Tengt Siglufirði
Einherji, 2. nóvember 1934
Kaupin á Goos-eignunum.
Bæjarstjórnin samþykkir að falla frá forkaupsrétti sínum að Rauðu verksmiðjunni og að leigja þeim Sigurði Kristjánssyni og Snorra Stefánssyni Gránuverksmiðjuna til 10 ára gegn 6.000 króna árlegri leigu.
Á bæjarstjórnarfundi, er haldinn var 30. október samþykkti bæjarstjórn Siglufjarðar svohljóðandi tillögu frá bæjarfulltrúa, Andrési Hafliðasyni:
Bæjarstjórnin samþykkir að ganga að tilboði Snorra Stefánssonar og Sigurðar Kristjánssonar dagsettu 30. september um að falla frá forkaupsrétti að Rauðkuverksmiðjunni og að Gránugötu 24 gegn því að bærinn gangi inn í kaup þeirra á öðrum, Goos-eignum, á Siglufirði (Gránuverksmiðjunni) Gránugötu 21. Hvanneyrarbraut 3 og Hvanneyrakrók 5, 6, 7, 8, fyrir áttatíu þúsund krónur, sem greiðist með hlutfallslegum afborgunum og samið hefir verið um milli þeirra og eiganda.
Jafnframt samþykkir bæjarstjórnin tilboð Snorra Stefánssonar og Sigurðar Kristjánssonar, í fyrrgreindu skjali um leiguna á Gránuverksmiðjunni í 10 ár fyrir kr. 6.000 ársleigu auk viðhaldskyldu samkvæmt tilboðinu.
Oddvita sé falið að ganga frá kaupum á eignunum, leigunni á Gránuverksmiðjunni og taka lán til kaupanna. Fyrir fundinum lá einnig svohljóðandi tillaga frá bæjarfulltrúa Þormóði Eyjólfssyni:
Út af kauptilboði Sigurðar Kristjánssonar og Snorra Stefánssonar um kaup og leigu á Goos-verksmiðjunum, samþykkir bæjarstjórnin að gera þeim, S.K. og Sn.St. svohljóðandi tilboð:
Að selja þeim "Rauðku" ásamt lager og verkafólkshúsinu og skrifstofuhúsinu nr. 27 við Gránugötu með lóðarréttindum undir þessum húsum að undanskildum bílfærum, gangi innan rauða girðingar fram á platningu fyrir kaupverð kr. 100.000 sem greiðist samkvæmt kauptilboði þeirra.
Skulu þeir hafa frjáls afnot, endurgjaldslaust af vestustu bryggjunni á plássinu og takmörkuð afnot af hinni hábryggjunni sem nú er suður af "Rauðku" næstu 12 ár; enda kosti þeir viðhald bryggjanna en greiði þar á eftir leigu eftir mati fyrir bryggjuafnotin.
Að leigja þeim Gránuverksmiðjuna samkvæmt leigutilboði þeirra fyrir kr. 8,000 ársleigu,
Var sú tillaga feld með 4 gegn 2 atkvæðum, en tillaga Andrésar Hafliðasonar var samþykkt með 6 gegn 4 atkvæðum.
Þessir greiddu atkvæði með tillögu A.H: Andrés Hafliðason, bæjarfógetinn Guðmundur Hannesson, A.Schiöth, Sveinn Hjartarson, O.J.Hertervig, Gunnlaugur Sigurðsson.
Á móti tillögunni greiddu þessir atkvæði: Þormóður Eyjólfsson, Jóhann F. Guðmundsson, Gunnar Jóhannsson, Þóroddur Guðmundsson.
Felld var tillaga frá Þ.E. um að fresta að taka ákvörðun um kauptilboð S.Kr. og Sn.St. þangað til um áramót.
Og önnur tillaga frá Þ.E. felld um, gagntilboð S.Kr. og Sn.St.
Einnig lá fyrir fundinum bréf frá Þormóði Eyjólfssyni þar sem hann skuldbatt sig til að gera 125 þúsund kr. tilboð í Rauðku eftir áramótin, ef ekki lægi þá tilboð fyrir frá S.K. og S.S. né öðrum.
Ekki mátti koma til greina annað en selja Sig. Kr. og Co. strax fyrir 100 þúsund krónur.
