Árið 1933 - Norsku samningarnir

Siglfirðingur 15. mars 1933

Um norsku samningana. Þessi grein birtist í þrennu lagi í jafnmörgum “Siglfirðingi”

Norsku samningarnir hafa nú loksins verið birtir. Áður en þeir voru birtir hafði Héðinn Valdimarsson skrifað um þá í Alþýðublaðið, því hann hafði, sem einn í utanríkismálanefnd, átt kost þess, að kynnast þeim.

Það var eitt af samningsatriðunum, að eigi mætti birta þann hluta þeirra, sem snerti ívilnanirnar, sem Norðmenn fá, fyrr en þingin hefðu tekið þá til meðferðar.

Þetta braut Héðinn, og mun það einsdæmi, að þingmaður í menningarlandi, hafi gert sig sekan um annað eins taktleysi og jafn takmarkaðan skilning á ábyrgð sinni, sem fulltrúa, í þingi þjóðar sinnar, eins og Héðinn með þessu.

Blöðin "Íslendingur" og "Alþýðumaðurinn" á Akureyri höfðu einnig birt útdrátt úr samningunum, áður en málið kom fram í þinginu. Útdráttur Alþýðumannsins, var í verulegum atriðum rangur og villandi, og þýðing Íslendings röng í einu atriði, sem miklu máli skipti.

Samningarnir, eins og þeir birtust almenningi í blöðum þessum, og með skrifum þeim, sem blöð þessi fluttu um þá og sem sumpart byggðust á þekkingarskorti á samningsgrundvellinum, sumpart á lúalegri viðleitni til þess, að ata menn þá auri og svívirðingum, sem að samningagerðinni stóðu fyrir Íslands hönd, hafa mjög stutt að því, að gefa þjóðinni ranga hugmynd um þetta mál.

Vitaskuld þurfti þessa ekki við hvað Krata og Bolsa snerti; þeir voru fyrirfram ákveðnir í því, að gera samningana að pólitísku árásarefni, á samningsmennina Íslensku, fyrst og fremst, en einnig á báða þingflokkana, sem lagt höfðu til mennina, Framsókn og Sjálfstæðismenn. Þetta hefir þeim líka tekist eins og til var stofnað.

Þegar mynda á sér skoðun um samninga þessa, kemur margt til athugunar. Samningarnir eru gagnkvæm réttindi milli tveggja þjóða, sem báðar óska eftir að lifa í sátt og friði og gera hver annarri gagnkvæman greiða.

Ég hygg að allir geti orðið sammála um það, að slíkur grundvöllur samningsins sé heilbrigður og heppilegur fyrir báðar þjóðirnar, ef á hvoruga er hallað í skiptum veittra og móttekinna fríðinda. Kemur þá til greina að meta þau, og í því sambandi aðstöðu alls, beggja aðilanna við gerð samninganna.

Þegar síldveiðar með reknetum og herpinót, hófust hér við land, laust eftir síðastliðin aldamót, voru það eins og kunnugt er, Norðmenn er byrjuðu og ráku þær veiðar nær einvörðungu hin fyrstu árin.

Smám saman lærðu svo Íslendingar af þeim veiðiaðferðina, eignuðust skip, fóru sjálfir að salta síld, bæði fyrir sig og fyrir Norðmenn, en Norðmönnum hafði verið talið frjálst að salta síld hér. Áttu þeir, sem kunnugt er margar söltunarstöðvar hér á Siglufirði og víðar.

Má með réttu segja, að bygging Siglufjarðar, Seyðisfjarðar og jafnvel fleiri bæja og sjóþorpa hér á landi, sé ávöxtur af framtaki þeirra og dugnaði, en það yrði of langt mál að rekja hér.

Með fiskilöggjöfinni, sem til framkvæmda kom 1922 var Norðmönnum og öðrum erlendum þjóðum, öðrum en Dönum og Færeyingum, bönnuð öll söltun hér í landi, sem og sala síldar að langmestu leyti.

