Árið 1934-Goos verksmiðjan

Siglfirðingur, 15. september 1934

Goos-eigna-kaupin og síldarbræðsluhorfurnar

Á síðasta bæjarstjórnarfundi varð, eftir langt þref og venjulegan "bæjarstjórnarmunnsöfnuð," samþykkt með 7 samhljóða atkvæðum að bærinn "gengi inn í" kaupin. Sjálfstæðismenn greiddu eigi atkvæði.

Enda þótt nauðsynlegt verði fyrir bæinn að tryggja sér eign þessa að því er til kemur lóðanna flestra, er meira en vafasamt, hvort bærinn hefði átt að blanda sér þann bagga að kaupa verksmiðjurnar hefði sýnst, að vel hefði mátt við una fyrir alla aðila að ganga að boðum þeirra félaga Sigurðar og Snorra.

Skal eigi rætt um þetta meira að sinni, því sennilega munu bæjarfulltrúar Sjálfstæðismanna bráðlega skýra afstöðu sína í þessu máli hér í blaðinu.

Goos / Grána Ljósmynd: Ólafur Thórarensen

Goos / Grána Ljósmynd: Ólafur Thórarensen

Það eru ekki vænlegar horfur á því, að verksmiðjur þær er hægt verður að starfrækja á næsta sumri, eigi auðvelt með að afla sér nægrar síldar til sæmilegs reksturs. En sæmilegur rekstur verður það eigi talin, ef samfelld bræðsla stendur eigi í 60 sólarhringa eða lengur.

Til fróðleiks skal hér talin veiði skipa þeirra er veitt hafa að einhverju eða öllu leyti í bræðslu á þessu sumri og þvínæst lausleg áætlun um meðal veiði skipa næsta ár, er þar tekið tillit til þeirrar aukningar er sennilegt má telja að verði.

Vera má, að sú aukning verði mun meiri, sérstaklega að því er snertir togarana, en þó verður að svo komnu að telja það vafasamt.

Loks er lauslegt yfirlit yfir afkastagetu verksmiðjanna er vænta má að starfræktar verði á næsta sumri.

Síðastliðna síldarvertíð haf borist hér á land af bræðslusíld sem hér segir, eftir því er mæst verður komist, um 440 þúsund mál.

Veiðiskipin hafa verið um 95, þ. e. 7 togarar, 30 línuveiðiskip, 58 mótorskip. Þess skal þó getið, að í veiði þessari eru talin um 70 þúsund mál, er keypt hafa verið af útlendum veiðiskipum, svo innlenda bræðslusíldarveiðin verður því um 370 þúsund mál. Árið 1935 má gera ráð fyrir veiði sem næst því er hér segir:

Togarar með um 15.000 mál hver eða alls 225.000 mál

30 línuveiðiskip með um 5.000 mál hvert eða alls 150.000 mál

65 mótorskip með um 4.000 mál hvert, eða alls 260.000 mál

Alls samtals 635.000 mál.

Nú skulu taldar hér upp þær verksmiðjur er gera verður ráð fyrir að bræðslu stundi næsta sumar að öllu forfallalausu og talin afkastageta þeirra miðað við sólarhring:

1. Gamla Ríkisverksmiðjan 2.400 mál

2. Dr. Pauls verksmiðjan 1.400 mál

3. Nýja verksmiðjan 2.400 mál

4. Goos-Rauðka 900 mál

5. Dagverðareyrarverksmiðjan 1.100 mál

6. Krossanesverksmiðjan 3.000 mál

7. Raufarhafnarverksmiðjan 800 mál

8. Allianceverksmiðjan 2.400 mál

9. Hesteyrarverksmiðjan 1.700 mál

10. Sólbakkaverksmiðjan 1.100 mál

Samtals 17.200 mál á sólarhring.

Sé nú bræðslutíminn áætlaður 60 virkir sólarhringar nemur bræðsluþörf þessara verksmiðja allra 1,032,000 mála.

Nú verður eigi gert ráð fyrir, að innlendi flotinn veiði meira en 635 þúsund mál og er þá auðsætt, að bræðslusíldarþörfin verður mun meiri en afkastageta flotans.