Með þessari samþykkt er að líkindum bundinn endir á þetta mál. Geta Sjálfstæðismenn í bæjarstjórninni nú hlakkað yfir unnum sigri og eigi munu þeir síður vera hróðugir bæjarfógetinn og Andrés yfir úrslitum þessa máls.
Hitt er annað mál, hvort framkoma, þeirra í málinu verður þeim til virðingar og álitsauka, um, það munu vera nokkuð skiptar skoðanir og mun það koma betur í ljós síðar.
------------------------------------------------------------------------
Einherji, 20. nóvember 1934
Kaupin á Goos-eignunum.
Bæjarfógeti G. Hannesson og tveir bæjarfulltrúar með honum, hafa skrifað grein, dagsetta 6. þ.m, til varnar framkomu sinni fyrir hönd bæjarins í Goos-eignarmálinu.
Svo mikið Þótti liggja við að réttlæta sig, að þeir gáfu út sérstakt blað og dreifðu því gefins um allan bæinn.
Greinarhöfundar hafa sjálfsagt orðið varir við nokkra andúð í bænum gegn sér eflir atkvæðagreiðsluna 30. október, þar sem þeir sama sem afhentu hafnarnefndarformanninum Sigurði Kristjánssyni bæjarfulltrúa & Co. dýrmætustu og verðmætustu eign bæjarins - hjartað úr Goos-eigninni - fyrir hlægilega lágt verð, - afhentu þessa eign manninum, sem hafði sprengt eignina upp fyrir bænum uni 50 til 80 þúsund krónur á hinn óvenjulegasta hátt sem sögur fara af, svo ekki sé meira sagt.
Fyrri hluti greinarinnar mun eiga að vera nokkurskonar saga málsins á bæjarstjórnarfundinum 30. október.
Er þar þó rangt skýrt frá ýmsu, í atriðum, sem óneitanlegs skipta máli, og reynt að fela sannleikann með því að fara í kringum hann. -
Er hér auðsjáanlega gripið til þess úrræðis í vonleysisbaráttu greinarhöfunda, um að ná aftur því trausti og áliti hjá borgurum bæjarins, og þá einkum kjósenda sinna, sem þeir nutu áður.
Öllum er það vitanlegt að bæjarstjórnin var í september s.l. búin að samþykkja með 7 samhljóða atkvæðum, að nota forkaupsrétt sinn á Goos-eignunum og ganga inn í kaup Þeirra Sigurðar og Snorra. (Sigurðarmennirnir þrír í bæjarstjórninni sátu þá hjá og greiddu ekki atkvæði).
Á fundinum 30. október lýstu þeir því yfir að þeir vildu selja Sigurði alla eignina fyrir 100 þúsund krónur og engum öðrum. Þetta voru einn rökin hjá þeim.
Á septemberfundinum var málið á réttri leið, engin hætta virtist vera framundan og fulltrúarnir gengu sigurglaðir heim með þeirri vissu, að þeir væru trúir forráðamenn bæjarins og hefðu gert rétt.
Ég hafði líka 11. júní á lokaða fundinum flutt málið inn í bæjarstjórnina, með þeirri sannfæringu að fengist þessi dýrmæta eign fyrir lágt verð, eins og ég hafði fulla ástæðu til að halda, gat ekki hjá því farið að eign þessi yrði hin mesta lyftistöng fyrir þróun bæjarins og velmegun borgaranna og veitti þeim öryggi inn á við og honum álit og viðskipatraust út á við auk geysilegra eigna aukninga.
En þetta átti nú ekki svo að fara. Formaður hafnarnefndar gat ekki eygt aðrar þarfir í þessu máli, en sínar eigin.
Hann er einn af forráðamönnum bæjarins og honum bar því skylda til að láta hagsmuni bæjarins sitja fyrir sínum persónulegu hagsmunum í þessu mikilvæga máli.
Flokksmenn Sig.Kr. í bæjarstjórninni reyndust líka þægu börnin, þegar Sigurður skipaði þeim að styðja sig. Þeir snerust strax á móti sinni fyrstu samþykkt og sannfæringu frá 11 júní.
En svo kom Sigurði og félögum hans í bæjarstjórninni óvæntur stuðningur í málinu. Fleiri fulltrúar gengu á hönd eiginhagsmunapólitík hafnar-nefndarformannsins ekki af þægð við Sigurð, eða neinni tilhneigingu til að skaða bæinn viljandi eða styrkja fjáraflaplön Sig.Kr. og Co, heldur blátt áfram af hræðslu við íhaldið hér í bænum.
