Árið 1933 - Verksmiðjumál

Einherji, 15. desember 1933

Síldarbræðslumálið

Stórkostlegur sparnaður. Siglfirsku ríkisverksmiðjurnar tvær geta brætt 2.400 málum meira á sólarhring með vélaaukningu, og hverfandi tilkostnaði hjá því að reisa nýja verksmiðju.

Það er á allra vitorði, að verksmiðjur þær er síld bræða hérlendis fullnægja hvergi nærri þörfum íslenska síldveiðiflotans og hefir því verið ráðgert að reisa nýja verksmiðju á kostnað ríkisins hér á Norðurlandi.

Því hefir áður verið haldið fram, með allþungum rökum, að óráðlegt væri og í rauninni óafsakanlegt, ef síldarbræðsla þessi yrði reist annarstaðar en hér, að minnsta kosti fyrr, en fullséð væri fyrir bræðsluþörf þeirra skipa, sem leggja hér upp afla sinn til söltunar.

Hafa enn sem komið er engin rök sem nokkur veigur er í, verið færð fyrir hinu gagnstæða.

Það er vitanlegt hverjum þeim, er nokkurt skynbragð ber á slíka hluti, að verksmiðja, sem afkastar bræðslu á 2.000 málum síldar á sólarhring kostar með öllu og öllu ekki undir einni miljón króna.

Þegar Ríkisverksmiðjan var byggð 1930 fullyrtu verkfræðingar þeir, er fyrir verkinu stóðu, að suðuhólkur og "þurrkari" væru nægilega stórir fyrir þrár pressur eða gætu hæglega atkastað suðu og þurrkun á 3.600 málum síldar á sólarhring.

En svo óheppilega tókst til, að eimkatlar verksmiðjunnar urðu mikils til of litlir til slíkra afkasta.

Tilhögun þeirri og breytingum á ríkisverksmiðjunum er fyrirsögn greinar þessarar byggist á, skal nú stuttlega lýst.

Til þess að hagnýta til hins ýtrasta, afkastagetu suðuhólksins og þurrkaranns í Ríkisverksmiðjunni þyrfti hún að fá nýjan ketil svo stóran, að aldrei yrði þar eimþrot.

Þá yrði í öðru lagi hagkvæmast að fá hingað eina nýja pressu, er afkastaði vinnslu á 2.200 málum, en taka aðra pressuna, sem þar er nú, í burtu.

Væri þá svo komið að með þessu móti afkastaði Ríkisverksmiðjan bræðslu á 3.200-3.500 málum síldar á sólarhring. Þá er að snúa sér að Páls-verksmiðjunni svokölluðu.

Þar þarf þegar á næsta vori að breyta allmiklu og kosta allmiklu til, t. d. leggja nýjar eimleiðslur og raflagnir, steypa pall undir pressuna og hefir nú i því skyni pressan þar verið tekin upp.

Nú er plássinu þar þannig háttað, að afar litlu munar, hvort steyptur verður pallurinn þeim mun stærri, að nægi tveim pressum; yrði það gert, væri sjálfgefið að setja líka niður pressu þá, er losnaði úr Ríkisverksmiðjunni samkvæmt því, er áður er sagt.

Móttökukerum yrði þá að sjálfsögð að fjölga þar (bæta tveimur við) og stæðu þau þá norðan við pressurnar þar sem nú eru geymslukerin fjögur, en þau ætti þá að flytja út og er ágætis staður fyrir þau við austurhlið verksmiðjunnar, þar sem nú er grunna þróin, sem aldrei er notuð.

Vitanlega þyrfti þá að kaupa til þeirrar verksmiðju einn 1.200 mála suðuhólk, einn "þurrkari" 1.600 mála (en þá yrði óþarfur eimþurrkari sá, er nú er þar), eina kvörn, nægilega stóra, en hana þarf að kaupa hvort eð er.

Þá þyrfti og að kaupa þangað 100 hesta dísilvél, en sú dísilvél er þar er, (50 hesta) væri tilvalin til aflsaukningar í Ríkisverksmiðjunni.

Þá er og í ráði að stækka til muna mjölbirgðaskemmu verksmiðjunnar og þá sjálfsagt að stækka hana svo að nægði til þess að fullnægja verksmiðjunni. En eimketill sá, sem fyrr getur, að tekinn yrði burtu úr Ríkisverksmiðjunni yrði fluttur í Pálsverksmiðjuna í stað minni ketilsins, er þar er, og væri þá verksmiðjunni vel séð fyrir eimorku.

Er búið væri að koma báðum ríkisverksmiðjunum í þetta horf, er nú var lýst, framleiddu þær hvor um sig úr 1.000 til 1.200 málum meira á sólarhring en þær gera nú, eða samtals allt að 2.400 málum meira á sólarhring en þær gera nú.

En þessi aukning er álíka mikil og ráð er fyrir gert að hin nýja verksmiðja afkasti.

En hvað yrði sú fjárfúlga mikil er þessi ráðabreytni sparaði ríkissjóði?

Hver vill svara því?

1. Lóðarkaup, en vitanlegt er að lóð undir nýja verksmiðju fengist ekki nema með afarkjörum, og vafamál, hvort allur kostnaður við breytingar þær, er nú hafa nefndar verið, yrði meiri en sú fúlga er gefin yrði fyrir lóðina, ef verksmiðjan yrði reist hér, og sennilega hvort eð væri.

2. Öll verksmiðjuhús og geymsluskemmur, lýsistankar (eða olíutunnukaup), suðuker og önnur ker.

3. Þrær og bryggjur allar, löndunartæki öll, vogir, vagnar og yfirleitt öll tæki (ef verksmiðjan yrði byggð annarstaðar en hér.

4. Öll aflyfirfærsla (transmission, reimhjól, öxlar o. s. frv.) dælur, allar eimleiðslur, vatnsleiðslur, lýsisleiðslur og ótal margt fleira. sem hér yrði of langt upp að telja.

Svo nokkuð sé nefnt, skal minnst á þetta, er óumflýjanlega sparaðist:

Því hefir verið slegið fram, að slíkar breytingar sem þessar, yrðu sennilega til þess, að verksmiðjurnar ynnu ekki jafnvel og áður og kæmist ef til vill í það ólag á vélar og rekstur, er ekki yrði úr bætt í bráðina.

Hér til er því að svara, að slíkur fyrirsláttur sem þessi, er ekkert annað e. lúalegt vantraust á vélameistara verksmiðjanna og forstjórann og í því sambandi mætti minnast þess, að það er engum öðrum en þeim að þakka, hve gott lag er á öllum vélum verksmiðjanna og óhætt að fullyrða, hvað Ríkisverksmiðjuna snertir, að það eru þeir sem hafa komið öllu í það horf sem nú er.

Einherji þykist mega fullyrða, að þessum mönnum öllum er fyllilega óhætt að treysta í þessu efni.

Það væri næsta vítavert ef ríkið, eins og nú er komið fjárhagnum, léti að minnsta kosti ekki athuga gaumgæfilega, hvort hér er verið að halda fram hagnýtri sparnaðartillögu eða ekki. (Framhald "á næsta ári 1934)