Vitanlega má gera ráð fyrir því að skeð geti, að útlend skip selji meira en síðastliðið sumar og að fleiri togarar stundi síldveiðar er hér er gert ráð fyrir, en þrátt fyrir það má búast við að síldareftirspurnin í bræðslu verði meiri en framboðið og verðið fari hækkandi.

Er það síst að lasta, en þeim mun minni von er á því fyrir bæinn, að úrelt bræðslustöð, eins og Rauðka er að ýmsu leyti, beri uppi sjálfa sig og rekstur sinn fjárhagslega. Er því sjálfsagt fyrir bæinn að reyna að selja verksmiðjuna eða leigja og gera það sem allra fyrst.

Bæjarbúi.

-----------------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur, 29. september 1934

Kaupin á Goos-eignunum.

Herra Þormóður Eyjólfsson hefir í Einherja í dag skrifað alllanga grein um þessi kaup og skýrt frá gangi málsins frá sínu sjónarmiði.

Þó vafasamt sé hvort ástæða er til að ræða þessi kaup svo mjög á þessu stigi málsins, þá verð ég þó að skýra með nokkrum orðum frá gangi málsins frá mínu sjónarmiði.

Ég skal strax taka það fram, að enginn annar en við Snorri Stefánsson, á nokkurn þátt í þessum kaupum, við ræddum ekki um kauptilboð okkar við nokkurn mann áður en það var sent, og höfum aldrei gefið neinum kost á að taka þátt í þessum kaupum með okkur. Ég tek þetta fram af því, að það hefir fyllilega verið gefið i skyn, að sumir, eða jafnvel allir fulltrúar Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Siglufjarðar væru með í kaupunum.

Fyrstu tildrög þessara kaupa voru þau, að strax og N. P, Christensen, fulltrúi Köbenhavns Handelsbank, kom hingað í vor, tjáði hann Snorra Stefánssyni, að í ráði væri að selja allar eignir S. Goos hér á staðnum. Fór hann þess á leit við Snorra, að hann gerði tilboð í Gránuverksmiðjuna, en því hafnaði Snorri. Aftur á móti varð það að samkomulagi þeirra í milli, að Snorri gerði tilboð í auðu verksmiðjuna sem Steindór Hjaltalín hefir haft á leigu, ásamt íbúðarhúsi S. Goos. Þegar til Handelsbanken kom, vildi hann ekki selja af eignunum, heldur allar í einu lagi.

það var gefið i skyn að eignirnar mundu verða seldar allar fyrir kr. 300 þúsund. Þegar svo var komið, að bankinn vildi ekki selja auðu verksmiðjuna eina saman, kom Snorri til mín og spurði mig um, hvort ég vildi vera með í að gera tilboð í allar eignirnar, þar sem hann ekki treysti sér til að ráðast í svo mikið einn.

Okkur kom saman um, að ekki kæmi til mála það verð, er bankinn hefði gefið í skyn að selt yrði fyrir, og það næsta sem til mála gæti komið, væri kr. 175 til 180 þúsund. Það varð að samkomulagi, að við sendum bankanum tilboð í allar eignirnar, fyrir kr. 175 þúsund.

Nokkru síðar kom gagntilboð, að vísu allmikið lægra en upprunalega, en þó svo hátt, að engri átt náði, og sendum við þá lokatilboð kr. 180 þúsund, er samþykkt var á síðustu stundu.

Ég get fullvissað alla þá sem lesa þessar línur, að þegar við gerðum tilboðið, hafði ég alls enga hugmynd um, að bærinn hefði ákveðið að kaupa eignirnar, og það var fyrst nokkru eftir að tilboðið var sent, að bæjarfógetinn skýrir mér frá, að til mála hafi komið, að bærinn keypti eignirnar og segist vona að ég fari ekki að hlaupa í kapp við bæinn um kaup á þessum eignum.

Ég svaraði honum því, að ég gerði ekki ráð fyrir að það yrði. Því satt að segja kom mér ekki til hugar, að tilboðið yrði samþykkt, hitt er aftur á móti rétt, að ég skýrði honum ekki frá, að við þegar hefðum sent tilboð, enda varð það tilboð ekki afturtekið.

Þormóður hefir mjög mikið að athuga við framkomu mína í þessu máli, þar sem ég sé formaður hafnarnefndar. Ég er alveg á gagnstæðri skoðun. Ég tel mig hafa rétt til að kaupa hverja þá eign sem vera skal, sem til sölu er og ég kæri mig um að kaupa.

