Árið 1935 - Fleiri síldarverksmiðjur

Siglfirðingur, 13. júlí 1935 --

Þrjár greinar eftir Svein Benediktsson + athugasemd

Fleiri síldarverksmiðjur

Siglfirðingur, 13. júlí 1935 -- Þrjár greinar eftir Svein Benediktsson + athugasemd

Í fyrra unnu þær síldarverksmiðjur, sem þá störfuðu, úr ca. 11,500 málum á sólarhring.

Í ár hafa, eins og kunnugt er, bæst við tvær nýjar verksmiðjur, nýja ríkisverksmiðjan (SRN) á Siglufirði og Reykjarfjarðar verksmiðjan, sem hvorri um sig er ætlað að vinna úr ca. 2.400 málum á sólarhring, sem þó má búast við að í sumar verði ekki nema um 2.000 mál í hvorri.

Sveinn Benediktsson

Sveinn Benediktsson

Einnig er Grána á Siglufirði nú í fullum gangi, en hún gekk lítið í fyrra. Loks hafa verið gerðar talsverðar endurbætur á öðrum verksmiðjum.

Heildaraukningu á afkastagetu verksmiðjanna í sumar má telja ca. 6.000 mál á sólarhring. Alls geta því síldarverksmiðjurnar unnið úr um 17.500 málum á sólarhring.

Þrátt fyrir hina miklu afkastagetu verksmiðjanna hefir verið yfirfullt hjá síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði, síðan um mánaðarmótin júní og júlí. Um sama leiti fylltist hjá Dagverðareyrar verksmiðjunni.

Dagana 3-5. júlí barst þó ekki mikið að hér á Siglufirði né annarstaðar, en síðan hefir verið óslitin veiði.

Nú er einnig orðið yfirfullt hjá síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn og í Krossanesi. Reykjarfjarðarverksmiðjan komst í gang um tíma og vann sem svaraði 2.000 málum á sólarhring, en á fimmtudaginn þann 11. þ. m. rifnaði þar cylinder í gufuvél, sem rekur pressuna, svo að stöðvun hefir orðið þar í bili.

Til Sólbakkaverksmiðjunnar á Flateyri og Reykjarfjarðar verksmiðjunnar hefir borist meir en nægilegt hráefni síðan í byrjun mánaðarins og hjá Þeim getur allt fyllst á hverri stundu.

Síldveiðiflotinn er nú þriðjungi stærri en í fyrra og skipin byrjuðu yfirleitt veiðar hálfum mánuði til þrem vikum fyrr en í fyrra. Þessa miklu þátttöku má að nokkru leyti þakka betri horfum en áður um góða afgreiðslu hjá verksmiðjunum, en þó aðallega hækkuninni á hrásíldarverðinu, sem að mestu leyti byggðist á stórhækkuðu verði á síldarlýsi.

Síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði hafa nú tekið á móti um 115 þúsund málum, en á sama tíma í fyrra aðeins ca. 22 þúsund málum.

Til allra síldarverksmiðjanna á landinu hafa nú borist samtals um 260 búsund mál. Á sama tíma í fyrra höfðu allar verksmiðjurnar tekið á móti um 64 þúsund málum og yfir allan síldveiðitímann í fyrra tóku þær á móti 452.715 málum.

Þó að mikið hafi verið að gert og margar verksmiðjur byggðar, þá er nú áþreifanlega komið í ljós, að betur má ef duga skal.

Ef eins vel tekst til og nú horfir með afla og sölu verksmiðjuafurða má búast við því, að nærri öll skip, sem með nokkru móti geta farið á síldveiðar, verði gerð út næsta sumar.

Jafnvel þótt ekki verði um aukningu síldveiðiflotans að ræða frá því sem nú er, Þá er samt brýn þörf í aukinni afkastagetu síldarverksmiðjanna.

Samkvæmt norsku samningunum hefir Krossanesverksmiðjan leyfi til þess að kaupa af norskum skipum allt að 60 prc. af þeirri síld, sem hún tekur á móti.