Þóttust Norðmenn verða hart úti, og svöruðu þessu sem kunnugt er með því, að setja háan toll á Íslenskt saltkjöt, en Noregur var og er enn eina landið, sem kaupir það af oss.

Íslenskir bændur þóttust verða hart úti sem vonlegt var, er markaðinum fyrir aðal framleiðsluvöru þeirra kjötið, var þannig lokað, eða því sem næst.

Lögðu þeir fast að þáverandi stjórn, að ráða bót á þessu og voru þegar hafnar samningaumleitanar, Tókst strax á sama ári, að ná lækkun á tollum, gegn því loforði af Íslands hálfu, að Norðmenn fengju að selja nokkuð af afla sínum hér í landi og að fiskiveiðalögin skildu verða framkvæmd með vinsamlegum skilningi, en það er sama sem að þeim skuli ekki beitt með strangleika, hafa því fiskiveiðalögin í raun og veru aldrei komið að fullu til framkvæmda hvað Norðmenn snertir.

Þetta samkomulag var svo staðfest 1924 með bréfum sem fóru í milli Íslensku stjórnarinnar og sendiherra Norðmanna hér og það skírar ákveðið, hver hlunnindi Norðmenn fengu frá vorri hendi, í stað þeirra er þeir veittu oss. Þessi hlunnindi voru í höfuðatriðum:

1. Að fiskiveiðalöggjöfinni skyldi beitt vinsamlega gagnvart Norðmönnum.

2. Að norsk síldveiðiskip mættu selja í landi 500 til 700 tunnur af afla sínum.

3. Að norsk veiðiskip mættu selja síld í bræðsluverksmiðjurnar.

Þess ber að gæta, að þrátt fyrir það að Norðmenn, frá því skömmu eftir aldamót, hefðu í þjóðarbúskap sínum, stefnt að því marki, að auka kvikfjárrækt sína svo, að þeir yrðu sjálfum sér nógir með kjötframleiðslu handa þjóðinni, vantaði þá enn mikið til að þeir hefðu náð því marki. Þeir hafa ekki náð því, þrátt fyrir að þeir hafa kappsamlega að því unnið og færst hröðum skrefum nær því síðustu árin.

Aðstaða vor við samningagerðina, sem lauk 1924 var því hagstæð mjög, þar sem Norðmenn komust illa af án þess að flytja inn kjöt frá Íslandi.

Þegar Norðmenn sögðu upp eldri samningum í fyrra, hækkuðu þeir tafarlaust kjöttollinn upp í 59 aura á kílóið. Öllum var ljóst að þetta var sama og lokað væri fyrir innflutning saltkjöts til Noregs, og eins og sakir stóðu, var ástandið áður svo alvarlegt fyrir landsbúnaðinn íslenska, að slíkt hlaut að stefna í voða.

Íslendingar svöruðu uppsögninni með því, að segja upp samningunum að sýnu leyti, og siglingasamningnum við Norðmenn, en slíkt hafði engin áhrif, aðstaða Norðmanna var nú margfalt betri en 1922-1924.

Þeir voru nú mjög farnir að nálgast það mark, að verða sjálfum sér nógir með kjötframleiðslu, og auk þess gátu þeir nú fengið nóg nautkjöt frá Svíum við vægu verði, og svínakjöt, óvenju ódýrt frá Dönum.

Þeir voru hinsvegar búnir að koma síldveiðum sínum í það horf hér við land, að þeir þurftu ekkert að vera upp á oss komnir í þeim efnum, heldur var nú síld þeirra, sem þeir söltuðu rétt utan við landhelgina Íslensku orðin vorri síldarframleiðslu hinn hættulegasti keppinautur, ekki síst vegna þess að Norðmenn framleiddu hana miklum mun ódýrari en vér, þeir notuðu ódýrara vinnuafl og þeirra síld var frí við hina háu tolla og skatta, sem á hina Íslensku síldarframleiðslu eru lagðir.