Að bærinn hafi nokkra þörf fyrir allar þessar eignir, er vitanlega fjarstæða. Bærinn hefir átt kost á að fá þennan hluta þessarar eignar, sem hann hefir þörf fyrir, endurgjaldslaust eftir 5 ár, hann hefir líka átt þess kost, að fá það af þessum eignum, sem hann ef til vill kynni að hafa þörf fyrir einhvern tíma í framtíðinni, fyrir brot af því sem sú eign raunverulega kostar.

Þar sem þessu hvorttveggja hefir verið hafnað, er auðsætt, að hér er aðeins um spekulationskaup að ræða frá bæjarins hálfu, kaup sem vitanlega geta orðið bænum til byrði á mestu árum og ef dæma má eftir þeirri reynslu sem við höfum hér af slíkum kaupum, þá eru því miður nokkrar líkur til að svo muni fara.

Þormóður fullyrðir að bærinn tapi 50-80 þúsund krónum á kauptilboði okkar Snorra Stefánssonar. Ég læt hvern um að trúa því sem honum þykir trúlegast.

En undarlegir menn eru þeir sem stjórna Köbenhavns Handelsbank, ef þeir selja eignir, sem metnar eru að fasteignamati rúmlega 570 þúsund krónur auk allra véla í tveim verksmiðjum, fyrir 100-130 þúsund krónur, án þess að gera nokkra tilraun til að fá hærra verð, Og þegar bankinn heldur eignunum til að byrja með í 250-300 þúsund krónum.

Þá dettur mér ekki í hug að trúa því, að bærinn hefði fengið þær með lægra verði og betri borgunarskilmálum, en við Snorri Stefánsson.

Ég held að allir sanngjarnir menn , verði að viðurkenna, að við höfum ekki hlaupið í kapp við bæinn í þessum kaupum, heldur hefir bærinn hlaupið í kapp við okkur og Þormóður virðist telja það einhverja goðgá, að afhenda ekki bænum allar eignirnar, alveg án tillits til þess, hvort bærinn hefir nokkurn forkaupsrétti að þeim samkvæmt lögum eða ekki.

Þormóður ber saman lóðakaup sín við kaupin á Goos-eignunum. Það hefði hann ekki átt að gera, því sá samanburður verður honum ekki í víl.

Hann kaupir lóðirnar, ekki til þess að auka eða viðhalda atvinnu i bænum, heldur til þess að reyna til að selja þær bænum hærra verði en hann kaupir þær fyrir, eða með öðrum orðum, til þess að græða fé á kostnað bæjarins.

Víð kaupum Goos-verksmiðjurnar með það eitt fyrir augum að reisa þær áfram og reka þær á þann hátt, er gæti orðið borgurum bæjarins að sem mestu gagni.

Við tökum svo mikið tillit til þarfa bæjarins, að við erum fúsir til að láta af hendi, endurgjaldslaust, að fimm árum liðnum, besta og dýrasta hluta lóðarinnar, sem höfnin hefir þörf fyrir að fá á næstu árum, þrátt fyrir það þótt þörfin minnki við byggingu fyrirhugaðra mannvirkja norðan til á Siglufjarðareyri, sem nú má heita fellsamið um.

Á þennan hátt teldi ég hagsmunum bæjarins best borgið í sambandi við þessi margumræddu kaup.

Siglufirði, 28. september 1934.

Sigurður Kristjánsson.

------------------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur, 3. nóvember 1934

Kaupin á Goos-eignunum.

Eftir langa og harða baráttu Sjálfstæðismanna við einokunaröflin í bæjarstjórninni og löng og ströng blaðaskrif frá báðum aðilum, bæði i dagblöðum Reykjavíkur og í blöðunum hér, var loks lokasena þessa máls háð á tveim fundum bæjarstjórnarinnar, 22. og 30. fyrra mánaðar, var þar loks, eftir strangar umræður, en ekki að sama skapi uppbyggilegar, samþykkt svohljóðandi tillaga frá Andrési Hafliðasyni:

Bæjarstjórnin samþykkir að ganga að tilboði Snorra Stefánssonar og Sigurðar Kristjánssonar dags. 30. september um að falla frá forkaupsrétti að Rauðuverksmiðjunni og að Gránugötu 27 gegn því að bærinn gangi inn í kaup þeirra á öðrum Goos-eignum á Siglufirði. (Gránuverksmiðjunni Gránugötu 21, Hvanneyrarbraut 3 og Hvanneyrarkrók 5, 6, 7, 8) fyrir áttatíu þúsund krónur, sem greiðist með hlutfallslegum afborgunum og samið hefir verið um, milli þeirra og eiganda.

