Siglufjarðarkaupstaður kaupir allar eignir S. Goos

Einherji, 13. september 1934

Siglufjarðarkaupstaður kaupir allar eignir S. Goos í Siglufirði, bæjarstjórn samþykkir með 7 samhljóða atkvæðum að nota forkaupsrétt sinn á eignunum.

Eins og getið var um í síðasta blaði höfðu þeir Sigurður Kristjánsson kaupmaður, og Snorri Stefánsson verksmiðjustjóri, fest kaup á öllum eignum S. Goos í Siglufirði fyrir 180 þúsund krónur.

Samkvæmt lögum hafði Siglufjarðarkaupstaður forkaupsrétt á eigninni og var það mál tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi.

Var þar samþykkt að senda Þormóð Eyjólfsson konsúl, til Reykjavíkur, til þess að útvega 50 þúsund króna lán til kaupanna.

Var það sú upphæð, er borga skyldi við afhendingu eignanna, en afhendingu á að fara fram við næstu áramót.

Þormóður Eyjólfsson -Ljósmynd Kristfinnur

Þormóður Eyjólfsson -Ljósmynd Kristfinnur

Þormóði Eyjólfssyni tókst að fá lán þetta, 25 þúsund krónur hjá Landsbankanum og 25 þúsund krónur hjá Útvegsbankanum.

Var svo málið tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi s.l. mánudag. Allharðar umræður urðu um málið, lögðust Sjálfstæðismenn fast á móti kaupunum, vildu þeir að vísu að keypt yrði, að þeim Snorra og Sigurði, Gránuverksmiðjan með nokkurri lóð, en ekki að eignirnar yrðu allar keyptar af bænum. Eftir nokkurra klukkutíma þref og þjark var gengið til atkvæða um málið, og var samþykkt, með 7 samhljóða atkvæðum, tillaga frá bæjarfógeta um að bærinn notaði sér forkaupsrétt sinn og gengi inn i kaupin.

Þeir er greiddu atkvæði með tillögunni voru Framsóknarmenn, Jafnaðarmenn og Kommúnistar, Sjálfstæðismenn greiddu ekki atkvæði.

Eignirnar, sem bærinn nú hefir keypt, eru þessar:

Verksmiðjurnar báðar með tilheyrandi byggingum og geymsluhúsum. íbúðarhús S. Goos við Gránugötu. Verslunarhús S. Goos við sömu götu.

Hús það sem kennt er við Vestesen, nr. 3 við Hvanneyrarbraut.

Hvanneyrarkrókur með stóru lóðarsvæði.

Benda má á hvernig bærinn getur hagnýtt sér sumt af eignum þessum.

Vestesenshús: Íbúð handa skólastjóra.

Verslunarhúsið: Brunastöð.

Hvanneyrarkrókur: Dagheimili fyrir börn.

Allt þetta vantar bæinn nú tilfinnanlega. Með nokkrum breytingum og endurbótum má gera alla þessa staði ágæta til nefndrar notkunar.

---------------------------------------------------------------------------------------

Einherji, 28. september. 1934

Enn um kaupin á Goos-eignunum. Saga málsins.

Hversvegna er Schiöth reiður? Var hann með í kaupunum?

A. Schiöth bæjarfulltrúi skrifar í 223 tölublað. Morgunblaðsins um kaupin á Goos-eignunum og varpar þar allþungum hnútum að mér.

Tek ég það sem óbeina áskorun til mín um að skýra nokkuð nákvæmar frá gangi þess máls, en áður hefir verið gert. Tel ég rétt að verða við þeirri áskorun.

Úr síðustu aldamótum, þegar síldveiðar hófust í Siglufirði, kepptust einstakir menn, útlendir og innlendir (einkum þó útlendir) við að ná undir sig öllum lóðum er að sjó náðu.

Var svo komið þegar Siglufjörður fékk kaupstaðarréttindi, að bærinn gat hvergi fengið aðgang eða eignarhald á sæmilegri strandlóð nema með afarkostum.

Hefir þetta á ýmsan hátt heft eðlilegan þroska bæjarins. - Seinkaði t.d. byggingu hafnarbryggjunnar um mörg ár. -

En þegar lóðin undir hana fékkst þó loksins, fyrir sérstaka tilviljun, með sæmilegum kjörum, var hún ófullnægjandi því hún er alltof lítil. En lóð hafnarbryggjunnar liggur að Goos-eigninni.

