Árið 1933 - Vinnudeilur

Siglfirðingur, 10. júní 1933

Ríkisverksmiðjudeila (1 og 2)

Eins og flestir muna, hófst í fyrra vinnudeila milli stjórnar Síldarverksmiðju ríkisins og Verkamannafélagsins hér. Deilumálið var það, að stjórn verksmiðjunnar fór þess á leit við félagið að stytt yrði sunnudagshelgin úr 36 tímum niður í 24 tíma og tímakaup úr kr. 3 niður í 2 kr. Þessi deila fór þannig að ekkert varð úr styttingu helgidags, en eftir miklar og langar málaleitanir, hafðist það í gegn að tímakaupið skyldi verða 2 krónur.

Þá er þessi deila stóð yfir var það öllum ljóst, að með því að Verkamannafélagið hafnaði þessu tilboði verksmiðjustjórnarinnar, og þar með gerði það að verkum að hætt var við að útbúa verksmiðjuna til reksturs, stofnaði það síldarútveginum í hina mestu hættu, svo og hafði mikla atvinnu af þeim mönnum er við verksmiðjuna unnu.

Loksins þegar samkomulagi var náð og farin var á ný að útbúa verksmiðjuna, var það langt um seinan. Síldarafli var þegar orðinn góður, hvert skipið eftir annað kom með fullfermi, en gat ekki losnað við veiðina, og varð jafnvel að kasta síldinni aftur í sjóinn og varð að þessu ómetanlegt tjón.

Ég er ekki í efa um það, að þeir menn sem fremstir voru í þessari deilu frá Verkamannafélagsins hálfu, sáu þá þegar hversu hættulegt það gat orðið ef stöðva þyrfti verksmiðjuna, og fullvissir hafa þeir orðið er, þeir sáu hin alvarlegu eftirköst.

En til þess eru vítin að varast þau. Og í þessu tilfelli var hægt að ætla að Verkamannafélagið varaðist að endurtaka slíkar aðgerðir.

En - sagan endurtekur sig.

Að sjálfsögðu hefir verksmiðjustjórnin sömu málaleitanir við verkamannafélagið nú í ár.

Á fundi sem haldinn var í félaginu báru tveir fulltrúar stjórnarinnar tillögu um stytting sunnudagsins í 24 tíma 2 kr. tímakaup og 41 tíma lengri vinnutíma á viku. þessi tillaga var samþykkt með 34 atkvæðum gegn 24.

En það var ekki nægjanlegt því til þess að hægt sé að breyta kauptaxta félagsins þarf tvo þriðju hluta atkvæða, og þar með var tillagan felld.

Nú eru það ekki kratarnir sem eru til fyrirstöðu, nú eru það frændur þeirra kommúnistarnir, sem ætla að sýna sjómönnum og öðru verkafólki bróðurkærleika sinn með því að svipta þá arðvænlegri atvinnu.

því þegar eftir þennan fund var öllum þeim er við verksmiðjuna unnu, sagt upp um óákveðinn tíma og geta þeir þakkað kommúnistum tilvikið.

Það er illt til þess að vita að gætnari menn verkamannafélagsins skuli sýna svo mikið áhugaleysi, að láta þessa ofbeldisseggi óátalið fíflast með jafn alverlegt mál sem þetta. Og er vonandi að þeir taki til sinna ráða og sjái um að deilan verði til lykta leidd hið bráðasta.

Z

--------------------------------------------------------

Siglfirðingur, 17. júní 1932

Ríkisverk­smiðjudeilan. (2)

Kommúnistar fá að sjá sína sæng útbreidda!

Eins og skýrt var frá í síðasta tölublaði Siglfirðings, felldu kommúnistar kauptilboð Ríkisverksmiðjustjórnarinnar og leiddi þar af stöðvun á allri vinna við verksmiðjuna.

Nú hafa 46 menn, sem við verksmiðjuna ætla að vinna í sumar, ritað verksmiðjustjórninni bréf, Þar sem þeir biðjast til að ganga að tilboði hennar, þar sem hún bíður kr. 3,00 á tímann í helgidagavinnu, en sunnudagurinn styttist úr 36 stundum í 24 og að sjötta næturvaktin falli undir mánaðarkaupið, þannig að verkamennirnir sem hafa fastar vaktir skili 54 klukkustundir á viku uppi mánaðarkaupið, sem miðist við 26 virka daga.

Verksmiðjustjórnin. hefir þegar tekið tilboðinu, og er þessi deila þá til lykta leidd á viðunandi hátt og má þakka það þeim mönnum í Verkamannafélaginu, er sem þeir bjóðast til að ganga að tilboði hennar, þar sem hún bíður kr. 3,00 á tímann í helgidagavinnu, en sunnudagurinn styttist úr 36 stundum í 24 og að sjötta næturvaktin falli undir mánaðarkaupið sjá hversu hættulegt það er, að gefa sig að nokkru leyti á vald þeim byltingaseggjum, sem skipa stjórn þess félags nú.

