Árið 1935 - Álitamál

Siglufirðingur, 3. ágúst 1935 --- Ritstjórarspjall 

Síldveiðin.

Er rétt að byrja síldasöltun svona seint, ef gæði síldarinnar og fitumagn er sæmilegt fyrr ?

Þessi spurning mætir manni nú hvaðanæva. Er hún ekki réttmæt, eða er hún sprottin af ótta um að síldveiðin bregðist það sem eftir er veiðitímans?

Sennilega er hún NÚ af þessum ótta sprottin. Í spurningunni felst ótvírætt hálfgerð ádeila á þá er nú og áður hafa ráðið því, að söltun hefst svona seint.

Lengd og þyngd síldarinnar-  Sentimetrar og grömm

Lengd og þyngd síldarinnar- Sentimetrar og grömm

Liggur þá næst við að athuga hvort ádeilan í spurningunni hefir við rök að styðjast og ef svo er, hvað ráðamönnum þessarar framleiðslu gengur til.

Það hefir til þessa helst verið fundið að snemmveiddri síld, veiddri seint í júní og framan af júlí, að hún væri óseljanleg vegna fituskorts, og enn aðrir haldið því fram, að enda þótt fitumagn reyndist sæmilegt, þá væri þessi snemmfengna síld "lausholda", héldi illa í sér fitu og fyrir þær sakir slæm vara.

Það mun óhætt að fullyrða, hvað síðari ástæðunni viðvíkur, að þar séu staðhæfingarnar mjög hæpnar og hafi við léleg rök að styðjast, að minnsta kosti engar vísindalegar rannsóknir né sannanir, en mikil ástæða til að ætla, að hér sé um að ræða í upphafi staðhæfingu útlendinga, sem ekki hafi kært sig um að fá síldina of snemma á markaðinn. Þetta hefir svo gengið í fólkið og orðið að trú eða hjátrú, sem smátt og smátt hefir orðið í hugum manna að "sannindum".

Annars skal ekki að svo stöddu STAÐHÆFT neitt um þetta, en mikil líkindi eru til að svona sé þetta - og að minnsta kosti væri þetta rannsóknarvert, því að eitt er víst: Menn eru mjög ósammála um þetta atriði.

Hvað fitumagninu viðvíkur er síldin oftar en hitt, orðin söltunarhæf löngu áður en söltun hefst og mörg dæmi til, að síld hefir verið söltuð mjög fiturýr eftir að söltun hefir hafist fyrir alvöru og þá ekkert að henni fundið, enda þótt engum hefði dottið í hug að salta sömu síld áður en söltun var hafin almennt. Þetta sanna fitumagnsrannsóknir síðari ára.

Í fyrra var t.d. söltuð hér síld í byrjun söltunartímans austan af Grímseyjarsundi, sem aðeins hafði inni að halda 14 %. fitu og tæplega það. Var ekkert að henni fundið af því að "ALMANAKSTÍMINN" var kominn.

Um sama leyti var síld úr Eyjafirði með 15 %. og Húnaflóasíld með 17-18 %

Í sumar 6. júlí var síld frá Skjálfanda með 14,9 (15) %. 8. júlí síld frá Flatey 15,9 %. 9. júlí síld af Eyjafirði 18,9 % og 13. júlí síld út af Skagafirði 21,5 %.

Í innyflum þeirrar síldar var fitan 31.5 % en í bol 20.4 %. Af þessu sést ljóslega, að í samanburði við síld er þótti söltunarhæf í fyrra 25. og 26. júlí hefði verið óhætt að byrja söltun í ár 6. júlí, að ekki sé talað um 9. júlí og úr því.

Í árferði eins og nú er, verður að telja það mjög áhættumikla ráðstöfun gagnvart öllum aðiljum að byrja ekki söltun fyrr en nú er gert.

Það GETUR slampast af EF síldin veiðist og helst fram eftir ágústmánuði, en það GETUR líka farið svo, að þessi ráðstöfun valdi bágindum og allskonar vandræðum allra þeirra, er afkomu sína eiga undir þessum atvinnuveg og í raun og veru víðtæku fjárhagslegu hruni.

1931 var fitumagn síldar frá Skagafirði frá 7. júlí til júlíloka 18 -21 % að meðaltali og mjög lík úr Húnaflóa og eftir þann tíma síst feitari.

1932 var fitumagn síldar frá miðjum júlí til júlíloka undir 16 % og var söltuð engu að síður, þegar "tíminn" kom.

1933 komst fitumagnið í Skagafjarðarsíld upp í 20-22 % í júlí­lok en austansíld í ágústbyrjun 17 %. og var engu síður söltuð en hin.

