Tengt Siglufirði
Neisti. 1. apríl 1935
Smámolar frá borgarafundinum 17. mars.
Menn hinna stóru orða, kommúnistar, gátu aldrei fundið nógu sterk orð til að lýsa þeirri kúgun, sem fælist í því að krefjast þess, að allir verkamenn yrðu að vera meðlimir í félögum innan Alþýðusambands Íslands. - Sjálfir ganga þeir manna best fram í því að knýja fólk inn í alþýðusambandsfélögin allstaðar þar, sem þeir hafa ekki fengið bolmagn til að kljúfa verkalýðssamtökin!
Kommúnistar sögðu, að það væri gjörsamlega ómögulegt fyrir aðra en alþýðuflokksmenn að vera í félögum innan Alþýðusambandsins, vegna þess að sambandið styrkti ákveðna pólitíska starfsemi.- Sjálfir láta þeir sambandsnefnu sina V.S.N. gefa út blaðið "Verkamaðurinn" undir merkinu: Hamar og sigð, og berjast fyrir málstað Kommúnistafokks Íslands !
Kommúnistar hafa löngum talið sér það til mikils gildis, hvað þeir væru þjóðlegir í hugsunar hætti og með öllu lausir við það, sem almennt er kallað hreppapólitík. -
Nú voru það meginrök til styrktar máli þeirra, að Jón Sigurðsson er ekki borinn og barnfæddur Siglfirðingur!
Kommúnistar hafa réttilega talað um það oft og mörgum sinnum, að verkafólkið sjálft ætli eitt að fara með öll sín mál og ráða fram úr þeim. - Sömu kommúnistar ákalla nú hvað eftir annað andstæðinga verkalýðssamtakanna og grátbiðja þá um álit og aðstoð viðvíkjandi gangi þýðingarmikils máls fyrir allan verkalýð þessa bæjar.
Einn ræðumanna Alþýðuflokksins sagðist hafa hvað eftir annað spurt samvisku sína að því, hvort afstaða hans til umrædds máls væri ódrengileg. - Kommúnistar hlógu að þessu. Að leita álits síns innra manns viðvíkjandi framkomu sinni og breytni, það er nokkuð, sem ekki passar í kram þess fólks er býr við þann andlega þroska að hafa kjörið mann eins og Þórodd Guðmundsson fyrir leiðtoga. ..
Þóroddur Guðmundsson sagði í ræðu, og kallaði líka fram í fyrir öðrum, það- álit sitt, að Jón Gunnarsson hefði aldrei brotið gerða samninga við verkamenn. En verksmiðjustjórnin, að Þormóði Eyjólfssyni burtköstuðum, er það réttsýnni á mál verkafólksins heldur en Þóroddur, að hún greiðir 500 kr. í skaðabætur fyrir samningsrof J.G. "Já, það var bara ekki farið innan í karfann", sagði Þ.G. með hæðnisglotti!
Á borgarafundinum skreið Þóroddur fyrir öllu og öllum, svo lengi sem honum entist óvit til.
Knékrop hans fyrir J. Gunnarssyni var þó mest áberandi. En var það nokkuð óeðlilegt, þegar þess er gætt, að J.G. sat i eigin persónu næstur Þ.G. þegar hann var að tala!
Þóroddur Guðmundsson skírskotaði mest allra ræðumanna til heiðarleiks og drenglundar áheyrenda. Kunnugum fannst þetta, koma úr hörðustu átt.
Sami Þóroddur talaði um það - og hefir oftar gert - að Jón Sigurðsson væri "slæpingur sunnan úr Reykjavik". ("Forsetinn" nam þessa setningu af formanni atvinnurekendafélagsins hér á s.l. sumri!) Öllum, sem þekkja J.S. ber saman um, að hann sé dugnaðarmaður, að hverju sem hann gengur, og hann var togarasjómaður til skamms tíma.
Öllum sem þekkja Þ.G. ber líka saman um það, hvernig hann er. Því þarf ekki að lýsa !
En - Þóroddur hefir þann mikla kost að vera innanbæjarmaður!
Af þessum fáu molum, sem hér hafa verið tíndir upp, mun flestum verða ljós sannleikurinn sá, að sitt er nú hvað: orð og athafnir. En íhaldsmenn og Þormóðsliðar grétu næstum af hrifningu yfir heilindum (!) kommúnista.
Þessir fuglar lygndu augunum í djúpri lotningu fyrir lyginni, hræsninni og strákskapnum, og samþykktu allt, sem kommúnistar vildu nýta þá til.
Áheyrandi