Þeir voru hræddir við, ef Sigurður fengi ekki vilja sinn, auð og völd, í þessu efni, mundu forráðamenn bæjarins sem sæti eiga í bæjarstjórn af hálfu Sigurðarmanna bregða fæti fyrir hverja skynsamlega ráðstöfun um fyrirtækið.
Kemur þarna fram verra álit á þessum mönnum, en ég hefi nokkurn tíma látið mér til hugar koma.
Að vísu er fullyrt að Sigurður hafi hótað því- og lálið berast til bæjarfulltrúanna, að fengi hann ekki Rauðku, skyldi hann sjá um að Grána fengi ekki einn einasta þorskhaus til vinnslu úr Siglufirði.
Það má vera að hann ráði yfir öllum þorskhausum bæjarins, en ekki trúi ég að hann hefði fengið mikið fylgi útgerðarmanna til þeirra hermdarverka.
Af því að greinarhöfundar eru hræddir við hótanir Sigurðar og vita að ágengni hans við bæinn, virðast stundum lítil takmörk sett, vilja þeir endilega ná samkomulagi við hann og teygja sig óhyggilega langt í því efni, og gefa lesendum sinum ranga hugmynd um málið.
Þeir segja að Sigurður og Snorri hafi boðið til samkomulags:
Að bærinn fengi Gránuverksmiðjuna. Gránugötu 21, Hvanneyrarkrók og Hvanneyrarbraut 3, fyrir 80.000 þúsund krónur".
Hér er mjög einkennileg túlkun á tilboði þeirra Sigurður og Snorra, og er það sennilega gert í ákveðnum tilgangi til þess að rugla dómgreind lesendanna og fegra málstað greinarhöfunda.
En með þessu eru þeir líka að læða inn vörn fyrir Sigurð og Snorra og á að reyna að láta líta svo út, að þeir hafi gert bænum einhver kostaboð.
Bærinn þurfti nú engum boðum að hlíta frá þeim eins og síðar mun vikið að.
En greinarhöfundar ganga alveg fram hjá að skýra lesendum frá því, að tilboð þeirra Sig. og Sn. var fyrst og fremst kauptilboð. Það heitir kauptilboð og byrjar á því að þeir bjóðast til að kaupa Rauðku með þrem bestu bryggjunum öllum verksmiðjuhúsunum, íbúðarhúsinu og um 2/3 hluta af öllu grunnplássi verksmiðjanna, fyrir einar 100 þúsund krónur.
Þetta er aðalatriðið, en ekki hitt, hvaða útskækla þeir þykjast ætla að gefa bænum eflir af eignum Goos, eða bankans, sem þeir hafa aldrei haft neinn rétt yfir ef bærinn notaði forkaupsrétt sinn, eins og ástóð, og meirihluti bæjarstjórnar hafði réttilega ákveðið að gera.
Ég fékk vélaeftirlitsmann ríkisins til að verðleggja vélarnar í Rauðku og mat hann þær á 65 þúsund krónur og tók fram að matið væri mjög lágt.
Samkvæmt þessu hefur meirihluti bæjarstjórnar gefið Sig. og Co. eftir 3 bestu bryggjurnar, 2/3 af grunnplássinu, öll Rauðkuhúsin með þróm og íbúðarhúsið fyrir 35 þúsund krónur.
Hvað halda menn að Sig. og Co. græði mörg hundruð búsund á þessum kaupum, t.d. næstu 5 árin?
Mundu ekki kjósendur bæjarfulltrúanna hafa orðið þeim þakklátir, ef þeir hefðu fremur veitt tekjunum af eigninni í bæjarsjóðinn, til aukningar velmegunar og menningar bæjarbúa.
Það furðar vist engan á því, þó greinarhöfundar, - sem annars eru mætir menn og gætnir, - þykist þurfa að réttlæta fyrir borgurunum framkomu sína í Goos-eignamálinu.
Greinarhöfundar skrifa langt mál um reksturs áætlun okkar Ottesens framkvæmdastjóra, sem ég lagði fram á fundinum og sýndi nettóágóða af Rauðku um 34 þúsund krónur, ef hún væri rekin í sambandi við ríkisverksmiðjurnar.