Sést á þessu glögglega, að hvortveggja er, að lítið er skeytt um fitumagnið eftir að söltun hefst almennt, nema ef mikið berist að, og að því fer fjarri að það sé ALGILD regla að síldin sé feitari í ágúst en í júlí eða fyrr.

Heyrst hefir sú viðbára að síldin nú hafi ekki verið söltunarhæf sakir átumagns. Ekki getur því verið til að dreifa um matjesíld, sem öll er magadregin, og er sú síldartegund ekki óverulegur hluti útflutningsins. Sama gildir um fleiri verkunaraðferðir og þarf ekki að lýsa því hér.

Framvegis ættu síldarsaltendur að athuga það tvennt vel og vandlega:

AÐ viturlegra mundi að láta gæði og fitu síldarinnar ráða en almanakið, og AÐ gjalda varhuga við að láta erlenda spekulanta ná alltof miklum yfirtökum um það hvenær hægt sé að hefja söltun.

Ráðstöfun þessi í ár, að salta ekki fyrr en 25. júlí (sem varð þó 22.) mun vera einn þáttur í núverandi allsherjarskipulagi hinna ráðandi flokka.

Játað skal það, að skipulag útaf fyrir sig er síst að lasta, en það verður bara að byggjast á viti og þekkingu, annars er það verra en einskis nýtt.

Siglfirðingur, 10. ágúst 1935

Síldveiðarnar.

Afleiðingar þeirra ráðstafana, að hefja síldarsöltun alltof seint, þrátt fyrir ótvíræð gæði síldarinnar, eru þegar farnar að gera vart við sig og munu valda enn alvarlegri eftirköstum, ef ekki rætist úr hið bráðasta.

Greinin í síðasta Siglfirðingi, þar sem vítt er sú ráðstöfun að salta ekki fyrr síldina í ár en gert var, hefir vakið afar mikla athygli fólks. Menn sjá það alltaf betur og betur, að slíkar ráðstafanir sem þessar eru með öllu óverjandi þegar síldin á annað borð er orðin vel söltunarhæf. Þetta er samskonar "búhnykkur" og ef bóndinn tæki upp á því að slá ekki tún sín og engi fyrr en grasið væri farið að falla og fölna.

Nú er svo komið, að farið er að salta þróarsíld til útflutnings, en áður (í júlí) var ágætri spriklandi og gljáandi fyrsta flokks söltunarsíld dembt í bræðsluþrærnar.

Nú segja Svíarnir: "Síldin er ágæt, prímavara enda þótt hún sé orðin "slöpp"! - bara hún súrni ekki í tunnunum." Ber ekki þetta vott um eindæma þekkingu á vöruvöndun?!

En vitringarnir sænsku eru þó ekki alveg frá því að kunni að hlaupa hálfgerður koppakeimur í þessa dæmalausu "þróarframleiðslu" þeirra!

Það skal staðhæft, að menn munu sjaldan eða aldrei hafa séðs saltaðan verri "skít" að útliti en þann, er hrúgað hefir verið í tunnurnar þessa síðustu og verstu daga. - Jú, bara þetta súrni nú ekki!

Hvað hefir verkafólkið í landi, sjómennirnir, útgerðarmennirnir, Siglufjarðarkaupstaður og landið í heild tapað miklu fé á þessari ráðstöfun í ár?

Hver vill svara því?

Hvað bíður þessa fólks, og allra þeirra, er hér eiga hlut að máli um fjárhagslega afkomu og lífsbjörg á komandi vetri, ef ekki rætist úr?

Hver vill svara því? Er ekki ástæða til nú þegar að fara að gera einhverjar ráðstafanir til bjargar?

Því enda þótt komi nú mikið síldarhlaup, er nýttist skaplega, þá yrði undir öllum kringumstæðum atvinnutekjur fjöldans svo rýrar, og afkomuhorfurnar svo ískyggilegar eigi að síður, að tæplega yrði komist hjá alveg óvanalega gagngerðum og yfirgripsmiklum viðreisnar og hjálparráðstörfunum. Menn munu vafalaust, sumir hverjir, segja sem svo:

"Það er litill vandi að sjá þetta allt saman eftir á! "En oss er spurn: Er ekki mikil ástæða til að óttast um minnkandi veiði eftir því sem síldarmagnið er meira og skarpara í fyrstu göngunni? Jú, vissulega! En hitt er annað mál – það þýðir ekki að sakast um orðinn hlut.

Vonandi verður þessi sára, dýrkeypta reynsla til varnaðar framvegis svo menn brenni sig ekki á sama soðinu oftar en orðið er.