Það þarf að koma því til leiðar að Krossanesverksmiðjan kaupi eingöngu af íslenskum skipum. Því markmiði má ná með ýmsu móti. Koma þá aðallega þrjár leiðir til greina.

Fyrst, að fá því framgegnt við endurskoðun norsku samninganna, sem nú stendur fyrir dyrum, að síldarkaup verksmiðjunnar af útlendum skipum séu bönnuð, nema með sérstöku leyfi atvinnumálaráðherra.

Að sjálfsögðu sé þá gengið út frá því, að slíkt leyfi sé ekki veitt, nema þegar svo kann að standa á, að það sé til ótvíræðs hags fyrir Íslenska síldarútveginn.

Önnur leiðin er sú, að ríkið kaupi verksmiðjuna, fáist hún með viðunandi verði.

Þriðja leiðin er, að verksmiðjan sé tekin eignarnámi.

Sé fyrsta leiðin farin, verða verksmiðjurnar að greiða svo hátt verð fyrir hráefnið, að hún fái nægilegt af því í samkeppni við innlenduverksmiðjurnar eða selja verksmiðjuna að öðrum kosti.

Það þarf að hefjast handa þegar í stað um undirbúning að byggingu nýrrar síldarverksmiðju, sem bræði að minnsta kosti 2.400 mál á sólarhring. Verksmiðjuna þarf að byggja þannig, að auðveldlega sé hægt að auka afkastagetu hennar upp í 4.800 mál, ef ekki verður horfið að því ráði að hafa hana svo stóra þegar í upphafi.

Vel færi á því að stjórn síldarverksmiðja ríkisins beitti sér fyrir undirbúningi þessa máls.

Mér kæmi það mjög í óvart, ef sjómenn og útgerðarmenn stæðu ekki óskiptir á bakvið óskina um nýja síldarverksmiðju. Um hitt, hvar væntanleg síldarverksmiðja eigi að standa, verða að sjálfsögðu skiptar skoðanir, en ég býst við því, að Raufarhöfn, Sauðárkrókur eða Ingólfsfjörður myndu hafa mest fylgi.

Þegar rætt er um aukningu síldarverksmiðjanna þurfa menn að athuga það vel, enda þótt markaðurinn fyrir síldarlýsi sé mjög víður og ekki fyrirsjáanleg hætta á offramleiðslu á því að markaðurinn fyrir síldarmjöl er takmarkaður.

Undir viðskiptasamningum við Þýskaland er það að langmestu leyti komið, á hverjum tíma, hvernig fer um sölu síldarmjölsins.

Lokist markaðurinn fyrir Íslenskt síldarmjöl þar í landi, er allur síldarverksmiðju reksturinn í voða. Þessu virðast þeir menn hafa gleymt, sem sýknt og heilagt eru að dreifa út rógi um þjóðverja og um Jóhann Jósefsson alþingismann, sem allra manna best og óeigingjarnast hefir unnið að því, að greiða fyrir viðskiptum milli þessara frændþjóða.

Síldarútvegurinn þarfnast víðsýnna og hagsýnna forráðamanna sem skilja sitt hlutverk, þá getur útvegurinn aukist og blómgast meir en nokkurn órar fyrir.

Sveinn Benediktsson

--------------------------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur, 13. júlí 1935

Gagnrýni eða gaspur.

Neisti, er að barma sér yfir því, að Morgunblaðið hafi einhvern tíma fundið að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins. "Neisti" heldur því fram, að aðfinnslurnar hafi stafað af óvild til fyrirtækisins.

Eins og allir vita hefir mátt finna að mörgu í stjórn verksmiðjanna. Sé um misfellur að ræða er gagnrýni á þeim nauðsynleg, til þess að viðkomandi fyrirtæki þrífist.

