostnað við myndun framleiðslunnar og sölu hennar.

Verksmiðjan hefir verið rekin með tapi þau 2 ár sem hún hefir starfað. Söluhorfur á afurðum hennar hafa mjög breyst til hins verra i vetur og vor og enn fara þær horfur versnandi. - Sjómenn sem eru hluthafar í rekstri fyrirtækisins, því aflahlutur þeirra fer eftir verði framleiðslunnar, þeir báru rýran hlut frá borði í fyrra. - Útgerðarmenn, sem sama máli er um að gegna, liðu tap undantekningarlítið.

Með tilliti til versnandi söluhorfa, var því fyrirsjáanlegt að hlutur sjómanna yrði, með sama tilkostnaði, enn lægri i sumar eða jafnvel nærfellt enginn og tap útgerðanna enn meira, og þá var mjög hætt við, að enginn fengist til að veiða síld.

Stjórn verksmiðjunnar gerði áætlun um rekstur verksmiðjunnar í sumar, miðað við álíka hráefnisvinnslu og í fyrra, og sölu eins og verðlag afurðanna er nú. Þessi áætlun, sem svo var lögð fyrir stjórnarráðið, sýndi það, að sjómenn og útgerðarmenn myndu með sama tilkostnaði við reksturinn fá lítið sem ekkert fyrir síldina, og því ekki fást til að leggja hana í verksmiðjuna.

Gerði þá verksmiðjustjórnin tillögur um reksturinn, byggðar á þeim grundvelli, að allir partar lækkuðu nokkuð kröfur sínar til verksmiðjunnar.

Gekk ríkisstjórnin þar á undan, og tjáði sig fúsa til þess, að leysa verksmiðjuna frá lögbundnum greiðslum sem nema mundu um 200 þúsund krónum með því skilyrði, að aðrir partar gæfu nokkuð eftir, og samþykkti auk þess, að bera ábyrgð á rekstrinum.

Verksmiðjustjórnin ætlaðist til, að verð hráefnisins (síldarinnar) lækkaði um ca. 35 þúsund. krónur. Stjórn og fastir starfsmenn verksmiðjunnar hafa boðið lækkun á kaupi sínu sem nemur um 15 þúsund krónum -

Eftir voru þá verkamenn. Kom Sveinn Benidiktsson hingað norður fyrir rúmri viku og hófu þeir Þormóður strax samningaumleitanar við verkamenn verksmiðjunnar. Allur þorri verkamanna tók þeim málaleitunum vel, en þótti þó kröfur þær, sem fram á var farið, full háar.

Tíminn til þessara samninga var mjög takmarkaður og kom því málið inn á fund Verkamannaflagsins síðastliðið laugardagskvöld svo fyrirvaralitið, að allur fjöldi félagsmanna var ekki viðbúinn að taka fullnaðar afstöðu til þess, en Kommúnistar sem er ekkert kærara en það, að ríkisverksmiðjurnar kollsigli, æstu fundinn til andstöðu. Gengu því margir af fundi áður en til atkvæða kom.

Til þess að menn fái sem gleggsta hugmynd um deiluefnið, skal hér að fengnu leyfi verksmiðjustjórnarinnar birt skýrsla þeirra Þormóðs Eyjólfssonar og Sveins Benediktssonar eins og hún var símuð til vinnumálaráðherra daginn eftir:

Siglufirði, 19. júní, 1932.

Atvinnumálaráðherra Magnús Guðmundsson, Reykjavík.

Stjórnendur Síldarverksmiðju Ríkisins senda yður eftirfarandi skýrslu:

Á fundi í Verkamannafélagi Siglufjarðar í gæraveldi strönduðu sam­komulagstilraunir okkar um breytt launakjör við rekstur verksmiðjunnar í sumar. Lágmarks-taxtakaup var í fyrra, og er enn, kr. 325,00 á mánuði fyrir um 216 klukkustundir, föst eftirvinna hjá hverjum manni 3 klukkustundir daglega, sem greiðist með kr. 1,80 á klukkustund. Þessi fasta eftirvinna gerir 66 klukkustundir á mánuði, eða kr. 118,80 á mánuði.