Ofbeldisseggirnir - kommúnistar eru nú óðir og uppvægir yfir því, að þeir skuli ekki lengur vera einráðir innan félagsins. Þeir sjá það að nú er þeirra stjórnartíð búin að vera, og það sem þeim tekur sárast er það, að þeir hafa grafið gröf sína sjálfir með fíflaskap sínum og heimskulegum aðgerðum í þeim málum, sem þeir þykjast vera að berjast fyrir til hagsbóta fyrir verkalýðinn, en sem undirniðri er ekkert annað en sviksamlegar aðgerðir gagnvart stéttabræðrum þeirra.

Nei, kommúnistum þarf ekkert að koma það á óvart, þótt þeir menn hér á Siglufirði, sem farnir eru að þekkja framferði þeirra, taki saman höndum og reyni af fremsta megni að koma í veg fyrir athafnir þeirra.

Þeir vita það vel, að það hæfir engum rétthugsandi manni að aðhyllast svívirðingastefnu þeirra. Þar ofan á bætist svo, að innan félagsins eru menn, sem alls ekki er hægt að trúa til slíkra hluta.

Það eru menn sem hafa gefið sig á vald erlendri öfgastefnu til þess eingöngu að stofna þjóðlífi okkar í hina mestu hættu. Það eru menn sem aldrei hafa sýnt vott af sjálfsbjargarviðleitni, varast að gera nokkuð það er bætt gæti kjör manna, en unnið að sundrung og ófriði eingöngu.

Menn sem hafa verið heimtufrekir við aðra, en vægari við sjálfa sig. Þetta er rétta lýsingin á þess um forsprökkum.

Þessum sora úr Íslensku þjóðinni þurfa allir rétthugsandi menn að vera samtaka um að vinna bug á, áður en hann nær til að eyðileggja meira en búið er.

Þetta er nú á góðum vegi með að takast hér á Siglufirði. Kommúnistar eiga sér enga viðreisnar von lengur, hvað svo sem þeir reyna að sofna miklu liði, til að berja á stéttabræðrum sínum í ríkisverksmiðjunum. Þeir verða ekki megnugir þess að reka þá heim.

Z.

---------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 1. júlí 1933

Ríkisverksmiðjudeilan enn.

Í síðasta tölublaði “Verkamannsins" birtir Gunnar Jóhannsson tillögu þá, er kommúnistar samþykktu á fundi Verkamannafélagsins nýlega. Í tillögunni er stjórninni heimilað að setja Síldarverksmiðjur ríkisins í verkbann, hvenær sem hana "langar til".

Og tillagan endar á því, að gefa í skyn, að þeir verkamenn, sem skrifað hafa undir samning við verksmiðjustjórnina, hafi verið neyddir til þess.

Sama kvöldið og þessi tillaga var samþykkt, æddu nokkrir kommúnistar með hana á fund Þormóðs Eyjólfssonar, sem er formann verksmiðjustjórnar, og munu hafa ætlað að hræða hann. Það mun þeim þó ekki hafa tekist, því þegar þeir höfðu erindisleysi sínu, þakkaði Þormóður þeim fyrir komuna!!

Það situr ekki á kommúnistum að tala um að neyða menn til að gera eitt eða annað, sem sjálfir neyða samverkamenn sína öllum öðrum meira.

Sannleikurinn í þessu máli er sá, að nokkrir menn sem hafa talið sig róttæka jafnaðarmenn, og ekki vildu skrifa undir strax, komu til verksmiðjustjórans á eftir og vildu fá að skrifa undir annan samning samhljóða, bara ekki á sama skjal og hinir, og þessi ósk þeirra var tekin til greina.

Það er ósköp vel skiljanlegt af hverju mennirnir gerðu þetta. Þeir hugðu að með þessu mundu nöfn þeirra aldrei sjást undir neinum samningi, og þeir héldu að "forsprakkar" Verkamannafélagsins myndu hætta við allt verkbann, og þá vildu þeir þó ekki verða af atvinunni.

En svo komust "forsprakkarnir" að öllu saman og þá afsökuðu þessir síðari samningamenn sig með því, að þeir hefðu, ætlað að svíkja, ef til kæmi. Og þá fyrirgáfu "forsprakkarnir" þeim af öllu hjarta!!

Og "forsprakkarnir" vissu hvað þeir væru að gera með "fyrirgefningunni" þeir hugsuðu sem svo: Nú höfum við náð fastari tökum á þessum fuglum en áður. Nú skulu þeir bæta fyrir tilræðið með því að berja á stéttarbræðrum sínum í verksmiðjunni, þegar til kemur.