Hitt er annað mál, að tilhæfulausar árásir, sem eru annaðhvort sprottnar af illgirni eða fáfræði eða hvorttveggja, eru til þess eins fallnar að vekja ástæðulausa tortryggni í garð þeirra, sem fyrir þeim verða.

Síldarverksmiðjur ríkisins hafa nýlega orðið fyrir einni slíkri árás. Því var haldið fram að bræðslusíldarverð í Noregi hefði árið 1934 verið N. kr. 4,50-9,00 fyrir málið, þvert ofan á þá staðreynd að það var yfirleitt N. kr. 2,10-3,00.

Hefði árásin haft við rök að styðjast var auðvitað um óskiljanlegan verðmun að ræða á bræðslusíldinni hér og í Noregi.

Beinast lá við að álykta, að um fádæma sleifarlag væri að ræða á stjórn Síldarverksmiðjanna. Enda heimtaði greinarhöfundur, Kristján Bergsson, með miklum þjósti, að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins geri grein fyrir þeim gífurlega verðmun, sem væri á bræðslusíldinni hér og í Noregi.

Í Morgunblaðinu þann 28. febrúar sýndi ég ítarlega fram á, með hve herfilegar blekkingar Kristján Bergsson fór í þessu efni, enda hefir hann ekki látið til sín heyra síðan.

Til fróðleiks fyrir Neista vil ég geta þess, að Kr. B. hafði árangurslaust beðið Morgunblaðið fyrir árásargrein sína.

Leitaði hann þá á náðir Alþýðublaðsins sem tók henni opnum örmum. Hvort blaðið ætli sér hollráða í garð verksmiðjanna, það sem flutt hefur réttmætar aðfinnslur eða hitt, sem staðið er að því að birta annað eins gaspur og grein Kr.B?­

Sv. Ben.

------------------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur, 20. júlí 1935-

Þróun síldarverksmiðja ríkisins.

Þrír menn áttu drýgstan þátt í því að ríkið byggði fyrstu síldarverksmiðjuna:

Óskar Halldórsson, útgerðarmaður, sem um margra ára skeið skrifaði í dagblaðið Vísi hverja greinina á fætur annarri um nauðsyn þessa máls.

Magnús heitinn Kristjánsson, síðar ráðherra, sem Óskar vann til fylgis við málið.

Magnús aflaði málinu fylgis meðal þingmanna, meira en nokkur maður annar. Jón Þorláksson, er rannsakaði fyrir ríkisstjórnina möguleika fyrir byggingu síldarverksmiðju, er ríkið léti reisa.

Hann sýndi fram á, að verksmiðjan mundi verða þarft og arðvænlegt fyrirtæki og lagði til að hún yrði reist á Siglufirði á þeim stall sem hún stendur nú.

Síðar féll Magnús Kristjánsson frá og eftirmaður hans fól öðrum að halda verki J. P. áfram.

Verksmiðjan var byggð, en byggingarkostnaður fór langt fram úr áætlun og nam stofnkostnaður verksmiðjunnar um 1,614 þúsund krónum.

Meðan unnið var að byggingu fyrstu síldarverksmiðju ríkisins árið 1929-30 skall heimskreppan á. Síldarlýsi féll niður í þriðjung verðs og síldarmjöl lækkaði þá og næstu ár um meira en þriðjung.

Þótt verðið á bræðslusíldinni væri lækkað á þessum árum úr ca. kr. 10,00 fyrir málið niður í kr. 3,00 urðu flestar verksmiðjur fyrir stórum töpum.

Árið 1932 var svo komið, að Sören Goos var hættur rekstri hér á Siglufirði og fyrst og fremst vegna tapa á síldarverksmiðjurekstri sínum og verksmiðja Dr. Paul var alls ekki starfrækt.

Eftir að kom fram í ágústmánuð 1932 fór að rætast nokkuð úr um sölu síldarverksmiðjuafurða. Afkoma ríkisverksmiðjunnar var sæmileg það ár, enda greiddi hún ekki nema kr. 3,00 fyrir málið.

