Tengt Siglufirði
Siglfirðingur, 24. ágúst 1935 (hluti úr langri grein um atvinnu og verkalýðsmál ofl. á Siglufirði)
Ríkisverksmiðjurnar
Ein þeirra mesta atvinnuaukning og hagsbót fyrir verkamenn þessa bæjar eru Síldarverksmiðjur Ríkisins. Eins og kunnugt er, verður ekki lagt útsvar á hennar iðnrekstur hér, og bærinn hefir hart á sig lagi fjárhagslega til þess að fá þessi iðjuver til sín.
Og einhvern veginn hefir það verið á meðvitund bæjarbúa, að þeir ættu að sitja fyrir þeirri vinnu eingöngu, er verksmiðjurnar hefðu yfir að ráða, og kæmi sá réttur þeirra á móti þeim fríðindum, að fyrirtækið er hér undanþegið útsvörum.
En eins og kunnugt er, skortir mikið á, að bæjarbúar sitji einir fyrir vinnunni. Skal eigi farið nánar út í þetta að þessu sinni.
Þá er verulegt íhugunar og áhyggjuefni, að þessi dýru mannvirki, sem kostað hafa á fjórðu miljón króna skuli þurfa að standa arðlaus 3/4 hluta ársins eða meira.
Hingað til hefir lítið verið um þetta skeytt, og mörgum þótt eins og sjálfsagt, að þetta væri svona.
En vitanlega er þetta geypileg fjarstæða. Síldarverksmiðjurnar eru fyrst og fremst byggðar til hagsbóta fyrir sjávarútveginn.
Og það er ekki minnsti vafi á því, að sjávarútvegurinn mætti hér af hljóta mun meiri arð en orðið er og síldarbræðslan ein veitir.
Síldarverksmiðjurnar hafa yfir að ráða langstærstu geymsluhúsum á þessu landi og er annað þeirra eldtryggt að kalla má.
Þarna væri tilvalinn geymslu. staður síldarnóta og annarra síldveiðitækja, Verksmiðjurnar hafa einnig yfir að ráða þeim bestu tækjum er fengist geta til þvottar, börkunar og allrar hirðingar veiðitækjanna.Það er ekki allítill þorri útgerðarmanna, sem hefir léleg húsakynni til að geyma í síldarnætur sínar og veiðitæki; liggja næturnar undirskemmdum óhirtar og óþvegnar, hjá mörgum allan veturinn.
Að síldveiði lokinni væri sjálfsagt og tilvalið, að ríkisverksmiðjurnar hérna tæki við nótum og netum veiðiskipanna, hirti og hreinsaði, barkaði og gerði við hvorttveggja yfir veturinn. Geymslu, viðgerð og hreinsun greiddu svo útgerðarmenn á næsta árs afla.
Þetta væri í raun og veru áframhaldandi starfsemi síldarverksmiðjanna í þágu og þarfir síldarútvegsins, og mundi þakksamlega þegið af útgerðarmönnum, því til yrðu fengnir kunnáttumenn á þessu sviði til þess að stjórna þessu verki.
Hefir lauslega verið áætlað, að með þessu sparaði minnst 100 þúsund krónur árlega í veiðarfærakaupum aðeins vegna betri hirðingar veiðarfæranna.
Við þessa starfsemi skapaðist vinna fyrir fjölda bæjarbúa á þeim tíma, sem annars væri lítið um vinnu, og enda þótt verksmiðjurnar greiddu eigi kaup fyrir vinnu þessa fyrr en næsta sumar, yrðu inneignarskírteini hennar fólkinu tryggur gjaldmiðill innanbæjar fyrir lífsnauðsynjar og í opinber gjöld.
Þá má minna á það, að Dr. Pauls verksmiðjan hefir öll tæki til fiskimjölsvinnslu og mun vera langfullkomnasta fiskimjölsverksmiðja hérlendis enda byggð að annarri hálfu með þá starfsemi fyrir augum.
----------------------------------------------------------------------
Til fróðleiks um orðin "börkunar – barkaði". Þar er átt við þegar síldarnæturnar voru gerðar úr „seglgarni“ (hamp eða manillutvinna) þá var síldarnótunum dýft niður í sjóðheitt tjörubað og síðan hengdar upp til þerris. Þannig urðu þær bæði sterkari og endingarbetri. Slíkt var til dæmis til reiðu mörgum árum síðar við SR-Netastöðina. (sk 2017)