Það var á þessum grundvelli, að samningaumleitanar hófust í sumar að nýju milli vor og Norðmanna.

Allir sjá, að aðstöðumunurinn var gífurlega mikill frá því sem var þegar eldri samningarnir voru gerðir og nú.

Frá vorri hlið hin brýna, knýjandi þörf hins Íslenska landbúnaðar, og glötun hans, ef samningar ekki næðust.

Frá Norðmanna hlið lítil þörf fyrir þá vöruna, sem vér vorum að bjóða, og þeir sjálfbjargaðir þótt samningar ekki tækjust, með þau hlunnindi, sem vér gátum boðið þeim.

Samningurinn er í 18 greinum og skiptist í tvo aðalkafla. Eru 13 fyrstu greinar hans um hlunnindi Norðmanna frá vorri hálfu, 3 næstu um kjöttollinn og tvær síðustu um gildistöku og uppsögn samningsins. Sökum rúmleysis í blaðinu, er ekki unnt að birta samninginn í heild.

Skal hér því gefið stutt yfirlit yfir efni hans.

1. gr. Heimilar norskum síldarverksmiðjum sem nú eru á Íslandi að reka áfram.

2. gr. Heimilar norskum síldarverksmiðjum á Íslandi að kaupa af erlendum skipum, allt að 60 % af síld þeirri, sem þær bræða, og í því sambandi, að gera fasta samninga við norsk skip um sölu bræðslusíldar. Auk þess er Íslenskum síldarverksmiðjum heimilað að kaupa síld og við bræðslusíld af erlendum skipum, að svo miklu leyti sem þetta getur samrýmst

3. gr. Fiskveiðilaganna, heimilar norskum síldveiðiskipum að þurrka og gera við veiðarfæri sín á Siglufjarðar og Akureyrar höfnum.

4. gr. Heimilar sömu skipum að gera að (bæta) veiðarfæri sín á landi við sömu hafnir.

5. gr. Heimilar norskum fiskiskipum að setja á flot veiðibáta sína og nota til flutninga og vatnstöku á nokkrum tilgreindum höfnum, þar sem slík vatnstaka ekki kem­ur í bágu við einkasölurétt viðkomandi bæja og þorpa.

6. gr. Norskum fiskiskipum, sem ekki athenda síld til söltunar í móðurskip, eða annað erlent skip, skal heimilt að selja í land til söltunar alls 500 tunnur af reknetaskipi hverju og 700 tunnur af snurpunótarskipi. Hafi skipið selt afla sinn til síldarverksmiðju á Íslandi, hækkar það sem það má selja til söltunar upp í 700 tunnur fyrir reknetaskip og 1.200 tunnur fyrir snurpuskip.

7. gr. Heimilar norskum veiðiskipum, sem ekki leggja upp afla sinn til söltunar í erlend skip, að búlka (færa til og laga í skipinu sjálfu) afla sinn og útvegsáhöld í höfnunum á Akureyri og Siglufirði.

8.-11 gr. Undanþiggja norsk fiskiskip afgreiðslu og vitagjaldi nema fyrsta sinn, er þau koma frá útlöndum eða hafa haft samband við skip, sem komið hafa frá útlöndum, eða haft hafa samband við skip. sem þaðan hafa komið og ekki hafa greitt hér lögboðin gjöld.

12. gr. Norsk fiskiskip sem geta sannað að þau hafi rekið inn í landhelgi vegna straums og storms, eða hvorttveggja, skulu ekki sæta kæru, ef það er ljóst af öllum atvikum, að þetta hafi ekki átt sér stað vegna stórkostlegs gáleysis eða ásetnings, í þeim tilgangi, að veiða eða verka aflann innan landhelgi, enda sé þessu kippt í lag svo fljótt sem auðið er.