Vorið 1933 gekkst Ólafur Þórðarson skipstjóri í Hafnarfirði fyrir því, að félag Sjálfstæðismanna í firðinum fengi þáverandi þingmann kjördæmisins, Bjarna Snæbjörnsson lækni til þess að flytja tillögu til þingsályktunar um heimild fyrir ríkisstjórnina til að kaupa Dr. Pauls verksmiðjuna. (SRP)

Tillagan náði fram að ganga og ríkið keypti verksmiðjuna 1933 og hefir starfrækt hana síðan. Kaupverð Dr.Pauls verksmiðju var kr. 310 þúsund og má telja það mjög sanngjarnt miðað við ástand verksmiðjunnar, legu og afköst.

Ágæt síldveiði var sumarið 1933. Verksmiðjurnar höfðu þá ekki neitt svipað því undan að vinna úr þeirri síld sem flotinn aflaði. Talið var að um 140 þúsund mál síldar hafi verið óveidd eða farið forgörðum það sumar á Siglufirði sökum tregrar afgreiðslu og skorts á nægilegum síldarverksmiðjum.

Ólafur Þórðarson, Óskar Jónsson, undirritaður og fleiri, bentu á í blaðagreinum þá um haustið á hina brýnu þörf, sem væri fyrir nýja síldarverksmiðju.

Heimild til ríkisstjórnarinnar fyrir byggingu nýrrar verksmiðju á Norðurlandi fyrir allt að 1 miljón króna flaug í gegn á haustþinginu 1933.

Nú hefir sú verksmiðja (SR30) verið reist hér á Siglufirði og er búist við að hún kosti um 1 miljón króna.

Enginn skriður komst á undirbúning að kaupum Raufarhafnar-verksmiðjunnar fyrr en árið 1934.

Magnús Guðmundsson þáverandi atvinnumálaráðherra skipaði þá um vorið síldarverksmiðjunefnd, sem gera skyldi tillögur um stað fyrir verksmiðjuna, sem heimilt var að byggja samkvæmt lögum frá þinginu 1933 - og um fleira viðvíkjandi aukningu síldarverksmiðja.

Þrír nefndarmanna sömdu ítarlegt og rökstutt álit um Raufarhafnar verksmiðjuna og lögðu ákveðið til við ríkisstjórnina, að hún þá þegar (vorið 1934) leitaði heimildar þingflokkanna til kaupa á verksmiðjunni.

þar sem kosningar stóðu fyrir dyrum þótti ríkisstjórninni ekki rétt að afgreiða þetta mál, nema samþykki þingsins kæmi til.

Heimild til kaupanna var svo samþykki á haustþingi 1934, er þáverandi stjórn síldarverksmiðja ríkisins hafði mjög eindregið látið það álit sitt í ljós, að rétt væri að kaupa verksmiðjuna.

Í vor vann núverandi verksmiðjustjórn óskipt og ákveðið að því, að fá ríkisstjórnina til þess að kaupa verksmiðjuna. Samningar tókust um kaup á verksmiðjunni fyrir norskar kr. 60 þúsund sem má telja sanngjarnt verð.

Í fyrra reyndust bankastjórar Útvegsbankans í Reykjavik ófáanlegir til þess að leigja verksmiðjuna á Sólbakka við Önundarfjörð áfram til h.f. Kveldúlfs í Reykjavik, sem haft hafði verksmiðjuna á leigu undanfarin ár, nema fyrir stórhækkaða leigu, sem varð til þess að Kveldúlfur dró sig í hlé.

Til þess að reyna að bjarga rekstri verksmiðjunnar í fyrra fékk Magnús Guðmundsson gefin út bráðabirgðalög um leigunám á verksmiðjunni.

Lögin komu til framkvæmda þegar í fyrra sumar og stjórn S.R. tók við rekstri verksmiðjunnar. En vegna þess að þá var komið fram á síldartíma og of seint að gera ráðstafanir til þess að fá nægilegan skipaflota til að veiða handa verksmiðjunni og einnig vegna þess að síldveiði var frekar treg, fékk verksmiðjan langsamlega of lítið af síld til að vinna úr.

