Karfaveiðar og vinnsla

Neisti, 28. ágúst 1935 (fréttaskýring)

Fiskimið okkar Íslendinga eru einhver allra auðugustu fiskimið í heimi og á þau sækja margar þjóðir feykileg auðæfi árlega.

Það mun ekki allfjarri að hér séu að jafnaði um 300 erlendir togarar að veiðum og eftir skýrslum að dæma sækja útlendingar hingað afla, fyrir um 300 - 350 miljón krónur árlega.

                  Karfi

Karfi

Það er langt frá, að not verði að öllum þeim fiski sem veiðist, t.d. hefir mestöllum þeim karfa sem fengist hefir á togarana verið kastað í sjóinn aftur.

Árið 1924 (meðal sjómanna kallað Halaárið) voru flestir togaranna á saltfiskveiðum langt fram á sumar og var þá aðallega verið að veiðum á svonefndum Halamiðum.

Halinn er auðugur af fiski og eru helstu fisktegundir sem fást þar karfi, þorskur, ufsi og langa, mest er þó af karfa ef verið er á vissu dýpi.

Vorið og sumarið 1924 og oft endranær þegar verið var að fiska á Halanum, var mikill hluti vinnunnar innifalinn í því að taka karfa inn i skipið og moka honum síðan í sjóinn aftur.

Óafvitandi var í sjóinn fleygt feikna miklu verðmæti.

Það var fyrst árið 1926 eða „27 að farið var að hirða karfa og vinna úr honum mjöl.

Þá voru tekin til vinnslu á Sólbakka ca. 40 tonn sem veiddust á togarann, Kári Sölmundarson".

Úr þessum 40 tonnum fengust 0.7 tonn af mjöli. Vinnsla þessi borgaði sig hvergi nærri og var þess vegna hætt við.

Síðan hefir ekkert gerst í þessum, málum, og karfanum verið fleygt nema að því litla leyti sem hann hefir verið hirtur af togurunum síðast í túr og hann verið fluttur í ís bæði til Englands og Þýskalands og verið seldur þar stundum fyrir dágott verð.

Þórður Þorbjarnarson fiskifræðingur sem unnið hefur hjá fiskifélaginu í þágu sjáfarútvegsins síðan hann lauk námi í Ameríku, hefur haft rannsókn með höndum sérstaklega í þá átt að finna út notagildi lifrar úr hinum ýmsu fisktegundum.

Rannsóknir þessar hafa borið mikinn og góðan árangur. Þórður hefur fyrstur manna fundið út, að í lifur í heilagfiski er 50-100 sinnum meira vítamín heldur en í þorskalifur og karfalýsi, hefir inni að halda 50 sinnum meira A-vítamín og 2 sinnum meira D-vítamín heldur en þorskalýsi.

Nú hefur verið ráðist i að gera tilraun með karfavinnslu enn á ný á Sólbakka.

Verksmiðjustjórnin gerði samning við eigendur togarans Sindra, um að hann færi á karfaveiðar og karfinn yrði keyptur fyrir kr. 40,- tonnið sem svarar til hér umbil kr. 5,40 fyrir hvert mál (135 kg.)

Sindri er búinn að vera á veiðum í rúma viku og er búinn að fá afla sem hér segir:

237 tonn af karfa kr. 40,00 pr. tonn, - alls kr. 9.480,00

32 tonn af þorsk kr.180,00 pr, tonn,- alls kr. 5.760,00

Ufsi fyrir kr. 135,00

Afli alls kr. 15.375,00

Skýrsla þessi sýnir að það borgar að sig að gera út togara á karfaveiðar.

Á meðan vinnslan er á byrjunar og tilraunastigi er ekki hægt um það að segja hvort verksmiðjurnar geti greitt þetta hátt verð fyrir karfann, það verður tíminn og reynslan úr að skera, en þó svo fari, að það yrði ekki hægt, má ekki vinnslan stranda á því.

Aflaskýrsla "Sindra" sýnir að togararnir geta veitt karfa fyrir minna verð, t.d. kr. 4,00-4,50 pr. mál.

Við karfavinnslu skapast mjög mikil atvinna vegna þess, að fara verður innaní allan karfann áður en hann er bræddur, til þess að ná í lifrina.

Nú er verið að útbúa tvo togara i Reykjavík, þá "Gulltopp" og "Snorra goða" á karfaveiðar og eiga þeir að veiða til Sólbakkaverksmiðjunnar og ætti þá að skapast atvinna fyrir 250-300 manns, að þeim meðtöldum sem á skipunum vinna.

Verksmiðjustjórnin hefir farið þess á leit við fiskimálanefnd, að hún fengi togara til rannsóknar hvort ekki séu góð karfamið einhvers staðar hér norðanlands nálægt Siglufirði, með það fyrir augum að fá þá karfa til vinnslu hér í verksmiðjurnar.

Veltur það á miklu fyrir framtíð Siglufjarðar hvort tilraun þessi heppnast eða ekki.

Einhver mun nú spyrja: Geta skipin ekki veitt karfann á Halanum og komið með hann hingað til Siglufjarðar?

Þessu verður að svo stöddu að svara neitandi.

Karfinn má helst ekki vera eldri en 2ja daga þegar skipin koma með hann í verksmiðjurnar, ef hann er eldri tapar lifrin sér svo mikið, bæði að þyngd og vítamíninnihaldi, að alls ekki borgar sig að fara innan í karfann til að ná í hana.

Hér á landi eru ekki tæki til, til þess að bræða lifrina, svo að selja verður lifrina óbrædda og verður hún send út kæld eða fryst.

Það er feykilega mikils virði, að tilraunir þessar heppnast, vegna þess, hversu atvinnuaukandi þær eru, t.d. ef karfi væri unninn í einni verksmiðju hér mundi skapast vinna fyrir eins marga menn eins og eru við báðar verksmiðjurnar við síldarvinnslu eða vel það.

Við verðum að vona að heppnin verði með, og takast megi að finna karfamið góð, ekki allfjarri hér frá.

Neisti mun jafnóðum skýra frá hvernig vinnslan og tilraunir þessar heppnast.