Árið 1934 - Kommúnista áróður !

Neisti, 13. janúar 1934

Þættir úr sögu Siglfirskra Kommúnista.

Vorið 1930 gerðist Gunnar Jóhannsson foringi taxtabrjóta. - Byrjaði hann þá að vinna við byggingu Ríkisverksmiðjunnar á næturvakt, með hóp manna með sér.

Flest Skagfirðingar og unnu þeir fyrir dagvinnukaupi. Urðu ráðandi menn verkalýðssamtakanna að ganga í að fá það taxtabrot lagfært.

Þetta eru aðeins lítil sýnishorn af starfsháttum þeirra.

Aftur á móti hafa þeir stöðvað vinnu þar sem unnið var fyrir fullum taxta, eins og í Ríkinu í sumar og mun ég koma að því síðar.

Undirbúningur og meðferð kauptaxtans hjá Kommúnistum ber svo glöggt með sér einkenni hræsninnar að furðu sætir.

Meðan þeir voru í minnihluta, settu þeir allar kaupkröfur sínar svo hátt, að ekki var hægt að samræma þær við hið daglega viðskipta- og vinnulíf, en þegar þeir fá völd í hendur, og eiga að sjá um framkvæmdir verkalýðssamtakanna, falla þeir frá sínum fyrri kröfum, og er það sama sem að þeir segi: Við meintum ekkert með þessu.

Við gerðum það aðeins til að æsa menn og koma með því einhverju illu til leiðar.

Ríkisverksmiðjudeilan.

Eftir að verksmiðjustjórnin hafði tvisvar árangurslaust reynt að ná samkomulagi við Verkamannafélagið, og verkamenn verksmiðjunnar höfðu komið sér saman um ákveðinn grundvöll, gerði verksmiðjan samning við verkamennina.

Hinn 1. júlí koma svo Kommúnistar og stöðvuðu vinnu með of ofbeldi, þar sem um 50 menn unnu fyrir fullum taxta.

Í þessu augnamiði höfðu þeir safnað með sér Kommúnistasprautum víðsvegar af landinu. Einnig náðu þeir í nokkra atvinnulausa sveitamenn, sem þeir lofuðu góðum launum fyrir að standa í stríðinu.

Foringjar Kommúnista lofuðu verkamönnum verksmiðjunnar því að á meðan verkbannið stæði yfir, skyldu þeir fá greitt fullt kaup.

Þetta loforð var svikið.

Samningar þeir sem verksmiðjustjórnin gerði við verkamennina voru, að dómi Kommúnista, í alla staði svívirðilegir.

Deilunni lauk þannig að formaður Verkamannafélagsins, Gunnar Jóhannsson, staðfesti þessa samninga í eina og öllu. Í samningunum milli Verkamannafélagsins og verksmiðjunnar er þetta aðalatriðið:

Ráðningarskrifstofan staðfestir þegar gerða samninga, svo og Samninga þá er eftir er að gera.

Hvernig stóð á því að Kommúnistaforinginn Gunnar Jóhannsson staðfesti þessa svívirðilegu samninga?

Hvernig stóð á því að hann krafðist þess ekki að verkamennirnir fengju greitt kaup þá daga sem vinna var stöðvuð, eins og hann og hans fylgifiskar höfðu þó boðist til að gera?

Það þarf ekki lengi að leita eflir svari. Ástæðan var sú, að formaður Ríkisverksmiðjustjórnarinnar lofaði Gunnari því - svona alveg prívat að greiða honum eina krónu fyrir hvern samning sem hann staðfesti.

Þetta hreyf. Í Verkalýðsblaðinu og Verkamanninum birtust langar greinar um hina svívirðilegu samninga.

Á skrifstofu Ríkisverksmiðjunnar eru þessir samningar geymdir, og neðst á þeim stendur:

Samþykkur Gunnar Jóhannsson.

Ef spurt: Hvað kostaði þessi stimpill? Þá er svarið: EINA KRÓNU

Útkoman á deilunni er því þetta:

Þegar verkamenn verksmiðjunnar sáu ekki annað framundan, en að kommúnistar ætluðu að eyðileggja sumaratvinnu þeirra, þá taka þeir ráðin í sínar hendur og semja sjálfir.

Svo stöðva kommúnistar vinnuna þar sem um 50 menn vinna fyrir fullum taxta.

Upp úr því fæst ekki annað en að um 50 menn tapa atvinnu sinni í fleiri daga, og kommúnistar fá eina krónu af hverjum samningi handa sinni pólitísku starfsemi.

Útkoman er ljót, en þó í samræmi við aðrar gjörðir kommúnista.

Hakakrossfáninn.