Jafnframt samþykkir bæjarstjórnin tilboð Snorra Stefánssonar og Sigurðar Kristjánssonar, í fyrrgreindu skjali um leiguna á Gránuverksmiðjunni í 10 ár fyrir kr. 6.000,00 ársleigu auk viðhaldsskyldu samkvæmt tilboðinu.

Oddvita sé falið að ganga frá kaupum á eignunum, leigu á Gránuverksmiðjunni og taka lán til kaupanna.

Tillagan var samþykkt með 6:4.

En með því að Sigurður Kristjánsson hafði með bréfi tilkynnt bæjarstjórn, að hann hefði veitt Steindóri Hjaltalín rétt til að ganga inn í tilboð það í sinn stað, er þeir Snorri Stefánsson höfðu gert bænum um kaup á nokkrum hluta eignanna og leigu á Gránuverksmiðjunni, var einnig samþykkt svohljóðandi viðaukatillaga frá Andrési með 6 : 3.

"Bæjarstjórnin er samþykk að Steindór Hjaltalín komi i stað Sigurðar Kristjánssonar samkvæmt tilkynningu þeirra frá 26. þ.m. gegn eftirfarandi viðaukaskilyrðum:

1. Að Handelsbankiun samþykki skiptin án nokkurrar ábyrgðir fyrir bæinn eða afskipta hans af greiðslum þess hluta kaupverðsins.

2. Að lóðarspilda sú með bryggjum og mannvirkjum er greinir í öðrum lið í tilboði þeirra Sigurðar Kristjánssonar og Snorra

Stefánssonar frá 30. f.m., falli ókeypis til frjálsra afnota bæjarins eftir 10 ár, eða 1. jan. 1945". Hér er áti við lóðarspilduna frá girðingu Rauðuverksmiðju austur að austurtakmörkum spildu þeirrar, er Steindór Hjaltalín hefir haft á leigu og notað s.l. sumar.

Með tillögunum greiddu þessir atkvæði:

Bæjarfógeti, Hertervig, Schiöth, Sveinn Hjartar, Andrés Hafliðason, Gunnlaugur Sigurðsson.

Móti voru: Þormóður Eyjólfsson, Þóroddur Guðmundsson, Gunnar Jóhannsson, Jóhann F. Guðmundsson.

Undir þessum síðari umræðum kom fram tillaga frá Guðmundi Hannessyni svohljóðandi:

"Bæjarstjórnin ákveður að fresta umræðum um málið og ákveður að senda 2 fulltrúa til Reykjavíkur til þess að freista hærri tilboða".

Tillaga þessi var felld með 7 atkvæðum gegn 2.

Til þess að menn geti gert sér grein fyrir, hve mikinn sigur Sjálfstæðismenn hafa unnið í þessu máli, skal til frekari skýringar tekið fram, að tillaga þessi frá Andrési, er samþykkt var nú, er að öllu leyti efnislega samhljóða tillögu þeirri, er Sjálfstæðismenn fluttu á bæjarstjórnarfundi í september s.l.

En þá var sú tillaga felld með 7 atkvæðum gegn 3. Nú hafði málið skýrst svo fyrir allmörgum fulltrúum, er þá voru andstæðir Sjálfstæðismönnum, að þeir greiddu atkvæði með þeim er til úrslitatinna kom, svo málinu er nú bjargað til hins besta fyrir bæinn, og hann þar með algjörlega laus frá þeirri fjárhagshættu & vasast í áhættusömum verksmiðjurekstri, en jafnframt tryggð réttindi til þess af eignunum, er hann má teljast að hafa hagnað af að eignast.

Framkoma fulltrúa sjálfstæðismanna í þessu máli hefir frá öndverðu verið sjálfri sér samkvæm og með þeim hætti, að þeir hafa með henni unnið sér traust bæjarbúa og fylgi fjölmargra andstæðinga.

Sjálfstæðismaður.