Árið 1934 - Þormóður Eyjólfsson

Einherji, 5. janúar 1934

Síldarverksmiðjan og Júlíus Havsteen sýslumaður.

Sýslumaður Þingeyinga, Júlíus Havsteen, skrifar allangt mál í Dag og Íslending um hvar hin nýja síldarverksmiðja ríkisins eigi að standa, og heldur þar Húsavík eindregið fram, sem heppilegasta staðnum, en mótmælir öðrum stöðum af mismunandi ástæðum. -

Ekki varð ég neitt hissa á því, það er svo alvanalegt, að hver skari eld að sinni köku, - og ekki furða ég mig neitt á því, þó sumar röksemdirnar væru æði barnalegar, t. d. þessar:

A Skagaströnd er ekki heppilegt "á þessum tímum" að stofna til "gelgju þorps".

Í Eyjafirði "við hinn fagra fjörð" eru heppilegir staðir, en „Akureyingar kæra sig naumast um fýluna úr Ægisverksmiðjunni á sumrin, hvað þá meira af svo góðu.

Í Siglufirði hefir framkoma yfirmanna og undirmanna við Ríkisverksmiðjuna ekki verið svo til eftirbreytni, að áslæða sé til þess að byggja ofan á þær verksmiðjur, sem þar eru fyrir.

Þormóður Eyjólsfsson. Ljósmynd Kristfinnur Guðjónsson

Þormóður Eyjólsfsson. Ljósmynd Kristfinnur Guðjónsson

M.ö.o.: Þar eru svo vondir menn, að þess vegna má ekki fjölga verksmiðjunum þar.

En með Húsavík er öðru máli að gegna, þar er verksmiðjan sérstaklega nauðsynleg, því á Húsavík eru betri "ræktunarskilyrði" og meiri "jarðrækt", en í flestum öðrum kauptúnum, og "hvað skeður ef þorskveiðar eða landið bregst?".

Frá Húsavik er svo stutt til Ásbyrgis, að sjómenn geta skroppið þangað á helgum. "Enginn staður á Norðurlandi á það frekar skilið að fá verksmiðjuna en Húsavik".

Ekki er hætt við að hún verði að gelgjuþorpi. Húsvíkingar eru ekki svo viðkvæmir að þeir þoli ekki verksmiðjufýlu, og ekki eins slæmir og Siglfirðingar, svo hætta sé á að verksmiðjureksturinn fari í ólestri þar. (líklega eru þar ekki neinir kommúnistar, þó einhvern veginn svo undarlega hafi tekist til, að býsna margir þar, að tiltölu við fólksfjölda, hafi leiðst út í að kjósa Aðalbjörn).

Ég var búinn að sjá ýmsar einkennilegar röksemdafærslur í þessu máli, en hitt kom mér algerlega á óvart, að Júlíus Havsteen skuli nota illgjarnar dylgjur í garð eins keppinautanna (Siglufjarðar). - Það hefði ég ekki ætlað honum, eftir þeirri góðu kynningu, sem ég hefði af honum á fyrri árum. -

Hvað þekkir hann til "framkomu yfirmanna og undirmanna við Ríkisverksmiðjuna" á Siglufirði?

Fyrir hvað sneiðir hann að "undirmönnunum" (verkamönnunum) þar? Á hann við, að komið hafa upp vinnudeilur við verksmiðjuna, sem þó hafa verið leystar á friðsamlegan hátt, eða það, að vinna var stöðvuð hjá þeim um stund s.l. sumar, gegn vilja þeirra?

Er hann þess fullviss, að vinnudeilur mundu aldrei rísa upp við verksmiðju á Húsavík eða hvar annarsstaðar, sem hún kynni að verða sett?

Eða á hann við það, að verkamennirnir í Siglufirði þoldu ekki yfirráð manns, sem þeir töldu hafa framið níðingsverk á meðstjórnanda í verksmiðjustjórninni, en foringja þeirra?

Eða heldur hann að verkamenn Ríkisverksmiðjunnar vinni af minni trúmennsku en verkamenn annarstaðar?

Ég veit að hann mundi manna fúsastur til að leiðrétta þann, misskilning, ef hann vildi bregða sér hingað næsta Sumar og horfa stundarkorn á vinnubrögðin í ríkisverksmiðjunum.

Og hvað hafa yfirmennirnir unnið sér til óhelgi? Varla verða vélameistararnir víttir fyrir það, að þeir hafa á ýmsan hátt gert þær endurbætur í verksmiðjunni, að vélarnar vinna nú úr nokkur hundruð fleiri málum á sólarhring, en gert var ráð fyrir í fyrstu, eða skrifstofustjóra fyrir að fá árlega yfirlýsingu endurskoðendanna, um sérstaklega prýðilegt reikningshald, eða stjórn verksmiðjunnar og framkvæmdarstjóra fyrir það, að hagur verksmiðjunnar hefir farið batnandi ár frá ári?