Var stækkun á lóð hafnarbryggjunnar hverjum manni auðsæ. Lengi vel var þó ekki útlit fyrir að við hana yrði bætt, fyrir skaplegt verð, en vitanlega var þess vænst af bæjarstjórn, og þó einkum hafnarnefnd, að hún notaði hvert tækifæri sem byðist til þess að auka eignir bæjarins að sjó og stækka hafnarlóðina.

Handelsbankinn í Kaupmannahöfn var nú síðustu árin hinn raunverulegi eigandi Goos-eignanna.

Það ver kunnugt úr síðustu áramótum að bankinn vildi selja þær og leitaðist fyrir hjá ríkisstjórn að kaupa, en því var hafnað, og um aðra kaupendur mun þá heldur ekki hafa verið að ræða.

Leið nú og beið þangað til í maí í vor. - Fékk ég þá vitneskju um eftir alveg ábyggilegum heimildum, að svo væri komið, að bankanum væri nú áhugamál að selja og það jafnvel fyrir mjög lágt verð.

þetta tækifæri vildi ég fyrir hvern mun að bærinn notaði. - Hafði ég fyllstu ástæðu til að ætla að ef hægt hafði verið þá, hiklaust, að semja við bankann fyrir bæjarins hönd, mundu eignirnar allar hafa fengist fyrir 100 til 130 þúsund krónur.

Fyrstu dagana í júní átti ég tal um þetta við bæjarfógeta G. Hannesson. Bollalögðum við nokkuð um hver leið yrði farin í málinu.

Ég óttaðist strax, að ef það vitnaðist, að bærinn vildi kaupa eignirnar og ætti kost á þeim með góðu verði, mundu einhverjir rísa upp og bjóða í þær móti honum.

En framhjá bæjarstjórninni varð vitanlega ekki komist. - Varð niðurstaðan því sú að halda lokaðan fund um málið.

Fundurinn var haldinn þ.11. júní á skrifstofu bæjarfógeta, og var þar samþykkt með atkvæðum allra mættra fulltrúa, 7 að tölu, þar á meðal A. Schiöth og Sveins Hjartarsonar að kaupa eignirnar fyrir alt að 125 þúsund krónur (O. Hertervig var þá ekki í bænum. Er það hið eina sem rangt var í frásögn N.Dagblaðinu, það nefnir O.H. í stað Sv. Hj.)

Ríkt var lagt á og samþykkt með öllum atkvæðum að gæta fullkominnar þagnarskyldu um málið.

Á því munu þó hafa orðið einhver mistök síðar meir.

Seint í júní var Handelsbankanum sent tilboð í Goos eignirnar allar, símleiðis frá Reykjavík, fyrir hönd Siglufjarðarkaupstaðar og boðnar fyrir þær hundrað þúsund krónur. Kom svar um hæl frá bankastjórninni að einn af trúnaðarmönnum bankans, hr. Klerk bankastjóri, færi þá strax til Reykjavíkur til að ræða um málið.

Var ég þá í Reykjavík og átti tal við hann um kaupin. Gerði ég mér bestu vonir, eftir það samtal, um að samningar mundu takast á svipuðum grundvelli og bærinn hafði hugsað sér, og með mjög hagkvæmum greiðsluskilmálum.

Bankastjórinn kom nokkru síðar hingað til Siglufjarðar, rétt fyrir miðjan júlí. Fann ég þá strax að eitthvað hafði komið fyrir, sem gerði bankann tregari til samninga við bæinn.

Fékk ég líka fulla vissu um það litlu síðar að snemma í júlí hafði bankinn fengið hærra tilboð í eignina frá "prívat" mönnum héðan úr Siglufirði. -

Hafði athygli mín reyndar verið vakin á því, að gefnu tilefni, að Sigurður Kristjánsson mundi standa að því tilboði, sem sá sterki "sparisjóðsforstjóri". án hans mundi ekki hafa verið hægt að útvega nægilega peninga til fyrstu útborgunar.

Þessari getgátu vísaði ég þó algerlega á bug og man glöggt að mér varð að orði: "Þetta hlýtur að vera vitleysa. Formaður hafnarnefndar getur ekki farið að keppa um eign, sem hann veit að bærinn er að bjóða í og þarfnast nauðsynlega".

Áttum við, ég og bæjarfógetinn, stöðugt von á gagntilboði frá bankanum. Sú von rættist þó ekki, en aftur fékk ég þá fulla vissu fyrir því að Sigurður Kristjánsson og Snorri Stefánsson voru að bjóða í eignirnar, -

Ég sagði bæjarfógeta frá þessu og bað hann að reyna að stöðva Sigurð. Talaði hann strax við hann og kom beint til mín frá honum.