Árátta kommúnista gegn hakakrossfánanum, sýnir mjög vel, hve föstum tökum þeir taka á öllum málum sem þeir beita sér fyrir.

Síðastliðið vor kom hingað saltskip, og blakti þar hakakrossfáninn við hún, allan þann tíma sem skipið var hér í höfn.

Við þetta höfðu kommúnistar ekkert að athuga að því er virtist.

Svo líður og bíður, þar til einn sunnudag, að þýski konsúllinn dregur fánann upp, þá hópa kommúnistar sig saman, skera niður fánann rifa hann í sundur og troða hann niður í forina.

Þar var auðvitað sá heimskasti fremstur.

Sagan er lengri....

Í septembermánuði kom tankskip til Ríkisverksmiðjunnar, og blakti hakakrossfáninn þar á framsiglu .

Skipið óskaði eftir aðstoð hafnsögumanns.

Formaður Kommúnistadeildarinnar hér, Sveinn Þorsteinsson hafnarvörður, brá ekki skjótt við, því það gerir hann aldrei, en fór samt um borð og flutti skipið að bryggju.

Næst þegar Kommúnistar rífa niður hakakrossfána, ætti Sveinn að stjórna atlögunni.

Þetta sýnir greinilega, að barátta Kommanna gegn hakakrossfánanum - eins og reyndar öll þeirra barátta - er ekkert annað en fálm, sem fellur og verður að engu, ef nokkrar krónur eru í boði.

Frumhlaup, heimskupör og æsingar er skjaldarmerki þeirra.

Niðurlag.

Því miður leyfir ekki rúm blaðsins, að ég haldi lengur áfram með þessa söguþætti í þetta sinn. Þó er margt eftir, sem full þörf væri að minnast á, svo sem hvítliðadeilan, meðferð á peningum, stjórnarráðsleyfið, og margt fleira.

Ég get þó ekki stillt mig um að fylgja þessum söguþáttum úr hlaði með fáeinum orðum, þar sem bæjarstjórnarkosningar eru nú á ferð inni.

Öll hin óþverralega framkoma kommúnista í framantöldum málum og öðrum verklýðsmálum, hefir orðið þess valdandi, að verkamannasamtökin hafa gliðnað í sundur, og það svo að eftir eitt stjórnarár kommanna er Verkamannafélagið orðið aðeins kommúnistisk klíka.

Verkamenn hafa ekki getað fellt sig við hinar hraklegu starfsaðferðir kommanna og gengið því i tugatali úr félaginu, og eru því nú óskipulagsbundnir að miklu leiti.

Virðist ekki ólíklegt, eftir útlitinu að dæma, að Verkamannafélagið ætli að deyja í höndum kommúnista eins og Sjómannafélagið og Vélstjórafélagið.

Eitt er víst, að Verkamannafélagið er búið að tapa sínum fyrri þrótt og mun ekki fá hann aftur í höndum kommúnista.

Nú hafa kommúnistar stillt hér upp lista við þessar bæjarstjórnarkosningar.

Efsti maður á þeim lista er Gunnar Jóhannsson, sá sem Verkamannafélagið hefir sundrast í höndunum á, og sá sem aðal ábyrgðina ber á þeim frumhlaupum sem gerð hafa verið í nafni Verkamannafélagsins.

Hann er líka sá sem seldi Ríkinu sannfæringu sína fyrir eina krónu, og lofaði verkamönnunum fullu kaupi meðan deilan stæði yfir, en sveik það osvfv.

Annar maður listans er Þóroddur Guðmundsson Rússlandsfari, sem nú virðist hafa fundið köllun hjá sér, til að fræða ungar og óþroskaðar barnssálir Siglufjarðarkaupstaðar um lægstu og dýrslegustu hvatir sem finnast hjá stórborgarskrílnum.

Prédikar hann fræði sín í gömlu kirkjunni, þar sem Siglfirðingum var áður prédikað guðsorð.

Það yrði of langt mál að telja hér upp öll óhappaverk þessara manna, og margra annarra, sem á listanum eru, og sem slegið hafa þá til riddara í flokknum, og verður því hér staðar numið i þetta sinn.

Það er vonandi, að kjósendur láti ekki hræsni og vælitungur kommúnistaflokksins hafa áhrif á sig við kosningarnar, því það mun verða lítil heill fyrir bæjarfélagið að láta slíka menn ráða, menn sem leggja stein í götu allra góðra og göfugra málefna, en vinna að því að æsa til illinda, eyðileggja samtök verkalýðsins, og hafa sett sér það mark, að leggja allt í rústir.

G.

Ath. Þessi grein er aðeins birt hér vegna þess, þar sem þar er ítrekað vitnað til Síldarverksmiðja ríkisin. (sk)