Menn eru einnig að tala um reynslu og þekkingu manna á síldargöngum og síldarveiði yfirleitt - þeir viti "nokk" hvað þeir geri og hvað sé að gerast. En sannleikurinn er sá, að enginn veit neitt um háttalag og göngu þessarar dularfullu skepnu sem "byltist blikandi í sjónum og bönkunum ríður á slig".

Þarna, eins og víðast hvar annarsstaðar á sviði atvinnuveganna, verða vísindin að vísa leiðina. Þau eiga og munu vissulega skapa þær staðreyndir, sem óhætt verður að byggja á. En þessi róður sækist seint.

Það er einungis einn einasti af öllum vísindamönnum landsins, sem gefur sig að síldarrannsóknum, og verður þá að hafa þann starfa í hjáverkum vegna skilningsleysis og tregðu allra aðilja.

Komið á "rannsóknarstofu" Árna Friðrikssonar hérna á Siglufirði. Þá munuð þið sjá með eigin augum umhyggjuna, er stjórn ríkisins og þá ekki síður stjórn síldarútvegsins ber fyrir þægindum og aðstöðu vísindamannsins til rannsóknanna.

Og kompan sú, kann að gefa ykkur af ofurlitla innsýn í þau kjör sem þessum eina vísindamanni sjávarútvegsins eru boðin.

Og ykkur mun skiljast, að fyrst að skilningur stjórnarinnar og atvinnurekendanna er svo sljór og áhuginn fyrir vísindastarfseminni í þarfir stærsta og örlaga­ríkasta atvinnuvegarins er svo "slappur" og kompan sú ber vitni um, - ja - þá er ekki von að vel fari.

Nei, sjávarútvegurinn og ríkisstjórnin eru þess vel um megnug að byggja hér litla snotra rannsóknarstofu með nýtísku áhöldum og öllu er til hlýðir, og launa Árna svo vel, að hann þurfi ekki að hafa rannsóknir sínar í hjáverkum.

Nú hefir Árni dvalið hér um hríð að rannsóknum í köldu kompunni austan við Dr.Paulsbrakkann.

Hann segir að síldin hagi sér með óvenjulegu móti í ár. Venjulega hafa um þetta leyti verið þrjú átuhámörk hér fyrir Norðurlandi. Eitt við Langanes þar er fyrsta síldargangan, eða leifar hennar að hverfa austur fyrir síldveiðasvæðið norðlenska.

Á Grímseyjarsundi er venjulega einnig átugegnd mikil og síldarmagn, því þar er önnur gangan á leið austur með norðurströndinni. Þriðja hámarkið hefir svo verið um þetta leyti norðvestan til á Húnaflóanum.

Þar er þriðja gangan að koma og byrja göngu sina inná síldarsvæðið og þokast svo austur með eins og hinar. Mjög misjafnlega eru göngur þessar endingargóðar til veiði. Fer það vitanlega eftir síldarmagninu, átunni, hitastigi sjávar og ýmsum og mörgum fleiri ástæðum.

Í sumar hefir orðið óvenjuleg truflun á síldargöngunum og síldargengd mikil af vorgotsíld komið fram í Faxaflóa, en það er mjög óvenjulegt, en rauðátuleysi bagað síldinni hér Norðanlands, svo hún hefir ekki vaðið eins og venjulega, en haldið sig í djúpinu og elt þar ljósátu og sandsíli, og þó torfur hafi sést, þá er síldin svo stygg, að ekki hefir nýst að neinu gagni nema í fyrsta hlaupinu.

Það sem Árni telur óvanalegast er helst þrennt:

1. Hve síldin var óvenju mikil og feit strax í fyrstu göngunni.

2. Hve mikil gengd af vorgotssíld hefir hafst við í Faxa­flóa í sumar.

3. Hve síldin er og hefir verið óvenjulega feit.

Hér skal sýndur samanburður á þyngd síldar af ýmsum stærðum veiddrar við Langanes í fyrra og nú:

Er þarna mikill munurinn og augljós.

Fitumagn þessarar síldar er nú 21,5 %.

Árni telur miklar líkur til þess, að síld sú, sem nú er að fylgja átunni inn á Húnaflóa muni koma austur með ströndinni.

En hitt er óvíst. hvort síldarstofninn hefir upphaflega verið svo mikill að nægilegt síldarmagn verði í þessari síðustu göngu, því báðar þær sem hjá eru gengnar, eða eru nú að hverfa austur, hafa verið mjög miklar, einkum þó sú fyrsta.

Útlitið er því mjög tvísýnt og ískyggilegt, úr því sem komið er.