Auk þessarar föstu eftirvinnu var önnur eftirvinna iðulega unnin með sama tímakaupi. Helgidagur reiknast 36 klukkustundir í hverri viku með kr. 3,00 kaupi á klukkustund. Sökum aðkallandi verka varð ekkí komist hjá að láta vinna fyrir þetta kaup 48 klukkustundir á mánuði, eða fyrir kr. 144,00.

Mánaðarkaup er því samkvæmt þessu kr. 587,80 auk eftirvinnu umfram greinda 66 klukkustunda fasta eftirvinnu, er því mánaðar­kaupið um kr. 600,00. Eftir þeim söluhorfum, sem nú eru á afurðum verksmiðjunnar, og sem fara síversnandi, er fyrir sjáanlegt tap á rekstrinum.

Er því að athuga hvaða útgjaldaliði sé hugsanlegt að lækka, Út­borgunarverðið fyrir síldina, sem nam í fyrra að meðaltali kr. 3,34 fyrir málið, álitum við ógjörlegt að lækka meir en niður í kr. 3,00, nemur sú lækkun, miðuð við 100 þúsund mála vinnslu, 34 þúsund krónum. Þetta álit okkar rökstyðjum við með því, að í fyrra, er við greiddum kr. 3,34 fyrir málið, báru sjómenn og útgerðarmenn svo lítið úr býtum, að óhugs­andi er, að lækka þennan útgjaldalið meir en um 10 prc.

Samkvæmt skýrslu, er við höfum gert um afla þeirra skipa, sem lögðu síld uppi verksmiðjuna í fyrra, nam meðal aflahlutur sjómanns af öllum síldarafla krónum -207,00 á mánuði á mótorskipum, og kr. 242,00 á gufuskipum, og hásetarnir fæddu sig sjálfir.

Tap var yfirleitt á síldarútgerðinni fyrra. Vegna þeirra erfiðleika, er nú steðja að verksmiðjunni, hafa stjórnendur verksmiðjunnar og fastir ársmenn boðist til að lækka árslaun sín um samtals kr. 14.900.00, og nemur sú lækkun 33,7 prc. að meðaltali á árslaunum þeirra.

Lækkun sumra fastra starfsmanna er þó bundin því skilyrði, að almenn kauplækkun eigi sér stað við verksmiðjuna. Verksmiðju­stjórninni sýndist nauðsynlegt að fara fram á launabreytingu hjá verka­mönnum í verksmiðjunni á þessa leið: Sex dagar vikunnar reiknist virkir dagar með kr. 1,25 á klukkustund, verður mánaðarkaupið þá kr. 390,00 fyrir 312 klukkustundir á mánuði, og ask þess 24 klukkustundir á mánuði í helgidagavinnu á kr. 2,00 á klukkustund, eða kr. 48,00, samtals á mánuði kr. 438,00 fyrir sama stundafjölda og í fyrra voru greiddar um kr. 600.02.

Auk þess bauð verksmiðjustjórnin tryggingu fyrir 500 klukkustundir vinnu yfir síldveiðitímann með kr. 1,25 kaupi á klukkustund, sem yrði greitt þótt síldveiði brygðist. Eltir tillögunni myndu á þessum lið sparast um 25 þúsund krónur.

Ef við eigum að greiða sama reksturskostnað og í fyrra og lögbundnar greiðslur til ríkissjóðs, fyrningu og varasjóðsgjald, verður, samkvæmt núverandi horfum, ekki hægt að greiða nema nokkra aura fyrir hvert síldarmál, en við höfum sýnt fram á, að óhugsandi er að skip fari á veiðar fyrir minna en kr. 3,00 fyrir málið.

Á fjölmennum fundi Verkamannafélags Siglufjarðar í gærkveldi, er við sátum og ræddum ítarlega í nær 5 klukkustundir um framangreinda tillögu okkar, var að lokum samþykkt svohljóðandi tillaga frá Gunnari Jóhannssyni:

“Fundur haldinn í Verkamannafélagi Siglufjarðar 18. júní 1932 lýsir sig algjörlega mótfallinn allri kauplækkun meðal verkalýðsins, og samþykkir því, að halda fast við kauptaxta félagsins, sem samþykktur var í vetur, og því strax auglýstur."

Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Í umræðunni skýrðum við rækilega fyrir fundarnönnum hversu afar ískyggilegir horfurnar væru, aðrar síldarverksmiðjur á Siglufirði hefðu í fyrra orðið að leggja árar í bát, síðan hefði ástandið versnað gífurlega, sem dæmi meir en kr. 2,00 krónur hvert mál síldar, og jafnvel óvíst hvort síldarmjöl yrði seljanlegt.

Til þess að mæta því verðfalli sem orðið hefði frá lágu verði fyrra árs, yrðu allir að hliðra til. svo að reksturinn gæti hafist. Sömuleiðis skýrðum við frá því, hvað fastir starfsmenn vildu á sig leggja, til þess að svo gæti orðið.

Ríkisstjórninni væri einnig ljóst hversu alvarlegt ástandið væri. Hún hefði því tjáð sig fúsa til þess að leyfa, að verksmiðjan yrði rekin í ár, þótt fyrirsjáanlegt væri, að ekki yrðu greiddir vextir né afborganir og ekkert yrði til upp í fyrningu og varasjóðsgjald, og að ríkissjóður yrði, auk alls þessa, samkvæmt þeim horfum, er nú væru, að taka á sig fyrirsjáanlegt tap á rekstrinum, sem myndi nema tugum þúsunda króna, auk áhættunnar við að afurðirnar héldu áfram að falla í verði, eða yrðu með öllu óseljanlegar.

Við óskuðum að tillögu okkar um að verkamönnum verksmiðjunnar yrði, fyrir sama klukkustundafjölda og þeir unnu á mánuði í fyrra, nú greiddar kr. 438.00 væri vísað til nefndar, eða stjórnar verkamannafélagsins, og buðumst til að sýna nefndinni áætlanir og skilríki fyrir því, að ástandið væri eins og við lýstum því. Við lögðum ríka áherslu á, að málið yrði rannsakað, en því var hafnað.

Guðmundur Skarphéðinsson flutti einnig tillögu svohljóðandi:

“Fundurinn vísar málinu til stjórnar og kauptaxtanefndar til athugunar". Tillagan kom ekki til atkvæða Þar sem tillaga Gunnars Jóhannssonar var samþykkt áður."

Verkamannafélag Siglufjarðar hefir því ótvírætt, þrátt fyrir ástandið, neitað að ganga að tillögu okkar, þótt við mjög alvarlega bentum þeim á það, að sú ákvörðun þeirra myndi líklega leiða til þess, að verksmiðjan yrði ekki rekin í sumar.

Þormóður Eyjólfsson. Sveinn Benediktsson.

Það er ekkert einkennilegt, að fundur þessi ekki samþykkti kauplækkunina, en hitt er mjög einkennilegt að fundurinn vill ekki vísa málinu til félagsstjórnar eða nefndar, til rannsóknar, sérstaklega, þegar þess er gætt að búið var að vefengja á fundinum margt af því sem þeir Þormóður og Sveinn báru fram, og að það var einmitt í tilefni af því að slík tillaga kom fram. Sýnir þetta betur en nokkuð annað, bardagaaðferð Kommúnistanna.

Síðan hefir þetta gerst í málinu:

Þeir Þormóður og Sveinn voru kvaddir suður á fund ríkisstjórnarinnar til að ræða um málið og fóru héðan með Dr.Alexandrine á þriðjudagskvöld. Jafnframt gerðu verkamenn verksmiðjunnar miðlunartilboð til verksmiðjustjórnarinnar, og sendu suður.

Bjóðast þeir þar til, að stytta þann tíma sem helgidagataxtinn gildir, úr 36 stundum niður í 24 stundir. Taxtinn haldist að öðru óbreyttur. Við þetta vinnur verksmiðjurnar eina vöku á viku hverri til viðbótar því sem verið hefir, að mánaðarkaupi óbreyttu, eða fær 4½ stundar vinnu til uppbótar og 1¼ stund með eftirvinnukaupi, en ef þessi vaka átti að vinnast eins og nú er, var það helgidagavinna.