13. gr. Norskt skip sem ákært hefir verið og ekki vill bíða dóms er skylt að sleppa áður dómur fellur, ef það setur tryggingu fyrir væntanlegri sekt sinni.

14. 15. og 16. gr. Ræða um kjöttollinn, að hann skuli strax (s.l. haust) lækka niður í 15 aura á kílógramm. að eins fljótt og, unnt sé, skuli lagt fyrir stórþingið frumvarp um frekari lækkun hans, niður í 10 aura og endurgreiðslu á mismuninum á því, sem þegar er greiddur 15 aura tollur af. Þessi tollívilnun er fyrir 13.000 tunnur af saltkjöti árið 1932-33 sem svo lækkar um 1.500 tunnur á ári næstu 5 árin, niður í 6.000 tunnur, en lækkar ekki úr því.

17, og 18. ræða um það, að samningurinn gangi í gildi, þegar þing beggja þjóða hafa gengið frá því sem nauðsynlegt er í sambandi við hann, og skuli það eigi síðar, en 15. apríl n. k.

Samningnum má segja upp með 6 mánaða fyrirvara af hálfu hvors ríkis fyrir sig, en þó þannig að raunverulega gangi samningurinn ekki úr gildi á öðrum tíma, en frá 1. mars til 1. júní.

Þó geta Norðmenn, samkvæmt 6 gr., sagt samningum upp með 3 mánaða fyrirvara, ef söluheimild skipanna verður afnumin eða torvelduð sérstökum lagafyrirmælum frá Íslands hálfu.

Þessi samningur inniheldur í rauninni lítil nýmæli. Hann er frekar endurnýjun á hinum eldri samningi, og má teljast hliðstæður við það, er milli tveggja jarða er gerður samningur, um gagnkvæmar landsnytjar, og endurnýjaðar að 10 árum liðnum, með þeim breytingum sem tíminn hafði gert á aðstöðunni.

Samkvæmt eldri samningi, eiga Norðmenn rétt á hendur oss um vinsamlega framkvæmd á fiskiveiðalöggjöf vorri gagnvart þeim.

Þetta ákvæði er mjög óákveðið, en engum getur blandast hugur um það, að það innibindur í sér langmest af þeim ívilnunum, sem norsk veiðiskip fá eftir nýja samningnum. Vér teljum það stærsta kost samningsins að hann kveður skýrt á um þessi atriði, því óljós ákvæði um slíkt voru hættuleg.

Norskar síldarverksmiðjur máttu eftir eldri samningnum, reka hér, og einnig fengu þær alltaf að kaupa síld af erlendum skipum, nokkurn veginn eftir þörfum. Það er nú fast ákveðið hvað þær mega kaupa mest af erlendum skipum, sem sé sex tíundu hluta af því sem þær vinna.

Þetta má telja mikið betra að sé fast ákveðið, því það gerir meðal annars rekstur þessara verksmiðja miklu tryggari, auk þess, sem það gefur líkur fyrir því, að verksmiðjur þær, sem ekki hafa starfað síðustu árin, (þ. á. m. tvær hér,) taki nú aftur til starfa. Er það augljóst mál, hvaða þýðingu það hefir, aukna atvinnu í landinu og auknar tekjur ríkissjóðs.

Höfuð breytingin á hlunnindum þeim, sem Norðmenn fá, er sú, að síld, sem reknetaskip þeirra mega selja í land til söltunar, eykst um 200 tunnur fyrir hvert skip, og snurpunótaskipanna um 500 tunnur. Þegar nú þess er gætt, að þetta gildir aðeins fyrir þau skip, sem hafa gert fastann samning um sölu allrar bræðslusíldar til verksmiðju í landi, þá virðist ákvæðið ekki stór hættulegt.

Og um reknetaskipin er það að segja, að ekki eitt einasta samningsbindur sig til að selja veiði sina í bræðslu, svo hvað þau snertir er samningurinn óbreyttur frá því sem áður var.

