Árið 1933 - Hvar verður síldarverksmiðjan reist?

Neisti. 1. maí 1933

Eftir svari við þeirri spurningu bíða menn með óþreyju.

Nýlega var nefnd sú á ferðinni sem athuga á, hvar heppilegast muni að reisa hina nýju síldarverksmiðju, sem koma á upp á næstunni.

Ekki hefi ég heyrt enn, hvað nefndin leggur til málanna, en nágrunnar okkar, Skagfirðingar og Eyfirðingar, og jafnvel fleiri, hamast með oddi og egg í því máli.

Vill hvert hérað fá verksmiðjuna reista hjá sér, og er það ekki nema eðlilegt því allstaðar er þörf fyrir rekstur og atvinnu þá, sem verksmiðjan kemur til með að skapa.

Virðist þá í fljótu bragði eðlilegast, að hún yrði reist hér á Siglufirði, í sambandi við þær verksmiðjur sem fyrir eru á staðnum.

En ég hefi ekki heyrt að Siglfirðingar geri neitt til þess að fá hana hingað, eða beiti sér á nokkurn hátt í því máli.

Virðist þetta þó vera stórt mál fyrir Siglufjörð. En því miður virðast Siglfirðingar stundum hálfsofandi yfir sinum stærstu velferðarmálum.

Ég vil vona að bæjarstjórnin gangi rösklega fram í því, að fá verksmiðjuna hingað, því hennar er full þörf hér.

Hitt yrði sorgleg útkoma, ef það skyldi verða ofaná, að á meðan nágrannarnir hamast og ef til vil sigra í þessu máli, þá sitji bæjarstjórn Siglufjarðar aðgerðarlaus og láti sér fátt um finnast.

Hvar væri þá allur áhuginn fyrir velferð Siglufjarðar, sem svo mikið var til af fyrir kosningarnar í vetur?