Er hann þá hálf ergilegur við mig og segir: "Þetta er ekki rétt sem þú segir mér, Sigurður neitar því alveg að hann hafi boðið í eignirnar og lofaði mér því statt og stöðugt að gera það ekki",

Ég hafði ekki sannanir fram að færa í augnablikinu gegn ákveðinni neitun Sigurðar og varð að láta mér það lynda í bili að bæjarfógeti tryði honum.

Líður nú enn nokkur tími þangað til að ég fæ vitneskju um að Sigurður Kristjánsson & co. séu búnir að bjóða bankanum 175 þúsund krónur í eignirnar.

Fór ég þá til bæjarfógetans að nýju og kom okkur saman um að senda fyrirspurn til bankans viðvíkjandi gagntilboði til bæjarins og möguleikum fyrir láni hjá bankanum sjálfum ef bærinn keypti. - 31. ágúst kom svohljóðandi svar:

"Ejendommen solgt til Snorri Stefansson og Sigurður Kristjansson imod god Udbetaling og Restköbesum over kort Aarrække stop Fremskafielse af Laan saa ledes uden Interesse".

Þetta svar skýrir sig sjálft. Það er ekki einungis búið að sprengja upp eignirnar í verði um tugi þúsunda með kapptilboðum, heldur einnig búið að spilla þeim möguleikum fyrir góðum greiðsluskilmálum, sem bærinn hlaut að hafa fram yfir einstaklinga.

Þannig er þá saga málsins nákvæmlega rétt sögð, að því viðbættu er bæjarfulltrúi A. S, skýrir frá í Morgunblaðsgrein sinni, að svo mikið kapp hafi bjóðendurnir (Sig. & co.) lagt á að halda eignunum, að þeir hafi reynt að kaupa bæinn til þess að falla frá forkaupsréttinum, og þegar það hafi ekki tekist þá ætli þeir að gera bænum eins örðugt fyrir og þeir geti, og gera tilraun til að draga undan forkaupsréttinum eins mikið og mögulegt sé.

Svona er nú aðferðin. Ég hefi aðeins skýrt frá staðreyndum og læt lesendurna um að meta verk eins af "ágætustu mönnum í Siglufirði", formanns hafnarnefndarinnar Sigurðar Kristjánssonar.

Schiöth bæjarfulltrúi vekur á sér sérstaks eftirtekt með æsingi sínum á fundum og annarstaður og viðkvæmi fyrir öllu því er snertir sölu Goos-eignanna, og brennandi áhuga fyrir að vefengja eða rýra forkaupsrétt bæjarins. -

Hann finnur líka auðsjáanlega til þess sjálfur að þetta geti litið einkennilega út, því hann vill reyna að skjóta sér undir það, að þetta sé af umhyggju fyrir Snorra Stefánssyni og hjartagæsku við hann.

Rétt er það, að Snorri er af öllum viðurkenndur fyrir reglusemi og dugnað og hans aðstaða er á engan hátt óeðlileg.

Hann hefir starfað lengi við Goos-verksmiðjurnar og hann er ekki í neinum trúnaðarstörfum fyrir bæinn, né skuldbundinn honum á þann hátt, en flestum mun þykja undarlegt, ef Snorri ætti nokkuð að þurfa að vera upp á brjóstgæði Schiöth eða annarra kominn. Hann er víst hvergi á flæðiskeri staddur og getur alltaf valið um stöður. -

Í lok greinar sinnar heldur Schiöth sig hafa fundið eina afbragðshnútu sem muni geta orðið mér að rothöggi, því ekki efa ég að hann eigi við mig, þegar hann talar um manninn sem keypti lóðirnar sem bænum voru svo nauðsynlegar.

Þessi saga hefði nú reyndar alveg eins getað átt við eina tvo aðra menn, sem líka hafa nýlega keypt nokkrar lóðir hér í bænum, sem honum mundu, sumar hverjar, síst ónauðsynlegri en mínar. En ég geng alveg út frá að sagan eigi við mig og sé sögð í því skyni að reyna að koma því inn hjá fólki að þarna hafi gerst eitthvað hliðstætt og í Goos-málinu.

það er bara þessi smávægilegi mismunur, að lóðirnar sem ég keypti höfðu verið til sölu árum saman og bærinn aldrei viljað við þeim líta, og enn betri lóðum, rétt hjá, sem bænum höfðu sérstaklega verið boðnar til kaups með mjög vægu verði, hafði hann hafnað.