Stjórn Verkamannafélagsins hafði fyrir sitt leiti samþykkt að leyfa þessa tilslökun, en á fundi félagsins á þriðjudagskvöld var feld með 55 atkvæðum gegn 50 tillögu frá Jóhanni Guðmundssyni um það, að breyta kauptaxta félagsins þannig, að helgidagataxtinn gilti aðeins frá kl. 12 á laugardagskvöldi til jafnlengdar á sunnudagskvöld.

Verkamenn í ríkisverksmiðjunum hafa átt fundi með sér síðan, og er fullyrt að þeir séu mjög samhuga um það, að gera allt sem í þeirra valdi stendur til samkomulags um málið, á þessum eða líkum grundvelli.

Hefir heyrst, að þeir muni ætla að virða bann Kommúnistanna að vettugi, ef þeir ekki fá samþykki til breytinganna. Bíða þeir nú eftir svari að sunnan.

Því miður má telja fremur litlar líkur til þess, að verksmiðjustjórnin og ríkisstjórnin gangi að þessu tilboði verkamanna ríkisverksmiðjunnar.

Til þess er of skammt gengið frá verkamanna hendi. Verkamenn mega ekki gleyma því, að nú er ekki um það að ræða, að "pressa auðvaldið að greiða sanngjarnan hlut af arðinum". - Hér er ekki um arð að ræða, heldur tap.

Og hér er ekki um auðvald að ræða sem annan aðila, heldur um fátæka sjómenn og útgerðarmenn, sem vel flestir eru svo aðþrengdir efnalega, að þeir geta ekki gert út þótt þeir geri nú tilraun til þess.

Hver króna sem einhver aðilinn af þessum þremur fær, framyfir hið rétta hlutfalli nú, er tekinn af hinum aðilunum, og allir eru, þeir fátækir og þurfandi hver fyrir sitt. -

Ríkissjóður er hér ekki aðili. nema að því leiti að hann á hér hagsmuna að gæta, fjárhagslegra, sem eigandi verksmiðjunnar og þjóðhagslegra, sem eign allrar þjóðarinnar.

Hinu má heldur enginn aðilinn gleyma, að hér er miklu meira í húfi en atvinna þeirra 50-60 manna sem við verksmiðjuna vinna.

Stöðvum hennar hlýtur að hafa þær verkanir, að meginhluti síldarflotans hætti við að fara á sí1dveiðar í sumar. Afleiðingin af því verður þá að nærfellt engin síldarverkun verður hér, því engum kemur til hugar að veiða síld í sumar, einvörðungu til verkunar, eins og útlit er nú með verð síldarinnar. Myndu því sjómenn og verkafólk í landi í þúsundatali missa atvinnu við stöðvun verksmiðjunnar.

Ástand atvinnulífsins í landinu er nú svo alvöruþrungið, að sjaldan hefir fremur verið þörf þess, að allir þeir sem þar eiga hlut að ynnu samhuga og með sanngirni að lagfæringu á því.

Vonandi er, að allir þeir sem hér eiga hlut að máli taki höndum saman uni það, að leysa þetta alvarlega og þýðingarmikla mál á þeim grundvelli, án þess að lána eyru, hjali ábyrgðarlausra gaspara eða láta stjórnast al pólitískum flokkaríg. Vér vonum að svo megi takast.

Síðan framanrituð grein var skrifuð hefir þetta gerst í málinu:

Svar verksmiðjustjórnarinnar við tilboði verkamanna í ríkisverksmiðjunni kom í gær og hljóðar svo:

"Hér með tilkynnist, að verksmiðjustjórnin sér, sér ekki fært að falla frá upphaflegum tillögum sínum. –

Verksmiðjustjórnin".

Nýtt tilboð sendu verkamenn ríkisverksmiðjunnar í morgun til verksmiðjustjórnarinnar, um að bræða alla síldina í ákvæðisvinnu, fyrir 90 aura pr. hver 135 kg. (mál).

Er þar í innifalin öll vinna við síldina og afurðirnar úr henni. Eftir síðustu fregnum að sunnan að dæma, þykir stjórninni tilboð þetta of hátt, en vonandi er að báðum aðilum takist að finna sanngjarna millileið og semji, svo að báðir megi vel við una.