Árið 1934- Ýmsar fréttir og auglýsing

Ríkisstjórnin hefur skipað nefnd manna, sér til aðstoðar við val á stað fyrir hina nýu síldarverksmiðju, sem í ráði er að reist verði á Norðurlandi.

Í nefndinni eru þessir menn: Guðmundur Hlíðdal, landsímastjóri, formaður, Kristján Bergson, formaður fiskifélagsins, Trausti Óslafsson, efnafræðingur, Loftur Bjarnason útgerðarmaður, Sveinn Benediktsson, framkvæmdastjóri og Sveinn Árnason fiskimatsmaður.

------------------------------------------------------------------------------------

Neisti, 1. maí 1934

Hvar verður síldarverksmiðjan reist? Eftir svari við þeirri spurningu bíða menn með óþreyju.

Nýlega var nefnd sú á ferðinni sem athuga á, hvar heppilegast muni að reisa hina nýju síldarverksmiðju, sem koma á upp á næstunni.

Ekki hefi ég heyrt enn, hvað nefndin leggur til málanna, en nágrannar okkar, Skagfirðingar og Eyfirðingar, og jafnvel fleiri, hamast með odd og egg í því máli.

Vill hvert hérað fá verksmiðjuna reista hjá sér, og er það ekki nema eðlilegt, því allstaðar er þörf fyrir rekstur og atvinnu þá, sem verksmiðjan kemur til með að skapa.

Virðist þó í fljótu bragði eðlilegast, að hún yrði reist hér á Siglufirði, í sambandi við þær verksmiðjur sem fyrir eru á staðnum. En ég hefi ekki heyrt að Siglfirðingar geri neitt til þess að fá hana hingað, eða beiti sér á nokkurn hátt í því máli.

Virðist þetta þó vera stórt mál fyrir Siglufjörð. En því miður virðast Siglfirðingar stundum hálf sofandi yfir sínum stærstu velferðarmálum.

Ég vil vona að bæjarstjórnin gangi rösklega fram í því, að fá verksmiðjuna hingað, því hennar er full þörf hér.

Hitt yrði sorgleg útkoma, ef það skyldi verða ofaná, að á meðan nágrannarnir hamast og ef til vill sigra í þessu máli, þá sitji bæjarstjórn Siglufjarðar aðgerðarlaus og láti sér fátt um finnast.

Hvar væri þá allur áhuginn fyrir velferð Siglufjarðar, sem svo mikið var til af fyrir kosningarnar í vetur?

------------------------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur, 30. júní 1934 ---- Auglýsing

TILKYNNING

Þeir, sem koma til með að hafa viðskipti við byggingu nýju síldarverksmiðjunnar, áminnast hér með um að halda öllum reikningum aðskildum frá viðskiptum við rekstur hinna verksmiðjanna og skrifa:

Nýbygging Síldarverksmiðju ríkisins fyrir öllum reikningum viðvíkjandi byggingunni. Reikninga ber að fá viðurkennda og áritaða af verkstjóra byggingarinnar, hr. Einari Jóhannssyni, áður en þeim er framvísað til greiðslu.

Síldarverksmiðja ríkisins.

-----------------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur, 14. júlí 1934

Síldveiðarnar eru afa tregar og hafa Ríkisverksmiðjurnar orðið að hætta tvívegis, sakir síldarleysis. Hefir slíkt ekki borið við áður og þykir einsdæmi þegar tillit er tekið til þess, að eigi færri en 60 veiðiskip leggja upp afla sinn hjá verksmiðjunum.

Síldinni hefir verið skipt milli verksmiðjanna í hlutfalli við afkastagetu þeirra.

-------------------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur, 11. ágúst

Síldarveiðin hefir gengið vel undanfarið Alls á landinu hafa nú verið saltaðar;

126.346 tunnur þar af hér á Siglufirði 93.739 tunnur, er skiptist þannig eftir tegundum:

Saltsíld 39.531 tunnur

Matjessíld 24.959 tunnur

Hausuð og slægð 4.885 tunnur

Hreinsuð og slægð 1.059 tunnur

Kryddsíld 17.923 tunnur

Sykursöltuð 4.708 tunnur

Flökuð 674 tunnur

Á Eyjafirði hafa saltast 21.677 tunnur, Sauðarkróki 7.110, og á Ingólfsfirði 3.820 tunnur.

Verksmiðjurnar hafa tekið á móti síld er hér segir:

S. R, (Syðri ríkisverksmiðjan) 93.350 málum, þar af óbrætt í þró um 25 þúsund mál.

S. R. P. (Dr. Pauls verksmiðjan) 49.635 málum. Þar af óbrætt í þró um 10 þúsund mál.

Á sama tíma í fyrra, 11. ágúst, höfðu Ríkisverksmiðjurnar tekið á móti síld er hér segir:

S. R. 91.504 málum.

S. R. P. 43.375 málum

Hafa Ríkisverksmiðjurnar því fengið samtals 8.100 málum meira nú en á sama tíma í fyrra.

Hjaltalínsverksmiðjan hefir fengið ca. 31 þúsund mál.

-------------------------------------------------------------

Siglfirðingur, 1. september 1934

Dr. Paul verksmiðjan

hefir nú lokið að bræða þá síld er komið hefir í þróna þar.

Hefir hún nú brætt 66,400 mál á 49 sólarhringum eða um 1.355 mál til jafnaðar á sólarhring.