Steindór Hjaltalín sagði áætlunina mjög varkára, enda mun hann hafa grætt á verksmiðjunni í ár yfir 50 þúsund krónur
Áætlunina telja greinarhöfundar óvarkára og þykjast hrekja hana með barnalegum bollaleggingum um síldargöngur, hækkað hráefnisverð, lækkað afurðasöluverð o. s.frv.
Ekki verður þó séð á aðfinnslum þeirra að þeir hafi nokkra þekkingu á þessum málum, en komast samt að þeirri niðurstöðu að áætlunin sé óvarkár, og þess vegna hafi þeir breytt um stefnu í málinu(!) og greitt atkvæði með Sigurðarmönnum.
Allir sjá hvers virði þessi niðurstaða þeirra er. - En svo kemur þó eitthvert hik á þá og þeir segja:
"En þótt áætlun framkvæmdastjórans væri rétt, er eftir að rannsaka, hvort forkaupsréttur bæjarins er ekki það takmarkaður, til þessara eigna, að þeim ástæðunni einum hafi verið sjálfsagt að ganga inn á samkomulag við kaupanda".
Komast þeir svo að þeirri niðurstöðu að bærinn hafi ekki átt forkaupsrétt að öðru en verksmiðjuplássinu með húsunum vélarlausum og ber jafnvel fyrir sig til frekari staðfestingar "háttstandandi lögfræðing" í stjórnarráðinu og fleiri lögfræðingar hafi þá skoðun að bærinn hafi ekki forkaupsrétt til vélanna"
Segja þeir. Þessi háttstandandi "lögfræðingur í stjórnarráðinu" var þó ófáanlegur til að staðfesta þetta með skeyti eða bréfi, eins og farið var fram á.
En hvers vegna? -
Varnir greinarhöfunda byggjast þá endanlegs á þeirri skoðun þeirra, að bærinn hafi aðeins haft forkaupsrétt að sumum þeim eignum sem seldar voru, en ekki öllum.
Ég hefi nú líka leitað álits lögfræðinga um forkaupsréttarhlið málsins, og stingur álit þeirra nokkuð í stúf við álit greinarhöfunda, eins og nú skal skýrt frá.
Einn af færustu og gáfuðustu lögfræðingum þessa lands, segir það að vísu rétt, að samkvæmt lögum, nr. 22 frá 1932 og samþykkt bæjarstjórnar 16. maí 1933, hafi bærinn ekki átt forkaupsrétt að sumum þessum eignum, t.d. Hvanneyrarkrók og Gránugötu 21 og ef til vil fleirum.
En hann segir einnig, að jafnvel þó að forkaupsrétturinn samkvæmt lögunum og samþykktinni út af fyrir sig, hefði ekki náð til neinna þeirra eigna, sem greinarhöfundar telja undanskyldar forkaupsrétti bæjarins, þá skipti það engu máli, því bærinn hafi samt sem áður eignast forkaupsrétt á öllum þeim eignum, fyrir þá sök, að þær væru seldar ásamt hinum eignunum, sem forverði einstakra eigna.
Enginn ágreiningur er um það, að bærinn ætti forkaupsrétt að þeim fasteignum sem liggja á forkaupsréttarsvæðinu.
Þessar eignir var óheimilt að selja, nema því aðeins að bænum væri áskilinn forkaupsréttur fyrir sama verð, og með öllum sömu skilmálum er stóðu til boða frá öðrum.
Ef þessar eignir hefðu verið seldar sér, mundi forkaups réttur bæjarins ekki hafa náð lengra.
En nú voru þær ekki seldar sér, og ekkert ákveðið verð sett á þessar eignir út af fyrir sig.
Í stað þess voru þær seldar með þeim góðu skilmálum, að með þeim fylgdu aðrar eignir, sem einnig voru seldar fyrir mjög lágt verð.
Kaupskilmálar þeirra Sig. Kristjánssonar og Snorra Stefánssonar voru því sérstaklega hagfeldir, einmitt meðal annars, fyrir þá sök að með forkaupsréttareignunum fylgdu aðrar eignir, allt til samans með svo lágu verði, að þessar aukaeignir hlutu að geta selst aftur með miklum ágóða, svo að raunverulegt verð á forkaupsréttareignunum hefði því orðið afar lítið. -
Þessara hlunninda, að fá aukaeignirnar með, átti bæjarfélagið tvímælalaust að njóta, samkvæmt þeim fyrirmælum laganna, að forkaupsréttarhafi á að njóta allra sömu skilmála, sem öðrum kaupendum eru gerðir.