Grýlan, sem mest hefir verið notuð til að hræða almenning á í samningamálinu er, 12. gr. samningsins um linkind þá, sem norskum skipum er veitt með henni, ef þau verða staðin að veiði eða söltun innan við landhelgislínu.

Ef betur er aðgætt, þá er þarna um enga breytingu að ræða frá eldri samningnum. Vinsamlegur skilningur og framkvæmd fiskiveiðalaganna, tók einmitt til þess atriðis, og mætti benda á mörg dæmi þess, að norsk skip hafa ýmist sloppið við sekt, eða fengið mjög væga sekt, fyrir það, að hafa verið tekin fyrir brot á landhelgislögunum, ef sterkar líkur hafa bent til þess, að brotið hafi verið framið af óvarkárni en ekki ásetningi.

Skipherrar varðskipanna Íslensku hafa til þessa notið mikils trausts, sem sérlega skylduræknir verðir Íslenskrar landhelgi. Það væri mjög ómaklegt vantraust á þá, að ætla það, að norsk veiðiskip fengju, samkvæmt þessu ákvæði, að sleppa sektalaust, ef þau aðeins segðu þeim að straumur eða vindur hefði borið skipið inn fyrir línu.

Hitt væri aftur mjög ósanngjarnt, gagnvart þjóð, sem við viljum lifa i vinfengi við, að beita hinum ströngu ákvæðum landhelgislaganna til hins ýtrasta við skip sem sannanlega ekki hafa af ásetningi ætlað sér að brjóta lögin, en allir sjómenn vita, að slíkt getur hæglega komið fyrir reknetaskipin sérstaklega, að þau reki inn fyrir línu meðan þau eru að draga netin án þess þau geti nokkuð að því gert, og jafnvel án þess þau viti af því, ef dimmviðri er.

Nýi samningurinn er Íslandi að miklum mun óhagstæðari en sá eldri, hvað kjötinnflutninginn snertir, bæði að því leyti, hvað hann er takmarkaður og fer mjög minnkandi, og enn frekast sökum þess, að engin vissa er fyrir því, að það kjöt, sem leyft er samkvæmt samningnum að flytja inn, verði keypt af Norðmönnum.

Í fyrrihluta þessarar greinar er bent á aðstöðumuninn fyrir oss við samningagerðina nú, sem hlaut bæði beint og óbeint að hafa áhrif á þessi efni, svo að jafnvel þótt samningurinn hefði ekkert takmarkað kjötinnflutninginn, hlaut hann að takmarkast af sjálfu sér, af aukinni kjötframleiðslu Norðmanna sjálfra.

Um hitt má vitanlega deila, hvort rétt hafi verið af oss að semja yfirleitt nokkuð, þegar aðstaða vor var svo óhagstæð sem hún var, en í því sambandi er eitt atriði, sem ekki er gefin gaumur svo sem vert er en það er það, að samningurinn er stórt og þýðingarmikið spor í áttina til þess, að draga úr söltuninni utan landhelginnar.

Það er sú söltun, sem hefir reynst Íslenskri síldarútgerð hættulegust af öllu, og sem hefir gert allar umbótatilraunir vorar í þessum efnum, að götóttri bót á gauðrifnu fati hingað til, Það er satt, að vér megum illa við því nú, að bræðslusíldarverð lækki, en vér erum ekki trúaðir á að samningurinn hafi nokkur áhrif í þá átt, því litlar líkur benda til þess, að Norðmenn geti, með miklu óhægri aðstöðu en vér, framleitt síld, ódýrari en vér, enda hlyti þá eitthvað að vera bogið við framleiðslufyrirkomulag vort, en jafnvel þótt bræðslusíld lækkaði lítillega í verði fyrsta árið, má telja það vel til vinnandi, ef varanleg bót yrði með því ráðin á mesta mein síldarútvegsins.