"Lítið dregur vesælan", ef Schiöth heldur að þetta geti orðið honum að nothæfu vopni. -

Fleiru nenni ég ekki að svara Morgunblaðsgrein Schiöth bæjarfulltrúa, en vil eindregið hvetja Siglfirðinga til að lesa hana rækilega, því hún svarar sér best sjálf.

Þormóður Eyjólfsson --

Í Dag 2017= Umrædda grein Aage Schiöth má lesa á vefnum timarit.is : http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=103369&pageId=1226934&lang=is&q=MORGUNBLA%D0I%D0 blaðsíða 4 og 5

--------------------------------------------------------------------------------------------------

Hafnarnefndarformaðurinn

Sigurður Kristjánsson hefir nú skýrt frí Coos-eignakaupunum frá sínu sjónarmiði. - Tel ég reyndar ekki þörf að svara því miklu, því ekkert kemur nýtt fram í frásögn hans, sem máli skiptir, og ekkert er hrakið af því sem ég hefi sagt.

Þó tel ég rétt að benda á eftirfarandi atriði:

1.Hann neitar því, að hann hafi nokkuð um það vitað, þegar hann gerði tilboð í Goos-eignirnar, að bærinn hefði ákveðið að kaupa þær. Hann neitaði því líka að hann hefði boðið í þær þegar bæjarfógetinn spurði hann um það, og var hann þó búinn að því fyrir meira en viku. En hann viðurkennir þó að hafa vitað um tilboð bæjarins. þegar hann gerði lokatilboð sitt

2. Hann telur bæinn hafa hlaupið í kapp við sig um eignirnar, en sig ekki við bæinn. - Bæjarstjórn samþykkti að kaupa 11. júní; Handelsbankinn fær tilboð bæjarins 28. júní. Svar bankans um að trúnaðarmaður hans leggi þá þegar af stað til Íslands, til þess að ræða málið, er sent 30. júní. - Sigurður gerði sitt tilboð snemma í júlí, það er nokkrum dögum síðar en bærinn.

Svona er nú kapphlaupið það.

3. Sigurður Kristjánsson skýrir sjálfur frá, að Handelsbankinn haft strax í vor verið ráðinn í að selja Gooseignirnar. En hann véfengir það, að það hefðu fengist ódýrari ef um aðeins einn kaupanda hefði verið að ræða, heldur en þó tveir kepptu um þær.

4. Sigurður Kristjánsson gerir ráð fyrir að Gooseignakaupin verði bænum "byrði á næstu árin" - "ef dæma má eftir þeirri reynslu sem við höfum hér af slíkum kaupum".

Því segir hann þetta? Man hann ekki eftir kaupunum á Söbstadseigninni. sem bærinn hafði miklar tekjur af, og urðu síðan grundvöllurinn undir vexti hans og viðgangi?

Eða Baldurseigninni, sem bær inn hagnaðist allverulega á?

Eða Ingvarseigninni, sem stendur undir sér sjálf, strax á fyrsta ári. Þó kaupin væru ekki fullgerð fyrr en komið var fram, á vor?

Það skyldi þá vera "sandurinn", sem hafnarnefnd fyrir forgöngu Sigurður sjálfs, keypti af Tynes í vetur, sem hann á við að muni verða bænum þung byrgði.

Sigurður skilur ekki að neitt sé athugavert við framkomu sína sem hafnarnefndarformanns, í Goos-eignakaupmálinu. Það er náttúrlega ekki við því að búast! - Ég vil þó reyna að gera honum það skiljanlegt með dæmi.

Ríkisstjórnin vildi kaupa viðbót við lóðir sínar hér, handa ríkisverksmiðjunum. - Ég á sæti í verksmiðjusjóninni.

Hvernig mundi hafa verið á það litið, ef ég hefði þá rokið til og sent kauptilboð í lóðirnar? Ég er ekki í miklum vafa um, að mér mundi samstundis hafa verið vikið úr stjórninni.

Mér er meira að segja mikill efi á, að Sigurður Kristjánsson hefði þá orðið til þess að taka svari mínu, þó vitanlegt sé, að hann hefir nokkuð sé, sérstæðar skoðanir á skyldum manna við fyrirtæki, sem þeir hafa trúnaðarstörf fyrir (sbr. formennsku hans í stjórn Félagsbakarísins).

Þormóður Eyjólfsson.