Lögfræðingur minn, sem ég vitna hér í, heldur því afdráttarlaust fram að þetta felist skýlaust í orðinu "forkaupsréttur" því að samkvæmt málvenju og viðurkenndum lögskýringum þýði forkaupsréttur ekkert annað en það að ganga fyrir um kaup, að öllum skilmálum óbreyttum.
Forkaupsrétthafi geti aðeins gengið inn i kaupin óbreytt, hann geti aldrei t.d. Sagt; þessar eignir vil ég ekkert hafa með að gera, þó að þær hafi verið seldar með, fyrir ósundurgreint verð, ég kaupi aðeins sumt af, eignunum og fyrir matsverð.
Slíkar kröfur er seljanda ekki skylt að taka til greina.
Hann geti krafist að forkaupsréttarhafi kaupi allar eignirnar í heild fyrir sama verð og, hann gat selt þær öðrum.
En á sama hátt sé seljandi einnig, skyldur til þess að láta allt það fylgja til forkaupsréttarhafans, sem átti að fylgja til annarra kaupenda.
Hann geti ekki sagt við bæjarfélagið á þá leið, að þó að hann hafi ætlað að láta kaupendurna, Sigurð og Snorra njóta þeirra hlunninda að fá t.d. vélar verksmiðjunnar með verksmiðjunni, þá fái bærinn ekki slík hlunnindi, hann verði að sætta sig við aðra og lakari kaupskilmála.
Ef slíkt væri leyfilegt, væri forkaupsrétturinn - rétturinn til að kaupa með sömu skilmálum fyrir borð borinn.
Greinarhöfundarnir líta nú allt öðruvísi á þetta mál. Þeirra skoðun virðist vera sú, að bærinn hefði getað krafist forkaupsréttar aðeins að nokkrum hluta hinna seldu eigna. En fyrir hvaða verð?
Eftir mati mundu þeir sennilega segja.
Lögfræðingur minn segir aftur á móti - og býst ég við að það verði ekki hrakið - að til slíks mats sé engin lagaheimild, né nein fyrirmæli í þá átt við hvað slíkt mat ætti að miðast, hvort heldur til dæmis við fasteignamat, sanngjarnt söluverð eða tiltölulegan hluta af heildarverðinu fyrir alla eignirnar.
Það geti vel verið að það hefði verið skynsamlegt af löggjafanum að ákveða um mat í slíkum tilfellum og gefa reglu fyrir því.
En þesskonar lög séu engin til, og af því leiði, að mat eignanna í sambandi við forkaupsrétt er óheimilt.
Hann segir ennfremur, að um þetta sé að vísu ekki til neinn dómur frá hæstarétti, en landsyfirréttur að minnsta kosti hafi talið, í sambandi við forkaupsrétt á jörðum í svipuðum tilfellum, væri "engin lagaheimild til að skylda stefnanda" (seljenda) til að selja jarðeignirnar eftir mati".
En ef það er ekki skylda seljanda, þegar margar eignir eru seldar saman að selja forkaupsréttareignirnar út úr heildinni eftir mati, þá virðist hitt leiða beint af, að það sé þá heldur ekki skylda forkaupsréttarhafans að kaupa þær út úr heildinni eftir mati, ef hann vill neyta forkaupsréttar síns.
Í hvorugu tilfellinu er þá nein heimild til mats, og segir lögfræðingur minn að afleiðingin af því sé mjög einföld, sem sé sú ein, að forkaupsrétthafi sé bæði skyldur til að ganga, inn í kaupin í heild, og taka allar eignirnar ef hann vill neyta forkaupsréttar síns, og hefur jafnframt þann rétt, að fá allar eignirnar í heild fyrir sama verð og aðrir keyptu fyrir, þar sem ekkert sérstakt verð var sett á forkaupsréttareignirnar út af fyrir sig, og á þennan hátt einan, sé mögulegt að fullnægja þeim fyrirmælum laganna, að forkaupsréttarhafi njóti sömu skilmála er stóðu til annarra kaupenda.