Það væri gott að fá skýringu á því, hvað sýslumaður á við, því að óreyndu vil ég ekki trúa því - sem ýmsum fannst þó sennileg skýring - að hann vilji við því líta, að nota árásir Sveins Benediktssonar á mig, sem heimildir.

Enda þykist ég hafa hrakið þær svo rækilega, að þar sé ekki þörf við að bæta.

Sýslumaður segir ennfremur að rekstur verksmiðjunnar hafi ekki verið svo til fyrirmyndar, að rétt sé að reisa fleiri verksmiðjur á Siglufirði.

Sjálfsagt er nú sama, hvar verksmiðjan verður reist, upp á það að gera að allar verða síldarbræðsluverksmiðjur ríkisins undir sömu yfirstjórn, sem selur allar afurðirnar, því lítið vit væri í því, að ríkisverksmiðjurnar færu að keppa hverjar við aðra.

En hefir sýslumaðurinn nokkuð kynnt sér rekstur verksmiðjunnar að þessu? Ég býst ekki við því, og skal því birta hér niðurstöðutölurnar um rekstursafkomu verksmiðjunnar öll árin, sem hún hefur starfað. (Við niðurstöðurnar er ekki tekið tillit til lögboðinna gjalda).

1930 tekjuhalli ...... kr. 65,857,57

1931 tekjuafgangur kr. 135,403.76

1932 - - ---------- kr. 135,877,52

1933 - ---------- um kr. 310,000,00

Síðasta árið er meðtalin verksmiðja Dr. Paul, sem ríkið hefir nú keypt og rekin var í sumar undir sömu stjórn og Ríkisverksmiðjan.

Aðeins fyrsta árið verður tap á rekstrinum, og kom það af þrem orsökum:

Byggingu verksmiðjunnar var svo seint lokið. að rekstur hófst ekki fyrr en seint í júlí.

Verðfallið á afurðunum varð gífurlegra þá, en nokkurn hafði órað fyrir.

Of lengi og ógætilega var hikað við sölu afurðanna í von um batnandi verðlag. En skýrslu um það til ríkisstjórnarinnar hefi ég nýlega birt í Nýja dagblaðinu, og sé ekki ástæðu til, að fara nánar inn á það hér. Menn eru ekki sammála um, hvar hin nýja síldarbræðslustöð skuli reist. Talsvert hafa þeir til síns máls, sem halda því fram, að nauðsynlegt sé að dreifa verksmiðjunum þannig, að ein sé vestarlega við Norðurland og önnur austarlega.

Kemur það sér einkum vel fyrir smærri skipin, að þurfa ekki langan veg til að sækja með afla sinn, hvernig sem síldargangan hagar sér í það og það skiptið.

En sé verksmiðjunum dreift af þeim orsökum, liggur Húsavik of nærri Siglufirði og Eyjafirði. Væri Raufarhöfn að því leyti heppilegri staður.

En eitt eru allir útgerðarmenn og sjómenn sammála um:

Að þörfin fyrir nýja síldarbræðslustöð sé mjög aðkallandi, og það sjá allir og hljóta að viðurkenna, að hér í Siglufirði er unnt að koma henni fyrr upp, en nokkurs staðar annarstaðar og hér verður hún ódýrust.

Hér þarf ekki að bíða eftir hafnargerð til þess að hún komi að notum, og hér er margt tilbúið, sem annarstaðar þarf að byggja að nýja.

Hér þarf aðeins sjálft verksmiðjuhúsið með vélum, vörugeymsluhús og lýsisgeymir, en aftur á móti gæti hin nýja verksmiðja notað sameiginlega með þeim sem fyrir eru og þeim að skaðlausu, það sem hér segir:

1. Síldarþrær.

2. Bryggjur og losunartæki.

3. Salthús.

4. Efnarannsóknarhús.

5. Starfsmannahús

6. Skrifstofur.

7. Starfsmannahald mundi líka sparast að miklum mun, ef allar verksmiðjurnar eru á sama stað.

Einnig má taka tillit til þess, að þrær Ríkisverksmiðjunar eru eins og nú stendur, mikils til of stórar.

Framkvæmdastjóra telst svo til, að síðastliðið sumar hafi orðið að minnsta kosti, 24 þúsund króna tap við hvað þrærnar voru stórar, svo verksmiðjan hafði ekki undan að tæma þær nógu ört, meðan mest barst að, svo mikið af síld skemmdist þess vegna.

Því vitanlega er ókleyft að neita móttöku síldar, meðan nokkurt pláss er til í þrónum.

Á Siglufirði ætti að líkindum að vera hægt - ef vel væri áhaldið - að koma upp verksmiðju, sem ynni úr 2.000 til 2.500 málum síldar á sólarhring, fyrir 500 þúsund krónur, en hvar sem væri annarstaðar, á þeim stöðum, sem til greina hafa komið, mundi samskonar verk smiðja með öllu, sem henni þarf að fylgja, kosta alt að einni miljón króna.

Þormóður Eyjólfsson