Af þessu má best sjá heilindi hinna róttækari. Þeir sækjast eftir að skrifa undir vinnusamninga "í leyni", en þegar allt kemst upp, þá segjast þeir "hafa verið neyddir" og "hafa ætlað að svíkja".

Það hafði heyrst að kommúnistar myndu ætla að berja á ríkisverksmiðju verkamönnunum þann 27. þ.m.

Og þetta mun hafa verið satt, að minnsta kosti gengu þeir út með stærðar skjal, þar sem menn áttu að skrifa sig sem "böðlar" stéttarbræðra sinna.

Og sem þóknun fyrir tiltækið lofaði Verkamannafélagið að greiða "böðlunum" dagkaup, en sem þó átti að vera aðeins fyrir neðan taxta!!!

En hvaða peninga hefir Verkamannafélagið til að greiða heilum her manna kaup með? Ekki hefir það ársgjöldin frá þeim "róttækustu", því þeir skulda nær allir árgjöld sín til félagsins - og voru einu sinni nærri búnir að missa kosningarrétt í félaginu fyrir vanskil!!

Félagið hefir þá ekki annað en árstillög hinna friðsamari, þeirra, sem venjulega greiða gjöld sín og vilja nú hafa vinnufrið í verksmiðjunni. Það eru því sennilega þessar krónur, sem nú á að skipta upp á milli þeirra "róttæku" sem borgun fyrir að berja á þeim, sem peningarnir eru frá.

Ekki vantar innrætið!

Þetta á svo víst að heita einskonar atvinnubótavinna af því, þeir hafa sóst eftir að fá helst þá menn í "herinn", sem atvinnulausir eru, því þeir vita, að þar muni dagkaupið (þótt það sé undir taxta), koma sér vel.

Með þessu framferði hafa bolsarnir sýnt innræti sitt betur en nokkru sinni fyrr. En þótt þeir séu þannig, að þeir fyrir peninga selji sannfæringu sína (ef hún er þá nokkur) og gerist föðurlandssvikarar,

þá mun enginn ærlegur Siglfirðingur skrifa nafn sitt undir "böðlaskjalið" Þar skrifa ekki aðrir en slæpingjar verklýðshússins og önnur aðskotadýr, sem hingað eru send til niðurrifs bæjar- og þjóðfélagsins.

Siglfirðingar! þetta "böðlaskjal" eru dauðateygjur kommúnismans hér í bæ.

Sýnum það verki, að við hötum föðurlandssvikara, sem hafa það eitt að takmarki, að kollvarpa öllu góðu og gagnlegu, bæði í orði og verki.

----------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 8. júlí 1933

Samkomulag hefir náðst um rekstur Ríkisverksmiðjunnar, og hófst vinna þar aftur í gær. Hefir svohljóðandi samningur verið undirritaður af stjórnum verksmiðjunnar og Verkamannafélagsins:

Stjórn Verkamannafélags Siglufjarðar og stjórn Síldarverksmiðju ríkisins, gjöra með sér svofelldan samning:

Stjórn Ríkisverksmiðjunnar greiði kauptaxta Verkamannafélagsins, sem samþykktur hefir verið af félaginu, og sem gildir frá 1. maí 1933 og til 1. maí 1934, þó með þeim breytingum, að verkamenn verksmiðjunnar, sem ganga fastar vaktir, skili 6 dag- og 6 næturvöktum eða samtals 54 klukkustundir yfir vikuna uppí mánaðarkaupið, og sunnudagshelgin reiknist 24 klukkustundir í stað 36 klukkustundir, sem greiðist með kr. 3,00 pr. klukkustund, og gildi sá helgidagataxti til loka kauptaxtaársins.

Verkamönnum verksmiðjunnar sé tryggð tveggja mánaða föst atvinna. Ráðningarskrifstofa Verkamannafélagsins staðfesti þegar gerða vinnusamninga milli verkamanna og verksmiðjunnar, ennfremur þá vinnusamninga sem enn eru óundirskrifaðir.

Málsókn út af vinnustöðvuninni sem framkvæmd var af hálfu Verkamannafélagsins, laugardaginn 1. júlí s.l, verði ekki fyrirskipuð af stjórn verksmiðjunnar.

Þeir verkamenn, sem ráðnir voru hjá verksmiðjunni áður en vinnustöðvun varð, fá allir vinnu í sumar.

Rísi mál út af samningi þessum, skal það rekið fyrir gestarétti Siglufjarðarkaupstaðar.

Eftir þessu verður ekki séð að Kommúnistar hafi unnið hið minnsta við verkbannið, heldur þvert á móti. Þeir hafa með samningnum gengið að öllu því, sem þeir áður fordæmdu og þóttust ætla að fá breytingu á.