Af þessu leiðir þá hvorki meira né minna en það, að öll rök greinarhöfundanna eru út í bláinn, því þau eru reist á þeirri lögvillu að bærinn hafi ekki haft rétt til að ganga inn í kaupin eins og þau væru, vegna þess að forkaupsréttur hafi aðeins náð til sumra eignanna.
Hann náði til allra eignanna af því að þær höfðu verið seldar í einu lagi fyrir tiltekið verð, en meirihluti bæjarstjórnar hefir af nokkru afsalað sér fyrir hönd bæjarsjóðs þeim forkaupsrétti.
Hefði nú bæjarfógetinn - sem er lögfræðilegur ráðunautur bæjarstjórnarinnar verið svo vænn, að gefa bæjarstjórninni, þær lögskýringar á forkaupsréttinum , sem að ofan greinir, við umræðurnar í bæjarstjórninni, þá hefði honum vissulega tekist að bjarga miklu og dýrmætu verðmæti handa bænum, og þá mundi atkvæðagreiðslan í bæjarstjórninni 30. október, s.l. ekki hafa orðið það hneyksli sem lengi mun í minnum haft.
Þormóður Eyjólfsson
-----------------------------------------------------------------------------
Einherji, 14. desember 1934
Enn um kaupin á Goos-eignunum.
Sigurður Kristjánsson og Snorri Stefánsson hafa nú afsalað bænum öllum rétti til allra Goos-eignanna.
Mætti því segja að eigi væri mikil ástæða til að fara lengur út í forkaupsrétt bæjarins til eignanna né svara fullyrðingum eins bæjarfulltrúans í næstsíðasta tbl. Einherja um það efni, enda hafa þær fullyrðingar í engu hrakið það, er ég og bæjarfulltrúarnir Andrjes Hafliðason og Gunnlaugur Sigurðsson höfum skrifað um málið.
Lagaskýring sú, er bæjarfulltrúinn í Einherjagreininni hefir eflir "lögfræðingnum sínum", að bærinn hafi fengið forkaupsrétt til allra Goos-eignanna við það, að eignir, er bærinn hafði eigi forkaupsrétt að lögum, voru seldar með eignum, sem bærinn hafði forkaupsrétt að, stenst ekki, ekki aðeins að mínu áliti, heldur og margra annarra lögfræðinga.
Síst hefði mál bæjarins unnist af þeirri lögskýring. Mundi ég þó alls ekkert hafa minnst á umrædda Einherjagrein nema af því, að ég vil ekki skiljast svo vil þetta mál að benda ekki á að enn er eitt atriði ótalið sem gerði forkaupsrétt bæjarins vafasaman hvað sem öðru liði:
Stjórnarráðið hefði gleymt að birta samþykkt bæjarins um forkaupsréttinn í B-deild stjórnartíðindanna fyrr en eftir að þeir Snorri og Sigurður gerðu kaupsamninginn um eignirnar. Bæði ég og margir aðrir lögfræðingar líta svo á, að vafasamt sé, hvort þessi gleymska geti ekki valdið því, að bærinn hefði engan forkaupsrétt að Goos eignunum, heldur ekki til lóða né húsaeignanna, gagnvart þeim Sigurði og Snorra.
En þetta mátt ekki ræða opinberlega fyrr en samkomulag náðst við seljanda.
Það sem vakti fyrir oss Andrjesi og Gunnlaugi. - og sennilega öðrum bæjarfulltrúum, er samþykktu að Sigurður og Snorri fengju rauðu verksmiðjuna - var. að vér vildum heldur tryggja bænum með samkomulagi að allar Goos-eignirnar nema rauðu verksmiðjuna og Hvíta húsið - og þar af leiðandi fá megnið af strandlengju Goos-eignanna við hafnarbryggjuna - heldur en að eiga á hættu að missa allt með vafasömum málaferlum.
Líka var á það að líta, að ef málaferli hefðu orðið út af Goos-eignunum hefði líklega af því hlotist stöðvun verksmiðjanna, meðan á málinu stóð, sem hefði getað orðið alllengi.
Hefði slíkt getað orðið verkalýð þessa bæjar til ómetanlegs tjóns, er eigi þarf að rökræða frekar.
Siglufirði. 3. desember 1934.G. Hannesson.