Ásgeir Ásgeirsson, þingmaður Vestur-Ísfirðinga hafði á þinginu 1933 fengið samþykkta heimild handa ríkisstjórninni til þess að kaupa verksmiðjuna.

Mjög erfiðlega gekk að komast að samkomulagi um kaupverðið á verksmiðjunni. Í miðjum mánuði s.l. náðist þó að lokum samkomulag um að ríkið keypti verksmiðjuna fyrir kr. 350 þúsund krónur og var leigan á verksmiðjunni síðastliðið sumar innifalinn í kaupverðinu.

Fyrir tíu árum síðan voru allar síldarverksmiðjurnar, er þá störfuðu hér á landi, nema ein, eign útlendinga. Nú eru allar verksmiðjurnar, nema ein, eign Íslendinga.

Fyrir tíu árum var afkastageta verksmiðjanna um 4 þúsund mál á sólarhring. Nú er afkastageta verksmiðjanna um 17,500 mál á sólarhring.

Verksmiðjureksturinn á þó enn fyrir sér að aukast að mjög miklum mun, haldist síldveiði í svipuðu horfi og sé vel á málum haldið.

Sveinn Benediktsson.

----------------------------------------------------------------

Siglfirðingur, 10. ágúst 1935

Stutt athugasemd.

Í heiðruðu blaði yðar frá 20. júlí þ.á ritar herra Sveinn Benediktsson grein, er hann nefnir "Þróun Síldarverksmiðja ríkisins".

Þar er meðal annars minnst á, hvern þátt Hafnfirðingar áttu á sínum tíma í því, að ríkisstjórnin keypti Dr. Pauls verksmiðjuna, en þar er ekki allskostar rétt skýrt frá hjá greinarhöfundi.

Sá sem kom fram með tillöguna og reifaði málið í félagi sjálfstæðismanna í Hafnarfirði var herra Beinteinn Bjarnason útgerðarmaður, Fékk málið síðan góða lausn á Alþingi, sem þá stóð yfir, eins og í greininni getur.

Afkoma Hafnfirðinga er að miklu leyti, eins og annarra landsmanna, komin undir góðri lausn síldarmálanna og margir hafa verið þar áhugasamir um lausn á þeim málum.

Má þar nefna, auk Beinteins Bjarnasonar, Ólaf Þórðarson, skipstjóra, Loft Bjarnason og Björn Þorsteinsson, útgerðarmenn. og Óskar Jónsson, framkvæmdastjóra o.fl., og síðast en ekki síst syni Einars heitins Þorgilssonar, sem ásamt h. f. Alliance hefir reist myndarlega síldarverksmiðja við Reykjarfjörð.

Með þökk fyrir birtinguna. P. t. Hnífsdal 2. ágúst 1935. Bjarni Snæbjörnsson. 

Lengst til vinstri má sjá gamla Hertervigs bakarí, þá Mjölhús SRN, en þar er Segull 67 til húsa í dag. Síðan SR30 og SRN, nú talsver breytt og það er nú í eigu SR-Vélaverkstæðis. Lengst til hægri glittir í „Hrímnir“ Ljósmynd: Gísli Halldórsson framkvæmdastjóri SR um 1935

Frá vinstri; Skrifstofa SR, - Vélaverkstæði SR,- kolabingur, - lagerhús,-lýsistankur, - SRP þar sem ríkur, - Er ekki viss um næsta hús,- Mjölhús SR30. Síðar Héðinslager (meðan SR46 var byggð) og að lokum Tréverkstæði SR og fleira, - og svo SR30 verksmiðjan, sá hluti var rifin er SR46 var byggð á síðar. Ljósmynd: Gísli Halldórsson

S.R.P verksmiðjan, um 1933 Ljósmynd: Gísli Halldórsson