Árið 1933 - SR - Ný ríkisverksmiðja.

Neisti, 14. nóvember 1933

Undanfarna mánuði hefir talsvert verið rætt og ritað um nýja síldar-verksmiðju. Um þörfina hefir ekki verið deilt.

Tveir staðir hafa verið nefndir:

Reykjarfjörður og Siglufjörður.

Þeir sem halda Reykjarfirði fram, rökstyðja mál sitt með því, að síldveiði bregðist ekki í Húnaflóa.

Siglufjörður er, að þeirra dómi, ónothæfur sökum kommúnistanna, sem þann bæ byggja, og óeirðum í sambandi við þá. (Ólafur Þórðarson, Morgunblaðið 15. október)1-

Það má segja að síldveiðasvæðið sé frá Vatnsnesi í Húnaflóa að Melrakkasléttu eða jafnvel að Langanesi.

Reykjarfjörður yrði því að teljast "endastöð". Aftur á móti er lega Siglufjarðar þannig, að hún útilokar alla samkeppni, ef hægt er að taka þar á móti nokkurn veginn viðstöðu laust.

Eftir 1. ágúst veiðist síldin jöfnum höndum austan og vestan fjarðarins. Um aðstöðu þessara staða nægir að benda á það, að Siglufjörður hefir alltaf verið höfuðborg síldveiðanna, en Reykjarfjörður er enn þá ónotaður.

Það er að nokkru rétt, að kommúnistar gera, nú sem stendur, Siglufjörð ótryggan með sínu alkunna byltingabrölti, en haldist það ástand í framtíðinni þá er það jafnframt víst, að Reykjarfjörður, eða hver sá staður, þar sem stór atvinnurekstur myndaðist, yrði gagnsýrður af sama anda.

Ef meðhaldsmenn Reykjarfarðar vilja neita þessu, eru rök þeirra gegn Siglufirði fallin.

Mér dettur ekki í hugað halda því fram, að ekki sé hægt að starfrækja síldarverksmiðju á Reykjarfirði, en frá því vík ég ekki, að vegna betri aðstöðu, og þó sérstaklega vegna sparnaðar, þá getur ekki komið til mála að byggja næstu ríkisverksmiðju annarstaðar en á Siglufirði.

Með því að byggja sunnan við hina svokölluðu ríkisverksmiðju, á lóð Halldórs Guðmundssonar þar sem nú er fótboltavöllur, myndi þetta sparast:

1. Þrær fyrir síldina.

2. Salthús.

3. Bryggjur og annað er þarf til að losa skipin.

4. Skrifstofu og íbúðarhús framkvæmdarstjórnar.

5. Efnarannsóknarhús.

6. Íbúðarhús fyrir starfsfólkið.

Þar að auki myndi sparast árlega á rekstrinum:

1. Skrifstofukostnaður að miklu leyti.

2. Laun framkvæmdarstjórnar.

3. Laun efnafræðings.

4. Laun verkstjóra.

5. Laun 1. vélstjóra.

Allt þetta getur ríkisverksmiðjan í té látið sér að skaðlausu.

Eftir þeirra upplýsingum sem fengist hafa mun viðbótarbygging á Siglufirði (2200 til 2800 mal á sólarhring) kosta 500 til 550 þúsund krónur.

Verði jafnstór verksmiðja reist á Reykjarfirði, þá er ekki hægt að reikna með minni upphæð en 800 þúsundum króna.

Þar að auki myndi árlegur sparnaður við reksturinn í Siglufirði verða um 25 þúsund krónur.

Hér er þá ekki reiknað það tap sem ríkisverksmiðjan hefir árlega orðið fyrir vegna þess hve þrærnar eru of mikið stórar, en það nemur tugum þúsunda miðað við það, að hægt væri að bræða síldina nýja. Að öllu þessu athuguðu er Siglufjörður rétti staðurinn.

Því hefir verið haldið fram, að nokkuð myndi sparast með lægri vinnulaunum á Reykjarfirði. Þetta eru falsvonir.

Ef greiða ætti lægri laun við ríkisverksmiðju á Reykjarfirði en á Siglufirði, þá myndi vinna lögð niður á báðum stöðum þar til leiðrétting fengist.

Vélar og annað sem með þarf, er hægt að fá með 10 vikna fyrirvara. Viðbótarbygging á Siglufirði ætti því að geta verið tilbúin fyrir næstu síldarvertíð.

Byggingu nýrrar verksmiðju annarstaðar myndi ekki lokið fyrir þann tíma. Þetta ber einnig að athuga.

Alþingi er nú komið saman, þess verður að krefjast, þótt um aukaþing sé að ræða, að teknar verði ákvarðanir um þetta mál. Afstaða þingmanna mun að einhverju leyti fara eftir því, hvernig ríkissjóður myndi fara út úr þessum viðskiptum fjárhagslega. Er því vert að athuga það nokkuð.

Af hverjum 100 þúsund málum síldar sem brædd eru, fær ríkissjóður um 30 þúsund krónur í tollum.

Auknir tollar vegna verksmiðjunnar myndu því, í meðal síldarári, gera meira en greiða vexti af þeirri upphæð, sem fram Þarf að leggja:

Að hjálpa sjávarútveginum á þennan hátt væri því tekjur fyrir ríkissjóð, bæði beint og óbeint.

Flestir munu óska þess, að hægt væri að segja það sama um hjálp þá, sem landbúnaðinum er veitt.

Útgerðarmenn og sjómenn og allur verkalýður. Takið höndum saman og krefjist þess, að ný síldarverksmiðja verði byggð fyrir næstu síldarvertíð.

J. F. G.

------------------------------------------------------------------------------------

1- Í 34. tbl. Siglfirðing, er gerð tilraun til að færa sönnur á því, að fleiri verksmiðjur megi ekki byggja á Siglufirði. Það er að líkindum gert til hagsbóta fyrir bæinn. Fari nú svo, að Siglfirðingur og þeir sem hans málastað styðja, fái engu um þetta ráðið, og verksmiðjan verði byggð hér, þá er það nokkurn veginn víst, að ekki munu líða mörg ár þar til Íhaldið þættist hafa átt frumkvæðið að því að verkmiðjan hafi verið reist á Siglufirði.